Undirbúa stækkun World Class

Tölvugerð mynd af stækkuninni í átt að Baugshlíð.

Tölvugerð mynd af stækkuninni í átt að Baugshlíð.

Hafnar eru framkvæmdir á lóðinni við Lágafellslaug vegna fyrirhugaðrar stækkunar World Class.
Um er að ræða 924 fermetra hús á tveimur hæðum þar sem verða æfingasalir og búningsherbergi.
Nú stendur yfir færsla á fjarskipta-, vatns- og frárennslislögnum sem er undanfari þess að hægt verði að grafa fyrir viðbyggingunni.

wcmos2

 

Héldu kótilettukvöld til styrktar félaga sem glímir við veikindi

Formenn Umfus, Birgir Grímsson og Óskar Ágústsson, ásamt Elíasi Níelssyni þjálfara og Ölfu Regínu systur Tobba.

Formenn Umfus, Birgir Grímsson og Óskar Ágústsson, ásamt Elíasi Níelssyni þjálfara og Ölfu Regínu systur Tobba.

Þann 8. mars héldu UMFUS-menn sitt árlega kótilettu-styrktarkvöld. Undanfarin ár hafa þeir haldið þennan styrktarviðburð og gefið allan ágóða til verðugs málefnis.
Að þessu sinni rann styrkurinn til Mosfellingsins Þorbjörns Jóhannssonar eða Tobba eins hann er alltaf kallaður. Tobbi hefur glímt við erfið veikindi síðan 2006 en síðastliðið haust greindist hann með bráðahvítblæði.
Tobbi og Emilíu eiginkona hans hafa dvalið í Svíþjóð á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi síðan í janúar þar sem hann gengst undir mergskipti.
Von er á þeim heim eftir rúma tvo mánuði en þá tekur við meðferð og endurhæfing á Reykjalundi.

Nauðsynlegt að hafa jákvæðni að vopni
Það var systir Tobba, Alfa Regína Jóhannsdóttir, sem tók við styrknum fyrir hönd bróður síns og las upp fallega kveðju frá Tobba sem meðal annars talaði um að svona veikindi setji lífið algjörlega úr skorðum og að nauðsynlegt sé að fara í gegnum svona pakka með jákvæðni og æðruleysi að vopni.
UMFUS-menn vilja koma á framfæri þökkum til allra sem styrktu þetta góða málefni með nærveru sinni, framlögum og aðstoð. Það var Ragnar Sverrisson hjá Höfðakaffi sem sá um veitingarnar en aðrir styrktaraðilar voru m.a. Ölgerðin, 66° norður, Fóðurblandan, Margt smátt, Smart Socks, Blackbox og Jóhann Ólafsson & co.

Aðbúnaður veikra barna er alltaf í forgangi

Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins nýtur þess að starfa að líknar- og mannúðarmálum.

Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins nýtur þess að starfa að líknar- og mannúðarmálum.

Anna Björk er stórglæsileg og geislandi og nýtur hversdagsleikans hvern einasta dag því hún veit af eigin reynslu að hann er ekki sjálfsagður hlutur. Árið 2002 veiktist Anna alvarlega og um tíma var henni ekki hugað líf. Hún var tvö ár að koma sér á fætur aftur og var heppin að skaðast ekki varanlega.
Í dag sinnir hún formannsstarfi hjá Hringnum. Hún segir að starf sitt þar sé hennar leið til að láta allt það góða sem hún naut í átt að betri heilsu ganga áfram til þeirra sem eiga um sárt að binda.

Anna Björk er fædd í rúmi afa síns á Eiríksgötunni í Reykjavík 29. júlí 1958. Foreldrar hennar eru Ingibjörg Jóhannesdóttir ritari og bankastarfsmaður og Cyril Edward Walter Hoblyn bankastarfsmaður.

Drullumölluðum á gangstéttunum
„Ég ólst upp fyrstu árin mín á Eiríksgötu en þar bjó hluti fjölskyldu minnar. Ég og vinkonur mínar, Ingibjörg og Maja, lékum okkur mikið saman á túninu við Landspítalann, þar drullumölluðum við á gangstéttunum.
Leið mín lá síðan vestur í bæ á Hjarðarhagann þegar ég var sjö ára, þá tók Ægi­síðan við, grásleppuskúrarnir, fjaran og stór hópur af krökkum sem léku sér saman í boltaleikjum. Báðir þessir staðir skilja eftir sig góðar minningar.“

Þetta voru mínir töfrastaðir
„Stundirnar í Svanahvammi, bústaðnum hjá afa og ömmu í Grímsnesinu, voru dásamlegar. Að leika mér að sprekinu sem afi hafði sagað í eldavélina hennar ömmu og lækurinn þar sem gamli mjólkurbrúsinn var í kælingu, þetta voru mínir töfrastaðir,“ segir Anna og brosir.
„Ég hafði ekki gaman af því að vera í skóla fyrr en ég fór í öldunginn í Menntaskólanum í Hamrahlíð en áður var ég í Austurbæjar-, Mela- og Hagaskóla. Enska hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér en ég er með Shakespeare blæti.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég að vinna í tískuverslun, sinnti fyrirsætustörfum og sýndi á tískusýningum með Karon-samtökunum.“

Ungfrú Ísland 1977
Árið 1976 var Anna valin fulltrúi ungu kynslóðarinnar og fór til Tókýó að keppa fyrir Íslands hönd á Miss Young International. Ári seinna var hún valin ungfrú Ísland og ferðaðist mikið það ár. Árið 1978 fór hún svo til Mexíkó og Acapulco til að taka þátt í keppninni Miss Universe.
„Þetta var virkilega skemmtilegur tími og skilur eftir sig margar góðar minningar. Þegar ég kom heim aftur fór ég að starfa hjá Húsameistara ríkisins. Ég var í námi með fullri vinnu og starfaði í bakaríi um helgar, allt til þess að geta keypt mína fyrstu íbúð.“

Stofnuðu arkitektastofu
Anna Björk kynntist eiginmanni sínum, Guðjóni Magnússyni arkitekt árið 1984 en þau kynntust hjá Húsameistara ríkisins þar sem þau voru bæði við störf. Þau eiga saman þrjár dætur, Aðalheiði Önnu f. 1989 og tvíburana Ingibjörgu Sigríði og Rut Margréti fæddar 1992. „Um það leyti sem við eignuðust tvíburana stofnuðum við hjónin arkitektastofu sem við höfum rekið síðan. Ég hef starfað þar ásamt því að sinna öðrum störfum.
Áður en við fluttum í Mosfellsbæ þá vorum við komin á fullt í hestamennsku og búin að kaupa okkur hesthús hér en við bjuggum áður á Seltjarnarnesi.“

Var ekki hugað líf
Árið 2002 veiktist Anna Björk alvarlega og þurfti að berjast fyrir lífi sínu. Hún hafði fengið bráða heilahimnubólgu og punktablæðingar um allan líkamann. Um tíma var henni ekki hugað líf og var haldið sofandi í tíu daga. Þegar hún vaknaði þá var hún svo illa farin að hún varð að læra alla hversdagslega hluti upp á nýtt eins og að sitja upprétt, ganga og bursta tennurnar.
„Það var full vinna hjá mér í tvö ár að koma mér á fætur aftur og ég þurfti að nota allt mitt hugrekki og þrek til að gera það því uppgjöf var ekki í boði. Ég var mjög heppin að skaðast ekki varanlega nema að mjög litlu leyti. Eftir veikindin er ég með aðeins skerta heyrn á öðru eyranu og svo er ég með viðkvæma liði. En það er ekkert mál, ég læt ekkert stoppa mig í því sem mig langar til að gera.“

50 milljónir í ýmis verkefni á síðasta ári
„Árið 2006 gekk ég í kvenfélagið Hringinn og hef verið starfandi sjálfboðaliði síðan. Á síðasta ári var ég kosin formaður félagsins sem var mikill heiður. Starf mitt í Hringnum er mín leið til að láta allt það góða sem ég naut í átt að betri heilsu ganga áfram til þeirra sem eiga erfitt.
Hringurinn er stærsti stuðningsaðili Barnaspítala Hringsins, vökudeildarinnar og Bugl auk ýmissa verkefna á LSH. Félagið var 115 ára í janúar sl. og um 400 konur eru starfandi í félaginu. Við héldum upp á afmælið með því að opna veitingastofuna eftir miklar breytingar. Gáfum Barnaspítalanum 30 milljónir í tilefni dagsins en aðbúnaður barna er alltaf í forgangi.
Á síðasta ári gaf Hringurinn nærri 50 milljónir í ýmis verkefni.“

Fær útrás fyrir sköpun og tjáningu
„Árið 2012 fór ég að blogga um mat á síðunni minni, annabjork.is. Ég hef mikinn áhuga á mat og öllu sem viðkemur matargerð. Ég hef líka mikinn áhuga á ljósmyndun svo ég er heppin að geta sameinað þetta tvennt og fá útrás fyrir sköpun og tjáningu. Við Guðjón erum dugleg að fara í gönguferðir, ég fer með myndavélina og hann með skissubókina en hann hefur mikinn áhuga á vatnslitun.“

Ógleymanleg upplifun
„Helsta áhugamál okkar hjóna eru skútusiglingar, við eigum Júlíu Önnu sem er 34 feta seglskúta. Við höfum siglt mikið um Faxaflóann, farið vestur á firði og í eina skiptið sem við höfum farið á Þjóðhátíð í Eyjum fórum við siglandi á skútunni. Það var ógleymanleg upplifun, við féllum alveg fyrir fólkinu, hvað allir voru hjálplegir og elskulegir. Stemningin í Eyjum var frábær og veðrið lék við okkur sem gerði allt svo yndislegt.“

Forréttindi að sjá fjölskylduna dafna
Við hjónin höfum eytt miklum tíma í sumarbústað okkar en þar náum við að slaka vel á. Í vetur byrjuðum við svo að fara í sjósund, sem er ágæt tenging við siglingarnar.
Mér var boðið að ganga í Rótarýklúbbinn hér í bæ síðasta vor og það var mjög skemmtilegt að kynnast öllu því góða fólki sem þar er. Síðast en ekki síst er ég orðin amma og nýt þess í botn að eiga tvo ömmudrengi en þeir heita Andri Hrafnar og Guðjón Freyr. Það eru algjör forréttindi að fá að njóta samvista við þá tvo og sjá fjölskyldu okkar Guðjóns stækka og dafna.“

Mosfellingurinn 14. mars 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Mosó kemur vel út í könnun Gallup

ssss

Mosfellsbær á fallegum sumardegi. Horft yfir Krikahverfi í átt að  Esju.

Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir þannig viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins. Að venju er Mosfellsbær í efstu sætum og yfir landsmeðaltali utan eins málaflokks.
Á árinu 2018 var Mosfellsbær í þriðja sæti þegar lagt er mat á sveitarfélagið sem stað til að búa á og reyndust 91% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.
Mosfellsbær er vel yfir landsmeðaltali í níu málaflokkum af tólf, á pari í tveimur málaflokkum en undir landsmeðal­tali í einum málaflokki. Sá málaflokkur er aðstaða til íþróttaiðkunar sem dalar milli ára. Í fyrra voru 77% íbúa frekar eða mjög ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar en 84% íbúa í Mosfellsbæ voru ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar árið 2017.
Þá niðurstöðu þarf væntanlega að rýna og nýta til þess að gera enn betur á nýju ári. Nú standa yfir miklar framkvæmdir á sviði íþróttamannvirkja hjá Mosfellsbæ þar sem er annars vegar bygging fjölnota íþróttahúss og hins vegar endurnýjun gólfa í sölum Varmár.

Mosfellsbær í fremstu röð
Spurðir um afstöðu til þjónustu Mosfellsbæjar í heild reyndust 82% mjög eða frekar ánægð en á milli ára hækkar Mosfellsbær í þremur málaflokkum en lækkar í tveimur.
Ánægja vex milli ára á sviði leikskólamála, grunnskólamála og því hversu vel íbúum þykir starfsfólk bæjarins hafa leyst úr erindum þeirra. Það dregur hins vegar úr ánægju milli ára á sviði aðstöðu til íþróttaiðkunar og hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum.

Ánægjuleg tíðindi
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist um margt ánægður með útkomuna og að könnun Gallup sé á hverjum tíma hluti af þeim gögnum sem nýtt eru til þess að vinna að umbótum í starfsemi Mosfellsbæjar.
„Það sem er ánægjulegt er að á heildina litið eru Mosfellingar mjög ánægðir með bæinn sinn. Við höfum alltaf verið í einu af þremur efstu sætunum þegar spurt er um Mosfellsbæ sem stað til að búa á og ég er nú sem fyrr stoltur af því.
Íbúafjölgun síðustu tveggja ára er mikil og að mínu mati eru það frábær tíðindi að okkar flotta starfsfólki hafi tekist að taka á móti um 1.000 nýjum íbúum tvö ár í röð og haldið áfram að veita íbúum framúrskarandi þjónustu.
Það er gott að sjá að ánægja með þjónustu grunnskóla og leikskóla eykst á milli ára og það sama gildir um það hversu vel íbúum þykir starfsfólk bæjarins hafa leyst úr erindum þeirra.
Eins og ávallt þá er svigrúm til að gera betur og ég vil huga vel að þeim þáttum sem koma síður út í könnuninni eða rísa hægar en metnaður okkar stendur til og vinna markvisst að umbótum á þeim sviðum.“

—–
Heildarúrtak í könnuninni er 9.861 manns, þar af 420 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á slóðinni mos.is/gallup2018.

Hugmyndasöfnun hafin fyrir Okkar Mosó 2019

okkarm

Útivistarparadís á Stekkjarflöt hlaut flest atkvæði í Okkar Mosó árið 2017. Strandblakvöllur var meðal þess sem var framkvæmt á svæðinu.

Nú stendur yfir hugmyndasöfnun vegna Okkar Mosó 2019 sem er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Verkefnið byggir m.a. á þeim áherslum sem settar eru í lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar um samráð og íbúakosningar þar sem leitast skal við að hafa samráð við íbúa og hagsmunaaðila áður en ákvarðanir eru teknar í mikilvægum málefnum er varða hagsmuni þeirra. Einnig er markmið verkefnisins að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði.

Allt að 35 milljónir í pottinum
Okkar Mosó 2019 byggist á þeirri reynslu sem skapaðist í sambærilegu verkefni á árinu 2017 auk þess að byggja á reynslu annarra borga og bæja hérlendis og erlendis.
Gert er ráð fyrir að verja allt að 35 milljónum króna til framkvæmda á þeim hugmyndum að verkefnum sem hljóta brautargengi í kosningum sem fara fram dagana 17.– 28. maí.
Sem fyrr verður Mosfellsbær allur eitt svæði í hugmyndasöfnun og kosningu. Við úrvinnslu hugmynda verður hins vegar leitast við að tryggja að þau verkefni sem kosið verður um séu landfræðilega dreifð innan sveitarfélagsins.

Óskað eftir frumlegum hugmyndum
Óskað er eftir hugmyndum frá íbúum um smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefni í Mosfellsbæ til að kjósa um í íbúakosningu. Hugmyndin verður að falla að stefnu bæjarins og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar stofnanir eða sveitarfélag.
Sérstaklega er hvatt til þess að þátttakendur setji fram frumlegar hugmyndir eða nýja nálgun við þekkt viðfangsefni. Hugmyndir geta t.d. varðað umhverfið almennt og möguleika til útivistar og samveru, s.s. bekkir, gróður, útilistaverk og fegrun. Bætta lýðheilsu þ.e. aðstöðu til leikja eða afþreyingar, s.s. að bæta leiksvæði og endurnýja leiktæki. Vistvænar samgöngur þ.e. betri aðstöðu til göngu, hjólreiða og notkun almenningssamgangna, s.s. stígatengingar, lýsingu og lagfæringu gönguleiða.

Greinargóð lýsing æskileg
Hugmyndir að verkefnum þurfa að mæta eftirfarandi skilyrðum til að eiga möguleika á að verða sett í kosningu:
• Nýtist hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
• Vera til fjárfestinga en ekki rekstrar.
• Vera framkvæmanleg án mjög flókins undirbúnings.
• Varða umhverfi á bæjarlandi en ekki á landi í einkaeigu.
• Líftími fjárfestingar skal vera að lágmarki fimm ár.
• Falla að skipulagi Mosfellsbæjar og stefnu, sé í verkahring sveitarfélagsins og á landi í eigu þess.
Hugmyndin þarf að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með að átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Greinargóð lýsing auðveldar mat og hvort hugmynd nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu.

Stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra

hamrarnet

Velferðarráðuneytið hefur samþykkt ósk Mosfellsbæjar um að stækka hjúkrunarheimilið Hamra um 44 rými og verða rými heimilisins þá alls 74. Stækkunin mun auka framboð á hjúkrunarrýmum auk þess að gera rekstrareininguna hagkvæmari. Undirbúningsvinna er þegar hafin í samvinnu ráðuneytisins og Mosfellsbæjar. Bæjarráð Mosfellsbæjar fagnar áformum um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra og er til viðræðna um að byggja hjúkrunarheimilið ef viðunandi samningur næst en leggur til að rekstur heimilisins verði á hendi ríkisins enda er það lögbundið verkefni ríkisins.

Bæjarráð fól bæjarstjóra áframhaldandi viðræður við ríkið. Lögbundið er að sveitarfélög greiða 15% af stofnkostnaði hjúkrunarheimila en ríkið 85%. Hjúkrunarheimilið Hamrar var vígt 27. júní 2013. Þar eru 30 einstaklingsíbúðir en heimilið er 2.250 fermetrar. Hamrar eru á sama stað og öryggisíbúðir og þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara.

Lægri skattur á hollustu?

Heilsumolar_Gaua_14mars

Ég get ekki hægt að hugsa um matsölustaðina í Mosfellsbæ. Líklega vegna þess að ég er á flakki um heiminn og upplifi sterkt hvað umhverfið hefur mikil áhrif á heilsufar íbúa. Ég hef farið í hverfi þar sem mikil leitun var að hollum munnbita. Nánast allt sem hægt var að kaupa í þeim var bæði ódýrt og óhollt. Og fólkið sem rölti um þessi hverfi endurspeglaði vöruframboðið. Allt of þungt og óheilbrigt að sjá. Ég hef líka verið í hverfum þar sem hollustan er í fyrirrúmi. Og verðið mannsæmandi.

Fólk sem býr í þannig hverfum lítur öðruvísi út. Hreyfir sig öðruvísi. Þetta skiptir máli. Mjög miklu. Að fólki standi til boða hollur og góður matur á verði sem það ræður við. Ég hef líka farið inn í búðir sem bara moldríkir hafa efni á að versla í. Flottar búðir með hollar og góðar vörur, maður lifandi. En það er ekki leiðin, að hollustan sé bara fyrir þá sem eiga sand af seðlum og að þeir sem búa ekki svo vel verði að sætta sig við óhollustu. Það leiðir bara til enn meiri ójöfnuðar í samfélögum.

En hvað er hægt að gera, hvernig fáum við holla og ekki of dýra matsölustaði í Mosfellsbæ? Getum við prófað nýjar leiðir til þess að fá slíka staði í bæjarfélagið okkar? Leiðir sem ekki hafa verið farnar áður. Ættum við kannski að bjóða hollustustöðum lægri leigu, lægri fasteignagjöld, skattaafslátt eða eitthvað annað sem skiptir máli fyrir reksturinn? Þetta er gert á ýmsum stöðum í heiminum, af hverju ekki í Mosfellsbæ?

Hvað segir þú, kæri lesandi? Lumar þú á einhverjum hugmyndum? Ef svo, máttu endilega senda mér línu á gudjon@njottuferdalagsins.is og ég skal koma þeim á framfæri. Minni svo alla á að taka eftir litlu hlutunum í lífinu, ekki æða í gegnum það í stresskasti. Hamingju – og heilsukveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. mars 2019

Snjallsímabann hefur gengið vonum framar

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Um áramótin tóku í gildi nýjar skólareglur um notkun snjall­síma á skólatíma í eldri deild Varmárskóla. Ákvörðunin var tekin í samráði við nemendafélag skólans og er hluti af verkefninu Betri skólabragur.
„Þegar þessi hugmynd kom upp þá funduðum við með nemendaráði skólans. Þau voru tilbúin að koma með okkur í þetta verkefni og við unnum þetta í raun með þeim. Þau gengu svo í allar stofur og kynntu nýju reglurnar fyrir samnemendum sínum,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri Varmárskóla.

Hafa keypt borðtennisborð og fótboltaspil
Nýju símareglurnar eru þær að ekki má vera í síma á göngum skólans eða í kennslustofum nema að kennari gefi til þess sérstakt leyfi. Brjóti nemandi símareglurnar er síminn tekinn og afhentur aftur í lok skóladags.
„Þetta hefur gengið ljómandi vel, eiginlega betur en við þorðum að vona. Skólinn hefur komið til móts við nemendur í þessu verkefni og keypt inn ný leiktæki eins og borðtennisborð og fótboltaspil. Auðvitað hefur þetta reynst nemendum miserfitt en ég held að í heildina séu allir ánægðir með þetta, bæði nemendur, kennarar og foreldrar.“

Líf á göngunum í frímínútum
„Skólabragurinn hefur breyst mikið og nota krakkarnir tímann í að leika, spila og lesa. Ein ástæðan fyrir því að við fórum í þessar breytingar var að við upplifðum að í frímínútum voru allir í sínum síma og einu samskiptin voru kannski þegar þau voru að sýna hvert öðru eitthvað í símanum. Núna er meira líf á göngunum og meiri hávaði sem er jákvætt í þessu samhengi,“ segir Þórhildur að lokum.

Aldrei of seint að byrja að æfa

mosfellingurinn_maria

María Guðrún Sveinbjörnsdóttir vélaverkfræðingur í þróunardeild Össurar er fremsta taekwondo-kona landsins.

Taekwondo er ævaforn kóresk bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt þar sem fæturnir leika aðalhlutverkið. María Guðrún Sveinbjörnsdóttir byrjaði að æfa taekwondo fyrir níu árum og hefur náð frábærum árangri. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari og hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd.
María leggur mikið af mörkum við uppbyggingu á taekwondo-íþróttinni á Íslandi og hefur verið máttarstólpi í allri þeirri vinnu.

María Guðrún er fædd í Reykjavík 28. júní 1980. Foreldrar hennar eru þau Halldóra Jóna Guðmunda Sölvadóttir íþróttaþjálfari og Sveinbjörn Guðjón Guðjónsson bifvélavirki en hann er látinn.
Systkini Maríu eru þau Laufey Jakobína f. 1959 d. 2018, Guðbjörg Sveinfríður f. 1962, Viðar Örn f. 1963 og tvíburasystirin Halla Sigrún f. 1980.

Þræddum allar bílasölur
„Ég ólst upp í Kópavoginum og þar var fínt að alast upp. Þegar maður rifjar upp æskuna þá eru minningarnar ansi margar en eftirminnilegir voru nú sunnudagsbíltúrarnir með pabba og tvíburasystur minni. Pabbi þræddi allar bílasölur á höfuðborgarsvæðinu og svo lá leiðin út á Granda til að skoða bátana. Áður en haldið var heim á leið var komið við á Bæjarins bestu.
Hvert einasta sumar fórum við fjölskyldan vestur því mamma er frá Aðalvík á Hornströndum og pabbi frá Hesti í Önundarfirði. Það skemmtilegasta sem ég veit er að vera á þessum stöðum, að njóta náttúrunnar og ganga á fjöll. Tvö af systkinum mínum bjuggu á Ísafirði þegar ég var barn og ég fékk oft að verða eftir hjá þeim yfir sumartímann og það fannst mér nú ekki leiðinlegt.“

Lesblinda háði mér alla tíð
„Ég gekk í Hjallaskóla og fór svo í Menntaskólann í Kópavogi. Ég var svona eins og sumir segja, lúði eða nörd og var ekki vinsælasti krakkinn í skólanum.
Ég var mjög samviskusöm og góð í raungreinum en lesblinda háði mér alla tíð og ég átti erfitt með tungumálin. Ég skammaðist mín fyrir að vera lesblind og reyndi að halda því leyndu eins lengi og ég gat. Í dag er staða mín allt önnur og ég læt ekkert stoppa mig.
Ég vann alla tíð með skóla en ég vann hjá mömmu við að baka kleinur á morgnana, svo skúraði ég á kvöldin og var stuðningsfulltrúi um helgar.“

Pantaði pizzu á Dominos
„Ég starfaði á Dominos á menntaskólaárunum og þar kynntist ég eiginmanni mínum, Eyjólfi Bjarna Sigurjónssyni viðskiptafræðingi á endurskoðandasviði hjá Deloitte, en hann var að panta sér pizzu. Við trúlofuðum okkur ári seinna þegar hann var að útskrifast úr Verzló en þá átti ég ár eftir í námi. Hann fór síðan í nám á Bifröst og kom til mín um helgar. Ég ákvað að taka mér ársfrí frá námi eftir útskrift og flutti upp á Bifröst og fékk vinnu á leikskólanum. Ég varð fljótlega ófrísk og dóttir okkar, Vigdís Helga, fæddist árið 2001 og árin á Bifröst urðu tvö.“

Flutti til Danmerkur
Árið 2002 eða eftir dvölina á Bifröst flutti fjölskyldan til Danmerkur og María Guðrún fór í vélaverkfræðinám í háskólanum í Álaborg. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni og þá vélum sérstaklega, rífa þær í sundur og sjá hvernig þær virka. Það lá alltaf vel fyrir mér að læra vélaverkfræðina og ég var orðin góð í að handreikna stærðfræðina. Eyjólfur var heima með dóttur okkar til að byrja með en fór síðan í nám í alþjóðaviðskiptum.
Við eignuðumst svo aðra dóttur árið 2005, Iðunni Önnu, og ég rétt náði að verja ritgerðina mína áður en hún kom í heiminn.“

Smábær í stórborg
„Þegar ég var búin með eitt ár af tveimur í mastersnáminu varð pabbi minn bráðkvaddur. Við fluttum þá skyndilega heim til Íslands til að hjálpa mömmu og vera nær fjölskyldunni. Við fluttum í Mosó því maðurinn minn tók ekki annað í mál enda alinn hér upp frá 12 ára aldri. Ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt hingað því þetta er svona smábær í stórborg.
Ég samdi við stoðtækjafyrirtækið Össur um að fá að klára mastersritgerðina hjá þeim og var þá nemi í eitt ár. Ég útskrifast svo 2008 og hef starfað þar síðan. Það er dásamlegt að vera þarna og ég starfa við þróun í fótateyminu.
Við Eyjólfur eignuðumst yngsta barnið okkar, Sigurjón Kára, árið 2010. Við erum dugleg að ferðast fjölskyldan og förum á árlega á mínar heimaslóðir fyrir vestan.“

Það var ekki aftur snúið
„Einn daginn skutlaði ég dóttur minni á taekwondo-æfingu og ákvað að bíða eftir henni og horfa á æfinguna. Ég hafði lengi vel verið í karate og jujitsu en aldrei taekwondo­ og eftir æfinguna hugsaði ég með mér að þetta gæti verið skemmilegt. Ég skráði mig á æfingu og það var ekki aftur snúið, þetta var svo gaman og félagsskapurinn frábær. Það er aldrei of seint að byrja að æfa, ég hvet alla til að koma og prófa.
Ég hef lært ansi margt frá því ég byrjaði í taekwondo, þrautseigju, sjálfstraust og vera ekki hrædd við að mistakast.“

Sumir eru hissa og trúa okkur ekki
„Ég hef verið svo heppin að börnunum mínum finnst einnig skemmtilegt að æfa taekwondo og það hefur fært mig nær þeim. Að vera með dætrum mínum í landsliðinu, æfa og ferðast saman, er algjörlega ómetanlegt. Sumir eru mjög hissa og trúa því ekki að við séum mæðgur, halda að ég sé þjálfarinn eða systir þeirra.“
María Guðrún hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd og unnið til fjölda verðlauna. Hún var valin íþróttakona Mosfellsbæjar og íþróttakona Aftureldingar árið 2018 og hefur verið valin tae­kwondo-kona ársins hjá TKÍ tvö ár í röð.
En hvert skyldi María stefna í íþróttinni? „Ég stefni á að verða heimsmeistari þó að það taki mig mörg ár að komast þangað,” segir María og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 21. febrúar 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fyrsta úthlutun úr Samfélags­sjóði Kaupfélags Kjalarnesþings

samfelagssjodur

Tíu fengu styrk í þessari fyrstu úthlutun Samfélagssjóðsins og má sjá fulltrúa þeirra hér að ofan ásamt stjórnarmönnum sjóðsins en stjórnin er skipuð þeim Stefáni Ómari Jónssyni, Birgi D. Sveinssyni, Svanlaugu Aðalsteinsdóttur, Sigríði Halldórsdóttur og Steindóri Hálfdánarsyni. 

Laugardaginn 2. febrúar fór fram fyrsta úthlutun úr samfélagssjóði KKÞ og var alls úthlutað 16 milljónum.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og er stofnfé sjóðsins 50 milljónir.
Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjámunum til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði KKÞ sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.

Kaupfélaginu slitið árið 2016
Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af, eða frá 1956, í Mosfellssveit.
Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það meðal annars til Krónunnar og fleiri aðila. Félaginu var slitið í júlí árið 2016 og samfélagssjóðurinn stofnaður í lok árs 2017.
Alls sóttu 20 um styrk í þessari fyrstu úthlutun þar sem áhersla var lögð á æskulýðsmál og málefni eldri borgara. Tíu umsóknir fengu styrk, fimm var vísað á næstu úthlutun sem fer fram í vor og fimm uppfylltu ekki skilyrði úthlutunarreglna.

Fjármunir til grasrótarinnar
„Félagsmönnum kaupfélagsins ber að þakka fyrir þá skynsamlegu ákvörðun að slíta félaginu um mitt ár 2016,“ segir Stefán Ómar Jónsson formaður Samfélagssjóðs KKÞ. „Þá voru eignir félagsins seldar og þær peningalegu eignir sem eftir stóðu látnar renna inn í sjálfseignarstofnunina Samfélagssjóð KKÞ. Án þeirrar ákvörðunar værum við ekki að færa hluta fjármunanna aftur heim í hérað, til grasrótarinnar.
Þegar stjórn sjóðsins hefur lokið störfum og úthlutað því fé sem hún hefur fær til úthlutunar verður sjóðurinn lagður niður,“ segir Stefán Ómar.

Íbúðir fyrir 50+ á kaupfélagsreitnum
Við sama tilefni kom út Saga Kaupfélags Kjalarnesþings 1950–2017. Eitt af fyrstu verkefnum sjórnar sjóðsins var að fá Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðing til að rita sögu félagsins.
Í dag er búið að rífa gamla kaupfélagið og sjoppuna sem stóðu við Bjarkarholt. Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu á kaupfélagsreitnum og er gert ráð fyrir fjölbýlishúsum fyrir 50 ára og eldri.

Önnur úthlutun sjóðsins
Samfélagssjóðurinn auglýsir nú eftir umsóknum á sviði menningarstarfsemi og menningarmála. Hægt er að nálgast umóknareyðublöð á heimasíðu sjóðsins www.kaupo.is og er umsóknarfrestur til 17. mars.

————

Eftirtaldir hlutu styrk:

Björgunarsveitin Kyndill
Kr. 2.500.000
Vegna ýmis konar búnaðar sem nauðsynlegur er vegna þjálfunar og til uppbyggingar á tækjabúnaði. Búnaður sem nýtist einnig almennu starfi sveitarinnar enda hefur sveitin lagt kapp á öfluga uppbyggingu unglingastarfsins sem er mikilvægur liður í að þjálfa fullgilda björgunarsveitarmenn.

Félagsstarf aldraðra
Kr. 500.000
Til kaupa á húsgögnum og ýmis konar búnaði sem nauðsynlegur er félagsstarfinu á Eirhömrum og gagnast þeim fjölmörgu eldri borgurum sem þangað sækja þjónustu.

Félag aldraðra – FaMos
Kr. 1.500.000
Til endurnýjunar á tölvubúnaði félagsins, endurgerðar á heimasíðu og til að efla tölvuþekkingu félagsmanna. Til kaupa á skáktölvum og klukkum og almennt til að efla starfsemi Félags aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni.

Hestamannafélagið Hörður
Kr. 2.000.000
Til uppbyggingar á TREC hestaþrauta- og keppnisbraut á félagssvæði Harðar norðan Harðarbóls. TREC brautin nýtist öflugu unglingastarfi félagsins og einnig í samstarfi Harðar og Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, en skólinn heldur úti kennslu á sérstöku hestakjörsviði.

Rauði krossinn í Mosfellsbæ
Kr. 1.000.000
Styrkurinn er veittur til æskulýðsstarfsemi með áherslu á námsaðstoð til grunnskólabarna, tungumála- og samfélagsþjónustu við börn innflytjenda.

Reykjadalur
Kr. 3.000.000
Styrkur veittur til uppbyggingar á gervigrassparkvelli á útivistarsvæði. Þar er rekin sumar- og helgardvalar­aðstaða fyrir fötluð börn og ungmenni.

Skátafélagið Mosverjar
Kr. 2.500.000
Vegna uppbyggingar á lóð skátafélagsins þar sem koma á upp aðstöðu til útieldunar, aðstöðu til að æfa tjöldun og fleira til kennslu ungra skáta.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
Kr. 1.500.000
Styrkurinn er veittur til kaupa á einkennisfatnaði fyrir Skólahljómsveit Mosfellsbæjar. Sveitin hefur verið starfrækt frá árinu 1963.

Ungmennafélagið Afturelding
Kr. 1.000.000
Til endurnýjunar á húsgögnum og ýmis konar búnaði í fundaraðstöðu ungmennafélagsins sem staðsett er á vallarsvæðinu að Varmá.

Ungmennafélag Kjalnesinga
Kr. 500.000
Styrkurinn veittur til enduruppbyggingar almenns ungmennafélagsstarfs á Kjalarnesi. UMFK er í mikilli uppbyggingu og tekist hefur að lífga félagið við.

Rauði krossinn heiðraður í Kærleiksvikunni

kærleiksvikarki

Kærleiksvikan fór fram í Mosfellsbæ 11.–17. febrúar. Þriðjudaginn 12. febrúar fór fram hátíðarstund í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þar sem Rauði krossinn var heiðraður fyrir þeirra frábæra sjálfboðaliðastarf.
Þá hélt Þorgrímur Þráinsson fróðlegt erindi sem nefndist „Erum við að gera okkar besta?“ Skólakór Varmárskóla söng nokkur lög auk þess sem vinnustofa Skálatúns var með kærleiksgjafir til sölu.

Sérstakar þakkir til Ásgarðs
„Við viljum koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í Kærleiksvikunni. Sérstakar þakkir fá Ásgarðsmenn fyrir smíðagripinn „faðmlag“ sem við veittum Rauða krossinum í Mosfellsbæ í ár og einnig mikið þakklæti fyrir alla gripina sem við höfum veitt síðastliðin ár.“
Kærleiksvikan var nú haldin í 10. skipti og ætla núverandi skipuleggjendur að láta þar við sitja. Óskað er eftir arftökum þeirra sem hefðu áhuga á að taka við keflinu.

Óska eftir áhugasömum arftökum
„Veitir okkur nokkuð af því að auðga kærleiksrík samskipti?“ segir Vigdís Steindórsdóttir sem er skipuleggjandi vikunnar ásamt þeim Oddnýju Magnúsdóttur og Jóhönnu B. Magnúsdóttur.
„Við þökkum öllum sem lagt hafa verkefninu lið fyrir framlag og samstarf og þar er efst í huga móttökurnar í Blik Bistro & Grill á spákaffinu síðastliðinn laugardag. Þar var virkilega kærleikur að verki.“

Lýðræðisverkefnið Okkar Mosó 2019 fer af stað

okkarmosonet

Á fundi bæjarráðs þann 14. febrúar var samþykkt að hefja vinnu við verkefnið Okkar Mosó 2019. Verkefnið er samráðsverkefni íbúa og Mosfellsbæjar um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Okkar Mosó 2019 er liður í að efla aðkomu bæjarbúa að stefnumótun og ákvarðanatöku um málefni bæjarins en aðrir liðir hafa falist í opnum fundum nefnda og könnunum á viðhorfi íbúa.
Þá má gera ráð fyrir því að hin nýja lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar taki þátt í að þróa áfram viðfangsefni á sviði íbúalýðræðis og þegar við á umbætur á sviði lýðræðismála í bænum til samræmis við áherslur í lýðræðisstefnu hvers tíma.
Í Okkar Mosó 2019 verður miðað við að þær nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni sem hljóta brautargengi á meðal íbúa eigi sér stað bæði á árinu 2019 og 2020 og að til þeirra verði varið 35 milljónum króna.
Verkefnið skiptist í fjóra áfanga, þ.e. hugmyndasöfnun, umræðu um hugmyndir og úrvinnslu þeirra, kosningar og loks framkvæmd.

Helstu tímasetningar:
Kynningarfundur fyrir íbúa 27. febrúar 2019.
Hugmyndasöfnun í tvær vikur 7.–21. mars 2019.
Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda – 17.–28. maí 2019.
Framkvæmdir frá júní 2019 til október 2020.

Líkamsrækt fyrir lífið

Heilsumolar_Gaua_21feb

Ég sé nánast á hverjum degi auglýsingar um líkamsrækt. Flestar snúast um að fylgja ákveðnu æfingaprógrammi í stuttan tíma til þess að líta út eins og rómverskt goð. Auðvelt. Gera ákveðnar æfingar í nokkrar vikur til að missa öll aukakíló og bæta á sig 10–20 kg af vöðvum. Þetta eru grípandi auglýsingar og freistandi að stökkva á tilboðin. En innst inni vitum við öll að þetta er ekki hægt, það verður enginn að rómversku goði á nokkrum vikum. Jákvæðara og uppbyggilegra til styttri og lengri tíma er að hugsa um líkamsrækt sem leið til þess að líða betur – andlega og líkamlega og til þess að fá meira út úr því sem maður vill gera í lífinu. Vera í standi til þess að gera skemmtilega hluti sem krefjast þess að maður sé í góðu líkamlegu ásigkomulagi.

Ég hef verið að hugsa talsvert um þetta undanfarið. Við fjölskyldan og margir úr æfingahópnum okkar í Mosfellsbæ höfum verið að upplifa góðar stundir í gegnum ýmis konar hreyfingu. Við höfum tekið þátt í Spartanhlaupum – krefjandi en mjög skemmtileg hlaup þar sem þarf að nota styrk, úthald, liðleika og samhæfingu til þess að komast í gegnum ýmsar þrautir. Margir hafa verið að fara í skíðaferðir. Margir stunda fjallgöngur. Við fjölskyldan erum núna að læra á brimbretti.

Það sem tengir þetta saman er sá góði grunnur sem reglulegar líkamsæfingar hafa fært okkur. Það er auðveldara og miklu skemmtilegra að fara á skíði og brimbretti, í fjallgöngur og aðra hressandi og gefandi útiveru ef maður góðan alhliða styrk, góða samhæfingu og gott úthald. Maður er fljótari að læra nýja tækni, getur skíðað/hreyft sig lengur og er fljótari að jafna sig á eftir. Gleymum rómversku goðunum og þeirra fölsku skyndilausnum, einbeitum okkur frekar að stunda holla og góða líkamsrækt, reglulega, allt árið um kring. Það býr til góðan grunn fyrir lífið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. febrúar 2019

Kvenfélagið færir Hömrum gjafir

hamrargjafir

Kvenfélag Mosfellsbæjar færði hjúkrunarheimilinu Hömrum góðar gjafir í kringum hátíðirnar.
Fyrir jól fékk heimilið tvo kolla á hjólum sem auðvelda starfsfólki vinnu sína og nokkur snúningslök. Eftir áramót færði félagið hjúkrunarheimilinu tvö vegleg sjónvörp sem leysa af hólmi eldri sjónvörp í setustofum Hamra.
Kvenfélag Mosfellsbæjar lætur sér annt um nærsamfélag sitt og hefur alla tíð frá stofnun þess árið 1909 stuðlað að bættum hag íbúanna á einn eða annan hátt. Sem dæmi um það má nefna að upp úr 1980 hófu kvenfélagskonur baráttu fyrir því að byggt yrði hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ. Heimilið varð að veruleika rúmum 30 árum seinna og Kvenfélagið gerir sitt besta til að hlúa að þessu óskabarni sínu.
Gjafir sem þessar geta þó einungis orðið að veruleika með hjálp og hlýhug íbúa sveitarfélagsins sem kaupa kökur og handverk af Kvenfélaginu á jólabasarnum í desember ár hvert.
Kvenfélag Mosfellsbæjar færir Mosfellingum hjartans þakkir fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt félaginu í gegnum tíðina.

Aukið umferðar­öryggi í Kjósinni

Nýr vinnuhópur  hefur verið skipaður.

Nýr vinnuhópur hefur verið skipaður.

Kjósarhreppur er nú að hefja vinnu við gerð umferðaröryggisáætlunar sem miðar að því að auka vitund um umferðaröryggismál meðal forráðamanna sveitarfélagsins og íbúa. Í því felst að greina stöðuna, finna slysastaði, gera úrbætur, setja sér markmið og gera aðgerðaáætlun.
Mörg sveitarfélög í landinu hafa gert slíka áætlun eftir leiðbeiningum Samgöngustofu. Kristjana Erna Pálsdóttir hjá VSÓ Ráðgjöf leiðir verkefnið ásamt Regínu Hansen Guðbjörnsdóttur hreppsnefndarfulltrúa og formanns samgöngu– og fjarskiptanefndar í Kjós. Hagsmunaaðilar í Kjós koma einnig að verkefninu eins og fulltrúi hestamanna, fulltrúi íbúa, björgunarsveitarinnar og bílstjóri skólabílsins.

Skipaður vinnuhópur og íbúafundur
Skipaður hefur verið vinnuhópur en hann skipa Guðmundur Davíðsson, varaformaður samgöngu- og fjarskiptanefndar, Hermann Ingólfsson, skólabílstjóri og eigandi Kaffi Kjós, Guðmundur Páll Jakobsson, ritari samgöngu- og fjarskiptanefndar, Adam Finnsson, Björgunarsveitinni Kili, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í öryggis– og fræðsludeild Samgöngustofu, Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá umferðardeild Vegagerðarinnar og Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúafundur 9. febrúar
Íbúafundur verður haldinn laugardaginn 9. febrúar kl.12 í Félagsgarði en þar fá íbúar tækifæri til að koma með frekari ábendingar og ávinning verkefnisins. Allir íbúar eru hvattir til að mæta.