„Þú endar á því að moka skurði drengur“

villifagverk

Vilhjálmur Þór Matthíasson er eigandi og framkvæmdastjóri Fagverks verktaka sem er framúrskarandi fyrirtæki

Vilhjálmur Þór tók á móti mér á skrifstofu sinni í Flugumýri. Hvert sem litið var, bæði á inni- og útisvæði, mátti sjá vörubíla, malbikunarvélar, gröfur, valtara og aðrar stórvirkar vinnuvélar.
Villi, eins og hann er ávallt kallaður, stofnaði fyrirtækið Fagverk árið 2004. Hann sér fram á mikla viðhaldsvinnu við malbikun á næstu árum þar sem götur eru víða farnar að láta á sjá vegna umferðarþunga.

Vilhjálmur Þór er fæddur í Reykjavík 20. febrúar 1974. Foreldrar hans eru þau Svanhildur Vilhjálmsdóttir félagsliði og Matthías Ottósson verktaki. Systkini Vilhjálms eru þau Svava fædd 1971, Sólborg 1975 og Matthías 1986.

Notuðu bíl nágrannans sem rennibraut
„Ég bjó í Kópavogi til 10 ára aldurs og á þaðan góðar minningar. Ég og Ægir vinur minn fórum reglulega í dagsgöngu í Fossvogsdalinn til að veiða kanínur. Við ætluðum að hafa þær í búri í garðinum sem við höfðum smíðað sjálfir.
Mörg prakkarastrikin voru framin á þessum tíma. Við systkinin rifum einu sinni upp öll blómin hjá nágrannakonunni sem hún var búin að vera að rækta. Það þurfti að sjálfsögðu að borga fyrir þau. Einu sinni notuðum við bíl nágrannans sem rennibraut því hann var svo ótrúlega vel hannaður. Það þurfti að borga fyrir viðgerðina á honum.
Ég fattaði svo að ef maður lamdi rúður með einhverju hörðu þá brotnuðu þær. Held að ég hafi náð að brjóta 18 rúður áður en það sást til mín og nágrannakonan sem átti blómin átti 12 af þeim. Ég held að hún hafi ekki haldið mikið upp á mig þessi elska,“ segir Villi og brosir er hann rifjar þetta upp.

Settu Íslandsmet í boðsundi
„Við fjölskyldan fluttum svo í Mosfellssveitina og ég hóf nám í Varmárskóla. Þar eignaðist ég marga vini sem ég er enn í góðu sambandi við.
Ég byrjaði fljótlega að æfa sund en það var Svava systir sem dró mig í það. Hópurinn sem ég var að æfa með stóð sig mjög vel. Við settum mörg Íslandsmet í boðsundi og þau met verða aldrei slegin, alla vega ekki í okkar huga.“

Kennarinn reyndist sannspár
„Í Gaggó Mos gekk mér ekki vel námslega því ég er bæði les- og skrifblindur en það greindist ekki fyrr en á síðasta árinu mínu í skólanum. Ég man að eitt sinn öskraði einn kennarinn á mig að ef ég myndi ekki taka mig á þá myndi ég enda á því að moka skurði. Það er nú svolítið gaman að segja frá því að nokkrum árum seinna keypti ég mér mína fyrstu gröfu af mörgum og byrjaði að moka skurði. Ég hef í raun gert það allar götur síðan svo kennarinn reyndist sannarlega sannspár.
En það var alltaf gaman í skólanum og við vinirnir skemmtum okkur vel. Það voru nokkrar ruslatunnur sprengdar á göngunum og svona en við tölum nú ekkert meira um það,“ segir Villi og hlær.

Unnu alla verslunarmannahelgina
Eftir útskrift úr Gaggó Mos fór Villi beint út á vinnumarkaðinn og til 18 ára aldurs starfaði hann hjá föður sínum sem rak jarðvinnufyrirtækið Mottó.
Síðan hóf hann störf við malbikun hjá Malbik og völtun og starfaði þar í nokkur ár. „Vinnutíminn í malbikinu gat orðið ansi langur, allt upp í 100 tímar á viku þegar mest var að gera, og það gat tekið á. Ég ákvað að breyta til og fór að vinna hjá JVJ verktökum. Þar vann ég meðal annars við gerð Höfðabakkabrúarinnar.
Eitt sinn vorum við fengnir til að vinna alla verslunarmannahelgina. Þá áttum við að breyta gatnamótum á meðan allir voru í útilegu. Við fengum auka bónus fyrir þetta, ferð til Newcastle, svo menn urðu mjög ánægðir með það.
Ég byrjaði svo aftur hjá pabba árið 2000 og starfaði þar sem verkstjóri.“

Fara reglulega á ættaróðalið
Villi kynntist konu sinni, Sigrúnu Eiríksdóttur, ritara í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar, um tvítugsaldurinn. Þau byrjuðu að búa saman í Reykjavík en ákváðu síðan að byggja sér hús í heimahögunum en þau eru bæði alin upp í Mosfellsbæ. Þau eiga þrjár dætur, þær Írisi, Tinnu og Lísu.
„Ég man þegar maður stóð í byggingaframkvæmdunum á sínum tíma. Allar ferðirnar til Ásbjörns byggingafulltrúa upp á lofti í Hlégarði. Þá var maður nú stundum stressaður en hann tók alltaf vel á móti stráknum sem var aðeins 22 ára þá og leiðbeindi manni í gegnum ferlið. Við Sigrún byggðum okkur svo seinna stærra hús í Spóahöfðanum þar sem við búum í dag.
Við fjölskyldan höfum yndi af ferðalögum innanlands og erum búin að fara í óteljandi ferðir á hina ýmsu staði um landið. Við förum reglulega vestur á firði á ættar­óðalið okkar sem er rétt fyrir utan Þingeyri eða við Svalvogana.“

Viðurkenning frá Creditinfo
Villi var þrítugur þegar hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Fagverk verktaka. Fagverk er í grunninn malbikunarfyrirtæki en er einnig í byggingageiranum. Fyrirtækið er með mjög gott vörubíla- og vinnuvélaverkstæði til að þjónusta tæki og búnað í þeirra eigu.
Villi segir að fyrirtækið hafi í raun byrjað að blómstra í hruninu en þá sá hann tækifærin út um allt. Í dag starfa 24 hjá fyrirtækinu en fleiri starfa yfir sumarið eða á meðan mest er að gera í malbikinu.
Fagverk fékk á dögunum viðurkenningu frá Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki 2016 og er því á meðal þeirra fyrirtækja sem efla íslenskt efnahagslíf.
„Þetta er mikill heiður, við stóðumst styrkleikamat sem er frábært. Aðeins gott starfsfólk gerir þetta mögulegt en hér starfar afar jákvæður og samrýmdur hópur.
Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir það að maður sé að gera góða hluti,“ segir Villi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 6. apríl 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Styttist í að íþróttamiðstöð GM verði tekin í notkun

golfGM

Kári Tryggvason formaður GM.

Kári Tryggvason formaður GM.

Miðsvæðis á Hlíðavelli er nú verið að leggja lokahönd á glæsilega íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
Fyrir ári síðan, þann 1. apríl 2016, tóku ungir kylfingar fyrstu skóflustunguna og í dag er uppbygging á húsinu á lokasprettinum.
Á Hlíðavelli hefur átt sér stað mikil uppbygging á 18 holu golfvelli frá árinu 2004.
„Það eru miklir uppgangstímar hjá okkur og nýtt hús mun gjörbylta allri aðstöðu golfklúbbsins,“ segir Kári Tryggvason nýr formaður GM. Klúbburinn telur um 1.000 manns í dag og fer ört fjölgandi.

Veitingasala og veislusalur
Íþróttamiðstöðin verður 1.200 fm á tveimur hæðum og mun hýsa alla skrifstofu-, félags- og æfingaaðstöðu klúbbsins til framtíðar. Þá verður tekinn í notkun salur á efri hæð hússins sem rúma mun 120-200 manns. Þar verður rekin veitingasala og veislusalur leigður út.
„Hér eiga allir Mosfellingar eftir að njóta góðs af góðri aðstöðu og geta mætt hér í kaffi eða mat. Útsýnið héðan er frábært og fellur húsið vel inn í landslagið. Stefnt verður að því að svæðið verði tengt inn á stígakerfi Mosfellsbæjar og munu þar skapast mörg tækifæri fyrir tengingar við fleiri íþróttir og útvist í hjarta Mosfellsbæjar.“

Æfingaaðstaða fyrir börn og unglinga
„Stefnt er að því að fyrsta áfanga verksins ljúki nú í næsta mánuði með opnun efri hæðarinnar. Neðri hæðin með búnings- og æfingaaðstöðu verður svo vonandi tekin í notkun fyrir veturinn.
Á sumrin stunda um 200 börn golf og hefur vantað verulega upp á aðstöðu til æfinga yfir vetrartímann. Þetta verður því kærkomið fyrir okkar ungu og efnilegu kylfinga. Þá gefst möguleiki á því að gera golf að heilsársíþrótt í Mosfellsbæ við bestu mögulegar aðstæður.“

Ómetanlegir sjálfboðaliðar
„Hér erum við full eftirvæntingar og sjálfboðaliðar hafa unnið hörðum höndum á síðustu mánuðum undir eftirliti verktaka hússins. Allt gengur samkvæmt áætlun og tilhlökkunin er mikil.
Félagsandinn er mjög góður og án þessara öflugu sjálfboðaliða sem lagt hafa á sig hundruð vinnustunda væri þetta einfaldalega ekki hægt,“ segir Kári að lokum.
Gamli golfskálinn neðan við Súluhöfða mun víkja ásamt æfingasvæðinu og þar mun rísa íbúðagata.

Hafa gróðursett 1,4 milljónir plantna

Fréttabréf Skógræktarfélags Mosfellsbæjar kom út á síðum Mosfellings.

Fréttabréf Skógræktarfélags Mosfellsbæjar kom út á síðum Mosfellings. 30. tbl. – apríl 2017

Fréttabréf Skógræktarfélagsins kom út á síðum Mosfellings þann 6. apríl. Aðalfundur félagsins verður haldinn í húsi Björgunarsveitarinnar Kyndils, Völuteigi 23, Mosfellsbæ, mánudaginn 10. apríl kl. 20.00. Fyrir utan hefðbundin aðalfundastörf mun Bjarni diðrik Sigurðsson flytja erindið Vatnið og skógurinn. Þar ræðir hann um eitt mikilvægasta umhverfismál samtímans sem eru vatnsmálin og fjallar um mikilvægi skógarins í því samhengi.

Skógræktarfélag Mosfellssveitar síðar Mosfellsbæjar var stofnað 20. maí 1955. Stofnfélagar voru 88 og þrjú félagasamtök gerðust meðlimir: Ungmennafélagið Afturelding, Kvenfélag Lágafellssóknar og Skógræktarfélag kvenskáta við Hafravatn.
Fyrsti formaður félagsins var Guðjón Hjartarson á Álafossi. Fyrst var félagið hluti af Skógræktarfélagi Kjósarsýslu en varð síðan sjálfstætt félag til þess að geta átt beina aðild að Skógræktarfélagi Íslands. Núverandi formaður er Kristín Davíðsdóttir.

Skógar félagsins
Frá stofnun félagsins hafa verið gróðursettar um 1,4 milljónir plantna. Fyrsta plöntun félagsins var kringum Hlégarð vorið 1956. Fljótlega fékk félagið reit í Hamrahlíðinni.
Árið 1990 hófst hið svokallaða Landgræðsluátak en þá fóru skógræktarfélögin að fá plöntur án endurgjalds, en við það jókst útplöntun félagsins til muna. Gerðir voru samningar bæði við bæjarfélagið og einkaaðila um land til skógræktar. Síðan þá er búið að klæða mörg fellin og myndar það hluta af hinum Græna trefli sem umlykja á allt höfuðborgarsvæðið.
Í dag er ekki lögð eins mikil áhersla á að gróðursetja nýskóg heldur hefur þörfin á umhirðu skógarins aukist eftir því sem skógarnir hafa vaxið og dafnað. Mikil þörf er á grisjun skóganna og gerð göngustíga til að hægt sé að nota þá til útivistar.
Svæði sem félagið hefur plantað í eru: Hamrahlíð, Þormóðsdalur, Úlfarsfell, Lágafell, Reykjahvolshlíð, Helgafell að norðan, Norður Reykir, Æsustaðhlíð, Varmaland, Háaleiti og Langihryggur.
Ár hvert er haldinn fræðslufundur í samráði við Mosfellsbæ, en hann hefur verið í byrjun maí. Í byrjun júní er vinnukvöld félagsins. Árleg skógarganga er um miðjan júní. Hægt er að fylgjast með á síðu félagsins www.skogmos.net.

Hér fyrir neðan má sjá fréttabréfið í heild sinni.

Bæði karla- og kvennalið Aftureldingar í úrslitum

Kjörísbikarinn fer fram í Laugardalshöll um helgina.

Kjörísbikarinn fer fram í Laugardalshöll um helgina.

Sannkölluð bikarhelgi er framundan í blakinu en bæði úrvalsdeildarlið Aftureldingar í blaki munu leika í undanúrslitum á föstudaginn 7. apríl. Stelpurnar eiga titil að verja en þetta er í fyrsta skipti sem strákarnir komast í Laugardalshöllina.
Stelpurnar leika gegn Þrótti Nes. kl. 14 á föstudag og Strákarnir spila gegn Vestra Ísafirði kl. 20.
Markmið beggja liða er að leika til úrslita en úrslitaleikirnir fara fram á sunnudeginum í Laugardalshöll. Það er því mikilvæg helgi framundan hjá blakdeildinni og því er stuðningur Mosfellinga og Aftureldingarfólks gífurlega mikilvægur. Miðasala á úrslitahelgina er í fullum gangi og hægt er að nálgast miða í afgreiðslunni í íþróttamiðstöðinni að Varmá.
Úrslitaleikirnir á sunnudaginn í Laugardalshöllinni hefjast með úrslitaleik karla kl. 14:00 og konurnar leika síðan kl. 16:00.

Íslandsmeistaratitill kvenna í húfi
Úrvalsdeildarlið kvenna er búið að tryggja sér réttinn til að leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn eftir öruggan sigur á Þrótti Neskaupsstað í tveimur leikjum. Fyrri leikurinn sem var leikinn að Varmá vannst örugglega 3-0 og seinni leikinn í Neskaupsstað unnu stelpurnar 3-1.
Úrslitakeppnin hefst þann 19. apríl og leika stelpurnar við HK, en þessi lið hafa verið í sérflokki í deildinni í vetur. Fyrsti leikurinn fer fram í Fagralundi en fyrsti heimaleikur Aftureldingar er 21. apríl. Vinna þarf þrjá leiki til að landa titlinum og alveg ljóst að úrslitarimman verður jöfn og spennandi eins og leikirnir í vetur.

Lykilmenn framlengja

Ernir Hrafn Arnarson og Mikk Pinnonen ásamt áSgeiri Sveinssyni formanni meistaraflokksráðs.

Ernir Hrafn Arnarson og Mikk Pinnonen ásamt Ásgeiri Sveinssyni formanni meistaraflokksráðs.

Mikk Pinnonen og á Ernir Hrafn Arnarson hafa skrifað undir nýjan samning til eins árs við handknattleiksdeild Aftureldingar.
Þessir öflugu leikmenn eru lykilmenn í sterku liði Aftureldingar og er mikill fengur að halda þeim næsta vetur í Mosfellsbænum.
Mikk kom til liðs við Aftureldingu í byrjun árs 2016 og er einn öflugasti sóknarmaðurinn í Olísdeildinni.
Ernir Hrafn sneri til baka úr atvinnumennsku í Þýsklandi síðastliðið sumar og byrjaði að leika með sínu uppeldisfélagi Aftureldingu í janúar síðastliðinn og er hann mjög öflugur leikmaður í vörn og sókn. Það verður gaman að fylgjast með þessum sterku leikmönnum í úrslitakeppninni sem hefst á mánudaginn og jafnframt á næsta tímabili.
Þá hefur Mosfellingurinn Einar Ingi Hrafnsson ákveðið að leika með uppeldisfélaginu sínu á næsta tímabili. Einar Ingi er öflugur línumaður sem leikið hefur í Noregi síðustu fjögur árin.

Úrslitakeppnin hefst á mánudaginn
Lokaumferð Olísdeildarinnar fór fram á þriðjudag og hafnaði Afturelding í 4. sæti.
Liðið mætir Selfoss í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins og fer fyrsti leikur fram að Varmá á mánudag kl. 20. Leikur númer 2 fer fram á Selfossi á miðvikudag kl. 19:30 og ef til oddaleiks kemur þá verður hann leikinn í Mosfellsbæ laugardaginn 15. apríl.
Mosfellingar eru hvattir til að mæta á völlinn og hvetja strákana í baráttunni sem fram undan er.

Afgangur af rekstri Mos­fellsbæjar á síðasta ári

Vetrarríki í Mosfellsbæ. Ljósmynd: Kristinn Ingi Pétursson

Vetrarríki í Mosfellsbæ. Ljósmynd: Kristinn Ingi Pétursson

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram í bæjarráði á miðvikudag og jafnframt tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Tekjur ársins námu alls 9.105 milljónum, launakostnaður 4.151 milljónum og annar rekstrar­kostnaður 3.640 milljónum. Framlegð er því 1.314 milljónir en að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur A og B hluta 380 milljónir.
Veltufé frá rekstri er 1.109 milljónir eða rúmlega 12% af tekjum. Eigið fé í árslok nam 4.681 milljón og eiginfjárhlutfall 29,4%. Skuldaviðmið er 108% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.

Betra en áætlanir gerðu ráð fyrir
Rekstrarniðurstaðan er talsvert betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það má helst skýra með hærri óreglulegum tekjum vegna lóðasölu og byggingarréttargjöldum og lægra verðlagi en gert var ráð fyrir, sem hefur áhrif á fjármagnsliði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Fram undan er áframhaldandi uppbygging innviða í Mosfellsbæ. Á síðustu árum hefur verið verið lögð áhersla á uppbyggingu framhaldsskóla, íþróttahús, hjúkrunarheimili og stórbætt aðstaða fyrir félagsstarf eldri borgara.
Stærsta verkefnið sem sveitarfélagið hefur með höndum nú er bygging Helgafellsskóla. Það er leik- og grunnskóli í nýbyggingarhverfi í hraðri uppbyggingu sem áætlað er að muni kosta um 3.500 milljónir á næstu tíu árum.

Traustur og ábyrgur rekstur
„Það hefur verið mikil áskorun að reka sveitarfélag síðustu ár. Það má segja að við höfum verið stöðugt að endurskoða reksturinn frá árinu 2008 í þeirri viðleitni að láta enda ná saman. Það er því ánægjulegt að á þessum tímapunkti, þegar svo mikil uppbygging á sér stað að við skulum sjá árangur þess erfiðis,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Við viljum leggja áherslu á traustan og ábyrgan rekstur og það hafa allir starfsmenn hjá Mosfellsbæ snúið bökum saman í því verkefni. Fyrir það ber að þakka.“

Rúmur helmingur til fræðslumála
Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins en til hans runnu 3.604 milljónir eða 52% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.382 milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks.
Íþrótta- og tómstundamál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 803 milljónum. Samtals er því 83% skatttekna Mosfellsbæjar varið til fræðslu-, félagsþjónustu, íþrótta- og tómstundamála.

>> Íbúar Mosfellsbæjar voru 9.783 um síðustu áramót og hafði fjölgað um 3% á milli ára sem er í samræmi við spár þar um. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldinn fari yfir 10 þúsund á þessu ári. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 619 starfsmenn í 509 stöðugildum á árinu 2016.

Leiðinlegi gaurinn

Heilsumolar_Gaua_6feb

Systir mín kom í heimsókn um daginn. Sem var gaman, hún er alltaf hress. Svo er hún flott mamma, á hana Ylfu sem er að verða eins og hálfs árs gamall gleðigjafi. Hún, systir mín, ekki Ylfa, bauð mér nammi, piparhúðaðar möndlur. Geggjað stöff sagði hún. En ég afþakkaði. Borða ekki nammi. Hún horfði á mig með sömu augum og stuðboltarnir í partýinu senda edrúgaurnum þegar þeir átta sig á því að hann er edrú. Þarftu alltaf að vera svona boring? Sagði svo að hún þyrfti að prófa þetta einhvern tíma, vera svona leiðinleg. Fara snemma að sofa, vakna snemma, borða hollt og hreyfa sig mikið. Segja nei takk við nammi og gosi. Neita sér um allt það skemmtilega í lífinu.

Það skemmtilega í þessu er að mér finnst lífið stórskemmtilegt. Finnst gaman að hafa skýra ramma með ákveðna hluti og sleppa sumu alveg. Finnst frábært að sofa vel og vakna snemma. Vera ferskur og hress á daginn. Til þess þarf ég að sofna vel fyrir miðnætti. Það þótti stórkostlega fyndið þegar ég var að alast upp. Fólk sem fór að sofa fyrir miðnætti. Það átti ekkert líf. Mér finnst líka gaman að hreyfa mig og æfa, þannig að ekki veldur það sjálfleiðindum. Og ég fæ munkalega gleði út úr því að borða einfaldan mat sem gefur mér kraft og orku. Alveg eins og að gaurinn sem er edrú í partýinu getur skemmt sér vel, þá finnst mér lífið best þegar það er einfalt. Ég þarf ekki á nammi og kökum að halda, finnst ég ekki vera að missa af neinu þótt ég sleppi því að fá mér desert.

Mórall pistilsins er kannski sá að það sem einum finnst vera ómissandi, finnst öðrum vera ónauðsynlegt. Sumir elska mat, aðrir elska fótbolta. Sumir hlusta á Útvarp Sögu, aðrir á X-ið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. apríl 2017

Ætla að gefa restina af eggjunum

Í dag verður opið á Teigi í Mosfellsbæ milli kl. 14 og 16. Fyrstir koma fyrstir fá. Myndin er samsett.

Í ljósi aðstæðna hefur verið ákveðið að grípa til þess ráðs að gefa egg í Mosfellsbæ í dag. Hægt verður að næla sér í eggjabakka á Teigi þar sem Brúnegg voru til húsa.

„Við erum með 12.000 egg sem við annars þyrftum að farga. Í allri þessari umræðu um matarsóun fannst okkur ekki annað koma til greina en að koma eggjunum okkar í gagnið. Eggin eru í góðu standi og renna ekki út fyrr en í lok apríl. Við ætlum því að vera með opið á lagernum í dag, laugardag kl. 14-16 þar sem fólk getur náð sér í ókeypis eggjabakka,“ segja forsvarsmenn Brúneggja.

Tekið skal fram að afhentir verða hámark tveir stórir eggjabakkar á mann, meðan birgðir endast.

Eins og alþjóð veit fór fyrirtækið flatt eftir Kastljós-umfjöllunina fyrir jólin og situr því uppi með þennan mikla lager. „Við höfum verið hér í Mosfellsbæ í fjölda ára í sátt við Guð og menn og viljum því þakka fyrir í bili með þessu uppátæki í dag.“

 

Teigur er við Reykjaveg í Mosfellsbæ. Sjá kort hér að neðan…

Mikil vöntun á geymsluhúsnæði

Karl Emilsson við geymslurnar í Desjamýri á milli Lágafells og Úlfarsfells.

Karl Emilsson við geymslurnar í Desjamýri á milli Lágafells og Úlfarsfells.

Hjónin Karl Emilsson og Berglind Helgadóttir reka fyrirtækið Oddsmýri ehf. sem hefur að undanförnu byggt geymslu- og iðnaðarhúsnæði í Desjamýri í Mosfellsbæ.
„Við erum búin að fullklára lóðina Desjamýri 7 en þar eru 96 bil frá 28-43 fm og erum langt komin með Desjamýri 5 en þar erum við með 56 bil frá 43-73 fm. Það er greinilega mikil vöntun á svona húsnæði, við erum búin að selja öll bilin og erum meira að segja með biðlista.
Við leggjum mikinn metnað í að allur frágangur sé snyrtilegur og að viðhald á húsnæðinu sé sem allra minnst,“ segir Karl.

Dótakassar fyrir leikföng
„Það eru ekki bara Mosfellingar sem hafa fjárfest hér í Desjamýrinni heldur fólk af öllu höfuðborgarsvæðinu. Það eru bæði einstaklingar og fyrirtæki sem hafa keypt af okkur. Margir eru að kaupa geymslu fyrir leikföngin sín eða búslóðir en síðan er mikið af iðnaðarmönnum sem fjárfesta í aðstöðu fyrir fyrirtækin sín.
Svæðin eru girt af með girðingu og læstu hliði þannig að það á ekki að vera óviðkomandi umgangur í kringum húsnæðið,“ segir Karl að lokum og er ánægður með uppbygginguna á svæðinu.

Hlutverk okkar að efla tónlistarfræðslu

atligudlaugs

Atli Guðlaugsson skólastjóri Listaskóla Mosfellsbæjar hefur verið viðloðandi tónlist í 55 ár.

Listaskóli Mosfellsbæjar var stofnaður 1. febrúar 2006 en skólinn saman­stendur af leikfélagi, myndlistarskóla, skólahljómsveit og tónlistardeild en allar undirstofnanir skólans nema tónlistardeildin eru reknar sem sjálfstæðar einingar. Markmið Listaskólans er að samþætta starfsemi þessara stofnana og tryggja tengsl þeirra á milli. Þá er lögð áhersla á að fléttuð verði saman starfsemi skólans við grunn- og leikskóla.
Hlutverk skólans er að auka tengsl við aðila utan stofnana bæjarins, ekki síst starfandi listamenn. Það má því segja að Listaskóli Mosfellsbæjar sé regnhlíf yfir fjölbreytta listastarfsemi í Mosfellsbæ.

Atli er fæddur í heimahúsi í Hafnarfirði 10. nóvember 1953. Foreldrar hans eru þau Kamma Karlsson ritari og Guðlaugur Atlason bókbandsmeistari. Atli á fjórar yngri systur, Rósu Láru, Huldu Guðbjörgu, Svölu og Guðlaugu Berglindi.
Atli ólst upp í þriggja hæða húsi við Köldukinn í Hafnarfirði. Lára móðuramma hans bjó á efstu hæðinni og hjá henni átti hann sitt eigið herbergi enda mikill ömmustrákur.

Með ólæknandi hestadellu
„Það var mjög stutt fyrir okkur að fara út í náttúruna og áttum við amma margan göngutúrinn upp eftir Kaldárselsveginum. Þar voru margir frístundabændur með hesta sína og kindur. Var ég gagntekinn af hrifningu á þessum skepnum og dreymdi snemma um að verða bóndi.
Ég stundaði fótboltann í FH fram undir fermingu, en var svo í sveit á sumrin frá 11-18 ára aldurs. Frá þeim tíma hef ég verið með ólæknandi hestadellu og fékk minn fyrsta hest í sumarkaup þegar ég var 15 ára.
Ég hóf skólagönguna í Lækjarskóla en fluttist yfir í Öldutúnsskóla 8 ára. Eftir fermingu lá svo leiðin í Flensborgarskólann þaðan sem ég lauk landsprófi. Árið 1974 útskrifast ég sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík.“

Ný lög tóku gildi
Atli hlaut tónlistaruppeldi sitt að stórum hluta í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Lúðrasveit Hafnarfjarðar en lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1978, með trompet sem aðalhljóðfæri. Veturinn 1978-79 kenndi hann við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og Tónlistarskóla Seltjarnarness en þar stjórnaði hann líka skólahljómsveitinni.
„Haustið 1979 var ég búinn að fá skólavist í háskóla í Bandaríkjunum þar sem stóð til að læra útsetningar, upptökutækni og hljómsveitarstjórn. Á síðustu stundu tóku ný lög gildi í Bandaríkunum sem gengu út á það að útlendingar áttu að víkja fyrir minnihlutahópum og þar með missti ég af þessu tækifæri.“

Tuttugu ár á Norðurlandi
„Ég fékk vinnu á Siglufirði og ætlaði að vera þar í eitt ár en árin á Norðurlandi urðu tuttugu. Á þeim árum stjórnaði ég m.a. Tónlistarskólanum á Akureyri í rúm 5 ár og stofnaði og stjórnaði Tónlistarskóla Eyjafjarðar í 9 ár. Ég var um árabil 1. trompet­leikari í blásarakvintett Tónlistarskólans á Akureyri og í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Auk þess stjórnaði ég skólalúðrasveitum í 20 ár, Lúðrasveit Akureyrar í 18 ár, hljómsveit Félags harmonikkuunnenda við Eyjafjörð í 12 ár, Karlakór Akureyrar í 5 ár og Karlakór Eyjafjarðar í 3 ár, svo maður hefur kom víða við.“

Ráðgjafi í tónlistarfræðslu
„Eftir að ég flutti suður árið 1999 var ég kennari og lúðrasveitarstjórnandi á Akranesi í tvö ár, skólastjóri í Tónskóla Eddu Borg í eitt ár, ráðgjafi í tónlistarfræðslu í Fræðslumiðstöð Reykjavíkur í tvö ár og hef frá 2004-2006 stjórnað Tónlistarskóla Mosfellsbæjar og Listaskóla Mosfellsbæjar frá stofnun.
Hlutverk tónlistardeildarinnar er að efla almenna tónlistarfræðslu og gera öllum kleift að stunda nám í hljóðfæraleik og söng sem þess óska. Í skólanum er kennt á öll helstu hljóðfæri, auk söngnáms, en kenndar eru 17 námsgreinar við skólann. Nemendur við skólann eru 210 og kennarar 23.
Ég stjórnaði Karlakórnum Stefni í sjö ár en í dag stjórna ég Grundartangakórnum og Sprettskórnum. Ég söng líka og stjórnaði um árabil karlakvintettinum Galgopum í Eyjafirði og var fjögur ár í Borgarkvartettinum.“

Kindurnar í sumarbeit í Kjósinni
„Við hjónin kynntumst 1973 en gengum í það heilaga 8. júlí 1978. Kona mín, Halldóra Bjarnadóttir, er hjúkrunarfræðingur og eigum við tvo syni, Bjarna sem er fæddur 1983 og Guðlaug fæddan 1985. Bjarni á þrjú börn en kona hans er Telma Dögg Ólafsdóttir. Guðlaugur á tvö börn en kona hans er Ásta María Þrastardóttir. Fjölskyldurnar búa í þremur húsum á Tindum á Kjalarnesi.
Við erum hobbýbændur, með hesta og kindur. Því fylgir að sjálfsögðu smalamennska á haustin því kindurnar okkar eru í sumarbeit í Kjósinni.“

Syngur í tríói með sonum sínum
Frá árinu 2003 hefur Atli sungið í tríói með sonum sínum sem heitir Tindatríóið. Synir hans hafa báðir lokið framhaldsprófi í söng frá Listaskóla Mosfellsbæjar og hófu söngferilinn 16 ára gamlir með Karlakórnum Stefni.
Atli hefur einnig samið mikið fyrir karlakóra og ýmsa sönghópa, bæði lög og texta auk þess sem hann hefur verið að útsetja.
Hann hefur einnig verið ritari og formaður í Samtökum tónlistarskólastjóra og varaformaður í Félagi tónlistarskólakennara og stjórnarmaður í Kennarasambandi Íslands.

Á leið til Eyja með barnabarninu
„Helstu áhugamál okkar Halldóru snúa að fjölskyldunni og dýrunum svo og ferðalögum innanlands og utan. Ég hef verið duglegur að ferðast með Topphestum með ferðamenn á sumrin og þá verið kúskur á daginn og kórstjóri á kvöldin. Þá er trompetinn yfirleitt með í för.
Síðastliðið sumar fór ég norður og suður Kjöl sem aðstoðarmaður með Hjalta og Ásu á Kjóastöðum sem hafa ferjað þúsundir túrista fyrir Íshesta í gegnum árin. Þá höfum við hjónin farið í marga góða reiðtúra með félögum í Sprettskórnum. Við eigum líka hlut í jörð við norðanverðan Breiðafjörð, þar sem sumrin eru yndisleg.
Elsta barnabarnið æfir fótbolta með Aftureldingu og er búinn að semja um það við afa sinn að hann fylgi honum á mót í Vestmannaeyjum í sumar og að sjálfsögðu gerir afi það,“ segir Atli að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 16. mars 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

145 nýjar íbúðir og aukið verslunar- og þjónusturými í miðbænum

Tölvugerð mynd sem sýnir nýjar íbúðir við framhaldsskólann. Horft er í átt að Lágafelli og Úlfarsfelli.

Tölvugerð mynd sem sýnir nýjar íbúðir við framhaldsskólann. Horft er í átt að Lágafelli og Úlfarsfelli.

Horft í átt að Krónunni. Við hliðina er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð.

Horft í átt að Krónunni. Við hliðina er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð.

Eins og fram hefur komið í Mosfellingi þá mun ásýnd miðbæjarins breytast mikið á næstu misserum.
Á síðastliðnu ári voru auglýstar til úthlutunar lóðir við Bjarkarholt og Háholt milli Framhaldsskólans í Mosfellsbæ og Krónuhússins. Í framhaldinu ákvað bæjarráð að ganga til samninga við Upphaf fasteignafélag um uppbyggingu á þessum reit.
Í deiliskipulagstillögu sem skipulagsnefnd hefur samþykkt til kynningar er gert ráð fyrir að byggja eigi bæði íbúðarhúsnæði og verslunarhúsnæði. Húsið sem stendur við Háholt 23 (gamla Mosraf-húsið) mun víkja og munu rísa íbúðir á þeirri lóð, sem og lóðinni næst framhaldsskólanum.
Á lóð nr. 21 við Háholt, næst Krónuplaninu, verður um 1.800 fm verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð. Á reitnum öllum er gert ráð fyrir um 145 íbúðum með um 105 bílastæðum neðanjarðar.

Býður upp á aukna verslun og þjónustu
Umræða hefur verið um það að undanförnu að fjölga þurfi íbúðum í miðbænum til að möguleiki væri á að auka við verslun og þjónustu þar. Þar að auki myndi svokölluð Borgarlína, hágæðakerfi almenningssamgangna, tengjast miðbænum.
Skipulagsnefnd bæjarins samþykkti m.a. ályktun þess efnis samhljóða nýverið.
Miðað við þær hugmyndir sem nú eru uppi varðandi uppbyggingu bæði á umræddum lóðum við Háholt og eins á kaupfélagsreitnum hillir undir breytingar þar á.

Ásýnd og skipulag skiptir máli
„Mosfellsbær er ört stækkandi bæjarfélag og það er mikilvægt að nýta skipulagið til að hvetja til aukinnar þjónustu við íbúa og atvinnusköpunar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Deiliskipulagstillaga fer nú í auglýsingu og hvet ég íbúa til að kynna sér hana vel. Ásýnd og skipulag miðbæjarins skiptir máli fyrir samfélagið okkar hér í Mosfellsbæ.“

FMOS hlýtur Gulleplið

Gulleplið var afhent við hátíðlega athöfn í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þann 1. mars. Á myndinni eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

Gulleplið var afhent við hátíðlega athöfn í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þann 1. mars. Á myndinni eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

Forseti Íslands afhenti á dögunum Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ Gulleplið, viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði heilsueflingar á framhaldsskólastiginu.
Í skólanum hefur markvisst verið unnið að bættri heilsu, bæði á sál og líkama. Hátíðleg athöfn fór fram í skólanum þann 1. mars og að henni lokinni kynnti forsetinn sér starfsemi og húsnæði skólans í fylgd stjórnenda hans.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ var stofnaður árið 2009 og er nú til húsa í sérhannaðri byggingu sem hefur víða vakið athygli og fer að ýmsu leyti óhefðbundnar og framsæknar leiðir í námi og kennslu. Gulleplið hefur verið afhent frá árinu 2011. Átak þetta um heilsueflingu innan framhaldsskólanna þykir hafa gefið góða raun en á síðastliðnu ári hefur Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ lagt áherslu á gerðrækt.

Sigursælar handboltakempur

Jón Andri, Siggi Sveins, Þorkell Guðbrands, Gunnar Guðjóns, Einar Braga, Jóhannes, Bjarki Sig, Baldvin, Svanþór og Ástþór. Fyrir framan eru Sveinbjörn og Daði Hafþórs. Einhver kunnugleg andlit vantar þó á myndina.

Jón Andri, Siggi Sveins, Þorkell Guðbrands, Gunnar Guðjóns, Einar Braga, Jóhannes, Bjarki Sig, Baldvin, Svanþór og Ástþór. Fyrir framan eru Sveinbjörn og Daði Hafþórs. Einhver kunnugleg andlit vantar þó á myndina.

Eins og Mosfellingar þekkja þá hefur handbolti verið vinsæll í bænum frá því að Afturelding komst í efstu deild vorið 1992.
Sumarið 2007 ákváðu þeir Þorkell Guðbrandsson og Bjarki Sigurðsson sem báðir voru þá hættir með Aftureldingu að stofna utandeildarlið og smala öllum gömlu kempunum og nokkrum ungum saman í gott lið. Liðið fékk nafnið Júmboys eða breiðu strákarnir á íslensku.
Það er skemmst frá því að segja að liðið varð afar sigursælt og strax á fyrsta tímabili vann liðið Íslandsmeistartitil utandeildar sem taldi þá 18 lið samtals. Árið eftir vann liðið alla þá bikara sem í boði voru og samtals urðu titlarnir 10 á þessum 6 árum sem liðið spilaði í utandeildinni.
Liðsmenn voru á aldrinum 20 til 69 ára. Árið 2013 fannst liðsmönnum mál að linnti og leyfðu öðrum liðum að komast að.

Láttu vaða

Heilsumolar_Gaua_16mars

Við erum gjörn á að hugsa of mikið um hvað öðrum finnst um okkur. Hvað hópnum finnst. Hvað mömmu finnst. Stundum gerum við hluti mest til þess að geðjast öðrum. Hluti sem okkur langar ekkert til að gera og gera engum gott. Við höfum öll upplifað þetta. Sumir oftar en aðrir.

Ef þú ert á þessum stað í lífinu hvet ég þig til að gera uppreisn. Taka þér tíma í að greina hvað það er sem þig virkilega langar að gera við lífið og kýla svo á það. Með því ertu að bæta bæði þig og heiminn, svo lengi auðvitað sem þú ert heilbrigð sál sem vilt sjálfum þér og öðrum vel. Lykilatriði í þessu ferli er að hafa húmor fyrir sjálfum sér og velta sér ekki upp úr því hvað öðrum finnst. Aldur, kyn, menntun eða fæðingarstaður skiptir ekki máli. Ekki heldur uppáhaldsíþróttafélag. Það geta allir látið drauma rætast. Það er alltaf leið. Og það er ekkert eins gefandi og styrkjandi að koma draumum sínum í framkvæmd. Að þora.

Ég gaf út bók í lok síðasta árs. Lét bókardraum rætast. Margra ára gamlan draum. Það sem hafði stoppað mig var álit annarra á bókinni. Vill einhver lesa bók eftir mig? Og líka spurningin hvort einhver myndi kaupa hana. Það tók mig mörg ár að þora að gera þetta. Og tilfinningin er geggjuð. Sérstaklega þegar ég heyri frá einhverjum sem hefur lesið bókina. Næsti draumur tengdur bókinni er að þýða hana á mörg tungumál, gefa út rafrænt út um allan heim. Af hverju? Af því mig langar til þess. Það eflir mig að koma draumum í framkvæmd og mig langar að deila með öðrum því sem ég hef lært og er að pæla. Kíktu á www.njottuferda­lagsins.is ef þú vilt vita meira og fá stuðning til þess að láta vaða.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 16. mars 2017

Ný framtíðarsýn á knattspyrnusvæði

framtidarsyn

Aðalstjórn Aftureldingar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna breyttrar framtíðarsýnar á uppbyggingu knattspyrnusvæðis Aftureldingar.
Um miðjan janúar kynnti knattspyrnudeild Aftureldingar nýja framtíðarsýn varðandi aðstöðumál hjá félaginu. Á haustönn 2016 voru skáðir 420 iðkendur í barna- og unglingaráði ásamt tæplega 40 iðkendur í meistaraflokkum félagsins.
Iðkendum knattspyrnudeildar hefur fjölgað um 30% frá árinu 2008 til dagsins í dag. Búast má við svipaðri fjölgun iðkenda á næstu árum í ljósi þess að mikil uppbygging er þegar hafin í sveitafélaginu. Knattspyrnudeildin leggur mikinn metnað í að öll börn í sveitafélaginu sem vilja æfa knattspyrnu fái að æfa og að gæði æfinganna og æfingaaðstaðan séu deildinni og sveitafélaginu til sóma.

Reisi hálft yfirbyggt knattspyrnuhús
Stjórn knattspyrnudeildar Aftureldingar samþykkti einróma nýja framtíðarsýn varðandi aðstöðumál deildarinnar á fundi sínum 2. janúar sl. Hún felur í sér breytta stefnu en samkvæmt nýrri framtíðarsýn er horfið frá þeim áformum að byggja knattspyrnuhús í fullri stærð á íþróttasvæðinu við Varmá.
Ný tillaga knattspyrnudeildar felur í sér að reist verði hálft yfirbyggt knattspyrnuhús, gervigras endurnýjað á núverandi velli, byggð upp stúka og félagsaðstaða við núverandi gervigrasvöll, gervigras lagt á Varmárvöll ásamt hitalögnum og flóðlýsingu.

Bregðast þarf strax við fjölgun iðkenda
Þar er mat stjórnar knattspyrnudeildar Aftureldingar að bregðast verði strax við fjölgun iðkenda. Það eru fyrst og fremst fleiri fermetrar sem vantar til að geta veitt viðunandi þjónustu við iðkendur og haldið uppi þeim gæðum á æfingum sem ætlast er til. Að ráðast í byggingu á knattspyrnuhúsi í fullri stærð leysir ekki þau vandamál sem knattspyrnudeildin glímir við á þessum tímapunkti.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur að tillögu bæjarstjóra falið honum að láta kostnaðargreina yfirbyggingu gamla gerfigrasvallarins ásamt því að skipta um gras á þeim nýja. Jafnframt að ræða við aðalstjórn félagsins um humyndirnar