Fyrsti Mosfellingur ársins

fyrstimosfellingurarsins2017

Þann 3. janúar kl. 02:20 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2017 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Það var drengur sem var 3.474 gr og 52 cm.
Foreldrar hans eru Sigurður Grétar Ágústsson og Svanfríður Arna Jóhannsdóttir og búa þau í Einiteig 1. Drengurinn er þriðja barn þeirra hjóna en fyrir eiga þau Hörpu Dagbjörtu 14 ára og Almar Jökul 6 ára.
„Ég átti að eiga hann 1. janúar en hann ákvað að koma þann þriðja. Fæðingin gekk ótrúlega vel, hann kom í rauninni mjög hratt í heiminn. Hann er mjög rólegur og við erum í skýjunum með hann. Við erum búin að búa hér í Mosfellsbænum í rúmt ár. Okkur líkar mjög vel, hér er rólegt og mjög barnvænt,“ segir Svanfríður Arna.

Stærsta innanhússsamkoma ársins

þorró2017

Þorrablót Aftureldingar fer fram laugardaginn 21. janúar. Að vanda fer blótið fram í íþróttahúsinu að Varmá og opnar húsið kl. 19. Miðasala og borðaúthlutun verður föstudaginn 13. janúar á Hvíta Riddaranum og hefst kl. 18.
„Þetta er í tíunda sinn sem blótið er haldið í þessari mynd og það er svo til sama fólkið hefur verið í þorrablótsnefnd öll þessi ár,“ segir Rúnar Bragi forseti þorrablótsnefndar.
„Undanfarin ár hefur verið uppselt og færri komist að en viljað. Mikil stemning hefur myndast við borðaúthlutunina en þetta verður í fyrsta skipti sem miðasala hefst á sama tíma. Einungis verður hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða.
Líkt og í fyrra verðum við bæði með langborð og hringborð. Hringborðin eru seld sem svokölluð VIP-borð en þau eru aðeins seld í heilu lagi og þeim fylgja fljótandi veigar og einhver forréttindi.“

Borðaskreytingar í hádeginu
Dagskráin er veigamikil og fjölbreytt en að þessu sinni mun Logi Bergmann sjá um veislustjórnina, Raggi Bjarna mun troða upp og hljómsveitin Made in sveitin mun leika fyrir dansleik með Hreim, Stef­aníu­ Svavars og Eyþór Inga í fararbroddi.
„Það mun verða mikið um dýrðir, Tríóið Kókos mun taka vel á móti gestunum og Geiri í Kjötbúðinni sér um veitingarnar en að vanda munu allir finna eitthvað við sitt hæfi. Auk hefðbundins þorramatar mun Geiri bjóða upp á lambalæri og með því.
Borðaskreytingar eru stór hluti af blótshaldinu hjá mörgum hópum og vitum við til þess að undirbúningur er víða hafinn. Við erum alltaf með óháða dómnefnd, en vinningsborðið fær bæði farand- og eignarbikar. Skreytingarnar fara fram á blótsdegi kl. 12-13:30,“ segir Rúnar Bragi.
Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook síðunni Þorrablót Aftureldingar.

Köngulóarvefurinn

Heilsumolar_Gaua_12jan2017

Ég var að koma heim úr ferðalagi. Fór á staði sem ég hef ekki komið á áður og á staði sem ég hef áður heimsótt. Þetta var frábært ferðalag. Ég lærði margt nýtt og naut þess í botn að vera með mínum nánustu. Það hafði líka mikil áhrif á mig í ferðalaginu að fylgjast með því hvað við mannfólkið erum orðnir miklir netfíklar. Ríkir, fátækir, börn, unglingar, fullorðnir.

Hvert sem maður kemur í dag er síminn í aðalhlutverki. Alls staðar og alltaf er fólk í símanum. Wifi er töfraorð ferðalangsins í dag. Við verðum að vera tengd, alltaf. Símarnir eru frábærir á margan hátt. Við getum tekið myndir á þá, skapað góðar minningar. Notað þá í mikilvæg og gefandi samskipti. Við getum geymt og náð í mikilvægar ferðaupplýsingar í þeim. En við notum þá miklu meira til að deyfa okkur. Ég gægðist yfir öxlina á mörgum af þeim sem voru í símanum, langaði að sjá hvað þeir væru að stússast. Langflestir voru á Facebook, að rúlla í gegnum statusa. Augnaráðið tómt.

Fólk að passa sig að missa ekki af einhverju. Í stað þess að horfa í kringum sig, upplifa það sem virkilega var að gerast, tala beint við þá sem voru með þeim. Á staðnum. Ég er núna að loka Facebookinu mínu og hætta að nota fleiri netmiðla. Ætla að nota minn tíma í staðinn í hluti sem virkilega gefa mér orku. Íþróttir, útivist, lesa bækur. En þetta er ekki einfalt. Maður er eins og fluga í köngulóarvef, Facebook heldur utan um marga þræði í lífi manns með alla sína hópa og tengingar. Kallar sterkt á mann. Eins og eiturlyf á fíkil. Aðal­áskorunin er að halda í fólkið sem maður vill vera í samskiptum við án þess að þurfa að fara í gegnum Mark Zuckerberg og félaga. Það mun takast!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. janúar 2017

Guðni Valur Mosfellingur ársins 2016

Kringlukastarinn og Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason.

Kringlukastarinn og Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason.

Hefur náð ótrúlegum árangri á stuttum ferli

Guðni Valur Guðnason, 21 árs kringlukastari, er Mosfellingur ársins 2016. Árið hjá honum var vægast sagt viðburðaríkt og toppurinn var að sjálfsögðu þátttaka hans á Ólympíuleikunum í Ríó.
Guðni Valur hefur tekið gríðarlegum framförum í greininni þau þrjú ár sem hann hefur stundað kringlukast af fullum krafti. Áður hafði Guðni æft aðrar greinar í frjálsum, golf, körfubolta og ýmsar íþróttir sem krakki.
„Það skipti í rauninni ekki máli í hvaða grein maður var þegar maður var yngri en langskemmtilegasta mótið var Goggi Galvaski sem haldið var hérna í Mosó,“ segir Guðni Valur.

Sækir reynslu til besta kastara landsins
Guðni Valur æfði með Aftureldingu á sínum yngri árum en keppir nú fyrir hönd ÍR undir dyggri handleiðslu Péturs Guðmundssonar. Þar sækir Guðni Valur mikla reynslu og þekkingu hjá einum besta kastara sem Íslendingar hafa eignast
Guðni Valur kastaði 60,45 m á Ólympíuleikunum í sumar og lenti í 21. sæti af 35 þátttakendum. Þá gerði hann góða ferð til Finnlands á árinu þar sem hann landaði Norðurlandameistaratitli í flokki 23 ára og yngri. Hann vann einnig gull á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru á Möltu.

Ætlar sér stóra hluti á árinu
Guðni Valur setur markið hátt á árinu og ætlar sér að komast á Heimsmeistaramótið í sumar og vinna Evrópumeistaramótið í sínum aldurshópi. Lágmarkið fyrir HM er 65 m en besti árangur Guðna er 63,5 m. „Ég á nóg inni og ætla mér stóra hluti.“ Þá er stefnan tekin á Smáþjóðaleika og fjölda annarra móta og keppnisferða á árinu.
Guðni Valur var á dögunum útnefndur frjálsíþróttakarl ársins og hlaut einnig titilinn íþróttakarl ÍR 2016. „Það er hrikalega skemmtilegt að bæta nafnbótinni Mosfellingur ársins við í safnið og mun ég bera titilinn stoltur,“ segir þessi framúrskarandi íþróttamaður sem vert verður að fylgjast með í náinni framtíð.

Nýr klórbúnaður tekinn í notkun í sundlaugunum

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Baldur Hall­dórsson framkvæmdastjóri hjá Vatnslausnum.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Baldur Hall­dórsson framkvæmdastjóri hjá Vatnslausnum.

Fjárfest hefur verið í nýjum klórgerðarbúnaði fyrir sundlaugar Mosfellsbæjar.
Búnaðurinn framleiðir klór úr matarsalti þar sem rafstraumur er notaður til að kljúfa saltið í frumefni sín. Þegar þau efni blandast vatninu myndast efni sem hentar vel til sótthreinsunar í sundlaugum. Mosfellsbær er eitt af fyrstu sveitafélögum landsins til að taka í notkun slíkan búnað.

Umhverfisvænt og hagkvæmt
Kaupin á klórgerðarbúnaðinum samræmast vel umhverfisstefnu Mosfellsbæjar þar sem lögð er áhersla á að minnka notkun hættulegra efna sem skaðað geta lífríkið. Auk þess eru helstu kostir nýrra kerfa lítill framleiðslukostnaður og engin flutningur á hættulegum efnum.
Fyrir sundlaugargesti þýðir þetta að klórlyktin minnkar talsvert. Sviði í augum og húðerting minnkar og efnin fara betur með sundfatnað.

Borgar sig upp á 5-6 árum
Gert er ráð fyrir því að kerfin verði komin upp bæði í Varmárlaug og Lágafellslaug í febrúar næstkomandi. Búnaðurinn kostar um 58 milljónir króna en lækkun á rekstrarkostnaði kemur til með að spara umtalsverðar fjárhæðir sem borgar kerfin upp á 5-6 árum, samkvæmt úttekt verkfræðistofunnar Mannvits.
Það eru Vatnslausnir ehf. sem selja kerfið frá hollenskum framleiðanda, Van den Heuvel.

>>> Í Varmárlaug voru notuð tæp 12 tonn af klór á árinu 2015. Í Lágafellslaug fóru rúm 25 tonn af klór á árinu 2015.

Með umboð fyrir risaframleiðanda

bilasala2

Bræðurnir Pétur og Októ með glænýjan Fiat.

Bílaumboðið Ís-band hefur opnað glæsilegan sýningarsal nýrra bíla að Þverholti 6 en fyrirtækið flytur inn bíla frá bílaframleiðandanum Fiat Chrysler. Sýningarsalurinn er nú fullur af hinum ýmsu módelum frá Fiat, Jeep og Dodge og er þarna mikið úrval af bílum, allt frá minnstu smábílum upp í stóra jeppa.
Ís-band var stofnað 1998 af Októ Þorgrímssyni og var fyrst með aðsetur á heimili Októs áður en það fluttist í Funahöfða. Frá áramótunum 2008-2009 hefur fyrirtækið verið staðsett í Þverholtinu í Mosfellsbæ. Bílasalan 100 bílar hefur einnig verið staðsett í Þverholti en er nú alfarið flutt í Stekkjar­bakka í Mjódd. Þá er þjónustuverkstæði einnig rekið í Smiðshöfða 5.

Fyrirtækið vel mannað Mosfellingum
Að rekstri þessara fyrirtækja standa bræðurnir Októ og Pétur Þorgrímssynir en þeir hafa búið í Mosfellsbæ frá unga aldri. Þriðji eigandinn sem síðar kom inn í fyrirtækið er einnig Mosfellingur, Jóhannes Jóhannesson, en hann er framkvæmdastjóri þjónustusviðs.
Fleiri Mosfellingar starfa svo hjá Ís-Band. Þorgrímur Októsson faðir bræðranna hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2004. Sigurður­ Valgeir Óskarsson innkaupastjóri er svo borinn og barnfæddur Mosfellingur og Kristína Andrésdóttir sölustjóri fæddist hér og bjó til 5 ára aldurs.
Mosfellingar eru hvattir til að kíkja við í sýningarsalinn og skoða úrvalið en einnig er hægt að skoða á www.isband.is

Opnar ljósmyndaver á Reykjaveginum

harpaljosmyndari

Ljósmyndarinn Harpa Hrund flutti nýlega með ljósmyndaverið sitt í Mosfellsbæinn. „Við vorum búin að leita lengi að húsi sem rúmaði okkur öll, fimm manna fjölskyldu hund, kött og ljósmyndaverið mitt sem ég hef undanfarin 11 ár rekið í Skeifunni.
Við keyptum húsið Borg á Reykjavegi 88. Við tók mikil vinna við að standsetja húsið og núna skiljum við það virkilega hvað fólk meinar þegar það talar um blóð, svita og tár. Við erum enn að gera upp húsið en ég byrjaði að mynda í nýja stúdíóinu í september. Við stefnum á að flytja sjálf inn eftir jól,“ segir Harpa Hrund.

Fjölskyldan alsæl í Mosó
„Við erum rosalega ánægð hér, börnin skilja ekkert í því af hverju við fluttum ekki fyrr í Mosfellsbæinn. Það er mikill léttir að börnin séu svona ánægð því það er auðvitað það sem foreldrar óttast mest þegar maður flytur í nýtt bæjarfélag.
Umhverfið hér er dásamlegt, við elskum kyrrðina og náttúruna. Húsinu fylgir líka stór garður, við erum með græna fingur og hlökkum mikið til að gera hann enn fínni.“

Verkstæði jólasveinsins
„Margir viðskiptavina minna eru úr Mosfellsbæ og eru þeir ánægðir með flutningana. Ég viðurkenni alveg að ég var smá stressuð að viðskiptavinum mínum þætti langt að koma til mín í Mosó en ég held að allir séu sáttir. Nýja ljósmyndaverið er kósý svo ég tali nú ekki um möguleikana á útitökum í náttúrunni.
Núna er jólatörnin yfirstaðin og hafa verið myndatökur alla daga og vinnsla á stækkunum og jólakortum á kvöldin. Fyrirtækið breyttist í hálfgert verkstæði jólasveinsins og margir hafa hjálpað til.
Þeir sem hafa áhuga á að koma í myndatöku í „sveitina“ geta skoðað heimasíðuna mína, www.harpahrund.is,“ segir Harpa Hrund að lokum.

Hafist handa við Helgafellsskóla

Tilvonandi nemendur ásamt bæjarfulltrúum.

Tilvonandi nemendur ásamt bæjarfulltrúum.

helgafellsskoliFyrsta skóflustunga að nýjum leik- og grunnskóla í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ var tekin í dag, miðvikudaginn 7. desember.
Skóflustunguna tóku væntanlegir nemendur skólans sem stunda nú nám í Brúarlandi. Sá skóli er undanfari stofnunar Helgafellsskóla og er rekinn sem útibú frá Varmárskóla. Nemendunum til halds og trausts voru bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ.

Helgafellshverfi byggist upp á miklum hraða
Bygging skólans verður stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins á næstu misserum. Heildarstærð hússins verður um 7.300 fm og áætlaður byggingarkostnaður um 3.500 milljónir. Skólinn verður byggður í fjórum áföngum og áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2018.
Uppbyggingarhraði mun að einhverju leyti taka mið af uppbyggingu hverfisins. En gefin hafa verið út um 400 byggingarleyfi í Helgafellslandi það sem af er ári. Hverfið byggist því upp á miklum hraða um þessar mundir.

Fullbyggður skóli mun hýsa rúmlega 700 börn
Í forsögn verkefnisins er meðal annars hlustað á raddir barna um hvað einkennir góðan skóla. Fullbyggður mun skólinn hýsa um 600 börn á grunnskólaaldri og um 110 börn á leikskólaaldri. Auk þess verður hann vinnustaður um 130 starfsmanna. Hönnuðir eru Yrki Arkitektar og um jarðvinnu sér Karina ehf.

Skólar eru kjarni samfélagsins
„Það er stór stund í hverju bæjarfélagi þegar tekin er fyrsta skóflu­stunga að nýrri skólabyggingu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Skólar eru kjarni samfélagsins og í kringum þá er fjölbreytt og síbreytilegt mannlíf.
Mosfellsbær leggur áherslu á að hlúa vel að skólastarfi og að hér þrífist framsækið og jákvætt námsumhverfi fyrir börn og starfsfólk. Það er mikilvægt fyrir uppbyggingu í Helgafellshverfi að hafin sé framkvæmd leik- og grunnskóla á svæðinu.“

Skálinn í Álafosskvos vígður

skalinn2

Í lok sumars festi skátafélagið Mosverjar kaup á húsi að Álafossvegi 18 í Mosfellsbæ með stuðningi Mosfellsbæjar. Húsið er staðsett í Álafosskvosinni, á frábærum stað fyrir skátastarf.
Með aðstoð og stuðning frá skátum, foreldrum, sjálfboðaliðum og öðrum velunnurum er húsið orðið að heimili, Skátaheimili.

Skátaheimilið fær nafnið Skálinn
Skátaheimilið hefur fengið nafnið Skálinn og fór vígsla fram fimmtudaginn 15. desember. Á annað hundrað manns mættu til að fagna með skátunum og bárust félaginu þónokkrar gjafir í tilefni tímamótanna.
Mosverjar vilja koma á framfæri þakkláti til allra þeirra sem hafa aðstoðað við að gera húsið að heimili.

skalinn3

Jón Júlíus ráðinn framkvæmda­stjóri Aftureldingar

Dagný Kristinsdóttir formaður og Jón  Júlíus nýr framkvæmdastjóri félagsins

Dagný Kristinsdóttir formaður og Jón Júlíus nýr framkvæmdastjóri félagsins

Jón Júlíus Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar og var hann valinn úr hópi 22 umsækjenda. Jón Júlíus er 29 ára gamall og ólst upp í Grindavík. Hann hefur undanfarin ár starfað sem markaðs- og skrifstofustjóri Golfklúbbsins Odds í Garðabæ.

Jón Júlíus er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Jón Júlíus var mótsstjóri á Evrópumóti kvennalandsliða sem fram fór hjá Golfklúbbnum Oddi sl. sumar en það er stærsta alþjóðlega golfmót sem haldið hefur verið á Íslandi. Hann hefur einnig starfað síðustu misseri sem íþróttafréttamaður á RÚV og áður fréttamaður á Stöð 2.

„Ég er þakklátur fyrir það tækifæri að fá að stýra einu af stærstu íþróttafélögum landsins. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Aftureldingu. Mosfellsbær stækkar ört og má gera ráð fyrir að iðkendum hjá félaginu fjölgi samfara því. Ég hlakka til að hefjast handa og um leið kynnast öllu því frábæra fólki sem starfar í kringum Aftureldingu,“ segir Jón Júlíus en hann tekur til starfa hjá félaginu 2. janúar.

Lífið tók óvænta stefnu

folda_mosfellingurinn

Ísfold Kristjánsdóttir greindist með brjóstakrabbamein í mars 2015.

Ísfold leitaði til læknis eftir að hún fann fyrir hnúð í vinstra brjósti. Eftir skoðun var henni tjáð að líklega væri um mjólkurkirtil að ræða. Í mars 2015 greindist hún með brjóstakrabbamein og hefur síðan þá farið í þrjár aðgerðir og er á leið í þá fjórðu.

Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuna árin í Danmörku, veikindin og líðan sína í dag.

Ísfold Kristjánsdóttir er fædd 18. febrúar 1986. Foreldrar hennar eru þau Ísfold Aðalsteinsdóttir fyrrverandi starfsmaður Reykjalundar og Kristján Hauksson eigandi Glermerkingar en hann lést árið 2000.
Ísfold, eða Folda eins og hún er ávallt kölluð, á þrjár systur, þær Fanneyju fædda 1968, Kristínu fædda 1968 og Hólmfríði fædda 1974.

Ólst upp á Bassastöðum við Hafravatn
„Ég er alin upp í Mosfellsbænum og ólst upp á Bassastöðum sem eru uppi við Hafra­vatn. Á hverjum degi tók ég skólabílinn niður að Varmárskóla og var keyrð aftur heim upp að dyrum. Ég man að krakkarnir öfunduðu mig mikið að þessu,“ segir Folda og brosir.
Ein af mínum uppáhaldsæskuminningum eru útilegurnar á sumrin með fjölskyldunni. Við tjölduðum og fundum okkur svo eitthvað skemmtilegt að gera. Veiddum, tíndum egg, fundum orma, fleyttum kerlingar og svo mætti lengi telja.“

Trúi því að við munum hittast aftur
„Veiðiferðunum okkar pabba gleymi ég aldrei. Við skutluðum mömmu í vinnuna og skelltum okkur svo upp á Hafravatn með veiðistangirnar. Þar gátum við setið klukkutímunum saman. Ég man hvað það var alltaf­ gaman að spjalla við pabba, hann var svo mikill spekingur og hafði sterkar skoðanir á hlutunum.
Pabbi varð bráðkvaddur á heimili okkar í júní árið 2000. Þetta var mjög erfiður tími því ég var mikil pabbastelpa. Það tók mig tvö ár að komast yfir mesta söknuðinn en nú lifi ég með honum. Ég trúi því að við munum hittast aftur seinna.
Erfiðast þykir mér að Þórður og synir okkar fái ekki að kynnast þessum mikla meistara sem hann var.“

Flutti til Danmerkur
„Eftir útskrift úr gaggó fór ég í Borgarholtsskóla en kláraði ekki námið því ég flutti til Danmerkur með fyrrverandi kærasta mínum. Við bjuggum hjá foreldrum hans í Horsens. Árið 2005 hættum við saman og þá ákvað ég að flytja aftur heim til Íslands. Ég fór að vinna á frístundaheimili í Grafarvoginum sem stuðningsfulltrúi og þar starfaði ég í 6 ár.“

Saumaði brúðarkjólinn sjálf
„Ári eftir að ég kom heim kynntist ég manninum mínum, Þórði Birgissyni. Við kynntumst í tvítugsafmælinu mínu en ég og Sandra Rós vinkona mín héldum sameiginlega upp á afmælin okkar.
Við Þórður eignuðumst okkar fyrsta barn, hann Véstein Loga, árið 2009. Þá bjuggum við uppi á Bassastöðum hjá mömmu en árið 2011 fluttum við til Kaupmannahafnar þar sem Þórður fór í nám í tölvunarfræði.
Miðjuprinsinn, Þrándur Ingi, fæddist svo 2012 en þá var ég búin að vera í dönskukúrsum og líkaði vel. Tíminn í fæðingarorlofinu var æðislegur, við bjuggum á Solbakken sem er staðsett við Vesterbro og kynntumst þar mörgu yndislegu fólki sem eru góðir vinir okkar í dag.
Við giftum okkur í júlí 2014 í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn í návist okkar nánustu en þá var ég kasólétt að yngsta prinsinum okkar, Ævari Frey. Ég saumaði brúðarkjólinn sjálf með aðstoð yndislegrar vinkonu minnar, Karenar Óskar, og bjó líka til brúðarvöndinn.“

Hneig niður á gólfið af gleði
„Í mars 2015 tók líf mitt óvænta stefnu því ég greindist með brjóstakrabbamein. Ég var búin að vera með hnúð í brjóstinu í að minnsta kosti ár. Fór til heimilislæknis sem sagði við mig að þetta væri mjög líklega mjólkurkirtill. Hann bað mig að fylgjast vel með hnúðnum og koma aftur ef mér fyndist hann stækka.
Manninum mínum leist ekki á blikuna og bað mig um að fara og láta skoða þetta betur og biðja um að fá að fara í myndatöku. Ég gerði það og þá kom í ljós að þetta var illkynja æxli. Ég fékk algjört sjokk og líf mitt hrundi.
Ég var strax send í myndatöku á lungum og hjarta til að sjá hvort meinið væri búið að dreifa sér. Tveimur dögum seinna fór ég í aðgerð þar sem eitlar voru teknir undir handakrika en áður en ég fór heim fékk ég að vita að engin meinvörp væru komin í lungun og hjartað. Það var mikill léttir, ég hneig niður í gólfið af gleði.
Við fórum heim og skáluðum fyrir góðum fréttum. Mamma var þá komin út til okkar en hún hefur alla tíð verið til staðar fyrir okkur þessi elska.“

Veikindunum tekið af æðruleysi.

Veikindunum tekið af æðruleysi.

Erfiðast var að missa augnhárin
„Innan við viku frá því ég greindist byrjaði strembin lyfjagjöf. Ég fór í átta skipti á þriggja vikna fresti. Dagana fyrir lyfjagjafir þurfti Þórður að sprauta í mig efni til að fyrirbyggja bráðaofnæmi við lyfjagjöfinni en eftir gjafirnar lá ég oftast veik í þrjá daga.
Maðurinn minn sá alveg um strákana okkar og heimilið á meðan ég svaf út í eitt. Hann kvartaði aldrei þessi elska enda er hann þvílíkur eðalklettur.
Ég missti hárið eftir fyrstu gjöfina, Oddný vinkona mín kom út til mín og var hjá mér á þessum tíma. Ég missti ekki einungis hárið heldur öll hár á líkamanum. Verst fannst mér að missa augnhárin en þau eru að koma til baka núna.“

Komu með óvænta gjöf í farteskinu
„Á meðan á lyfjagjöfinni stóð komu yndislegir vinir okkar, Gunnar Ingi og Katrín, í heimsókn og voru með óvænta gjöf í farteskinu.
Fámennur hópur náinna vina var búin að opna styrktarsíðu á Facebook fyrir okkur, við áttum bara ekki til orð.
Á stuttum tíma fór hópurinn úr því að vera 20 manns í 350 þar sem svo margir vildu fá að bætast í hópinn, bæði ættingjar og vinir.
Við verðum öllu þessu fólki ævinlega þakklát, ég veit að ég hefði ekki náð svona góðum og snöggum bata ef þessi síða hefði ekki verið til staðar. Það var svo gott að finna hvað allir voru tilbúnir til að hjálpa, finna sterku straumana, hlýju kveðjurnar og peppin sem við fengum frá fólki úr öllum áttum.“

Margir komu frá Íslandi til að fagna
„Eftir lyfjagjöfina sem stóð yfir í að verða sex mánuði fór ég í brjóstnám. Bæði brjóstin voru tekin þó að krabbameinið hefði aðeins fundist í vinstra brjóstinu og eitlum þar í kring. Hitt brjóstið var tekið til að fyrirbyggja að það gæti komið aftur mein. Ég var í smá tíma að ná mér eftir aðgerðina og nú er loksins hægt að segja að ég sé laus við krabbameinið.
Áður en ég byrjaði í geislameðferðinni fórum við hjónin til Berlínar með góðum vinum. Yndislega tengdamamma mín kom út til okkar til Köben til að passa strákana okkar á meðan.
Við tóku svo 25 skipti í geislunum, sú meðferð gekk vel og ég fékk nánast engar aukaverkanir. Síðustu vikuna í nóvember ákvað ég að halda „Cancer free party“ og komu margir frá Íslandi til að fagna með mér.
Vinkonuhópurinn gaf mér ofboðslega fallegt hálsmen sem gullsmiðurinn Bjarni Bjarkason hannaði fyrir þær. Ég get ekki lýst því með orðum hvað ég er þakklát fyrir vinkonur mínar.“

Ákváðum að eignast ekki fleiri börn
„Í desember fyrir ári síðan fór ég í aðgerð og þá var legið tekið. Við hjónin vorum búin að taka þá ákvörðun að eignast ekki fleiri börn svo þá vildi ég gera allt til að fyrirbyggja að ég fengi krabbamein aftur.
Ég þarf að taka inn Letrozol til að drepa niður öll kvenhormón í líkamanum til að frumurnar nái ekki að fjölga sér. Ég verð á þessum lyfjum næstu 10 árin.“

Ketilbjöllurnar björguðu geðheilsunni
Í byrjun janúar 2016 ákváðu Folda og Þórður að flytja heim til Íslands. Þau leigðu sér íbúð en vinir þeirra og vandamenn sáu til þess að gámurinn með búslóð þeirra kæmist heim.
Þórður starfar í dag hjá Icelandair Hotels sem tæknimaður en Folda er öryrki eftir veikindin. Hún er nú í námi hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum þar sem hún nemur sölu-, markaðs- og rekstrarfræði.
„Líðan mín er með betra móti núna og ég er byrjuð í endurhæfingu. Ég hef verið í hug­rænni atferlismeðferð hjá Krabbameinsfélaginu og svo hef ég verið að æfa með ketilbjöllur hjá Völu og Gauja á Engjaveginum. Þau eru algjört yndi og þessar æfingar hafa gjörsamlega bjargað geðheilsu minni.
Ég hefði ekki getað byrjað endurhæfinguna nema af því að strákarnir fengu pláss í Krikaskóla, ég er svo þakklát fyrir skilningin sem okkur var sýndur þar.“

Tilhlökkun að halda jólin á Íslandi
„Tíminn frá því að við fluttum heim hefur verið yndislegur. Við nutum íslenska sumarsins í botn, fórum í útilegur og í bústaðaferðir og elsti sonurinn byrjaði í fótbolta. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur fjölskyldunni að halda upp á jólin á Íslandi.“
Hvað er fram undan? „Í apríl fer ég í aðgerð sem er uppbygging á brjóstum. Þetta er mjög stór aðgerð sem mun taka um 10 klst og ég mun liggja inni í viku eftir aðgerð ef allt gengur vel. Ég er mjög spennt að sjá hvernig til tekst, það verður gaman að fá kvenlegar línur aftur.“

Mosfellingurinn 22. desember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Öðruvísi jól

heilsumolar_gaua_22des

Við fjölskyldan höfum verið á ferðalagi síðan 1.desember. Í annarri heimsálfu þar sem jólin spila minni og öðruvísi rullu en hjá okkur á Íslandi. Við höfum lítið orðið vör við jólin á flakkinu, einstaka jólaljós og tré, en annars lítið sem ekkert. Jólin verða öðruvísi en venjulega og áramótin sömuleiðis. Við vitum í dag ekki hvað við gerum á þessum stórhátíðardögum. En við vitum að það verða engar rjúpur, ekkert ris a la mande, ekkert jólatré, engin messa í útvarpinu, enginn sítrónufrómas, engir flugeldar – alla vega ekki flugeldar sem við skjótum upp sjálf.

Hefðir eru sterkar og toga í mann. Margar hefðir á Íslandi í kringum aðventuna og jólin eru góðar og gefandi. Aðrar minna gefandi.

Ég skrifa þennan pistil á sundlaugarbakka á flugvallarhóteli í Bangkok. Það er 28 stiga hiti. Mér líður stórkostlega. Aðventan hefur verið frábær. Rólegir, ólíkir og lærdómsríkir dagar. Lífið hefur snúist um að borða, sofa og upplifa eitthvað nýtt. Og mikla samveru með konu og tveimur af börnum okkar. Ég hef sjaldan verið svona afslappaður í desember. Jafn sáttur í eigin skinni.

Jólastress eða ekki, við getum kallað það hvað sem er. Ég er klár á því að spennustigið á Íslandi er mjög hátt í desember. Margir að reyna að gera margt. Halda í hefðir og uppfylla kröfur. Umlykjandi er svo auglýsingflóðið og stanslausa áreitið. Kaupmenn að hvetja okkur til að kaupa gjafir, mat, skreytingar, föt, miða á tónleika og allt hitt. Sumir tækla þetta betur en aðrir. Sumir elska atið.

Fyrir mér er í raun bara eitt sem skiptir virkilega máli á þessum tíma. Fólkið mitt. Ég sakna þeirra sem eru ekki með mér yfir hátíðarnar, en er ótrúlega þakklátur fyrir þann mikla tíma sem ég fæ með þeim sem eru með mér.

Njótum ferðalagsins og þeirra sem taka þátt í því með manni.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. desember 2016

Bæjarbúar geta kosið Mosfelling ársins

mosfellingurarsinsaheimasidu

Val á Mosfellingi ársins 2016 stendur yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Allir Mosfellingar koma til greina í valinu og er öllum frjálst að senda inn tilnefningar hér að neðan. Þetta er í tólfta sinn sem valið fer fram á vegum Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir og Sigrún Þ. Geirsdóttir.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði næsta árs, fimmtudaginn 12. janúar.

 

Hef jákvæðnina að leiðarljósi

mosfellingurinnolofs

Skólar ehf. var stofnað árið 2000 og hóf rekstur ári síðar. Í dag rekur fyrirtækið fimm heilsuleikskóla þar sem mikil áhersla er lögð á heilsueflandi skólastarf undir einkunnarorðunum „heilbrigð sál í hraustum líkama“.
Framkvæmda- og fagstjóri fyrirtækisins er Ólöf Kristín Sívertsen en hún er einnig verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ sem snýst í hnotskurn um það að gera holla valið auðvelt og aðgengilegt.

Ólöf Kristín er fædd í Reykjavík 5. september 1970. Foreldrar hennar eru þau María Hauksdóttir, starfsmaður í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Bjarni Kristinn Sívertsen, tæknifræðingur. Ólöf á tvær systur, þær Ragnheiði fædda 1966 og Guðrúnu Ingu fædda 1976.

Söng í kórum og upplifði ýmis ævintýri
„Ég er alin upp í Vesturbænum, maður var endalaust úti að leika sér í hinum ýmsu leikjum eins og brennó, teygjó, einni krónu og hollí hú. Ég er ekki viss um að krakkar í dag kunni þessa leiki en mér finnst jákvætt að í vinaliðaverkefninu sem er m.a. í Lágafellsskóla er verið að kenna börnunum ýmsa útileiki.
Ég hef haft gaman af söng og tónlist alveg frá því ég var smástelpa. Ég söng í kórum og upplifði ýmis ævintýri en ég held að hápunkturinn hafi verið þegar við sungum inn á plötu með leikaranum Bessa Bjarnasyni.“

Flutti til Eyja eftir stúdentspróf
„Eins og flestir Vesturbæingar fór ég í Melaskóla og svo í Hagaskóla. Þaðan lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands en ég útskrifast þaðan árið 1990. Mér þótti alltaf gaman í skóla, gekk vel námslega og eignaðist marga góða vini.
Að loknu stúdentsprófi flutti ég til Vestmannaeyja og bjó þar í tvö ár. Vann þar m.a. á leikskólanum Kirkjugerði og það var þar sem ég ákvað endanlega að ég ætlaði að verða kennari.“

Að sjá landið með augum ferðamanns
„Ég fór í Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1995, vann á leikskóla í eitt ár og fór síðan í ferðabransann. Þar vann ég við að skipuleggja hvataferðir, ráðstefnur og fundi, aðallega fyrir útlendinga á Íslandi. Þetta var afskaplega skemmtilegur tími.
Ég náði mér líka í leiðsögumannaréttindi og upplifði hversu mikil forrréttindi það eru að sjá landið með augum ferðamannsins.“

Vil hjálpa börnum að líða betur
„Það var lán mitt í lífinu að kynnast manninum mínum, Sævari Kristinssyni rekstrarráðgjafa en við höfum verið saman í fjórtán ár. Ég eignaðist líka tvo fóstursyni, þá Halldór Inga fæddan 1989 og Gísla fæddan 1980. Við Sævar fluttum í Mosfellsbæ árið 2004.
Eftir sjö ár í ferðabransanum fór ég að kenna í Hagaskóla. Það var virkilega gaman að kenna með mörgum af gömlu kennurunum sínum. Þar áttaði ég mig á því að ég vildi geta gert enn meira til að hjálpa börnum til að líða betur og því ákvað ég að skrá mig í meistaranám í lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist árið 2007.“

Forseti Íslands verndari verkefnisins
„Að námi loknu verkstýrði ég Forvarnadeginum sem þá var haldinn í annað skiptið í öllum 9. bekkjum á Íslandi. Forseti Íslands er verndari verkefnisins og var virkilega gaman að sjá hversu virkan þátt Ólafur Ragnar Grímsson tók í verkefninu enda var málefnið honum hugleikið.
Í byrjun árs 2008 hóf ég störf hjá HR en stuttu seinna uppgötvaði ég að ég var orðin ólétt. Það var okkur Sævari mikið gleðiefni og þarna datt ég í þann stærsta lukkupott sem ég hafði nokkurn tímann lent í, því ég varð ekki bara ólétt heldur varð ég ólétt að tvíburum. Strákarnir okkar, Kristinn Þór og Ólafur Haukur, eru 8 ára gamlir í dag.“

Heilbrigð sál í hraustum líkama
„Árið 2010 fór ég að vinna sem deildarstjóri á einum af heilsuleikskólum Skóla ehf. og hef starfað hjá félaginu síðan. Skólar ehf. reka fimm heilsuleikskóla í jafnmörgum sveitarfélögum og frá 2011 hef ég verið fagstjóri yfir öllum þeim skólum og tók auk þess nýverið við stöðu framkvæmdastjóra sem ég gegni samhliða starfi fagstjóra. Einkunnarorð okkar eru heilbrigð sál í hraustum líkama.“

Snýst um að gera holla valið auðvelt
Ólöf tók þátt í stofnun heilsuklasans Heilsuvinjar árið 2011 og var meðal þeirra frumkvöðla hjá Heilsuvin sem ýttu verkefninu Heilsueflandi samfélag úr vör í samvinnu við Embætti landlæknis og sveitarfélagið Mosfellsbæ. „Ég hef verið verkefnisstjóri þessa metnaðarfulla og spennandi verkefnis hér í bæjarfélaginu sem snýst í hnotskurn um það að gera holla valið auðvelt og aðgengilegt og gera fólki þannig kleift að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
Áhersluþættir verkefnisins snúa allir að áhrifaþáttum heilsu og eru þeir næring og mataræði, hreyfing og útivist, líðan og geðrækt og svo í lokin bætum við ýmsum varnarþáttum við og hnýtum þetta allt saman í áhersluþætti sem við köllum lífsgæði.
Við höfum unnið að ýmsum verkefnum eins og næringarráðgjöf til veitingastaða og verslana í bænum, komið að hreyfiverkefninu „Væntumþykja í verki“ fyrir eldri borgara, stofnað heilsueflandi skólahóp þvert á skólastigin og átt í góðu samstarfi við Ferðafélag Íslands ásamt ýmsu fleiru.“

Tilnefnd til Samfélagsverðlauna
„Ég er afskaplega stolt af því að Mosfellsbær skuli vera fyrsta sveitarfélagið sem fer í þá markvissu vinnu að byggja upp Heilsueflandi samfélag. Búa þannig til fyrirmynd sem önnur sveitarfélög geta og hafa nýtt sér en nú þegar hafa átta önnur sveitarfélög ákveðið að hefja þessa vegferð að vellíðan íbúa sinna sem er mikið fagnaðarefni.
Hápunkturinn á mínum ferli til þessa er tilnefning til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins fyrr á þessu ári. Þar var ég tilnefnd í flokknum „Frá kynslóð til kynslóðar“ fyrir mikið og faglegt starf við eflingu lýðheilsu í skólakerfinu og samfélaginu öllu.
Það er meðal annars á svona augnablikum sem hlutirnir öðlast skýran tilgang og hjarta manns fyllist af auðmýkt, gleði, stolti og þakklæti.“

Hlakkar til að njóta framtíðarinnar
„Þegar ég lít yfir lífshlaup mitt get ég svo sannarlega glaðst og verið þakklát fyrir svo óendanlega margt. Auðvitað hef ég upplifað hæðir og lægðir eins og allir aðrir en ég hef reynt að temja mér að hafa jákvæðnina að leiðarljósi í lífinu og horfa á lausnirnar og tækifærin frekar en hindranirnar.
Maður er einhvern veginn betur við stjórnvölinn í sínu eigin lífi þegar maður velur sér viðhorf og ákveður að bregðast á meðvitaðan hátt við þeim áskorunum sem lagðar eru fyrir mann á lífsleiðinni.
Ég er ótrúlega spennt yfir því hvað framtíðin ber í skauti sér, hlakka til að njóta hennar með þeim sem ég elska og hlakka til að takast á við enn fleiri spennandi og krefjandi verkefni til að efla heilsu og vellíðan landans,“ segir Ólöf Kristín og brosir sínu fallega brosi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 1. desember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Áætlað að opna ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi

leikskolafrett

Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem nú liggur fyrir bæjarstjórn er gert ráð fyrir talsverðu fjármagni til að auka þjónustu við börn á aldrinum 1 til 2 ára.

Ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi
Verið er að leggja til að boðið verði upp á fjölbreytt form á vistun fyrir ung börn og að þjónustan verði þríþætt.
Það er í fyrsta lagi pláss hjá dagforeldrum bæjarins. Í öðru lagi hefur Mosfellsbær gert samninga við einkarekinn ungbarnaleik­skóla um að 10 pláss verði frátekin fyrir börn frá Mosfellsbæ og fleiri samningar eru í skoðun. Í þriðja lagi verði starfræktar tvær ungbarnadeildir á leikskólum bæjarins þar sem tekið verður inn eftir innritunarreglum leikskóla Mosfellsbæjar. Önnur deildin verður á Huldubergi og hin á Hlíð. Þær taki samtals á móti 28 börnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Samræming á gjaldtöku
Auk þessa er gert ráð fyrir breytingum á aldri barna þegar kemur að úthlutun í leikskóla. Sá aldur yrði færður frá 24 mánaða niður í 18 mánaða, tekið inn eftir innritunarreglum leikskóla. Einnig er lagt til að öll gjöld verði samræmd á þann hátt að fram að 18 mánaða aldri barns greiði foreldrar sama gjald fyrir ungbarnaþjónustu, óháð þjónustuformi, en eftir það almennt leikskólagjald.
Lagt er til að verkefnið verði þróunarverkefni til eins árs. Staða verkefnis verður metin annan hvern mánuð og í heild sinni við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018. Viðbótarkostnaður við þessa þjónustubreytingu er áætlaður um 40 milljónir króna.

Útfærsla sem felur í sér val
„Ánægjulegt er að geta svarað kalli foreldra um hærra þjónustustig við yngstu íbúana,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þetta tímabil er viðkvæmt hjá flestum fjölskyldum og mikilvægt að hlúa vel að því. Ég er sérlega ánægður með að útfærslan feli í sér sveigjanleika, fjölbreytni og ekki síst valfrelsi.“