Vefurinn fotbolti.net var opnaður árið 2002 og er því 16 ára um þessar mundir. Vefurinn hefur í mörg ár verið leiðandi í umfjöllun um fótbolta á Íslandi og er vinsælasta íþróttatengda síða landsins.
Mosfellingurinn Magnús Már Einarsson var einungis 13 ára er hann hóf störf á vefnum og skrifaði þá um heimaleiki Aftureldingar. Hann er enn að, 29 ára, og segir að eitt það skemmtilegasta sem hann geri sé að fylgja íslenska landsliðinu á erlendri grundu og fjalla um leiki liðsins.
Magnús Már er fæddur í Reykjavík 13. febrúar 1989. Foreldrar hans eru þau Hanna Símonardóttir vallarstjóri á Tungubökkum og Einar Þór Magnússon stöðvarstjóri hjá Frumherja. Magnús á þrjú systkini, Agnesi Eir fædda 1992, Anton Ara fæddan 1994 og Patrik Elí fæddan 1996.
Draumurinn rættist á endanum
„Fyrstu fjögur árin mín bjó ég í Kópavogi en svo flutti fjölskyldan upp á Kjalarnes. Þar bjuggum við þangað til ég varð 15 ára gamall en þá fluttum við í Mosfellsbæinn.
Ég æfði fótbolta og handbolta með Aftureldingu frá unga aldri og leið vel í þeim félagsskap. Ég suðaði á hverjum degi í foreldrum mínum að flytja í Mosfellsbæ því ég vildi vera nær íþróttasvæðinu og draumurinn rættist á endanum.“
Gullaldarlið Aftureldingar
„Þar sem ég hef alltaf verið í boltanum þá tengjast flestar æskuminningarnar þróttasvæðinu á Varmá og Tungubökkum. Það sem er kannski eftirminnilegast er þegar maður var að mæta á handboltaleiki í gamla salnum að Varmá og sjá gullaldarlið Aftureldingar vinna titla. Ég missti ekki af leik og stemningin sem myndaðist í stúkunni var mögnuð. Það voru ekki mörg lið sem unnu leik í Mosó á þessum árum.
Ég sakna þess að mörgu leyti að sjá ekki handboltaleiki í gamla salnum þótt Rothöggið nái góðri stemningu í þeim nýja.“
Þrettán ára að taka viðtöl
„Ég gekk í Klébergsskóla á Kjalarnesi fram í miðjan níunda bekk. Þá flutti fjölskyldan í Mosó og síðasta eina og hálfa árið í Varmárskóla var það langskemmtilegasta á skólaferlinum. Ég var heppinn að detta í bekk hjá stuðboltanum og íþróttakennaranum Siggeiri Magnússyni og var mjög fljótur að falla inn í hópinn enda þekkti ég marga í Mosfellsbæ í gegnum íþróttirnar.“
Magnús Már var einungis 13 ára þegar hann byrjaði að skrifa á vefsíðuna fotbolti.net skömmu eftir að vefurinn var opnaður en það var Hafliði Breiðfjörð sem stofnaði hann og rekur hann enn í dag.
„Ég byrjaði að skrifa um heimaleiki Aftureldingar í fótboltanum og í kjölfarið fór ég að skrifa um fleiri leiki, skrifa fréttir og taka viðtöl. Landsliðsmenn og aðrir voru steinhissa þegar lítill 13 ára strákur var mættur til að taka viðtölin, þeir áttu alls ekki von á því.“
Vinsælasta íþróttatengda síða landsins
„Fjölmiðlaáhuginn var orðinn það mikill þegar ég útskrifaðist úr Varmárskóla að ég leitaði uppi skóla þar sem hægt væri að fara í fjölmiðlanám. Það voru fáir skólar sem buðu upp á það en einn af þeim var Borgarholtsskóli og það lá því beinast við að fara í hann.
Frá útskrift hef ég verið í fullri vinnu á fotbolti.net en fram að því var ég í hlutastarfi meðfram skóla. Vefurinn hefur í mörg ár verið leiðandi í umfjöllun um fótbolta á Íslandi og er vinsælasta íþróttatengda síða landsins. Í dag ritstýri ég vefnum ásamt Elvari Geir Magnússyni og að jafnaði starfa hjá okkur 5 manns en um 75 í hlutastörfum yfir sumartímann.
Ég hef kynnst skemmtilegu fólki út um allt land í tengslum við starf mitt. Eftirminnilegustu minningarnar eru án efa tengdar íslenska landsliðinu og stórkostlegu gengi þess undanfarin ár. Ég hef ferðast víðsvegar um Evrópu til að fjalla um leiki landsliðsins og toppurinn var án efa EM í Frakklandi sumarið 2016. Ég er síðan mjög spenntur að fara út til Rússlands í sumar og fjalla um HM. Það eru sko forréttindi að geta starfað við áhugamál sitt,“ segir Magnús Már og brosir.
Von á erfingja í júlí
„Ég hélt áfram að æfa fótbolta upp í meistaraflokk og spilaði eftirminnilegt tímabil með Hvíta Riddaranum í 3. deild áður en ég fékk tækifæri með Aftureldingu. Eftir að hafa oft verið nálægt því að komast upp úr 2. deildinni ákvað ég af ákveðnum ástæðum að róa á önnur mið fyrir tímabilið 2014. Ég fór til Leiknis í Breiðholti og var hluti af hóp sem fór upp í Pepsi-deildina í fyrsta skipti. Það var mjög skemmtilegt þó að hlutverk mitt í liðinu hafi verið minna en ég vildi.
Ég tók ekki bara góðar minningar með mér úr Breiðholti því kærastan mín, Anna Guðrún Ingadóttir, er þaðan og við kynntumst á þeim tíma sem ég lék þar. Anna er tölvunarfræðingur að mennt og starfar hjá Advania. Við eigum von á barni í júlí svo það er mikil eftirvænting og gleði á heimilinu.
Eftir að ég flutti að heiman kom ekkert annað til greina en að vera áfram í Mosfellsbæ og ég keypti mér íbúð árið 2013 í Þverholti. Tveimur árum seinna keyptum við Anna síðan íbúð í Hjallahlíð þar sem við kunnum afar vel við okkur.“
Reynir fyrir sér sem þjálfari
„Árið 2015 tók ég slaginn áfram með Leikni áður en ég ákvað að fara til Hugins á Seyðisfirði að láni til að fá að spila meira. Það var annað ævintýri því Huginn komst upp í 1. deild í fyrsta skipti í sögunni og gleðin var mikil á Seyðisfirði.
Eftir þetta ákvað ég að koma aftur heim í Aftureldingu og reyna að ljúka markmiðinu að komast upp um deild. Það tókst ekki í tveimur tilraunum undanfarin ár svo í haust breytti ég til og tók að mér stöðu aðstoðarþjálfara liðsins. Stefnan er sett hátt í sumar og vonandi náum við að koma liðinu upp í Inkasso-deildina í haust.“
Beint í mark
„Í fyrra ákváð ég í samstarfi við Daníel Rúnarsson hönnuð á fotbolti.net að gefa út fótboltaspil. Hörður Snævar Jónsson, Helgi Steinn Björnsson og landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson voru í sömu hugleiðingum svo við sameinuðum hugmyndina.
Um jólin gáfum við síðan út fótboltaspilið Beint í mark. Salan gekk mjög vel og hefur spilið slegið í gegn hjá öllum aldurshópum enda styrkleikaskipt.
Það var virkilega skemmtilegt að sjá hlutina þróast, búa til sitt eigið spil og sjá draum sinn rætast.“
Mosfellingurinn 1. febrúar 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs