Arion banki lokar útibúinu í Mosfellsbæ 10. maí

arionbanki

Á næstu mánuðum verður ráðist í breytingar á útibúaneti Arion banka. Markmiðið er að aðlaga útibúanetið að nýrri nálgun í bankaþjónustu þar sem m.a. er lögð áhersla á aðgengi að stafrænum lausnum og einföldun þjónustu.
Liður í þessum breytingum er að útibúið í Mosfellsbæ sameinast Höfðaútibúi bankans á Bíldshöfða 20. Starfsfólkið hér í Mosfellsbæ mun því flytja sig um set, ýmist í Höfðaútibú eða í önnur störf hjá bankanum.

Sameiningin tekur gildi 10. maí
Höfðaútibúið er eitt af stærstu útibúum bankans, eða svokallaður þjónustukjarni, en þar er áhersla lögð á almenna bankaþjónustu og ráðgjöf sérfræðinga á öllum helstu sviðum fjármála einstaklinga og fyrir­tækja. Aðrir þjónustukjarnar Arion banka eru í Borgartúni, Smáranum í Kópavogi, í Borgarnesi, á Selfossi og Akureyri.
Sameiningin tekur gildi 10. maí en áfram verður alhliða hraðþjónustubanki í Mosfellsbæ þar sem m.a. er hægt að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga og millifæra. Fyrst um sinn verður hann áfram í Þverholti 1, þar sem útibúið hefur verið til húsa, en í framhaldinu fundin ný staðsetning í alfaraleið, nærri verslun og þjónustu.