Tómatur selur aukahluti fyrir iPhone-síma

Einar Karl stofnar sitt eigið fyrirtæki sem heitir Tómatur.

Einar Karl stofnar sitt eigið fyrirtæki sem heitir Tómatur.

Einar Karl Sigmarsson er ungur og efnilegur Mosfellingur. Hann er 15 ára nemandi í 10. bekk Lágafellsskóla. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann stofnað sitt eigið fyrirtæki sem heitir Tómatur.
„Ég er að selja gæðahulstur fyrir iPhone- síma á mjög góðu verði, ég er með nokkrar týpur og nokkra liti. Þetta byrjaði með því að pabbi minn sem rekur pítsastaðinn Shake&Pizza fór til Dubai. Hann kynntist þar framleiðanda sem framleiðir meðal annars þessi hulstur. Ég fékk svo tækifæri á að hefja viðskipti við hann og hóf innflutning á þessum hulstrum,“ segir Einar Karl.

Frí heimsending í Mosó
„Ætlunin er að auka úrvalið smátt og smátt með ýmsum aukahlutum fyrir síma. Ég hef fengið góð viðbrögð en ég hef aðal­lega verið að kynna fyrirtækið í gegnum Facebook og Instagram. Best er að senda mér pantanir í gegnum Facebook. Hulstrin kosta 1.000 kr. og það er frí heimsending hér í Mosfellsbæ. Hringurinn aftan á hulstrunum er gerður til að geta haldið á símanum með annarri hendi en einnig má nota hann sem stand svo síminn geti staðið á borði.
Ég er búinn að tryggja mér lénið tomatur.is og er að vinna að gerð heimasíðu. Hugmyndin er líka að útbúa Snapchat-reikning og auglýsa þar. Þetta hefur gengið mjög vel en ég fékk fyrstu sendingu í janúar.
Ég er nú þegar búinn að læra helling á þessu, bæði varðandi samskipti við framleiðandann og ýmislegt varðandi innflutning og fleira. Mér finnst gaman að kynnast ferlinu og þetta er góð byrjun ef þig langar í bissneslífið,“ segir Einar Karl sem á greinilega framtíðina fyrir sér í viðskiptalífinu.