Breyta banka í bar

sigmar vilhjálmsson og vilhelm einarsson standa í stórræðum

Sigmar Vilhjálmsson og Vilhelm Einarsson standa í stórræðum.

Miklar framkvæmdir standa yfir í húsinu sem áður hýsti Arion banka í miðbæ Mosfellsbæjar. Félagarnir Sigmar Vilhjálmsson og Vilhelm Einarsson ætla að breyta Arion í Barion.
„Hér mun opna sportbar, hverfisbar, veitingastaður eða hvernig sem við viljum orða það. Við erum að búa til félags­heimili fullorðna fólksins. Þetta verður ekki beint mathöll en alla vega tveir matsölustaðir á einum stað og Hlölli hluti af því. Við munum bjóða upp á steikur, salöt, rif, borgara og almennt góðan mat.“

Fjórir risaskjáir í tveimur rýmum
„Þetta verður skemmtilegur staður til að hittast á og horfa leiki eða stóra viðburði. Við verðum með fjóra risaskjái í tveimur hljóðrýmum. Þá verður svið á staðnum fyrir uppákomur. Hér verður líka hægt að koma með alla fjölskylduna og fara út að borða.
Við höfum stækkað rýmið til að koma öllu fyrir en alls munu komast 140 manns í sæti. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur en stefnt er að því að opna Barion á næstu vikum.“
Þeir Sigmar og Vilhelm eru ekki alls ókunnugur veitingabransanum og hafa komið víða við en síðast ráku þeir saman Shake&Pizza í Keiluhöllinni.

Bankahvelfingin flóknust
Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í húsinu en Sigmar segir gömlu bankahvelfinguna hafa verið flókna að vinna sig í gegnum. „Það voru hér sjö menn í fimm daga þegar mest lét að bora og brjóta niður. Það er ekki til steinsög sem ræður við þetta þannig að þetta var erfiðasta verkið hingað til. Við reynum þó að halda í einhverjar minningar sem gefa staðnum ákveðinn sjarma.“
Öll neðri hæðin er lögð undir nýja staðnum en á efri hæðinni eru íbúðir í langtímaleigu. Eigandi hússins er Mosfellingurinn Óli Valur Steindórsson.