Ungu stelpurnar stíga upp og fá tækifæri

Úr síðasta heimaleik. Efri röð: Samira Suleman, Stefanía Valdimarsdóttir, Inga Laufey Ágústdóttir, Eydís Embla Lúðvíksdóttir, Selma Rut Gestsdóttir, Valdís Ósk Sigurðardóttir. Neðri röð: Sigríður Þóra Birgisdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Janet Nana Ama Egyir, Eva Rut Ásþórsdóttir.

Efri röð: Samira Suleman, Stefanía Valdimarsdóttir, Inga Laufey Ágústdóttir, Eydís Embla Lúðvíksdóttir, Selma Rut Gestsdóttir, Valdís Ósk Sigurðardóttir. Neðri röð: Sigríður Þóra Birgisdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Janet Nana Ama Egyir, Eva Rut Ásþórsdóttir.

Meistaraflokkur kvenna leikur í Inkasso-deildinni í knattspyrnu eftir sigur í 2. deildinni í fyrra. Aftureldingu/Fram er spáð 8. sæti í sumar. Við tókum Júlíus Ármann Júlíusson þjálfara liðsins tali.

Hvernig hefur tímabilið farið af stað?
„Við byrjuðum á því að standa í Fylkiskonum sem er spáð titlinum en töpuðum 0-1. Þá tóku við þrír jafnteflisleikir. Síðan unnum við Fjölni og töpuðum síðasta leik 2-1 á móti Þrótti.
Það skemmtilega við tímabilið er að við erum með mikla endurnýjun á liðinu. Það eru í raun einungis þrjár úr byrjunarliðinu í fyrra sem spila með okkur núna. Það fóru sjö leikmenn í barneignaleyfi sem er örugglega einsdæmi. Það er mikil frjósemi Mosfellsbænum.“

Hvernig er hópurinn?
„Þetta eru mest stelpurnar okkar úr Aftureldingu. Við eigum orðið fjóra landsliðsmenn í U16 og U17 ára. Það hefur flýtt ferlinu hjá þeim að vera kallaðar ungar inn í meistaraflokk og fengið tækifæri.“

Hver eru markmið sumarsins?
„Ég held að við séum að koma gríðarlega á óvart með góðri frammistöðu það sem af er sumri. Ungu stelpurnar hafa verið að stíga upp og andinn er góður. Við ætlum okkur að sjálfsögðu að enda ofar en okkur er spáð en liðinu er spáð 8. sæti í sumar.“

Draumur að komast aftur í Pepsi-deild?
„Já, nú er hugsunin sú að reyna að búa til góðan stöðugleika í Inkasso. Á næstu 2-3 árum má alveg gæla við að komast í efstu deild. Á meðan erum við að byggja upp ungt og efnilegt lið.“

Hvernig hefur umgjörðin og stemningin verið?
„Bjartur, formaður meistaraflokksráðs, stendur sig vel en við þurfum að fá fleira fólk í ráðið.“