„Öll heimili í þéttbýli Mosfellsbæjar tengd fyrir áramót“

baldur hauksson verkefna- stjóri ljósleiðarakerfis

Baldur Hauksson verkefnastjóri ljósleiðarakerfis Gagnavetiru Reykjavíkur.

Eins og Mosfellingar hafa orðið varir við vinnur Gagnaveita Reykjavíkur að framkvæmdum í Mosfellsbæ þar sem verið er að tengja ljósleiðarakerfi.
„Ég fékk það skemmtilega verkefni að ljósleiðaravæða minn heimabæ,“ segir Mosfellingurinn Baldur Hauksson sem starfar sem verkefnastjóri hjá Gagnaveitu Reykjavíkur.

Framkvæmdir langt komnar og klárast fyrir árslok
„Verkefni þessa árs er að klára að tengja öll heimili í þéttbýli Mosfellsbæjar fyrir árslok 2018, framkvæmdir eru langt komnar og klárast fyrir árslok. Hverfin sem verða tengd á þessu ári eru Höfðar, Tangar, Teigar og Reykjahverfi. Það styttist í að íbúar í Höfðum og Töngum geti pantað sér þjónustu á meðan Tanga- og Reykjahverfi tengist í desember. En áður hefur Gagnaveitan lokið við að tengja önnur hverfi í þéttbýli Mosfellsbæjar á síðustu árum.“

Hágæðatenging inn í framtíðina
Ljósleiðarinn er hágæðasamband fyrir heimili sem uppfyllir kröfur nútímaheimilis og býður upp á nettengingar sem eru bæði hraðari og áreiðanlegri. „Eins og samfélagið er í dag þá eru gagnaflutningar alltaf að aukast, internetið, sjónvarpið og heimasíminn.
Með tilkomu ljósleiðarans eykst hraðinn um 10-20 falt. Flestir eru með tengingu sem flytur 50-100 megabita á sekúndu en ljósleiðarinn býður upp á 1000 megabita tengingu sem hentar nútímaheimilum með margar tölvur, síma og sjónvörp,“ segir Baldur.

Fólki að kostnaðarlausu
Þessar framkvæmdir eru að frumkvæði Gagnaveitunar og eru Mosfellsbæ og íbúum að kostnaðarlausu. „Þegar framkvæmdum við lagningu ljósleiðarans er lokið sendum við póst til íbúanna. Þá þurfa þeir að panta hjá sínum þjónustuveitanda og biðja um færslu yfir á ljósleiðarann.
Ef þú pantar þessa þjónustu hjá okkur þá kemur til þín maður sem tengir og leggur lagnir fyrir þráðlausan beini, heimasíma og sjónvarp. Þessi þjónusta er fólki að kostnaðarlausu, það eina sem fólk borgar er sama mánaðargjald og það hefur greitt ef það er með síma eða internet,“ segir Baldur að lokum.