Birtir heimildarmynd og segir son sinn saklausan

hjaltiursus

Hjalti Úrsus Árnason hefur birt á Facebook heimildarmyndina „Fall Risans – rangar sakargiftir“. Þar er fjallað um rannsókn lögreglu og dómsmál á hendur syni hans, Árna Gils.
Hjalti sviðsetur atburðarás í meintri morðtilraun sem sonur hans er dæmdur fyrir. Þeir feðgar bera lögreglu og saksóknara þungum sökum og segja að verið sé að fremja dómsmorð á Árna.
„Ég geri þessa heimildarmynd til að upplýsa fólk og birti gögn úr rannsókn málsins. Það er mikilvægt að vekja athygli á málinu,“ segir Hjalti. „Ekki gleyma Árna Gils.“

„Ég var leiddur í gildru”
„Ég hélt fyrst að hann væri sekur, eins og ég segi í myndinni. Það hefði þá verið ákveðin staða en maður er með sterka réttlætiskennd.“
Árni var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í mars. Síðan eru liðnir 270 dagar og var áfrýjun málsins tekin fyrir í Hæstarétti á mánudag.
Í ákærunni kemur fram að hann hafi veist að manni á bílastæði við sjoppu í Breiðholti. Eftir stutt átök hefði hann stungið manninn með hnífi í höfuðið.
Árni segist hafa verið að verjast hnífaárás fíkils sem hann hafi aldrei séð áður. „Ég var leiddur í gildru,“ segir Árni en þeir feðgar telja að öllum líkindum tengist málið ásókn brotaþola í bótasjóð ríkisins.
Þá lýsir Hjalti því einnig að stúlka sem ber vitni í málinu hafi verið lyfjuð og fengið loforð um að fá helming bóta ef hún breyti ekki röngum framburði sínum.
„Brotaþoli kom sjálfur með hnífinn á vettvang og lét hann líka hverfa eftir atburðinn. Saksóknari hefur sjálfur viðurkennt það.“

Úr heimildarmyndinni Fall risans.

Úr heimildarmyndinni Fall risans.

Brotaþoli hefur skaðað sig sjálfur
„Skaðinn sem brotaþolinn varð fyrir gerðist ekki á þessum vettvangi heldur var hann höfuðkúpubrotinn fyrir,“ segir Hjalti og bendir á að maðurinn hafi ekki leitað sér aðstoðar á spítala fyrr en 40 mínútum síðar. Þá hafi hann verið alblóðugur og í miklu verra ástandi en þegar þeim Árna lenti saman. Ekkert blóð fannst á vettvangi og tæknideild lögreglunnar ekki kölluð til.
„Þetta stemmir alls ekki. Hann hefur skaðað sig sjálfur. Þetta er blákaldur raunveruleiki.“

Styttist í frelsun Árna
„Það er verið að fremja á mér réttarmorð og öllum er sama,“ segir Árni Gils og segir sekt sína hafa verið ákveðna á staðnum.
Hjalti neitar því ekki að Árni sé búinn að eiga í vandræðum með fíkniefni og áfengi. Hann hafi áður lent í minniháttar útistöðum við lögreglu og eflaust ekki sá vinsælasti en þess má geta að Árni er 2,05 m á hæð og 180 kg.
Málið var tekið fyrir í Hæstarétti á mánudag og segir Hjalti niðurstöðu að vænta eftir nokkrar vikur. „Það tekur vonandi ekki langan tíma að fá niðurstöðu og ég trúi því ekki að þessi vinnubrögð verði samþykkt. Vonandi styttist í frelsun Árna.“

Glíma við nýtt Geirfinnsmál
„Heimildarmyndin hefur vakið gríðalega athygli og ég fæ alls staðar mjög góð viðbrögð en fólki er brugðið eins og auðvitað mér sjálfum,“ segir Hjalti. „Þetta er nýtt Geifinnsmál sem er að gerast beint fyrir framan nefið á okkur.
Árni er búinn að vera ótrúlega hraustur meðan hann hefur setið inni en fyrir mánuði síðan fór heilsunni að hraka og andlegt ástand er orðið slæmt. Það slæmt að ég er hræddur um hann.
Ef hann verður dæmdur í Hæstarétti munum við fara með þetta fyrir Mannréttindadómstól Evrópu,“ segir Hjalti.