Gott að geta lagt til samfélagsins á efri árum

jonsverrir_mosfellingurinn

Jón Sverrir Jónsson í Varmadal er einn af elstu starfandi bifreiðastjórum á landinu. Jón Sverrir hefur alla tíð verið hrifinn af vélknúnum farartækjum. Hann byrjaði ungur að árum að snúast í kringum búvinnutækin á heimilinu, 18 ára starfaði hann á vélskóflum í Kollafirði en um 22 ára aldurinn hóf hann störf sem vörubílstjóri á Vörubílastöðinni Þrótti og hefur starfað við það síðan og er nú með lengstan starfsaldur á stöðinni.

Jón Sverrir, eða Sverrir eins og hann er ávallt kallaður, fæddist í Varmadal 1. desember 1942. Foreldrar hans eru Unnur Sóley Lilja Valdemarsdóttir og Jón Jónsson bændur í Varmadal en þau eru bæði látin. Systkini Sverris eru þau Hjördís, ­Valde­mar og Haraldur.

Fyrsta manneskjan er ég augum leit
„Ég er alinn upp í Varmadal. Mér er sagt að það hafi verið kalt skammdegi daginn sem ég fæddist árið 1942. Faðir minn hafi verið tilbúinn með tvo eldishesta skaflajárnaða til ferðar að Laxnesi í Mosfellsdal ef aðstoðar ljósmóður þyrfti fyrirvaralaust sem og varð tilfellið.
Brýrnar voru að vísu komnar á Leirvogsána og Köldukvísl en vegalengdin löng, svartamyrkur og frost. Helga ljósmóðir var vakin með því að guða á glugga, hún útbjó sig í skyndi í hnakkinn á aukahestinum til að aðstoða móður mína við komu mína í þennan heim. Helga var eiginkona Einars á Litla-Landi við Brúarland og var því fyrsta manneskjan sem ég augum leit.“

Þetta var eins og gott heimili
„Bernskan í Varmadal var áhyggjulaus, allt í föstum skorðum. Húsakostur allur góður og frumuppeldið hvíldi á móður minni, Elísabetu ömmu og Hjördísi systur minni fyrstu árin. Fljótlega hændist ég þó að karlpeningi bóndabýlisins og ekki hár í loftinu var ég farinn að snúast í kringum búpening og búvinnutæki.
Skólaganga mín hófst um átta ára aldur að Klébergi á Kjalarnesi, heimavist undir styrkri stjórn Ólafs skólastjóra og Bjargar­ konu hans. Mér dettur oft í hug nú hve góðir þjóðfélagsþegnar þessi hjón voru því þetta var auðvitað bara eins og gott heimili. Ólafur kenndi allar námsgreinar og Björg handavinnu stúlknanna.
Það eina sem ég sé nú vera svolítið gamaldags var að þær stelpur sem komu úr nágrenni skólans, sem voru sem sagt ekki á heimavistinni, klæddust síðbuxum í vetrarkuldanum á ferð sinni gangandi í skólann en urðu að afklæðast þeim og fara í kjól í veru sinni í skólanum.“

Beið eftir bjarma ljósanna
„Mér eru minnistæðir þeir mánudagsmorgnar þegar áætlunarbíllinn kom úr Reykjavík á leið sinni upp í Kjós. Ég beið bílsins uppi í stofu í Varmadal þar til ég sá bjarma ljósanna þar sem nú eru Hulduhólar. Nokkru seinna tvö ljós hans þar sem nú er dekkjaverkstæðið við Langatanga og þá setti ég skólatöskuna á bakið og hljóp niður á veg við gömlu brúna. Rútan kom svo yfir Leirvogstunguhæðina og ég fór upp í hana þar.”

Mosfellssveitin fóstraði vel þennan hóp
„Eftir veruna á Klébergi tók Brúarlandsskóli við þaðan sem ég á góðar minningar. Skólanum stýrði Lárus Halldórsson og man ég vel eftir leikfimikennslu hans, hann þá kominn á efri ár en afar léttur og fimur, góð kennsla á allan hátt. Gagnfræðaskóli verknáms var næst á lífsleiðinni og tók tvö ár.
Ég gekk til spurninga til fermingar eins og það var nefnt í þá daga hjá séra Hálfdáni Helgasyni prófasti á Mosfelli en hann féll frá rétt fyrir fermingardaginn. Það varð því með fyrstu verkum séra Bjarna að ferma okkur hópinn seinna um haustið. Gaman er nú að sjá hvað Mosfellssveitin fóstraði þennan hóp vel því flest öll erum við nú enn í Lágafellssókn um 75 ára gömul.“

Lengstur starfsaldur á stöðinni
„Nú tók skóli lífsins við, vinnan við bú­störf í Varmadal og umsjón með landbúnaðartækjum hvíldi á herðum okkar bræðra. Oft hugsa ég til þess hve mikið gagn við gerðum, litlir strákar mættir með tvo fulla heyvagna af nýslegnu grasi fyrir framan súrheysturninn og þegar foreldrar okkar höfðu lokið mjöltun á morgnana gat pabbi byrjað að moka í blásarann sem blés heyinu upp í turninn.
18 ára hóf ég vinnu hjá Vinnuvélum í Kollafirði á vélskóflum í sandnámunni þar en var alltaf heima yfir sumartímann við landbúnaðarstörf.
Ég gerðist vörubílstjóri á Vörubílastöðinni Þrótti þegar ég var 22 ára og hef starfað við það síðan og er nú með lengstan starfsaldur á stöðinni.“

Ævarandi hlýja til Skálatúns
Jón Sverrir og Hanna Sigurjónsdóttir gengu í hjónaband 1964 og eignuðust fjögur börn, Jón, Andrés, Elísabetu og Björgvin. „Andrés misstum við 30 ára gamlan en hann gekk ekki heill til skógar. Hann var heima til fimm ára aldurs en bjó síðan í 25 ár á Skálatúni og kann ég því heimili ævarandi hlýju fyrir þá virðingu sem heimilið, starfsfólk og ríkið sýndi honum. Jón og Elísabet búa bæði í Varmadal en Björgvin í Leirvogs­tungu.“

Húsnæðið varð eldi að bráð
Árið 1971 stofnuðu félagarnir Jón Sverrir, Bernhard Linn og Níels Hauksson fyrirtækið Hengil sf. um rekstur vinnuvéla og keyptu fljótlega verkstæðis- og verslunarhúsið Þverholt hér í bæ og hófu rekstur. „Húsnæðið varð eldi að bráð en við byggðum það upp aftur en í breyttri mynd. Í dag eigum við hjónin ásamt syni okkar og tengdadóttur Hengil.­ Rekstur fyrirtækisins hvílir nú mest á Björgvini og dagleg umsjón þrifa og reikningshald á eiginkonunni.“

Legg mitt af mörkum
„Lífið hefur farið vel með okkur hjónin, barnalán, níu barnabörn og eitt langafabarn. Ég hef haft allgóða heilsu, unnið nokkuð mikið en líka leikið mér. Fyrst í íþróttum, hestamennsku, flugi og kórsöng ásamt því að fara reglulega í sund. Ég fer stundum einn en oftar með barnabörnunum og oftast með barnabarninu Emmu Íren minni en við höfum farið saman í sund í 15 ár og gerum enn.
Ég syng nú með Karlakór Kjalnesinga og Kirkjukór Brautarholts- og Reynivallasóknar og þykist því leggja eitthvað af mörkum fyrir samfélagið á efri árum.“
Ég spyr Sverri að lokum hvað hann ætli að gera á afmælisdaginn en hann verður 75 ára daginn eftir að viðtalið kemur út? „Ég ætla að vera í faðmi fjölskyldu og barna, þannig líður mér best.“

Mosfellingurinn 30. nóvember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs