Allir á völlinn!

Heilsumolar_Gaua_6sept

Á laugardaginn kemur Þróttur frá Vogum í heimsókn í Mosfellsbæinn til að spila við strákana okkar í 2. deildinni. Við erum efstir í deildinni, höfum skorað flest mörk allra liða – reyndar allra liða í fjórum efstu deildum karla á Íslandsmótinu í sumar. Eina liðið hingað til sem hefur náð að rjúfa 50 marka múrinn. En Þróttararnir eru sýnd veiði en langt frá því gefin. Þeir eru eitt af bestu útiliðum deildarinnar, gengur mun betur á útivöllum en heima í Vogum. Það stefnir því allt í hörkuleik að Varmá.

Fjölmargir Mosfellingar fóru með liðinu á Seltjarnarnes í síðasta leik og komu kátir heim eftir baráttu­sigur gegn spræku liði Gróttu. Þar áður mættu margir Mosfellingar á heimaleikinn gegn Hugin frá Seyðisfirði og urðu heldur ekki fyrir vonbrigðum. Strákarnir, þjálfararnir og teymið í kringum þá hafa lagt hart að sér frá því að undirbúningstímabilið hófst síðasta haust. Það eru þrír leikir eftir í 2. deildinni. Deildinni sem við ætlum að kveðja í ár.

Til þess að það megi gerast er stuðningur okkar Mosfellinga lykilatriði. Við getum gefið þeim sem eru inn á vellinum aukaorku með því að mæta á völlinn og sýna þeim að félagið okkar skiptir okkur máli.

Íþróttir eru að mínu mati besta forvörnin sem við sem samfélag eigum og félagið okkar allra, Afturelding, er stútfullt af fólki sem gerir sitt besta til þess að skapa góða og jákvæða umgjörð fyrir krakka og unglinga sem vilja og þurfa að hreyfa sig. Því meiri árangri sem meistaraflokksliðin okkar ná, því meiri pressa – jákvæð – er á bæjaryfirvöld að efla umgjörð félagsins. Bæði íþróttalega og félagslega. Það er svigrúm til bætingar á báðum sviðum. Stuðningur við strákana okkar á laugardaginn hjálpar til við að mjaka málum áfram. Efla samstarf Mosfellsbæjar og Aftureldingar, okkur öllum til góða. Sjáumst á vellinum!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. september 2018