Viðreisn undirbýr framboð í Mosfellsbæ

vidreisnmoso

Félagar í Viðreisn sem eru búsettir í Mosfellsbæ hafa undanfarið verið að undirbúa stofnun félags í bænum, segir Valdimar Birgisson, en hann er einn þeirra sem vinnur að undirbúningi og reiknar með að boðað verði til stofnfundar á næstu dögum. „Markmiðið er að stuðla að öflugu starfi. Fjölmargir hafa þegar lýst yfir áhuga á að koma að þessu starfi og vinna að stefnumálum Viðreisnar sem er frjálslyndur, alþjóða- og jafnréttissinnaður flokkur,“ segir Valdimar.

„Samhliða stofnun félagsins erum við að kanna hvernig best verði staðið að framboði í komandi sveitarstjórnarkosningum. Við viljum helst sameina krafta þess fólks í bænum sem aðhyllist frjálst og opið samfélag þar sem hagsmunir almennings eru látnir ráða för en ekki sérhagsmunir. Það er kominn tími til að gera breytingar. Ég vil hvetja alla sem vilja slást í hópinn og taka þátt í starfinu og undirbúa framboð að hafa samband. Við leitum að kraftmiklum, jákvæðum, traustum og heiðarlegum einstaklingum sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að bæta lífið í Mosfellsbæ“, segir Valdimar um leið og hann býður áhugasömum að setja sig í samband við undirbúningshópinn með því að senda póst á mosfellsbaer@vidreisn.is.