Þátttökumet á Weetos-mótinu

Keppendur og skipuleggjendur ásamt góðum gestum á Tungubökkum.

Keppendur og skipuleggjendur ásamt góðum gestum á Tungubökkum.

Weetos-mótið í knattspyrnu var haldið við frábærar aðstæður á Tungubakkavelli lokahelgina í ágúst. Mótið er hluti af bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, og var sett þátttökumet í ár.
Um 270 lið í 6. og 7. flokki karla og kvenna tóku þátt í mótinu í ár og komu lið hvaðan­æva af landinu til að taka þátt í þessu árlega móti sem Afturelding hefur staðið að um árabil.

Stærsta íþróttamót árins í Mosfellsbæ
Weetos-mótið er stærsta íþróttamót sem haldið er á hverju ári í Mosfellsbæ. Markmið mótsins er fyrst og fremst að leyfa okkar mikil­vægasta fótboltafólki að njóta sín, skemmta sér og hafa gaman af.
Í ár fengu krakkarnir frábæra heimsókn frá landsliðsfólkinu Birki Má Sævarssyni, Hallberu Gísladóttur og Sif Atladóttur.
Mótahald af þessari stærðargráðu er mikið púsluspil. Til að allt gangi upp treystir knattspyrnudeild Aftureldingar á sjálfboðaliða við skipulagningu mótsins, dómgæslu, sjoppuvaktir, bílastæðavaktir og ótal önnur verkefni sem fylgja móti sem þessu.
Afturelding vill koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sjálfboðaliða sem tóku þátt í að gera mótið í ár að því stærsta frá upphafi.

Knattspyrnufólk framtíðarinnar
Ekki má gleyma aðalstyrktaraðila mótsins, Weetos, sem styrkir mótið myndarlega og hjálpar Aftureldingu við að taka myndarlega á móti framtíðarknattspyrnufólki okkar. Knattspyrnudeild Aftureldingar er í skýjunum með hvernig til tókst og hlakkar til að taka á móti knattspyrnufólki frá öllum landshornum í Mosfellsbæ á næsta ári.