Í boltanum í 50 ár

sveinbjorn_mosfellingur

Sveinbjörn Sævar Ragnarsson eigandi Silkiprents er brautryðjandi í framleiðslu á útifánum á Íslandi.

Hann ber það ekki með sér að vera kominn yfir sjötugt enda ávallt í fullu fjöri. Ef hann er ekki í vinnunni þá er hann í útreiðatúr, í golfi eða að spila handbolta. Hann segir það skemmtilegasta við boltann, sem hann hefur stundað í yfir 50 ár, sé að vera í marki og verja 15 bolta í leik.
Maðurinn sem um ræðir heitir Sveinbjörn Sævar, ávallt kenndur við Silkiprent.

Sveinbjörn Sævar Ragnarsson er fæddur 24. ágúst 1944. Foreldrar hans eru þau Lilja Steinunn Guðmundsdóttir húsmóðir og Ragnar Breiðfjörð Sveinbjörnsson matreiðslumaður en hann lést árið 1972. Sveinbjörn á tvo bræður, þá Pál og Guðmund.

Gerði bara eins og hinir
„Ég er alinn upp í Reykjavík og var snarofvirkur prakkari á mínum yngri árum. Ég vaknaði snemma á morgnana og kom ekki heim fyrr en undir kvöldmat alla daga. Ég fór í sund á hverjum degi um sex ára aldurinn og einn daginn kom ég heim með miða sem á stóð að ég hefði synt 200 m sund í Norrænu sundkeppninni. Mamma spurði hvernig ég hefði farið að því þar sem ég kynni ekki að synda og ég svaraði, ég gerði bara eins og hinir.
Ég spilaði fótbolta með Val til tólf ára aldurs og það var mjög skemmtilegur tími en svo uppgötvaði ég stelpurnar og þá fækkaði nú æfingunum aldeilis,“ segir Sveinbjörn og hlær.

Útskrifaðist úr prentiðn
„Ég gekk í Laugarnes-, Langholts- og Austurbæjarskóla. Mér fannst ekki gaman í skóla og fannst leiðinlegt að læra. Mottóið­ hjá mér var bara að ná prófunum og láta það duga og það gerði ég nema í eitt sinn. Kennarinn minn í heilsufræði sagði eitt sinn við mig að ef ég kæmi þrisvar sinnum ólesinn í tíma þá þyrfti ég ekki að mæta meira. Ég lærði þá eins og enginn væri morgundagurinn og fékk 9 á prófinu.
Þegar ég var 12 ára talaði ég mjög mikið í tíma og hafði truflandi áhrif á bekkinn. Kennarinn fékk nóg af mér einn daginn, tók kennaraprikið og sló mig í rassinn og við það brotnaði það. Ég þagði það sem eftir lifði dags.
Eftir útskrift úr gaggó fór ég í Iðnskólann í Reykjavík að læra prentun. Ég komst svo á samning hjá Prentsmiðjunni Eddu og var þar í fjögur ár. Árið 1963 fór ég að læra setningu á Morgunblaðinu og starfaði þar í níu ár.“

Skemmtilegur félagsskapur
„Á Morgunblaðsárunum plataði Magnús Ólafsson skemmtikraftur mig á handboltaæfingu hjá Þrótti en hann starfaði einnig á blaðinu. Hjá Þrótti var ég alveg þangað til ég færði mig yfir til Aftureldingar. Ég spilaði með Júmboys og má segja að það tímabil sé það efirminnilegasta á ferlinum.
Í dag spila ég með Hvíta Riddaranum. Mér finnst alveg ótrúlega gaman í handbolta og missi aldrei af æfingu. Félagsskapurinn er nú heldur ekki til að skemma fyrir, allt saman frábærir strákar. Það skemmtilegasta við boltann er að vera í marki og verja 15 bolta í leik.“
Ég spyr Sveinbjörn hver sé galdurinn við að vera í góðu formi fram eftir aldri og hversu lengi hann ætli að halda áfram? „Það sem hjálpar mér er að ég verð aldrei veikur og get alltaf mætt á æfingar. Svo hleyp ég upp og niður stigann í vinnunni, þannig held ég mér í ágætis formi. Ég ætla að vera í boltanum eins lengi og ég get og ætla ekki að hætta fyrr en ég verð að gera það eða strákarnir henda mér út af æfingu.
Það eru tíu ár síðan ég byrjaði fyrir alvöru í golfi en ég var að fikta við það öðru hverju fram að þeim tíma. Það er býsna erfitt að verða góður í golfi og það krefst mikilla æfinga. Ég vildi sannarlega hafa meiri tíma til að sinna því.“

Hesthúsahverfið innan seilingar
„Ég giftist Grétu Sigurðardóttur um tvítugsaldurinn og við eignuðumst fjögur börn: Lilju fædda 1964, Sigríði 1965, Rögnu 1971 og Sveinbjörn fæddan 1978. Við byrjuðum okkar búskap í Reykjavík en fluttum í Mosfellssveit árið 1974.
Við hjónin byrjuðum saman í hestamennskunni en hesthúsahverfið var innan seilingar en við bjuggum þá í Dvergholtinu. Ég hef keppt bæði á fjórðungs- og landsmótum og átti landsfrægan hest, Muna, en hann vann A-flokkinn árið 1990. Ég er enn í hestastússinu og hef mikið gaman af.
Við Gréta slitum samvistir árið 1997.“

Fundu frábært efni í fánana
Sveinbjörn Sævar stofnaði fána- og skiltagerðina Silkiprent árið 1972 en fyrirtækið byrjaði í litlu húsnæði vestur á Granda. Silkiprent er fyrsta fyrirtækið til að framleiða útifána á Íslandi.
„Við erum brautryðjendur í framleiðslu á útifánum og er það enn okkar stærsti framleiðsluþáttur,“ segir Sveinbjörn. Leitast var við að þróa fánana og finna bestu lausn fyrir íslenskar aðstæður og fannst frábært efni í þá sem er flutt inn frá Frakklandi. Einnig er hægt að fá borðfána, hátíðarfána, strandfána og alla heimsins þjóðfána ásamt ýmsu öðru þar á meðal skilti.
„Það er fátt sem er ekki leyst hér, það er meira að segja hægt að afgreiða fána samdægurs,” segir Sveinbjörn brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 27. apríl 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs