Náttúran og blómin eru minn heimur

júlí

Júlíana Rannveig Einarsdóttir eða Júlí eins og hún er ávallt kölluð var ung að árum er hún byrjaði að starfa í blómaverslun en áhugi á blómum og blómaskreytingum hefur lengi verið í hennar stórfjölskyldu, langt aftur í ættir. Hún útskrifaðist úr Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1996 og tók síðar að sér starf þar sem brautarstjóri blómaskreytingabrautar og starfaði við það í mörg ár.
Í dag unir Júlí sér vel í sínu eigin gróðurhúsi í Mosfellsdalnum þar sem hún hefur komið sér upp góðri vinnuaðstöðu meðal annars til námskeiðshalds en hún byrjar með haustkransanámskeið núna í október.

Júlíana Rannveig er fædd í Reykjavík 29. desember 1958. Foreldrar hennar eru þau Hafdís Jóhannsdóttir verslunarkona og Einar M. Guðmundsson járnsmiður, leikari og kennari. Hafdís lést árið 2001.
Systkini Júlíönu eru þau Jóhann, Gunnlaugur og Heiða. Júlí er yngst systkinanna sem fædd eru á sex árum en móðir þeirra var 25 ára þegar hún eignaðist Júlí.

Frumbyggjar í Kópavogi
„Ég er alin upp í vesturbæ Kópavogs, foreldrar mínir voru frumbyggjar þar sem kom ekki til af góðu því það var enga lóð að fá í Reykjavík á þessum tíma en foreldrar mínir eru þaðan. Þau byggðu fyrst bílskúrinn og fluttu þangað inn þegar ég var 2 ára og í honum bjuggum við þangað til ég varð 12 ára, sem sagt 6 manna fjölskylda í 40 fm. Mér fannst fínt að búa í Kópavogi enda þekkti ég ekkert annað. Það voru krakkar í hverju húsi og í stærstu fjölskyldunni voru 17 börn.
Vor, sumar og haust lékum við okkur í snú snú og brennóbolta en á veturna var farið á skauta og svo renndum við okkur í brekkunum á öllu sem rann. Ég var send í sveit á sumrin og maður fór norður um miðjan maí og kom ekki aftur fyrr en í september. Ég var mikið fyrir að passa börn bæði í sveitinni og með skólanum, svo vann maður í unglingavinnunni og í fiskbúð og fleira.“

Heimasmurt og mjólk í flösku
„Ég gekk í Kársnesskóla sem var þrísetinn þá, það var enginn skólabíll og ég man aldrei eftir því að hafa verið keyrð eða sótt í skólann. Það var heldur ekkert mötuneyti svo maður fór bara með heimasmurt og mjólk í flösku.
Leiðin lá síðan í Þingholtsskóla sem var splunkunýr skóli og þaðan fór ég í Iðnskólann í Hafnarfirði í almennt nám því ég vissi ekkert hvað ég vildi verða. Ég fór svo út á vinnumarkaðinn og starfaði við símsvörun hjá Geysi og Sláturfélagi Suðurlands.“

Byrjuðu að búa saman 17 ára
Júlí kynntist eiginmanni sínum, Þresti Sigurðssyni, mjög ung. Þau ólust bæði upp í vesturbæ Kópavogs og gengu saman í skóla. Þau trúlofuðu sig eftir að hafa verið saman í þrjú ár og byrjuðu að búa þegar þau voru 17 ára. Þröstur er verktaki með gröfur og vörubíla en hann er símsmiður að mennt. Þau hjónin hafa rekið verktakafyrirtækið í yfir 30 ár.
„Við Þröstur eigum þrjú börn, Hafdísi Huld tónlistarleikkonu f. 1979, hún er gift Alisdair Wright og þau eiga tvö börn, Ara­bellu Iðunni og Elíot Óðinn. Eiður Þorri er fæddur 1982, hann fetaði í fótspor föður síns og er verktaki með gröfur og vörubíla. Hann býr í Hveragerði með Margréti Þ. Magnúsdóttur og þau eiga tvær dætur, Örnu Sól og Ágústu. Fyrir átti hann Aþenu Sif sem býr hjá okkur og stundar nám í FMOS.
Yngst er Telma Huld f. 1984, hún er bílstjóri og hefur verið að vinna við akstur stórra bifreiða í kringum erlendar bíómyndir teknar hér heima. Hún á einn son, Júlían Aðils. Svo eigum við hundinn Mosa, kisur, hesta og hænur.“

Vann við akstur stórra bifreiða
„Ég tók verslunarpróf og meirapróf og vann við akstur stórra bifreiða með manninum mínum. Ég ákvað að hefja nám í Garðyrkjuskóla ríkisins, fór að læra blómaskreytingar og byrjaði 18 ára að vinna í blómabúð hjá Ringelbert í Rósinni.
Ég fann fljótt út að náttúran og blómin eru minn heimur og ég vann í mörgum blómabúðum eftir það en tók síðan að mér starf sem brautarstjóri blómaskreytingabrautar Garðyrkjuskólans frá 2001-2008.“

Dýfði blómunum í vax
„Áhugi á blómaskreytingum hefur lengi verið í minni fjölskyldu, langt aftur í ættir. Ein elsta heimild um blómaskreytingar á Íslandi sem ég hef heyrt um er frá langömmu minni sem bjó á Eskifirði en hún sá um brúðar- og útfararskreytingar.
Amma safnaði lyngi og jurtum yfir sumartímann og geymdi í strigapokum yfir veturinn. Hún bjó til blóm úr kreppappír og dýfði þeim í vax til að þau blotnuðu ekki í rigningu. Hún bankaði stundum upp á hjá fólki ef hún sá blóm út í glugga eða vissi af því að fólk ætti blómstrandi plöntur sem gætu nýst í skreytingar.“

Fékk draum minn uppfylltan
„Ég bjó í vesturbæ Kópavogs fyrstu 45 ár ævi minnar en fékk svo draum minn uppfylltan að flytja út fyrir bæinn. Við hjónin eltum Hafdísi dóttur okkar sem hafði fest kaup á húsi í Mosfellsdal ásamt manni sínum. Við fengum þau síðan til að flytja sig um set og kaupa með okkur Reykjahlíð sem síðar varð Suðurá.
Við endurbyggðum gróðurhúsin, þar hef ég komið mér upp góðri aðstöðu fyrir blómaskreytingar og svo er ég líka með námskeið og tek við bókunum símleiðis. Endurbyggingunni er ekki lokið og verður eflaust seint, við erum endalaust að breyta og bæta.”

Söngur, göngur og glaðleg börn
„Að ganga á fjöll og um landið okkar er dásemdin ein, við erum heppin að búa hér með náttúruna allt í kring. Ég þarf ekki annað en að koma mér í skó og viðeigandi fatnað og ganga af stað. Mín helsta heilsurækt er sú að ég geng hér daglega á Helgafellið eða Æsustaðafjall sem er hérna í bakgarðinum hjá okkur.
Ég hef líka alltaf haft gaman af að syngja og hef sungið í kórum síðan ég var í barnaskóla. Ég hef sungið með Samkór Kópavogs, Skagfirsku söngsveitinni, Álafosskórnum og Samstillingu en í dag syng ég með Léttsveit Reykjavíkur sem telur um 130 konur.
Er þá ekki óhætt að segja að áhugamál þín séu blóm, göngur og söngur? „Jú, svo sannarlega,“ segir Júlí brosandi og bætir við: „Og glaðleg börn.“ Með þeim orðum kveðjumst við.

Mosfellingurinn 3. október 2019
ruth@mosfellingur.is