Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins nýtur þess að starfa að líknar- og mannúðarmálum.
Anna Björk er stórglæsileg og geislandi og nýtur hversdagsleikans hvern einasta dag því hún veit af eigin reynslu að hann er ekki sjálfsagður hlutur. Árið 2002 veiktist Anna alvarlega og um tíma var henni ekki hugað líf. Hún var tvö ár að koma sér á fætur aftur og var heppin að skaðast ekki varanlega.
Í dag sinnir hún formannsstarfi hjá Hringnum. Hún segir að starf sitt þar sé hennar leið til að láta allt það góða sem hún naut í átt að betri heilsu ganga áfram til þeirra sem eiga um sárt að binda.
Anna Björk er fædd í rúmi afa síns á Eiríksgötunni í Reykjavík 29. júlí 1958. Foreldrar hennar eru Ingibjörg Jóhannesdóttir ritari og bankastarfsmaður og Cyril Edward Walter Hoblyn bankastarfsmaður.
Drullumölluðum á gangstéttunum
„Ég ólst upp fyrstu árin mín á Eiríksgötu en þar bjó hluti fjölskyldu minnar. Ég og vinkonur mínar, Ingibjörg og Maja, lékum okkur mikið saman á túninu við Landspítalann, þar drullumölluðum við á gangstéttunum.
Leið mín lá síðan vestur í bæ á Hjarðarhagann þegar ég var sjö ára, þá tók Ægisíðan við, grásleppuskúrarnir, fjaran og stór hópur af krökkum sem léku sér saman í boltaleikjum. Báðir þessir staðir skilja eftir sig góðar minningar.“
Þetta voru mínir töfrastaðir
„Stundirnar í Svanahvammi, bústaðnum hjá afa og ömmu í Grímsnesinu, voru dásamlegar. Að leika mér að sprekinu sem afi hafði sagað í eldavélina hennar ömmu og lækurinn þar sem gamli mjólkurbrúsinn var í kælingu, þetta voru mínir töfrastaðir,“ segir Anna og brosir.
„Ég hafði ekki gaman af því að vera í skóla fyrr en ég fór í öldunginn í Menntaskólanum í Hamrahlíð en áður var ég í Austurbæjar-, Mela- og Hagaskóla. Enska hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér en ég er með Shakespeare blæti.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég að vinna í tískuverslun, sinnti fyrirsætustörfum og sýndi á tískusýningum með Karon-samtökunum.“
Ungfrú Ísland 1977
Árið 1976 var Anna valin fulltrúi ungu kynslóðarinnar og fór til Tókýó að keppa fyrir Íslands hönd á Miss Young International. Ári seinna var hún valin ungfrú Ísland og ferðaðist mikið það ár. Árið 1978 fór hún svo til Mexíkó og Acapulco til að taka þátt í keppninni Miss Universe.
„Þetta var virkilega skemmtilegur tími og skilur eftir sig margar góðar minningar. Þegar ég kom heim aftur fór ég að starfa hjá Húsameistara ríkisins. Ég var í námi með fullri vinnu og starfaði í bakaríi um helgar, allt til þess að geta keypt mína fyrstu íbúð.“
Stofnuðu arkitektastofu
Anna Björk kynntist eiginmanni sínum, Guðjóni Magnússyni arkitekt árið 1984 en þau kynntust hjá Húsameistara ríkisins þar sem þau voru bæði við störf. Þau eiga saman þrjár dætur, Aðalheiði Önnu f. 1989 og tvíburana Ingibjörgu Sigríði og Rut Margréti fæddar 1992. „Um það leyti sem við eignuðust tvíburana stofnuðum við hjónin arkitektastofu sem við höfum rekið síðan. Ég hef starfað þar ásamt því að sinna öðrum störfum.
Áður en við fluttum í Mosfellsbæ þá vorum við komin á fullt í hestamennsku og búin að kaupa okkur hesthús hér en við bjuggum áður á Seltjarnarnesi.“
Var ekki hugað líf
Árið 2002 veiktist Anna Björk alvarlega og þurfti að berjast fyrir lífi sínu. Hún hafði fengið bráða heilahimnubólgu og punktablæðingar um allan líkamann. Um tíma var henni ekki hugað líf og var haldið sofandi í tíu daga. Þegar hún vaknaði þá var hún svo illa farin að hún varð að læra alla hversdagslega hluti upp á nýtt eins og að sitja upprétt, ganga og bursta tennurnar.
„Það var full vinna hjá mér í tvö ár að koma mér á fætur aftur og ég þurfti að nota allt mitt hugrekki og þrek til að gera það því uppgjöf var ekki í boði. Ég var mjög heppin að skaðast ekki varanlega nema að mjög litlu leyti. Eftir veikindin er ég með aðeins skerta heyrn á öðru eyranu og svo er ég með viðkvæma liði. En það er ekkert mál, ég læt ekkert stoppa mig í því sem mig langar til að gera.“
50 milljónir í ýmis verkefni á síðasta ári
„Árið 2006 gekk ég í kvenfélagið Hringinn og hef verið starfandi sjálfboðaliði síðan. Á síðasta ári var ég kosin formaður félagsins sem var mikill heiður. Starf mitt í Hringnum er mín leið til að láta allt það góða sem ég naut í átt að betri heilsu ganga áfram til þeirra sem eiga erfitt.
Hringurinn er stærsti stuðningsaðili Barnaspítala Hringsins, vökudeildarinnar og Bugl auk ýmissa verkefna á LSH. Félagið var 115 ára í janúar sl. og um 400 konur eru starfandi í félaginu. Við héldum upp á afmælið með því að opna veitingastofuna eftir miklar breytingar. Gáfum Barnaspítalanum 30 milljónir í tilefni dagsins en aðbúnaður barna er alltaf í forgangi.
Á síðasta ári gaf Hringurinn nærri 50 milljónir í ýmis verkefni.“
Fær útrás fyrir sköpun og tjáningu
„Árið 2012 fór ég að blogga um mat á síðunni minni, annabjork.is. Ég hef mikinn áhuga á mat og öllu sem viðkemur matargerð. Ég hef líka mikinn áhuga á ljósmyndun svo ég er heppin að geta sameinað þetta tvennt og fá útrás fyrir sköpun og tjáningu. Við Guðjón erum dugleg að fara í gönguferðir, ég fer með myndavélina og hann með skissubókina en hann hefur mikinn áhuga á vatnslitun.“
Ógleymanleg upplifun
„Helsta áhugamál okkar hjóna eru skútusiglingar, við eigum Júlíu Önnu sem er 34 feta seglskúta. Við höfum siglt mikið um Faxaflóann, farið vestur á firði og í eina skiptið sem við höfum farið á Þjóðhátíð í Eyjum fórum við siglandi á skútunni. Það var ógleymanleg upplifun, við féllum alveg fyrir fólkinu, hvað allir voru hjálplegir og elskulegir. Stemningin í Eyjum var frábær og veðrið lék við okkur sem gerði allt svo yndislegt.“
Forréttindi að sjá fjölskylduna dafna
Við hjónin höfum eytt miklum tíma í sumarbústað okkar en þar náum við að slaka vel á. Í vetur byrjuðum við svo að fara í sjósund, sem er ágæt tenging við siglingarnar.
Mér var boðið að ganga í Rótarýklúbbinn hér í bæ síðasta vor og það var mjög skemmtilegt að kynnast öllu því góða fólki sem þar er. Síðast en ekki síst er ég orðin amma og nýt þess í botn að eiga tvo ömmudrengi en þeir heita Andri Hrafnar og Guðjón Freyr. Það eru algjör forréttindi að fá að njóta samvista við þá tvo og sjá fjölskyldu okkar Guðjóns stækka og dafna.“
Mosfellingurinn 14. mars 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs