Elskar að vera þar sem kátínan er

mosfellingurinnbadda

Bjarney Einarsdóttir eða Badda eins og hún er ávallt kölluð er mikill fagurkeri og leggur mikinn metnað í allt sem hún gerir. Heimili hennar ber þess sannarlega merki enda er þar fallegt um að litast.
Badda hefur lengi haft brennandi áhuga á öllu sem viðkemur tísku og förðun og fylgist ávallt með því nýjasta á markaðnum. Hún rak kvenfataverslunina Lady hér í bæ í mörg ár en í dag nýtur hún lífsins með fjölskyldu og vinum og veit ekkert skemmtilegra en að taka lagið með söngfélögum sínum í Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og Kirkjukór Lágafellssóknar.

Bjarney er fædd á Akranesi 13. júní 1943. Foreldrar hennar eru þau Elín Elíasdóttir húsmóðir og Einar Magnússon verkamaður. Systkini Böddu eru þau Georg f. 1940, Viðar f. 1942, Einar f. 1944 og Dröfn f. 1945.

Elskaði að vera búðarkona
„Ég er alin upp á Akranesi og það var dásamlegt að alast upp þar. Systkina- og frændsystkinahópurinn var stór svo það var alltaf nóg um að vera.
Æskuminningarnar eru ansi margar, þegar pabbi kom af sjónum og lék við okkur krakkana og svo jólin, þegar mamma sat og saumaði jólafötin á okkur öll.
Við lékum okkur oft á skautum á Petutúni og svo vorum við vinkonurnar duglegar að trampa á háum hælum á frosinni mold til að heyra hljóðið.
Búðarleikur í eldhúsinu var í miklu uppáhaldi og ég elskaði að vera búðarkona,“ segir Badda og brosir sínu fallega brosi.

Kynntist æskuástinni á Akureyri
„Ég gekk í barnaskóla Akraness og svo Gagnfræðaskólann og mér fannst mjög gaman í skólunum. Var meira að segja kladdastjóri allan Gagnfræðaskólann. Uppáhaldsfögin mín voru leikfimi og kristinfræði og uppáhaldskennarinn minn var Þórunn Bjarnadóttir, en hún var tignarleg kona með flott og sítt hár.
Eftir útskrift fór ég að vinna hjá Slátur­félagi Akraness þar sem ég starfaði í tvö ár en árið 1962 lá leið mín til Akureyrar þar sem ég hóf störf á Hótel Kea. Þetta átti að verða 3 mánaða dvöl en varð að 8 árum því ég kynntist æskuástinni minni og eiginmanni til 50 ára þar.“

Bjuggu í vinnuskúr á Álafossi
Badda giftist Páli Helgasyni tónlistarmanni 8. maí 1965 en hann lést úr krabbameini árið 2016. Þau eignuðust þrjú börn, Helga f. 1963, Einar f. 1966 og Anítu f. 1967. Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin 4.
Fjölskyldan flutti í Mosfellsbæ árið 1973 og bjó fyrst í vinnuskúr á Álafossi í eitt ár á meðan þau byggðu sér raðhús í Byggðarholti. Badda starfaði í barnafataversluninni Anítu í Álfheimum og síðar á Álafossi, Apótekinu í Mosfellsbæ, Kaupfélagssjoppunni, Varmárskóla og leikskólanum Kátakoti á Kjalarnesi.
Badda og Palli voru ákaflega samrýnd hjón, tónlist, söngur og dans voru sameiginleg áhugamál þeirra. Badda söng í öllum blönduðu kórunum sem Palli stjórnaði, Álafosskórnum, Kirkjukór Kjalarness, Kirkjukór Kjósverja, Mosfellskórnum, Landsvirkjunarkórnum og Vorboðunum. Palli spilaði einnig á heimili eldri borgara í Hæðargarði í mörg ár með sveitungum sínum, þeim Úlfhildi og Guðbjörgu.
Badda er þekkt fyrir að vera alltaf með mörg járn í eldinum, hún er mjög listræn og nýtur þess að mála myndir. Hún hefur einnig verið í glerlist, línudansi, spilað boccia, starfað í pólitík, hún söng með sönghópnum Hafmeyjunum í 10 ár og situr nú í menningarnefnd FaMos.

Dugleg að ferðast með fjölskylduna
„Fyrir utan tónlistina þá var hestamennska sameiginlegt áhugamál okkar hjóna en við byrjuðum í hestamennsku þegar Aníta dóttir okkar fékk hest í fermingargjöf.
Palli söng með karlakórnum Stefni og ég var þá formaður Stefnanna, eiginkvenna kórdrengjanna. Við fórum í margar utanlandsferðir með kórfélögum og í útilegur. Við vorum líka dugleg að ferðast með fjölskylduna, þvældumst mikið til Akureyrar og á Akranes. Við hjónin elskuðum að fá til okkar gesti og vinaboðin voru mörg.
Árið 2010 fengum við Palli okkur hjólhýsi og í því áttum við okkar bestu stundir svona á seinni árum, þvældumst víða um landið.“

Lofaði Palla að halda áfram veginn
„Að missa Palla var mér mjög erfitt, það tók tíma að átta sig á hlutunum og vinna úr þessum stóra missi. Ég lofaði Palla að halda áfram veginn og hlúa að öllu okkar og hef gert það, ég er ákveðin í því að njóta lífsins til fulls.
Veistu, mér leiðist aldrei, ég á yndislega fjölskyldu sem er mér allt og stóran og góðan vinahóp sem er mér mjög kær. Ég fer mikið erlendis og skoða mig um með öllu þessu góða fólki í kringum mig.“

Dásamlegur staður fyrir fólk eins og mig
„Í ágúst sl. fór ég til Gdansk í Póllandi ásamt syni mínum og tengdadóttur. Gdansk er dásamlegur staður fyrir fólk eins og mig sem elskar að vera í fólksmergð, fara á markaði, kaffihús, matsölustaði og verslunarmiðstöðvar.
Nú í september er ég að leggja í ferð til Ítalíu með vinum mínum í Vorboðunum þar sem við ætlum að halda tónleika. Í desember ætla ég svo aftur til Gdansk til að njóta aðventunnar en ég ætla að halda jólin hér heima.
Fyrir tveimur árum hélt ég jólin með dóttur minni og fjölskyldu hennar á Tenerife og það var mjög skemmtilegt upplifelsi. Við fórum út að borða á aðfangadag og allir fengu jólapakka.“

Allt í gríni sagt
„Nú er ég að láta mig dreyma um að fara eitthvað á næsta ári, hvert veit ég ekki en það kemur í ljós. Ég elska að vera í margmenni og þar sem kátínan er. Ég hef sagt í gamni mínu við börnin mín að þegar ég kveð þetta jarðríki væri hægt að letra á steininn okkar Palla: Hér hvíla hjónin, Páll Helgason tónlistarmaður og Bjarney Einardóttir gleðikona. En þetta er auðvitað allt í gríni sagt,“ segir Badda og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 12. september 2019
ruth@mosfellingur.is