Skrifaði sína fyrstu sjónvarps­þáttaseríu í Lágafellslaug

steindi_listamaður

Á sérstakri hátíðardagskrá á bæjarhátíðinni Í túninu heima var Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2018.
Steindi Jr. er alinn upp og búsettur í Mosfellsbæ. Hann er skapandi listamaður og hefur náð árangri á fleiri en einu sviði lista. Hann hefur gert sjónvarpsþætti, leikið og skrifað handrit og sannað sig bæði í leiklist og tónlist.

Vann Edduna fyrir leik í Undir trénu
Steindi hefur gert garðinn frægan í gamanhlutverkum og í seinni tíð einnig verkum í alvarlegri kantinum en hann vann Edduna 2018 fyrir hlutverk sitt í myndinni Undir trénu. Hann er skapandi og frjór í sinni listsköpun og höfðar til breiðs hóps.
Þá hefur hann með áberandi hætti verið tengdur við Mosfellsbæ í mörgu af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Í því tilliti hefur hann lagt sig fram um að vekja athygli á uppruna sínum í Mosfellsbæ og tekið þátt í mörgum verkefnum innan bæjarins.

Vill miðla reynslu sinni áfram
„Sem grjótharður Mosfellingur er þetta mesti heiður sem mér hefur hlotnast,“ segir Steindi. „Þetta er mér mikil hvatning og mun ég áfram reyna að tengja bæinn minn við það sem ég er að bralla.
Mig langar að nota tækifærið og nýta mér þessa nafnbót til að miðla reynslu minni áfram til krakka og unglinga í Mosfellsbæ og kynna þau fyrir skapandi listum. Vonandi mun það gerast einn daginn í góðu samstarfi við skólana og félagsmiðstöðina.
Ég hlakka til að hitta krakkana og reyna að smita þau af bakteríunni. Það væri gaman að sjá vini hittast og skapa saman eitthvað skemmtilegt í stað þess að hanga hver í sínu horni í símanum eins og svo algengt er.“

Nýtti hádegishléin vel
„Ég hóf t.d. ferilinn minn hér í Mosó við að gera stuttmyndir og skrifa í bæjarblöðin. Þá stofnaði ég útvarpsstöð í samstarfi við félagsmiðstöðina Ból.“
Steindi skrifaði sína fyrstu sjónvarpsþáttaseríu að hluta til þegar hann vann í Lágafellslaug. „Já, ég nýtti hádegishléin vel og faldi mig stundum með fartölvu inni í klefa. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá,“ segir Steindi að lokum.