Fólkið mitt

Heilsumolar_Gaua_3okt

Þegar maður spyr fólk hvað skipti það mestu máli í lífinu nefna flestir fjölskylduna og/eða nána vinir sem eitt af því mikilvægasta. Fólkið manns. Samt er raunveruleiki margra sá að þeir forgangsraða lífinu þannig að fólkið sem skiptir þá mestu máli verður útundan.

Mikil vinna og stundum tíma­krefjandi áhugamál eru á undan í forgangsröðinni. Fólkið manns er yfirleitt nánasta fjölskylda, en ekki alltaf. Fjölskylduaðstæður eru alls konar og í sumum tilvikum mynda góðir vinir þennan mikilvæga hóp, fólkið mitt.

Hópinn mynda einstaklingar sem standa með þér í blíðu og stríðu, taka þér eins og þú ert, bakka þig upp þegar á þarf að halda og fagna með þér á gleðistundum. Mér sjálfum líður best þegar ég er að gera eitthvað með mínu fólki, langbest finnst mér þegar við náum að sameina ferðalög, hreyfingu og samveru.

Ég upplifði svoleiðis stund um þarsíðustu helgi. Þá fórum við hjónin með alla okkar syni á Strandir í leitir og réttir. Við fengum frumburðinn (sem er enn ekki nema 22ja ára þrátt fyrir að einhverjir haldi að hann sé eldri) og kærustuna hans heim frá Danmörku og fórum með allt gengið okkar norður. Þetta var frábær helgi, mikið labbað, sund og náttúrupottur alla daga og góð samvera.

Um nýliðna helgi fengum við svo afa og ömmur og tengdafjölskylduna í heimsókn til okkar. Súpa, kaka og skemmtilegt spjall. Ég er að reyna að bæta mig í þessu, hef stundum verið í þeim hópi sem forgangsraðar í misræmi við eigin gildi. En finn skýrt þegar ég forgangsraða lífinu í samræmi við það sem mér finnst mikilvægast hvað það gefur mér mikið.

Svo má ekki gleyma fólkinu sem ekki tilheyrir innsta kjarnanum, en er samt hluti af stóra fólkið mitt menginu. Við erum félagsverur mannfólkið, þurfum hvert á öðru að halda til að líða vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. október 2019