Enduropnun Krónunnar eftir breytingar og betrumbætur

Baldur Jónasson verlsunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ.

Baldur Jónasson verslunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ.

Verslun Krónunnar í Mosfellsbæ hefur tekið miklum breytingum á síðustu vikum og má segja að um enduropnun sé að ræða.
Búið er að opna bæði kjúklingastað og sushivinnslu í búðinni og verslunin almennt tekin í gegn. Sjálfsafgreiðslukassar hafa verið teknir í notkun, nammibarinn fjarlægður og plastpokar á útleið.
Krónan er stór vinnustaður en þar eru um 80 manns á launaskrá og margt ungt fólk byrjar sinn starfsferil innan fyrirtækisins. Við hittum verslunarstjóra Krónunnar, Baldur Jónasson.

Nýr kjúklingastaður og sushivinnsla á staðnum
„Við höfum beðið spennt eftir þessum nýjungum sem nú eru komnar í gagnið. Við höfum lækkað alla rekka og tekið í notkun nýja og orkusparandi kæla. Anddyrið hefur verið opnað betur og yfirsýnin yfir búðina er miklu betri,“ segir Baldur. Sjálfsafgreiðslukassar eru nú í boði í versluninni og hefur þeim verið tekið framar vonum. „Þetta hefur hjálpað okkur að halda búðinni betri. Við höfum ekki sparað eina einustu vinnustund, heldur bætt þjónustuna. Við sjálfsafgreiðslukassana er alltaf starfsmaður sem er tilbúinn að aðstoða og kenna. Fólk hefur samt auðvitað val hvernig það gengur frá kaupunum.“
Tokyo Sushi hefur opnað í Krónunni ásamt kjúklingastaðnum Rotissiere. „Það gerir íbúum auðveldara að grípa með sér tilbúinn mat. Sushivinnsla er á staðnum og verður hægt að kaupa úr borði eða panta eftir óskum. Kjúklingastaðurinn á eftir að verða mjög vinsæll en þar er hægt að ná sér í eldgrillaðan kjúkling ásamt öllu helsta meðlæti sem til þarf.“

Ávaxtamarkaður í stað nammibars
Krónan er hætt með nammibar og býður þess í stað upp á ávaxtamarkað þar sem hægt er að kaupa 5 ávexti á 220 kr. „Það er eini nammibarinn okkar í dag. Þú kemur aldrei fyrst að sykruðum vörum í versluninni, nammið er ekki nálægt kössunum og áherslan hjá okkur er fyrst á vatn og sódavatn. Fólk hefur tekið mjög vel í þetta.“
Baldur segir breytingum á versluninni lokið og eru nú allar verslanir Krónunnar svipað uppbyggðar.