Eitt í einu

heilsukarfa

Ég er að prófa á sjálfum mér áhrif þess að bæta mig markvisst á einu sviði heilsu og sjá hvaða áhrif það hefur á önnur svið. Síðan 1. ágúst er ég búinn að hreyfa mig markvisst í alla vega 3 klukkutíma á dag og skrái hjá mér hvert skipti. Hreyfingin er mjög vítt skilgreind – dekkar í raun og veru alla hreyfingu. Garðvinna, göngutúrar, æfingar, smíðavinna svo nokkur dæmi séu nefnd. Allt sem kemur manni upp af stólnum og sófanum. Fótboltáhorf er hreyfing ef maður sest ekki niður og hreyfir sig á meðan maður fylgist með leiknum.

Þrír klukkutímar á dag í hreyfingu er auðvitað ekki neitt fyrir þá sem eru í vinnu sem krefst þess að þeir séu á hreyfingu yfir daginn. En fyrir þá sem eru í skrifstofuvinnu getur þetta verið áskorun sem krefst þess að maður sé útsjónarsamur og agaður í að finna leiðir til hreyfingar. En þetta skilar sér. Ég er strax farinn að finna það. Rammarnir halda mér við efnið, minna mig á að ég þarf að nota líkamann, ekki bara hausinn. Þeir hjálpa mér að búa mér til góðar venjur og halda þeim við.

Morgungöngur eru eitt dæmi um slíkt. Hugsanlega besta leiðin til þess að byrja hvern dag. En svo geri ég líka meira gagn heima. Vinn meira í garðinum. Er duglegri að mjaka áfram endurbótum á risinu. Ég leik mér líka enn meira. Fæ guttana mína oftar út í körfubolta eða fótbolta. Er duglegri að fara í göngutúra með frúnni.

Áhrifin á aðra þætti heilsu eru þegar farin að skila sér. Meiri hreyfing skilar sér í betri svefni. Maður er þægilega þreyttur í lok dags og á enn auðveldara með að sofna. Mataræðið verður líka betra, nánast sjálfkrafa. Hreyfingarleysi kallar á sætindi, gerviorku. Hreyfing kallar á hollan mat. Fylgist með á instagram.com/gudjon_svansson

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. ágúst 2018