Í minningu vinar

hansi_mosfellingurinn

Hans Þór hefur unnið jöfnum höndum við sitt fag sem veggfóðrara- og dúklagningameistari og sem hljóðfæraleikari en hann byrjaði að spila 14 ára gamall.
Lengst af spilaði Hansi eins og hann er ávallt kallaður með Lúdó sextettnum en hann hefur einnig spilað með hinum ýmsu böndum í gegnum tíðina. Á dögunum gaf hann út eigin geisladisk sem hann tileinkar góðum vini.

Hans Þór er fæddur í Reykjavík 2. september 1941. Foreldrar hans eru þau Jónína Þorbergsdóttir húsmóðir og Jens Hansson skipstjóri. Hans á tvo bræður, þá Hafstein og Sverri.

Fór upp á stól og jóðlaði
„Ég er alinn upp í Reykjavík og Kópavogi en var öll sumur hjá afa mínum og ömmu á Hellissandi og þar fannst mér gott að vera. Ég lærði að slá með orfi og ljá hjá afa mínum og um 10 ára aldur fékk ég heimasmíðað orf sem passaði sérstaklega fyrir mig.
Þegar ég var ungur, svona um sex ára aldurinn, var ég oft fenginn til að koma í afmæli þar sem ég fór upp á stól og jóðlaði. Þetta voru fyrstu giggin hjá mér og stundum fékk ég aur fyrir,“ segir Hansi og brosir.

Útskrifaðist úr Iðnskólanum
„Ég byrjaði í Miðbæjarskólanum en fór svo í Kópavogsskóla og þaðan í Austurbæjarskóla. Í þeim síðastnefnda varð ég fyrir miklu einelti og mér leið illa í skólanum. Ég gat ekki hugsað mér að fara í gagnfræðaskóla út af eineltinu og fór þá að vinna við innheimtu hjá Sjóvá en fór í kvöldskóla hjá KFUM.
Árið 1957 fór ég í Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem veggfóðrara- og dúklagningamaður og hef unnið við þá iðn síðan.
Ég hef alla tíð haft gaman af tónlist og byrjaði að læra á saxófón hjá Braga Einarssyni og Vilhjálmi Guðjónssyni klarínettleikara. Ég fór líka í Tónlistarskóla Reykjavíkur og var fyrsti nemandinn í saxófónleik þar.“

Gift í 55 ár
Eiginkona Hansa er Hjördís Sigurðardóttir sölumaður en þau hafa verið gift í 55 ár og eiga þrjá syni. „Hilmar elsti sonur okkar er fæddur 1960. Hann er dúkari eins og ég og mikill veiðisnillingur. Hann er kvæntur Oddnýju Magnadóttur og samtals eiga þau sex börn. Jens er fæddur 1963 og er dúkari og hljóðfæraleikari, lengst af í Sálinni hans Jóns míns. Hann á þrjá syni. Yngstur er svo Sigurður Helgi dúkari og söngvari, hann er kvæntur Öldu Kristinsdóttur og þau eiga þrjú börn.
Barnabörnin okkar eru tólf og svo eigum við fjögur barnabarnabörn.“

Hafa ferðast víða
„Áhugamál okkar hjóna eru margvísleg en við erum búin að ferðast mjög mikið erlendis á öllum þessum árum okkar saman. Við höfum farið í um 30 ár til Kanarí í sólina yfir vetrartímann en einnig til Taílands, Hong Kong, Ameríku, Jamaica og Rússlands.
Nýjasta áhugamálið er húsbíllinn okkar, við eltum góða veðrið og góða ferðafélaga.
Við eigum líka stóra fjölskyldu og við elskum að hittast og njóta þess að borða saman. Eins eyðum við góðum stundum með vinum okkar.“

Með puttann á púlsinum
Hans og Sigurður sonur hans stofnuðu fyrirtæki saman árið 2000, Múrefni ehf. sem staðsett er í Mosfellsbæ. Þeir sérhæfa sig í að selja og þjónusta sérhæfðar byggingavörur og gólfefni frá völdum framleiðendum í Evrópu. Þeir miðla þekkingu til birgja og þá sérstaklega til fagmanna og viðskiptavina til að tryggja hámarks árangur og endingu á þeim vörum sem þeir hafa upp á að bjóða.
„Þetta byrjaði þannig að við fengum umboð fyrir Weber sem selur gæðamúrefni og ýmis viðgerðarefni fyrir hús. Síðan bættum við múrklæðningum við og það nýjasta hjá okkur er vínylparket sem hefur algjörlega slegið í gegn.“

Tónlistin aðaláhugamálið
„Ég byrjaði að læra á saxafón þegar ég var 14 ára og það ár byrjaði ég í Lúðrasveitinni Svaninum. Ég fór með þeim á landsmót lúðrasveita á Akureyri og þar kynntist ég Finni Eydal. Hann bauð mér með sér heim til að hlusta á djass sem síðar varð mín uppáhaldstónlist.
Maður spilaði síðan með hinum og þessum á skólaböllum en árið 1957 var Plúto kvintett stofnaður sem síðar varð Lúdó sextett. Það var spilað í Vetrargarðinum við tívolí sem var ansi líflegur staður. Þar voru ekki vínveitingar en menn mættu með vínið innanklæða. Oftar en ekki lenti allt í slagsmálum, við sviðið var stór bjalla sem við notuðum til að hringja í útkastarana sem hentu áflogaseggjunum út og ballið hélt svo áfram.
Í Þórskaffi spiluðum við fimm kvöld í viku og þangað kom engin inn nema í sparifötum og með bindi. Sveitaböllin tóku svo við og böllin fyrir kanann upp á velli.
Vinsældir hljómsveitarinnar jukust jafnt og þétt og stóð þessi spilamennska yfir í 10 ár á þessum tíma en þetta var oft ansi strembið.“

Palla er sárt saknað
Hans gaf út geisladisk á dögunum með lögum sem eru honum afar kær en diskurinn er gefinn út til minningar um vin hans, Pál Helgason tónlistarmann. „Leiðir okkar Palla lágu fyrst saman í Karlakórnum Stefni þegar hann var endurvakinn. Við urðum góðir vinir og spiluðum saman meðal annars í hljómsveit í Oddfellow-húsinu ásamt Örlygi Richter og fleirum. Palla er sárt saknað.
Diskurinn er svona léttur jazzdiskur, vinur minn Grétar Örvarsson hvatti mig til þess að fara út í þetta og sá hann um upptökur. Þeir sem spila með mér eru Einar Valur Scheving, Grétar Örvarsson, Pétur Valgarð Pétursson, Úlfar Sigmarsson og Þórður Högnason.“
Og hvar er hægt að kaupa diskinn? „Hann er ekki kominn í dreifingu ennþá en fyrir áhugasama þá er hægt að nálgast hann hjá mér.“

Tónlistarveisla Í túninu heima
Nú er bæjarhátíðin á næsta leiti og dagskrá hátíðarinnar glæsileg að vanda. „Við höfum boðið heim til okkar hingað í Akurholtið í sex ár og höfum verið með tónleika í garðinum. Þetta byrjaði þannig að við búum í sama húsi og yngsti sonur okkar sem er í rokkkarlakórnum Stormsveitinni. Við skelltum bara í band fjölskyldan ásamt vinum og höfum líka fengið aðra listamenn til liðs við okkur.
Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína til okkar. Því miður þá verður ekki af tónleikum í ár vegna anna en við fjölskyldan viljum fá að nota tækifærið og óska öllum bæjarbúum gleðilegrar hátíðar,“ segir Hansi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 21. ágúst 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs