Okkar Mosó: Niðurstöður íbúakosningar

okkarmosó_heimasida

Kosningu í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó er lokið. Alls bárust 1.065 atkvæði sem nemur um 14% kosningaþátttöku. Það er meiri kosningaþátttaka en mælst hefur í sambærilegum verkefnum í Reykjavík og Kópavogi.
Mosfellsbær er eina sveitarfélagið sem hefur slegist í hópinn með þeim tveimur fyrrnefndu og framkvæmt lýðræðislegt samráðsverkefni eins og Okkar Mosó sem felur í sér bæði hugmyndasöfnun meðal íbúa og einnig kosningu um þær hugmyndir sem fram komu.

24 milljónir í framkvæmdir sem hefjast fljótlega
Á kjörskrá voru um 7.700 einstaklingar en það voru 16 ára og eldri íbúar í Mosfellsbæ sem gátu tekið þátt í kosningunni. Faghópur á vegum Mosfellsbæjar vann úr öllum innsendum hugmyndum og alls var kosið um 25 hugmyndir. Þar af voru 10 sem hlutu brautargengi og framkvæmd þeirra mun kosta um 24 milljónir.
Allar innsendar hugmyndir hafa fengið málefnalega umfjöllun. Sumar voru sendar í framkvæmd strax og aðrar verða sendar til frekari umfjöllunar í nefndum og ráðum bæjarins. Yfirlit um afdrif hugmyndanna verður aðgengilegt og uppfært á vef Mosfellsbæjar.
Til stendur að endurtaka verkefnið Okkar Mosó. Þá er tilvalið fyrir hugmyndasmiði að senda sínar hugmyndir inn aftur hafi þær ekki náð í gegn í þetta sinn. Framkvæmdir hefjast fljótlega og hægt verður að fylgjast með þeim í sumar á vef Mosfellsbæjar.

Nafn Kostnaður Atkvæði
Stekkjarflöt útivistarparadís 3,5 m. 476
Aðgengi að göngu- og hjólastígum 2,5 m. 466
Bekkir fyrir eldri borgara við Klapparhlíð 1 m. 462
Vatnsbrunnar og loftpumpur 2,5 m. 378
Ungbarnarólur á róluvelli bæjarins 1,5 m. 375
Útileikvöllur fyrir fullorðna 4,5 m. 370
Göngustígur gegnum Teigagilið 1,5 m. 344
Göngugatan: Laga bekki og gróður 1,5 m. 311
Bæta aðgengi á göngustíg við trjágöngin 3,5 m. 281
Fuglafræðslustígur með fram Leirvoginum 2 m. 255