Kærleiksvika haldin í Mosfellsbæ

kærleiksvika

Kærleiksvikan í Mosfellsbæ verður haldin 12.-18. febrúar.
Skipuleggjendur eru þær Vigdís Steinþórsdóttir, Oddný Magnúsdóttir og Jóhanna B. Magnúsdóttir og vilja þær nota Kærleiksvikuna til að auðga samskipti fólks á milli með falleg hætti.
„Verum örlát á hrós og falleg skilaboð. Það er ekki væmni heldur styrkur að geta tjáð sig um hæfileika annarra. Tökum höndum saman svo allir bæjarbúar muni finna að það ríkir náungakærleikur hér,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir.
Að þessu sinni fer heiðursgjöfin til fræðslunefndar fatlaðra í hestamannafélaginu Herði. Nefndin hefur unnið gríðalega gott starf og er brautryðjandi í því að hjálpa fötluðum börnum að komast á hestbak og þar með út í náttúruna. Þar hefur einnig verið unnin mikil og falleg sjálfboðavinna, einstaklingar hafa tekið strætó alla leið frá Akranesi og Reykjavík til að gefa vinnu sína hér.
Fjöldi viðburða í boði
Þær stöllur benda einnig Mosfellingum á að gefa sér tíma til að njóta skilaboðanna frá nemendum Lágafells- og Varmárskóla í innkaupakerrunum í Bónus og Krónunni.
„Verið velkomin á alla þá viðburði sem við höfum skipulagt og búið til ykkar eigin viðburði á heimilum og vinnustöðum,“ segir Vigdís en dagskráin er auglýst hér á hinni síðunni og á Facebook undir „Kærleiksvika í Mosfellsbæ.“

——

D A G S K R Á 

Mánudagur 12. febrúar
Bónus og Krónan. Nemendur úr Lágafells- og Varmárskóla setja kærleiksrík skilaboð á innkaupakerrurnar.

Miðvikudagur 14. febrúar
Hátíðarstund í anddyri FMOS kl. 16.30
Fræðslunefnd fatlaðra í hestamannafélaginu Herði heiðruð fyrir frábært starf.
Vanda Sigurgeirsdóttir lektor við HÍ fjallar í stuttu máli um mikilvægi vináttu.
Nemendur Listaskóli Mosfellsbæjar syngja nokkur lög.
Vinnustofa Skálatúns verður með kærleiksgjafir til sölu.

Fimmtudagur 15. febrúar
Heilunarguðþjónusta í Lágafellskirkju kl. 20. Söngur, bæn, handayfirlagning og smurning.
Sr. Arndís Bernhardsdóttir og græðarar.

Laugardagur 17. febrúar
Félagsvist á torginu í Kjarna á vegum öldungaráðs og ungmennaráðs.
Kaffiveitingar í boði Mosfellsbæjar. Allir velkomnir ungir sem aldnir, ókeypis aðgangur.

Sunnudagur 18. febrúar
Spákaffi í Mosfellsbakaríi kl. 13–16
(15 mín. spá á vægu verði)

Friðarganga
Kl. 16:30, gengið verður frá torginu gegnt Kjarna og niður að tjörninni í Kvosinni og þar verður friðarkertum raðað.
Hver kemur með sitt kerti.

Kærleikssetrið:
Dagskrá alla vikuna sjá kaerleikssetrid.is

Sjá nánari dagskrána á vef Mosfellsbæjar www.mos.is og Kærleikssetursins
www.kaerleikssetrid.is og á facebook „Kærleiks­vika í Mosfellsbæ“