Ungmennahús Mosfellsbæjar opnar í Framhaldsskólanum

Úlfar Darri, Björn, Embla Líf og Ásdís.

Hluti af nýju húsráði Ungmennahússins: Úlfar Darri, Björn, Embla Líf og Ásdís.

Ungmennahús Mosfellsbæjar hefur verið opnað í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Þar er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára að hittast og byggja upp öflugt og fjölbreytt félagsstarf.
Markmið Ungmennahússins eru meðal annars að veita ungu fólki aðstöðu og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Bjóða upp á heilbrigðan og vímuefnalausan valkost til afþreyingar ásamt því að opna á tækifæri fyrir ungt fólk fyrir Evrópusamstarf.

Fundir aðra hverja viku
Nú þegar hefur verið stofnað húsráð sem hefur fjölbreytt hlutverk. Sem dæmi má nefna skipulagningu opnunartíma, umsjón viðburða ásamt því að hvetja ungt fólk til áhrifa í Mosfellsbæ.
Húsráðið er opið fyrir alla og fundar aðra hverja viku og eru fundir auglýstir á facebook-síðu Ungmennahússins. Allir sem hafa áhuga á að taka þátt í að móta og hafa áhrif á hvað er gert fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ eru hvattir til að mæta.

Lasertag og hamborgarar
Fyrsti viðburður Ungmennahússins verður þann 4. október klukkan 18:00 í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Farið verður í lasertag og síðan verða grillaðir hamborgarar. Ef þú ert á aldrinum 16-25 og vilt vera með í að móta starfsemina þá hvetjum við þig til að mæta á þennan fyrsta viðburð þér að kostnaðarlausu.

SAMKEPPNI
Ákveðið hefur verið að efna til samkeppni um nafn og lógó fyrir Ungmennahúsið. Allar hugmyndir og tillögur sendist á hrafnhildurg@mos.is.

Ný framtíðarsýn og áherslur Mosfellsbæjar

Hjá Mosfellsbæ starfa um 650 manns.

Hjá Mosfellsbæ starfa um 650 manns.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Að veita þjónustu sem mætir þörfum, vera til staðar fyrir fólk og þróa samfélagið í rétta átt er leiðarljósið í stefnu og framtíðarsýn Mosfellsbæjar sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum 20. júlí sl.
Stefnan er afrakstur vinnu sem stóð yfir frá því snemma í vor og skiptist stefnan í þrjá áhersluflokka og níu áherslur sem munu móta og stýra starfsemi Mosfellsbæjar til næstu ára.
Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra var Mosfellsbær fyrst sveitarfélaga hérlendis til þess að marka sér heildstæða stefnu um það hvernig starfsmenn leysa sín verkefni í þágu íbúa og hvernig þeir styðja kjörna fulltrúa við að koma stefnu málaflokka í framkvæmd. Sú stefnumörkun átti sér stað árið 2007 og kominn var tími til þess að endurtaka leikinn.

Mosfellsbær er einn vinnustaður
„Gildi Mosfellsbæjar voru mótuð árið 2007 og hafa nýst okkur við að búa til einn vinnustað,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Við lítum á bæjarskrifstofurnar og stofnanir bæjarins sem heild og þá er gott að vinna með sameiginleg gildi. Við unnum saman að því að þróa gildin okkar áfram haustið 2016 og létum þau því halda sér í þeirri vinnu sem fram fór í vor en mótuðum í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur framtíðarsýn og áherslur til ársins 2027.“

Snjöll, meðvituð og sjálfbær
„Áhersluflokkarnir í stefnu Mosfellsbæjar eru rétt þjónusta, flott fólk og stolt samfélag. Undir þessum flokkum setjum við fram níu áherslur. Við viljum vera persónuleg, skilvirk og snjöll. Einnig samstarfsfús, framsækin og meðvituð. Loks viljum við vera eftirsótt, heilbrigð og sjálfbær.
Þegar við segjumst vilja vera snjöll þá ætlum við að nýta snjallar lausnir og spara íbúum sporin með rafrænni þjónustu, auka þannig aðgengi að þjónustu og hafa um leið jákvæð umhverfisleg áhrif.
Við erum meðvituð um að mikilvægt sé að vera til fyrirmyndar varðandi rekstur og þróun starfseminnar og að sveitarfélagið sé rekið af ábyrgð og þannig afhendum við reksturinn til komandi kynslóða.
Með því að vera sjálfbær leggjum við þá áherslu að láta umhverfið okkur varða, sinna málaflokknum af kostgæfni og tryggja að nálægð okkar við náttúruperlur sé nýtt samfélaginu til góðs.“

Að mæta þörfum nýrra íbúa
Eitt af því sem þátttakendum í vinnunni var hugleikið var sú fjölgun íbúa sem mun verða næstu misserin og mikilvægi þess fyrir íbúa, kjörna fulltrúa og starfsmenn að vel takist til við að nýta það tækifæri.
„Við leggjum því áherslu í stefnunni á að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það sé sameiginlegt verkefni íbúa, kjörinna fulltrúa og starfsfólks að svo verði,“ segir Haraldur að lokum.

Framtíðarsýn Mosfellsbæjar
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið
í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.

Útiæfingatæki tekin í notkun

æfingatæki

Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Hugmyndasöfnun og kosning fóru fram fyrri hluta árs. Kosin voru 10 verkefni og eru þau öll komin af stað, ýmist lokið eða langt komin.
Stekkjarflöt útivistarparadís fékk flest atkvæði íbúa. Þar er búið að koma upp strandblakvelli og vatnsbrunni.
Útileikvöllur fyrir fullorðna var verkefni sem gerði ráð fyrir líkamsræktartækjum fyrir fullorðna. Tækin eru nú komin upp og tilbúin til notkunar á græna svæðinu við Klapparhlíð.
Meðal annarra verkefna má nefna að búið er að setja upp ungbarnarólur á opin leiksvæði við Víðiteig, Hrafnshöfða, Furubyggð og Rauðumýri. Þá eru komnir bekkir fyrir eldri borgara og aðra íbúa við Klapparhlíð, verið er að undirbúa göngustíg gegnum Teigagilið og endurbætur á göngubrúm við Varmá og við Eyri eru í undirbúningi. Búið er að lagfæra og snyrta gróður á göngugötunni fyrir aftan Þverholt og hönnun á fuglafræðslustíg meðfram Leirvoginum er langt komin.

Neil Warnock

Heilsumolar_Gaua_28sept

Ég las viðtal á fotbolti.net um daginn við Neil Warnock, knattspyrnustjóra Cardiff, liðsins sem Aron Einar fyrirliði íslenska landsliðsiðsins spilar með dags daglega. Neil er grjótharður og hefur alltaf verið, þess vegna var einmitt mjög áhugavert að lesa þetta viðtal. Þar sagði kappinn að hann hefði engan áhuga á að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni (Cardiff er í næstefstu deild), pressan þar væri ómanneskjuleg. Hann sagði að aðrir hlutir væru mikilvægari, til dæmis heilsan og fjölskyldulífið.

Ég er sammála Neil Warnock. Við verðum að passa okkur á að láta ekki vinnu og verkefni taka allan okkar tíma og láta fjölskylduna, vinina og heilsuna mæta afgangi. Það gengur bara ekki upp til lengdar, eitthvað mun undan láta. Heilsan, fjölskyldan og/eða vinnan.

Ég er undanfarið búinn að vera að ræða við fólk sem vinnur mjög mikið. Fólk sem er nánast í vinnunni allan sólarhringinn, alla daga, og finnst það næstum því bara vera allt í lagi. Af því álagið sé svo mikið og það þurfi að klára verkefnin. Annars liggi verkefnin bara ókláruð. Og, stundum líka, af því það fær svo há laun. Því hærri laun, því meiri pressa. Alveg eins og í enska fótboltanum. Launin eru hæst í úrvalsdeildinni.

Fólk sem er á mjög háum launum á erfitt með að segja nei þegar vinnuveitandinn hringir á miðnætti á laugardagskvöldi og pantar skýrslu sem verði að vera tilbúin snemma á mánudagsmorgni. Þá er bæði svefn og samvera með fjölskyldunni sett í annað sæti. Vinnan alltaf í það fyrsta. Sama hvað.

Hamingjan felst ekki alltaf í hærri launum. Stundum er betra að hafa lægri laun og meiri lausan tíma. Hafa lífið í betra jafnvægi. Endum þetta á beinni tilvitnun í Neil, nýja besta vin minn: „Þú getur ekki sett verðmiða á góða heilsu, hamingju og fjölskyldu. Sama hver þú ert.“

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. september 2017

Arnar Hallsson ráðinn þjálfari meistaraflokks

Arnar Hallsson og Ásbjörn Jónsson.

Arnar Hallsson nýr þjálfari meistaraflokks karla og Ásbjörn Jónsson formaður meistaraflokksráðs.

Arnar Hallsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu. Liðið leikur í 2. deild og hefur gert síðustu ár. Afturelding endaði í 4. sæti í sumar undir stjórn Úlfs Arnars Jökulssonar. Síðast fór liðið upp um deild árið 2008.
„Ég er búinn að hafa augastað á þessu félagi í talsverðan tíma,“ segir Arnar Hallsson sem hefur unnið sem þjálfari yngri flokka síðustu ár. „Mig hefur langað til að þjálfa meistaraflokk hjá félagi sem hefði rætur og efnivið til að vinna úr. Það freistaði mín þegar ég sóttist eftir þessari stöðu.
Sjálfur var ég leikmaður hjá Víkingi og ÍR þangað til ég fótbrotnaði og fór í langa pásu. Ég byrjaði að þjálfa 2010 sem aðstoðarþjálfari hjá ÍR. Svo var ég yfirþjálfari hjá Víkingi og síðustu þrjú ár hef ég verið hjá HK.“

Í Pepsi-deild eftir fjögur ár
„Þetta verður frumraun mín sem meistaraflokksþjálfari og þá má kannski segja að sem betur hafi tækifærið ekki komið fyrr.
Ég er búinn að vera undirbúa mig síðustu 6 ár, læra fullt af hlutum og gera aragrúa af mistökum. Þannig að ég held að þetta komi á hárréttum tíma.
Ég er tilbúinn að gefa mikið og hjálpa þessum strákum að verða betri í fótbolta. Niðurstaðan verður sú að við munum fara upp um deild og gera okkur gjaldgenga í næstu deild fyrir ofan. Ég vil fara upp í Pepsi-deild eftir 4 ár og held ég að efniviðurinn sé til staðar hjá okkur.
Nú er bara verkefni fyrir alla Mosfellinga að aðstoða okkur við að skapa umgjörð sem verður skemmtileg og glæsileg.
Okkar í hópnum bíður svo að leggja hart að okkur og skemmta fólki með góðum fótbolta og góðum úrslitum. Svo er mikilvægt að aðstöðumál hér í Mosfellsbæ fylgi í kjölfarið, þau þarf að bæta.
Mikilvægustu leikmennirnir eru þeir sem eru til staðar hjá félaginu. Svo er hægt að bæta í hópinn einni til tveimur skrautfjöðrum, eins og flestir þjálfarar vilja. Bæta þá við leikmönnum sem eru nógu góðir fyrir næstu deild fyrir ofan.“

Ætlum okkur stóra hluti
„Ég þekki Arnar frá því ég spilaði með honum í ÍR,“ segir Ásbjörn Jónsson formaður meistaraflokksráðs. „Hann er besti maðurinn til að koma mönnum í réttan gír fyrir leiki. Alla vega sem leikmaður og ég efast ekki um að það verði eins sem þjálfari.
Svo hef ég séð til hans sem þjálfara og liðin hans spila yfirburðabolta. Nafnið hans kom strax upp í hugann á mér þegar leitin að þjálfara hófst.
Án þess að gera nokkuð lítið úr fyrri þjálfurum erum við í talsvert betri málum í dag í rekstri klúbbsins og ætlum okkur stóra hluti.
Ég er sammála Arnari að við ætlum okkur upp um deild á næsta ári.“

Tvær hleðslustöðvar teknar í notkun

Frátekin stæði fyrir  rafbíla við Varmárlaug og Lágafellslaug.

Frátekin stæði fyrir rafbíla við Varmárlaug og Lágafellslaug.

Settar hafa verið upp tvær hleðslustöðvar fyrir rafbíla í Mosfellsbæ. Önnur er staðsett við íþróttamiðstöðina Lágafell og hin við íþróttamiðstöðina að Varmá. Sú þriðja verður sett upp innan skamms við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
Stöðvarnar eru merktar Mosfellsbæ og Ísorku, sem er í eigu Íslenska gámafélagsins. Þær eru snúrulausar og af gerðinni ­Circontrol eVolve og eru 2×22 kW AC.
Mosfellsbær og Íslenska Gámafélagið undirrituðu í sumar samning til þriggja ára um að Íslenska Gámafélagið setji upp og reki þrjár hleðslustöðvar sem geta hlaðið allar gerðir rafbíla á Íslandi. Áætluð verklok voru í janúar 2018 en uppsetning stöðvanna hefur gengið framar vonum og því var verklokum flýtt um nokkra mánuði. Mosfellingar geta nú hlaðið rafbíla sina á helstu viðkomustöðum í bæjarfélaginu.

Bæjarleikhúsinu breytt í jazzklúbb

xxx x

Allt önnur Ella verður frumsýnd í Bæjarleikhúsinu föstudaginn 29. september.

Nú eru hafnar æfingar í Bæjarleikhúsinu á sýningu sem er samstarfsverkefni tónlistarskólans og leikfélagsins. Sýningin kallast „Allt önnur Ella“ og er að mestu byggð á tónlist Ellu Fitzgerald.
Leikhúsinu verður breytt í jazzklúbb á sjöunda áratugnum og tónlistaratriði fléttast saman við leikin atriði. Leikhúsgestir sitja við borð í salnum og upplifa kvöldstund þar sem þeir ferðast aftur í tímann, njóta góðrar tónlistar og verða vitni að ýmsum fyndnum og skemmtilegum atvikum.
Leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir og um tónlistarstjórn sjá Sigurjón Alexandersson og Heiða Árnadóttir. Frumsýning verður föstudaginn 29. september kl. 20 og sýningar verða á föstudögum. Miðasala er í síma 566-7788. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með undirbúningi á Facebook, Instagram og Snapchat.

Setur upp rokktónleikasýningu

Greta Salóme stendur fyrir hrollvekjandi rokktónleikum.

Greta Salóme stendur fyrir hrollvekjandi rokktónleikum.

Greta Salóme stendur í stórræðum þessa dagana ásamt góðum hópi af hæfileikaríku fólk en þau eru að setja á svið tónleikasýningu sem nefnist Halloween Horror Show.
„Þessi hugmynd er búin að blunda lengi í mér. Þegar ég var að vinna með Disney þá kynntist ég því hvernig hægt væri að blanda saman alls konar tilefnum og tónlist. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Halloween og mér hefur fundist vanta alvöru viðburð í kringum hrekkjavökuna á Íslandi. Fólk er í auknum mæli farið að halda Halloweenpartý en nú gefst öllum tækifæri á að koma á alvöru hryllings rokktónleikasýningu,“ segir Greta Salóme sem er framleiðandi sýningarinnar.

Öllu tjaldað til í Háskólabíói
Auk Gretu Salóme koma fram á sýningunni Eyþór Ingi, Salka Sól, Stebbi Jak, Andrea Gylfa, Selma Björns, Sirkus Íslands, Ólafur Egill, stórsveit Todmobile, kór og dansarar.
„Ég myndi segja að þetta sé 70% söngur og 30% dans en við leggjum rosalega mikið í þessa sýningu. Ég fullyrði að þessi tónleikasýning á sér enga hliðstæðu á Íslandi. Við munum flytja lög eins og Highway to Hell, Zombie, Thriller, lög úr Litlu Hryllingsbúðinni og Rocky Horror og margt fleira.“

Vegleg verðlaun fyrir flottustu búningana
Sýningin verður í Háskólabíó 28. október og á undan verður boðið upp á fordrykk í samstarfi við Partýbúðina með alls kyns ­uppákomum. „Það er sýning kl. 20 en það er eiginlega uppselt á hana þannig að við vorum að bæta við sýningu kl. 22:30 og fer miðasala fram á Tix.is. Ég hvet alla til mæta í búningum en það verða vegleg verðlaun fyrir þá flottustu,“ segir Greta Salóme.

Veiðimaður og bóndi í hjarta mínu

bæjarlistamaður2017

Davíð Þór er meðal fjölhæfustu tónlistarmanna landins, jafnvígur á píanóleik, spuna, tónsmíðar og hljómsveitarstjórn auk þess sem hann leikur á ógrynni hljóðfæra. Hann hefur leikið með flestum tónlistarmönnum landsins og spilað á tónlistarhátíðum um allan heim.
Mosfellsbær útnefndi Davíð Þór bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017 á dögunum en viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hlégarði.

Davíð Þór Jónsson er fæddur á Seyðisfirði 27. júní 1978. Foreldrar hans eru þau Jenný Ásgerður Magnúsdóttir listakona, húsfreyja og skautritari og Jón Þórir Leifsson vélsmiður og lögreglumaður. Davíð á þrjá bræður, Daníel, Leif og Arnar.

Fékk að vera frjálst barn
„Ég flutti frá Seyðisfirði til Akraness þegar ég var þriggja ára gamall. Þegar ég hugsa til æskuáranna á Skaganum þá er það brimið við Traðarbakkakletta, rauðmagi, hrogn og lifur, mamma syngjandi og þríhjólareiðtúr á Kothúsatúninu sem stendur upp úr.
Frá unga aldri sinnti ég heimilis- og ­bústörfum ásamt því að leggja net með föður mínum.
Ég fékk að vera frjálst barn þar sem ég gat leikið lausum hala um götur og fjörur bæjarins. Ég fór líka mörg sumur í sveit í Andakíl í Borgarfirði og átti það mjög vel við mig í alla staði.
Ég gekk í Brekkubæjarskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands.“

Starfið hefur margar birtingamyndir
„Tónlist var hluti af daglegu lífi þar sem var sungið, spilað á gítar eða leikið á potta og pönnur. Ég var níu ára þegar ég fór í fyrsta píanótímann í Tónlistarskóla Vesturlands. Ég fékkst ekki til að fara fyrr en ég frétti að Sveinn Rúnar æskuvinur minn ætlaði að skella sér í tíma, þá fór ég líka. Í kjölfarið lærði ég svo á saxafón í 10 ár. Þarna var ekki aftur snúið því líf mitt hefur meira og minna snúist um tónlist síðan.
Ég byrjaði að vinna fyrir mér sem tónlistarmaður þegar ég var 14 ára gamall og hef starfað við það síðan. Starf mitt hefur margar birtingarmyndir, allt frá því að leika á harmonikkuballi í Dölunum yfir í það að leika í kvikmynd í Úkraínu.“

Gaf út sína fyrstu sólóplötu
Davíð Þór stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og fór í skiptinám til Þrándheims á vegum skólans og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask.
Hann hefur gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda leiksýninga, Tengdó, Hrærivélina, söngleikinn Leg, Baðstofuna, Héra Hérason, Manntafl, Mýs og menn, Dagbók djasssöngvarans og síðast Húsið sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Hann hefur einnig tónsett útvarpsleikrit og sjónvarpsverk af ýmsu tagi auk þess að semja tónlist fyrir dansverk.
Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með flestum þekktari tónlistarmönnum landsins. Hann hefur einnig unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum og mætti þar helst nefna Ragnar Kjartansson, en saman sköpuðu þeir tónlistar- og myndbandsverkin „The End“, framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009 og „Guð“. Davíð samdi og útsetti tónlistina og flutti ásamt Ragnari og hljómsveit.
Davíðs Þór hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss hefur verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.

Nýtur lífsins í Álafosskvosinni
Davíð Þór er kvæntur Birtu Fróðadóttur arkitekt og saman eiga þau dótturina Silfru sem er átján mánaða gömul. Ég spyr Davíð út í föðurhlutverkið. „Það er bæði stærsta verkefnið og jafnframt það dásamlegasta í lífi mínu og kemur manni sífellt á óvart.“
Fjölskyldan er búsett í Álafosskvosinni þar sem Davíð er einnig með vinnustofu. Davíð segir Kvosina vera dásamlegt lítið þorp þar sem fólk talar mannamál, verkar fugl og fisk á víxl og tekur einn dag í einu.
„Við Birta erum forvitnir eldhugar og elskum að ferðast og nema ný lönd, kynnast nýju fólki og læra af því. Við höfum mikið dálæti á að vera undir Snæfellsjökli og þar höfum við átt töfrastundir. Aðráttaraflið þar er það sama og á við um tónlist, það er hið ósýnilega. Við göngum einnig til rjúpna saman í leit að kyrrðinni.“

Minnir mann á að halda áfram að skapa
Mosfellsbær útnefndi Davíð Þór bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017 á dögunum en viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hlégarði. En hvaða þýðingu hefur það að vera bæjarlistamaður Mosfellsbæjar? „Það er mikill heiður og vissulega hefur það jákvæða þýðingu í hvívetna. Þetta minnir mann á að halda áfram að skapa og gefa af sér eins og kostur er á.
Ég mun láta gott af mér leiða áfram og munu nokkrir viðburðir líta dagsins ljós hér í bæ nú í vetur á hinum ýmsu vel völdu stöðum. Nánari staðsetning og tími kemur í ljós síðar.“

Kona fer í stríð
Um þessar mundir er Davíð Þór að vinna að tónlist fyrir nýjustu kvikmynd Benedikts Erlingssonar sem ber heitið Kona fer í stríð, en hún er um konu sem vill bjarga heiminum og hefur fundið lausnina til þess. Tónlistin er meðal annars unninn í Sundlauginni, hljóðveri í Álafosskvos, en þar vinnur Davíð mikið að listsköpun sinni.
„Þrátt fyrir allt þetta hafarí þá er ég samt veiðimaður og bóndi í hjarta mínu og tel að æðsta markmiðið sem maður hefur í lífinu sé að verða góð manneskja,“ segir Davíð að lokum.

Mosfellingurinn 7. september 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Gefur út heilsudagbók

Anna Ólöf gefur út 6 vikna ódagsetta dagbók með áherslu á bættar lífsvenjur.

Anna Ólöf gefur út 6 vikna ódagsetta dagbók með áherslu á bættar lífsvenjur.

Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir hefur gefið út dagbók sem hún nefnir Heilsudagbókin mín. Í vor hlaut Anna Ólöf þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellbæjar fyrir það verkefni.
„Ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í langan tíma og var búin að gera margar útfærslur af bókinni áður en endanleg útkoma varð til. Heilsudagbókin er heildræn nálgun á bættar lífsvenjur, þar sem lögð er áhersla á hreyfingu, mataræði og ekki síst huglæga eða andlega vinnu,“ segir Anna Ólöf en heilsudagbókin er 6 vikna ódagsett dagbók.

Hlaut þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellsbæjar
„Það skipti mig miklu máli að hljóta þessa viðurkenningu, þá aðallega að fá jákvæð viðbrögð á bókina. Ég hannaði bókina í rauninni sem verkfæri fyrir mig til að öðlast betri heilsu og þannig aukin lífsgæði. Það er því ánægjuleg viðbót ef bókin getur hjálpa öðrum.
Bókin er einföld í notkun og hentar í raun öllum sem langar að bæta líf sitt. Lögð er áhersla á að fólk fari aðeins inn á við og finni hvað það er sem það vill fá út úr lífinu og hvað það er sem raunverulega veitir meiri hamingju.“

Frábærar viðtökur
„Ég ákvað til að byrja með að selja bókina í gegnum Facebook-síðuna Heilsudagbókin mín, en svo stefni ég á koma henni í sölu á einhverjum útsölustöðum. Bókin kostar kr. 2.900 en verður á kynningartilboði til 15. september á aðeins 2.500 kr.
Ég er eiginlega orðlaus yfir viðtökunum sem bókin hefur fengið. Ef einhverjir hafa áhuga á að vita meira eða jafnvel verða sér út um Heilsudagbók þá endilega hafið samband við mig,“ segir Anna Ólöf að lokum.

Nýjung í lestri örmerkja í dýrum

anitar

Nýsköpunarfyritækið Anitar er komið langt með þróun á örmerkjalesara til að auðvelda skráningu og utanumhald húsdýra. Lesarinn ber heitið The Bullet og er notaður samhliða snjallsímaforriti.
Með þessari samsetningu á lesaranum og snjallsímaforritum verður hægt að skanna og vinna með upplýsingar um fjölda dýra, svo sem hesta, hunda og svín.

Byggt á eigin reynslu
Mosfellingurinn Karl Már Lárusson er stofnandi Anitar: „Ég var úti í haga að sækja hest og sá þá menn sem voru í erfiðleikum með að finna réttan hest.
Mér þótti fyndið að fylgjast með þessu en karmað bítur mann yfirleitt í bakið og ég rölti í burtu með rangan hest þennan sama dag. Í ljósi reynslunnar ákvað ég að setja saman hóp fólks og reyna að finna einfalda lausn á vandamálinu.“

Hópfjármögnun komin langt
Nú stendur yfir hópfjármögnun á vefsíðunni Kickstarter.com og vonast Karl til að safna 40.000 dollurum svo hægt sé að hefja framleiðslu. Hægt er að styðja við verkefnið og forpanta eintak af örmerkjalesaranum til 8. september.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á www.anitar.is en Anitar stendur fyrir Ani­mal Intelligent Tag Reader.

Umhverfisviðurkenningar veittar Í túninu heima

Frá afhendingu viðurkenninga. Hjörtur Þór, Bára og Valdimar frá Flugklúbbi Mosfellsbæjar, Erla Þorleifsdóttir Arnartanga 25 og María og Erich Hamarsteigi 5.

Hjörtur Þór, Bára og Valdimar frá Flugklúbbi Mosfellsbæjar, Erla Þorleifsdóttir Arnartanga 25 og María og Erich Hamarsteigi 5.

Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar voru afhentar við hátíðlega athöfn í Hlégarði á bæjarhátíðinni „Í túninu heima“. Umhverfisviðurkenningarnar eru veittar þeim aðilum sem taldir eru hafa skarað fram úr í umhverfismálum á árinu.
Flugklúbbur Mosfellsbæjar fær viðurkenningu fyrir snyrtilegt svæði þar sem umgengni og umhirða eru til fyrirmyndar. Erla Þorleifsdóttir og Sævar Arngrímsson fá viðurkenningu fyrir fallegan garð að Arnartanga 25 þar sem blandað er skemmtilega saman gróðri og hönnun, garðurinn er vel sýnilegur vegfarendum. María Hákonardóttir og Erich Hermann Köppel fá viðurkenningu fyrir fjölskrúðugan og fallegan garð að Hamarsteigi 5 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um árabil.

xxxx

Tungubakkaflugklúbbur við Leirvog í Mosfellsbæ. 

ccc

Fallegur garður í Arnartanga 25.

ddd

María og Erich í Hamarsteig 5.

Hvíld

gaui7sept

Ég hef skrifað um svefn og hvíld áður, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hugsanlega ætti ég alltaf að skrifa um mikilvægi þess að hvíla sig, það er svo mikilvægt. Sérstaklega á þessum árstíma þegar allt fer á flug.

Vinna, skóli, áhugamál, lífið. Ég fíla kraftinn í haustinu og finnst gaman að takast á við spennandi verkefni en ég finn líka að ég þarf að passa vel upp á mig. Ég svaf til dæmis ekki of vel síðustu nótt, hausinn vildi ekki slaka á, hann var of upptekinn við að velta fyrir sér komandi dögum. Hvað ég væri að að fara að gera og hvernig ég ætlaði að gera hlutina. Ástæðan fyrir þessu er sú að ég var ekki búinn að undirbúa mig nógu vel, leggja línurnar þannig að hausinn þyrfti ekki að standa í þessu næturbrölti.

Ég hefði betur fylgt eigin ráði, að skrifa nákvæmlega niður allt það sem er fram undan hjá mér og hvernig ég ætla að gera hlutina. Ég fór langt með það, en kláraði ekki verkefnið og því fór sem fór. En það þýðir ekki að velta sér upp úr þessari miður góðu hvíld, ég klára þennan dag eins vel og ég get, reyni að ná mér í einn lúr einhvers staðar yfir daginn og passa mig svo á að koma betur undirbúinn inn í nóttina í kvöld.

Hreyfing og líkamleg áreynsla skiptir sömuleiðis miklu máli varðandi góðan svefn, við sofum best þegar við erum búin að taka þokkalega vel á því yfir daginn. Nóg er af tækifærunum til þess hér í Mosfellsbæ. Að lokum langar mig að hvetja unga og efnilega íþróttakrakka í Mosfellsbæ að nýta sér til fullnustu þau frábæru tækifæri sem bjóðast í bænum. Gera enn betur í túninu heima áður grasið græna hinu megin við lækinn er skoðað.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. september 2017

Opna ævintýralega gjafavöruverslun

evita

Hjónin Ágústa Pálsdóttir og Haukur Hafsteinsson opnuðu í byrjun ágúst gjafa- og lífsstílsverslunina Evíta að Háholti 14.
„Evíta er falleg búð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Við erum með fjölbreytta og árstíðbundna gjafavöru og búðin er aldrei eins.
Mikið úrval er hjá okkur af kertum, kertastjökum, luktum og allskyns dúllerí og fínerí fyrir falleg heimili. Svo reynum við alltaf að vera með góð tilboð í gangi,“ segir Ágústa en Evíta hefur verið starfrækt á Selfossi síðustu 7 ár.

Ævintýraleg Evíta
„Evíta er ævintýraleg búð þar sem fólk þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða og njóta. Ég er búin að reka búðina í eitt ár en áður var hún á Selfossi.
Viðskiptavinahópurinn okkar er stór og fjölbreyttur. Við búum hér í Mosfellsbæ og fannst því tilvalið að opna hér og færa okkur nær okkar helsta kúnnahóp. Við flytjum sjálf inn allar vörurnar í Evítu og reynum að bjóða upp á gott og sanngjarnt verð.
Móttökurnar hafa verð hreint úr sagt æðis­legar. Mosfellingar er greinilega glaðir að fá okkur í bæinn, það er búið að vera mikið að gera síðan við opnuðum.“

Kynningarafsláttur af ilmkertum
„Í tilefni af bæjarhátíðinni Í túninu heima ætlum við að vera með sérstakan kynningarafslátt af ilmkertunum okkar. Þetta eru dásamleg kerti og eru afar vinsæl hjá okkur. Við vonumst eftir að sjá sem flesta Mosfellinga á hátíðinni.
Við erum svo ánægð með staðsetninguna á búðinni og hvað plássið er bjart og fallegt, svo ég tali nú ekki um útsýnið úr öllum gluggum,“ segir Ágústa að lokum.
Opnunartími Evítu er alla virka daga kl. 11-18 og kl. 11-16 á laugardögum.

Frárennsliskerfi laugarinnar á Reykjalundi verður breytt

Mengun í Varmá rakin til klórvatns úr setlaug sundlaugarinnar á Reykjalundi

Mengun í Varmá er rakin til klórvatns úr setlaug sundlaugarinnar á Reykjalundi.

Eins og kunnugt er varð fiskidauða vart í Varmá um miðjan júlí og er nú orðið ljóst að ástæðu hans megi rekja til klórvatns í setlaug við sundlaug Reykjalundar sem tæmd var vegna nauðsynlegra skipta á sandi í sandsíum laugakerfisins þann 13. júlí.
Gerðar verða breytingar á frárennslismálum sundlaugar Reykjalundar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi.

Mengunarslys endurtaki sig ekki
Þegar sundlaug og setlaug Reykjalundar voru byggðar á sínum tíma voru frárennslismál laugarinnar hönnuð með þeim hætti að affall er leitt í ofanvatnskerfi bæjarins í stað fráveitu þess.
Á starfstíma sundlaugarinnar, sem tók til starfa árið 2000, hefur ekki verið skipt um sand í síum lauganna fyrr en nú og var stjórnendum Reykjalundar ekki ljóst að atvik sem þetta gæti átt sér stað vegna viðhalds á laugakerfinu.
Nú liggur fyrir að gera þarf ráðstafanir til að breyta fráveitumálum laugarinnar til að slíkt mengunarslys endurtaki sig ekki. Að því verkefni verður nú unnið í samstarfi Reykjalundar og bæjaryfirvalda sem unnið hafa mikið starf í því skyni að rekja uppruna mengunarinnar síðan atvikið varð.