Ætla að afla sér þekkingar um langlífi og heilsuhreysti

Vala, Patrekur Orri, Snorri Valur og Guðjón.

Vala, Patrekur Orri, Snorri Valur og Guðjón.

Hjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson eru á leið í spennandi rannsóknarleiðangur í janúar næstkomandi. Hjónin reka æfingastöðina Kettlebells Iceland á Reykjavegi í Mosfellsbæ.
Vala er menntaður iðjuþjálfi og vann í mörg ár á Reykjalundi, Guðjón er samskiptafræðingur og starfar sem ráðgjafi í orkustjórnun hjá Hagvangi auk þess að skrifa heilsupistla í Mosfelling. Vala og Gaui eiga fjóra drengi á aldrinum 7-23 ára.

Dvelja á stöðum þar sem fólk lifir lengst
„Við Vala og tveir yngstu drengirnir okkar erum að elta hjartað og erum á leið í fimm mánaða rannsóknarleiðangur í janúar. Förum á staði þar sem fólk lifir lengst og við besta heilsu. Við ætlum að taka viðtöl við heimamenn, lifa eins og þeir og komast að leyndardómum þeirra frá fyrstu hendi. Svo ætlum við að skrifa bók og gefa út haustið 2019 og halda fyrirlestra víða um Ísland og segja frá því sem við höfum komist að. Vonandi náum við að fjármagna það verkefni, en nú stendur yfir hópfjármögnun á síðunni Karolina Fund,“ segir Gaui.

Í fimm mánuði um fimm blá svæði
„Blue Zones eru fimm svæði í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa fram á síðasta dag er regla frekar en undantekning. Við viljum læra af þessum svæðum hvernig við getum dregið verulega úr stressi og álagi, forðast lífsstílstengda sjúkdóma, bæta heilsuna og lifað lengi – betur.
Bæirnir sem tilheyra Blue Zones svæðunum eru Loma Linda í Bandaríkjunum, Nicoya-skaginn á Kosta Ríka og eyjurnar Okinawa í Japan, Ikaria á Grikklandi og Sardinía á Ítalíu,“ segir Vala en bókin kemur til með að heita Lifum lengi – betur.

Gulrótin hvatning til að fara af stað
„Stundum þarf hvatningu eða smá spark í rass til þess að láta drauma verða að veruleika. Þann 29. maí þegar við hjónin fengum afhenda Gulrótina, lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu bæjarins, ákváðum við að láta slag standa. Fara í Blue Zones ferð, komast að leyndarmálum þessara fimm samfélaga og miðla síðan áfram til Íslendinga því sem við myndum komast að.
Við erum gríðarlega þakklát þeim sem taka þátt í að fjármagna þetta með okkur og dreifa boðskapnum áfram. Okkur langar virkilega að láta þetta gerast.“
Smellið hér til að skoða verkefnið á Karolina Fund.

blue

Heimurinn hreinlega hrundi við þessar fregnir

Fjölskyldan, Arna Sif, Louisa Sif, Sölvi Már, Lárus Arnar, Júlía Rut og hundurinn Albert

Fjölskyldan, Arna Sif, Louisa Sif, Sölvi Már, Lárus Arnar, Júlía Rut og hundurinn Albert.

Júlía Rut Lárusdóttir Mønster greindist með bráðahvítblæði árið 2017 aðeins þriggja ára gömul.

Föstudagurinn 15. september 2017 byrjaði eins og allir aðrir dagar hjá fjölskyldu Júlíu Rutar sem býr í Klapparhlíðinni. Börnin fóru í skólann og foreldrarnir til vinnu en stuttu síðar fékk faðirinn símtal frá leikskólanum um að Júlía væri komin með hita svo hún var sótt og farið var með hana heim.
Eftir að Júlía Rut var lögst fyrir fann móðir hennar eitthvað ílangt og hart í maga hennar sem var langt frá því að vera eðlilegt og leitaði hún því til læknis. Tveimur dögum síðar var komin endanleg niðurstaða, Júlía var greind með bráðahvítblæði.

Júlía Rut er fædd 11. apríl 2014. Foreldar hennar eru þau Louisa Sif Mønster iðjuþjálfi sem starfar á geðheilsusviði Reykjalundar og Lárus Arnar Sölvason hársnyrtir á Quest Hair, Beer and Wisky Saloon.
Systkini Júlíu Rutar eru þau Sölvi Már f. 2009 og Arna Sif f. 2015.

Keyptu sér íbúð í Mosfellsbæ
„Ég ólst upp í Hafnarfirði og Lárus í Breiðholtinu en árið 2004 keyptum við okkar fyrstu íbúð hér í Mosfellsbæ,“ segir Louisa Sif. „Ástæða þess er kannski sú að við eltum mág minn hingað upp eftir og þegar þau keyptu sér nýja íbúð í Klapparhlíð þá slógum við til líka. Á árunum 2006-2011 bjuggum við í Danmörku þar sem ég stundaði nám í iðjuþjálfun.“

Fann eitthvað ílangt og hart
„Það er ótrúlegt hvað líf manns getur breyst á örskotsstundu,” segir Louisa Sif þegar ég spyr hana hvernig veikindi Júlíu Rutar hafi uppgötvast.
„Lárus fékk símtal frá leikskólanum um það að Júlía Rut væri komin með hita svo að hún var sótt og farið með hana heim. Hún sofnaði í stuttan tíma og þegar hún var að vakna strauk ég yfir magann á henni og finn þá eitthvað ílangt og hart sem mér fannst eitthvað skrítið.
Ég ráðfærði mig við Jennýju vinkonu mína sem starfar sem hjúkrunarfræðingur og hún ráðlagði mér að panta tíma hjá Domus Medica sem ég gerði og við komumst að sama dag. Á móti okkur tók Ólafur Gísli læknir sem skoðaði Júlíu Rut og eftir að skoðuninni lauk bað hann mig um að fara með hana beint á bráðamóttökuna.“

Smávægileg einkenni komu í ljós
Á bráðamóttökunni fór Júlía Rut í rannsóknir og í sneiðmyndatöku. Rétt fyrir miðnætti fengust þær fréttir frá læknunum að þeir töldu að hún væri með bráðahvítblæði. Endanleg greining kom svo í ljós tveimur dögum seinna, bráða­eitilfrumu­hvítblæði (T-ALL).
Það sem fannst í maga Júlíu Rutar var bólgið milta sem var búið að ryksuga allar hvítblæðisfrumurnar. Ef þessi bólga hefði ekki uppgötvast þá hefðu næstu einkenni verið blóðnasir og húðblæðingar. Með tímanum hefði hún líka hækkað í hvítblæðisprósentunni, en hún var með 67% við greiningu.
„Þegar við hugsum til baka þá voru smávægileg einkenni sem tengdust sjúkdómnum smám saman búin að koma í ljós. Hún hafði t.d. kvartað undan verkjum í fótum, þreytu og kulda og að henni væri illt í maganum en það lagaðist oft fljótt þegar hún var búin að borða.
Heimurinn hreinlega hrundi við þessar fregnir og það eina sem komst að í huga okkar var að við gætum misst hana. Þessi heimur var okkur mjög framandi og okkur leið eins og búið væri að kippa undan okkur fótunum.“

Þurfti ekki að fara til Svíþjóðar
„Þegar við Lárus vorum aðeins búin að ná áttum fengum við fljótlega þær upplýsingar að mikið væri búið að gerast í krabbameinsrannsóknum barna og þá sérstaklega síðustu 10 ár og að batahorfur væru mjög góðar.
Júlía Rut greinist á föstudegi og byrjaði í meðferð þremur dögum seinna eða 18. september. Meðferðartíminn er tvö og hálft ár þannig að hún ætti að klára meðferð vorið 2020.
Hún var nánast á spítalanum samfellt fyrstu átta mánuðina. Hún fór í margar háskammtameðferðir, fór heim í nokkra daga, fékk hita, fór þá í einangrun og fékk sýklalyf og svo byrjaði næsta meðferð, svona gekk þetta í margar vikur.
Í nóvember 2017 eða eftir nokkrar háskammtameðferðir fengum við þær gleðifregnir að hvítblæðisprósentan væri komin niður í 0,04%. Það þýddi á þessum tímapunkti að hún þurfti ekki að fara til Svíþjóðar í beinmergsskipti. Hún hélt því áfram í háskammtameðferð og 13. desember var hvítblæðið horfið. Það þýddi þó ekki að meðferðin væri búin, meðferðin er alltaf tvö og hálft ár, annars er hætta á að hvítblæðisfrumurnar fjölgi sér aftur.“

Dugleg að dunda sér á spítalanum.

Dugleg að dunda sér á spítalanum.

Vorum lömuð af hræðslu
„Eftir stífar átta mánaða háskammta­meðferðir fór Júlía Rut yfir á viðhaldsmeðferð. Í þeirri meðferð er lengra á milli meðferða. Það var búið að segja okkur að nú yrði þetta allt betra og okkur var létt við þær fregnir.
Hún hafði grennst mjög mikið, verið með mikla ógleði, átti erfitt með gang og fleira. En þar sem ónæmiskerfið er oft svo bælt, greindist Júlía Rut með CMV-veiru í júní sl. Þetta er veira sem er ekki hættuleg fyrir heilbrigða einstaklinga en leggst oft mjög illa á ónæmisbælda einstaklinga.
Júlía Rut var því mjög veik í sumar og í september sl. lagðist veiran mjög illa á lungu hennar og hún fékk einnig sveppasýkingu sem varð til þess að hún fékk lungnabilun. Í kjölfarið var hún lögð inn á gjörgæslu þar sem hún dvaldi í 3 vikur og var haldið sofandi í öndunarvél í 17 daga. Ástand hennar var mjög tvísýnt og hún var í lífshættu. Við vorum lömuð af hræðslu og þetta voru hræðilegar aðstæður sem við óskum engum að vera í.“

Fer í gegnum þetta með seiglu og krafti
„Hún hefur nú fengið tíma til þess að jafna sig eftir þessi erfiðu veikindi og ekki verið í krabbameinsmeðferð á meðan. Það er búið að endurskoða meðferðarplanið eftir þessa reynslu og fær hún að sleppa tveimur háskammtameðferðum.
Hún byrjaði aftur að taka krabbameinslyf 13. nóvember og fór í svæfingu 19. nóvember þar sem hún fékk lyf í mænuvökvann. Það fær hún svo á 6 vikna fresti þangað til í lok júlí 2019, en þá tekur önnur meðferð við.
Í svæfingunni var einnig tekið beinmergssýni til þess að athuga hvort sjúkdómurinn væri að taka sig upp aftur eftir langa meðferðapásu vegna veikindanna á gjörgæslunni.
Júlía Rut er ofurhetjan okkar og hún fer í gegnum þetta af mikilli seiglu og krafti. Hún lifir í núinu og það hjálpar henni mikið. Hún er bráðþroska, ofboðslega dugleg að gera allt sem er ætlast til af henni, oft í erfiðum aðstæðum.“

Hjálpar að skrifa og tala um hlutina
„Þegar Júlía Rut greindist var mikið álag á okkur hjónunum að upplýsa fjölskyldur okkar og vini um veikindi hennar. Við stofnuðum því lokaða Facebook-síðu með því markmiði að upplýsa fólk um gang mála.
Það hefur verið ómetanlegt og mikil hjálp að finna fyrir hvatningu, stuðningi, hugsunum og orku sem hefur streymt til okkar í gegnum síðuna. Ég trúi því líka að það hjálpi að skrifa og tala um hlutina.“

Pössum vel upp á góðu stundirnar
„Okkur hjónum þykir mjög mikilvægt að allir í fjölskyldunni fái sinn tíma og leggjum við mikla áherslu á að sinna okkur sjálfum svo við séum betur í stakk búin til þess að takast á við þetta stóra verkefni sem okkur hefur verið úthlutað. Það gerum við m.a. með því að sinna hreyfingu, fara reglulega í viðtöl hjá prestinum á Barnaspítalanum og eiga góðar stundir, bara við tvö.
Systkini Júlíu Rutar, þau Sölvi Már og Arna Sif, skipta ekki síður máli. Þau eiga oft erfitt þar sem athyglin er oft á systur þeirra og við dveljum hjá henni til skiptis á spítalanum í langan tíma. Það er því mikil­vægt að forgangsraða og eiga með þeim ánægjulegar stundir.“

Gáfu Barnaspítala Hringsins eintak
„Ég hef verið að búa til bækur um veikindi Júlíu Rutar og er nú að vinna að sjöundu bókinni. Þessar bækur innihalda allan þann texta sem ég hef sett inn á Face­book-síðuna, myndir og kveðjur. Í framtíðinni verða þetta dýrmætar bækur sem við fjölskyldan getum skoðað. Það verður erfitt að skoða þær en líka gott að geta séð alla sigrana sem við höfum gengið í gegnum.
Við hjónin gáfum Barnaspítala Hringsins eitt eintak af fyrstu bókinni, þ.e. fyrstu 50 daga frá greiningu Júlíu Rutar með von um að hún geti hjálpað fjölskyldum nýgreindra barna. Við gerðum það vegna þess að þegar við lítum til baka, þá hefðum við viljað fá eitthvað svipað í hendurnar. Bara til að sjá að þetta ferli yrði ekki bara ömurleg spítala­dvöl, heldur líka fullt af góðum minningum, gleði, sigrar og hamingja yfir litlu sigrunum í daglegu lífi.“

Heppin að eiga gott tengslanet
„Að ganga í gegnum svona reynslu er langt og strangt ferli þar sem þarf að hafa marga bolta á lofti til þess að allt gangi sem best miðað við aðstæður. En við hefðum ekki getað þetta án allra þeirra hjálpar sem við höfum fengið. Við erum ótrúlega heppin að eiga gott tengslanet, frábærar fjölskyldur og vini sem standa þétt við bakið á okkur, hvort sem það er að passa börnin, hundinn, elda fyrir okkur, skutlast fyrir okkur, hlusta á okkur eða eitthvað allt annað.
Einar bróðir Lárusar og Hafdís kona hans gættu barnanna okkar í viku á meðan við vorum hjá Júlíu Rut á gjörgæslunni. Klara æskuvinkona mín hefur eldað fyrir okkur einu sinni í viku í marga mánuði. Það hafa samstarfsfélagar mínir á iðjuþjálfadeild Reykjalundar líka gert, móðir mín, Kolbrún sambýliskona tengdapabba og fleiri og fyrir það erum við óendanlega þakklát.“

Ómetanlegur stuðningur
„Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hefur stutt vel við bakið á okkur fjölskyldunni og er mikilvægt að finna fyrir því í svona erfiðu verkefni. Það eru t.d. mömmu- og pabbahópar í boði undir handleiðslu og listþerapía fyrir börn greind með krabbamein eða systkini þeirra.
Stuðningur frá vinnustað mínum, æfingarfélögum, leikskóla, skóla og samfélaginu öllu hefur verið ótrúlegur og það er okkur ómetanlegt. Við þökkum starfsfólki Barnaspítala Hringsins og gjörgæslunnar sérstaklega fyrir góða umönnun og hlýhug í okkar garð.
Við fáum seint fullþakkað fyrir allan þennan stuðning, við lítum björtum augum til framtíðar og viljum fá að nota tækifærið í þessu viðtali og segja, þúsund þakkir.“

Mosfellingurinn 29. nóvember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Leikfimi eldri borgara slær í gegn

eldrileikfimi

eldrikvótÍ haust var hleypt af stokkunum 12 vikna tilraunaverkefni sem byggir á samstarfi FaMos, Mosfellsbæjar og World Class. Um er að ræða leikfiminámskeið fyrir 67 ára og eldri sem fram fer í World Class í Lágafellslaug.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og lögð hefur verið áhersla á að auðvelda eldri borgurum að stunda hreyfingu og er þetta verkefni einn liður í því. Það eru þær Halla Karen Kristjánsdóttir og Sigrún Björg Ingvadóttir sem kenna á námskeiðinu. Æfingar fara fram tvisvar í viku, klukkutíma í senn.

„Það vill enginn missa af tíma”
„Þetta er nú með því skemmtilegra sem við höfum gert. Hóparnir eru frábærir og við erum með fjölbreytta og skemmtilega tíma,“ segir Halla Karen.
Við sjáum og fólkið finnur mikin mun á sér á þessum vikum sem liðnar eru frá því við byrjuðum. Ekki bara í styrkleika því við erum að líka að efla þolið, liðleika og jafnvægi. Það eru 20 manns í hvorum hóp og það má eiginlega segja að það sé alltaf toppmæting, það vill engin missa af tíma.“
„Þetta hefur gengið glimrandi vel og við finnum fyrir mikilli ánægu og sjáum þvílíkar framfarir. Við kynnum þau líka fyrir tækjasalnum og hraðbrautinni og hvetjum þau til að koma í ræktina oftar en þessa tvo tíma í viku.
Það er alltaf glens og gaman hjá okkur í tímunum en alltaf tekið vel á því. Svo eru margir sem notfæra sér sundlaugina og pottana eftir æfingar,“ segir Sigrún Björg.

Áframhaldandi verkefni
„Það er nú þegar búið að taka ákvöruðun um bjóða upp á áframhaldandi 12 vikna námskeið eftir áramót. Við verðum með tvo framhaldshópa og einn byrjendahóp. Svo tökum við stöðuna í framhaldinu hvernig fyrirkomulagið verður.
Það er líka verið að skoða frekara samstarf við t.d. Heilsugæsluna. En það er alveg ljóst að þetta er eitthvað sem verður í boði áfram fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ,“ segja þær Halla Karen og Sigrún að lokum.

Íbúarnir öruggari í vöktuðu hverfi og fælingarmátturinn mikill

Krikahverfi í Mosfellsbæ er nú vaktað allan sólarhringinn.

Krikahverfi í Mosfellsbæ er nú vaktað allan sólarhringinn.

Öryggismyndavél hefur verið sett upp í Krikahverfi að tilstuðlan íbúasamtaka hverfisins. Nú þegar er komin góð reynsla á myndavélina en uppsetning hennar var sett á oddinn strax þegar íbúasamtökin voru stofnuð í Krikahverfinu.
„Það hafði verið hér alda þjófnaðar í hverfinu og svo virðist sem bílaplanið við Krikaskóla hafi verið notað sem smásölumarkaður vafasamra viðskipta,“ segir Helena Kristinsdóttir formaður íbúasamtaka Krikahverfis.
„Í vikunni áður en myndavélin kom var farið í nánast alla bíla í Stórakrikanum og eiginlega bara öllu stolið steini léttara. Þá hafa fundist sprautunálar og annað til fíkniefnaneyslu við skólann.
Eftir að myndavélin kom upp sjást varla ókunnugir bílar hér á kvöldin. Við sjáum mikinn mun og ég veit ekki til þess að það hafi eitthvað misjafnt átt sér stað síðan myndavélin kom upp.“

Aðeins lögreglan með aðgang að efni
Myndavélin er staðsett við aðkomuna inn í hverfið en aðeins ein leið er inn í hverfið. Myndavélin nær því öllum bílum sem koma inn í hverfið, bílaplaninu við Krikaskóla og allt niður að hringtorgi. Myndavélin er með infrarauðu ljósi sem virkar því vel í skammdeginu þegar greina þarf númeraplötur bíla.
„Ef upp koma mál í hverfinu er lögreglan kölluð til og málið fær svokallað málsnúmer. Það þýðir að lögreglan getur óskað eftir myndefni úr eftirlitsvélinni. Mjög strangar reglur lúta að myndavélinni og eingöngu lögregla getur komist í upptökur.
Hér hefur enginn sett sig upp á móti uppsetningu myndavélarinnar og íbúar virðast mjög ánægðir með það öryggi sem fylgir henni. Þeir sem eru með hreinan skjöld og aka hér um ættu ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur.
Þetta er, að mér skilst, eina virka eftirlitsmyndavélin í Mosfellsbæ þessa stundina en ég vona þeim muni fjölga á næstunni.
Við vorum svo heppin að hjón í hverfinu gáfu myndavélin og uppsetningu á henni en það eru eigendur Verslunartækni, þau Sigurður Teitsson og Anna Björg Jónsdóttir. Við erum þeim gríðarlega þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf,“ segir Helena.

Í skoðun að setja upp á fleiri staði
Hafliði Jónsson öryggisráðgjafi hjá Verslunartækni segir myndavélar sem þessa fyrst og fremst hafa mikinn fælingarmátt og auka öryggi íbúa til muna.
„Við erum komin með góða reynslu á öryggismyndavélum víðs vegar um landið og þeim fer alltaf fjölgandi. Myndavélarnar eru með tvíþætta linsu sem virkar bæði dag og nótt. Upplýsingar úr myndavélunum okkar hafa gagnast lögreglu í ótal tilvikum,“ segir Hafliði.
Samkvæmt heimildum Mosfellings hefur verið sett fjármagn í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar til uppsetningar á fleiri ­öryggismyndavélum í bænum í samvinnu við íbúasamtök.
Í undirbúningi er samningur við Neyðarlínuna og lögregluna um rekstur slíkra öryggismyndavéla í Mosfellsbæ. Þegar hafa m.a. íbúasamtök í Leirvogstungu og Helgafellshverfis sýnt verkefninu áhuga.

Framúrskarandi fyrirtæki

Villi

Vilhjálmur hjá Fagverk verktökum og Reykjabændur sem fengu alls þrjár viðurkenningar.

fyrirtæki2018Síðastliðin níu ár hefur Creditinfo greint rekstur íslenskra fyrirtækja árlega og birt lista yfir þau fyrirtæki sem hafa sýnt fram á framúrskarandi og stöðugan árangur í rekstri.
Þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að vera ábyrg í rekstri og skapa þannig sjálfbær verðmæti fyrir hluthafa og fjárfesta. Að þessu sinni hljóta 857 fyrirtæki viðurkenningu eða um 2% af öllum skráðum fyrirtækjum á Íslandi.

Hvað gerir fyrirtæki framúrskarandi?
• Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
• Ársreikningi skilað lögum samkvæmt fyrir 1. september
• Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Creditinfo
• Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
• Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna 2017 (nýtt skilyrði)
• Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú rekstrarár
• Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú rekstrarár
• Eiginfjárhlutfall hærra en 20% síðustu þrjú rekstrarár
• Eignir yfir 100 milljónir króna 2017, 90 milljónir króna 2016 og 80 milljónir króna 2015.

Hér til hliðar má sjá þau mosfellsku fyrirtæki og framkvæmdastjóra þess sem komust á lista.

Jólagjafir

heilsugjafir

Ég gaf konunni minn brimbrettanámskeið í jólagjöf fyrir nokkrum árum. Brimbrettanámskeið í nágrenni Þorlákshafnar. Mér fannst þetta geggjuð gjöf, hafði sjálfur fengið samskonar afmælisgjöf stuttu áður og fannst magnað að læra að standa á bretti í íslenskum öldum. Ekki það að ég hafi sýnt neina meistaratakta, en náði að hanga á brettinu og skemmti mér konunglega.

Konunni minni fannst þetta ekki jafn geggjuð gjöf. Sendi mér áhugavert augnaráð þegar hún opnaði pakkann. Aðalástæðan fyrir því var líklega að hún var vel ólétt þessi jól, alveg komin á steypirinn, og fannst í því ástandi ekki spennandi að henda sér út í kaldan íslenskan sjó um miðjan vetur.

Þrátt fyrir að hafa aðeins misreiknað mig um þessi jól er ég enn sannfærður um að bestu jólagjafirnar séu hreyfi- og upplifunargjafir. Helst þannig að sá sem gefur gjöfina og sá sem þiggur hana geti farið saman í upplifunarferðina, á námskeiðið, á leikinn eða hvað nú sem gjöfin akkúrat snýst um.

Möguleikarnir eru margir og hægt að sníða þá að þykkum og þunnum veskjum. Það er hægt að kaupa gjöfina en svo er líka hægt að skipuleggja viðburðinn sjálfur, útbúa gjafabréf og sjá um framkvæmdina. Ég held að við höfum flest pláss og þörf fyrir meiri samveru með þeim sem standa okkur svo nærri að við gefum þeim gjafir og með upplifunargjöf getur maður slegið tvær flugur í einu höggi. Gefið góða gjöf og fengið góða og skemmtilega samveru í leiðinni.

Ég gæti talið upp ótal atriði sem hægt er að flokka sem upplifunargjöf. En ég ætla ekki að gera það. Frekar ætla ég að hvetja þig til að velta fyrir þér hvað sá/sú sem þú gefur gjöf hefur gaman af að gera. Eða gæti haft gaman af að gera. Bara passa sig á að gefa ekki háóléttri eiginkonu brimbrettanámskeið að vetri til.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 29. nóvember 2018

Tilheyrði tveimur ólíkum heimum

hafdishuld

Hafdís Huld Þrastardóttir hefur starfað sem tónlistarmaður í 23 ár. Hún gekk til liðs við hljómsveitina GusGus á unga aldri en hún var einmitt að lesa undir samræmdu prófin þegar upptökur á fyrstu plötu þeirra hófust. Tónleikaferðalög um heiminn tóku svo við og sjóndeildarhringur hennar stækkaði svo um munaði.
Þessa dagana er hún að leggja lokahönd á sínu fimmtu sólóplötu sem hún ætlar að fylgja eftir með tónleikaferðalagi um Bretland.

Hafdís Huld er fædd í Reykjavík 22. maí 1979. Foreldrar hennar eru þau Júlíana Rannveig Einarsdóttir garðyrkjufræðingur og blómaskreytir og Þröstur Sigurðsson verktaki. Hafdís á tvö systkini, Eið Þorra f. 1982 og Telmu Huld f. 1984.

Söng þegar tækifæri gafst
„Ég er alin upp í sama hverfi og foreldrar mínir ólust upp, í vesturbæ Kópavogs út á Kársnesinu. Ég átti ömmur og afa í hverfinu og mikið af skyldfólki. Hverfið var mjög barnvænt og það var alltaf fullt af krökkum til að leika við.
Ég gekk í Kársnesskóla og svo Þinghólsskóla og mér þótti alltaf gaman að læra. Ég held ennþá sambandi við æskuvinkonur mínar og minni bestu vinkonu, Brynju, kynntist ég í 6 ára bekk.
Í æsku var ég syngjandi hvar sem tækifæri gafst, ég held að það hafi ekki komið neinum á óvart þegar ég fór að starfa við tónlist,“ segir Hafdís Huld og brosir.

Gerði alþjóðlegan plötusamning
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór Hafdís Huld í Menntaskólann í Kópavogi. Það sama ár gerði hún alþjóðlegan plötusamning með hljómsveitinni GusGus og 17 ára fór hún og ferðaðist um heiminn með hljómsveitinni við tónleikahald. Hún er yngsti Íslendingurinn til að gera plötusamning erlendis svo vitað sé til.
„Ég var mjög heppin að foreldrar mínir treystu mér til þess að takast á við þetta verkefni en þau hafa alltaf stutt við bakið á mér og hafa haft mikla trú á mér. Á þriggja ára tímabili fór ég þrisvar í stór tónleikaferðalög um Bandaríkin og fjórum sinnum til Evrópu auk þess að koma fram á tónlistarhátíðum þess á milli.
Ég kom til ótrúlega margra landa á þessum tíma en finnst samt eins og ég hafi séð frekar lítið af hverjum stað. Dagarnir fóru að mestu í viðtöl, upptökur fyrir fjölmiðla og svo undirbúning fyrir tónleika kvöldsins.“

Kynntist ólíkum heimum
„Við sváfum í stórri hljómsveitarrútu og oft var það nú þannig að þegar maður sofnaði að kvöldi þá vaknaði maður daginn eftir í nýrri borg eða öðru landi þar sem sama rútínan hófst.
Á þessum tíma leið mér stundum eins og ég tilheyrði tveimur ólíkum heimum, ég spilaði kannski fyrir mörg þúsund manns á kvöldi, mætti í upptöku hjá MTV, fór til Mexíkó þar sem ég sá bikiníið mitt innrammað uppi á vegg á Hard Rock Cafe en var svo tveimur dögum síðar mætt upp í MK að taka jólapróf í stærðfræði.“

Flutti til London
Hafdís Huld flutti til London þegar hún var tvítug og fór að vinna sem gestasöngkona og höfundur með hinum ýmsu listamönnum eins og bresku sveitinni FC Kahuna og Tricky í samstarfi við Big Dipper umboðsskrifstofuna. Þegar því samstarfi lauk fór hún og ferðaðist með sinni eigin hljómsveit. Hún hefur spilað á mörg hundruð tónleikum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.
„Ég stundaði framhaldsnám í söng og tónsmíðum við London College of Creative Media og útskrifaðist þaðan árið 2006. Eftir útskrift gaf ég út mína fyrstu sólóplötu og hef starfað sem sólólistamaður síðan.“

Kynntust í tónlistarnámi
Eiginmaður Hafdísar Huldar er breskur, heitir Alisdair Wright og er tónlistarmaður og myndskreytir. Þau kynntust er þau sóttu sama skóla í Bretlandi. Þau eiga eina dóttur, Arabellu Iðunni 6 ára. Þau hafa komið sér vel fyrir í Mosfellsdalnum og líkar vel þar.
„Ég kynntist Alisdair í náminu mínu, hann hefur síðan verið minn helsti samstarfsmaður í tónlistinni. Við höfum ferðast víða um heiminn við tónleikahald og höfum komið fram saman á tónlistarhátíðum og útvarps- og sjónvarpsþáttum.“

Fundu bleika húsið í Dalnum
„Við vorum meira og minna á ferðalagi til ársins 2012 eða alveg þangað til við eignuðumst dóttur okkar það sama ár. Þá tókum við meðvitaða ákvörðun um að spila á færri tónleikum og höfum tekið að okkur fleiri tónsmíðaverkefni og stúdíóvinnu undanfarin ár, meðal annars fyrir Bucks Music og BBC.
Þegar við förum svo að spila þá erum við ótrúlega heppin að eiga góða að því það er alltaf einhver til í að koma með og passa Arabellu á tónleikaferðum, enda er hún alveg dásamleg.
Það var alltaf draumur okkar að finna okkur hús þar sem við værum umkringd fjöllum og þar sem við gætum verið með okkar eigið stúdíó heima við og sá draumur rættist þegar við fundum bleika húsið í Mosfellsdalnum.“

Á leið í tónleikaferðalag
Hafdís Huld hefur gefið út fjórar plötur alþjóðlega og svo barnaplöturnar Vögguvísur og Barnavísur sem notið hafa mikilla vinsælda hérlendis. Í þessum mánuði er fimmta plata hennar væntanleg en hún er gefin út á vegum breska fyrirtækisins Redgrape Music. Hjónin eru á leið í tónleika- og kynningarferð til Bretlands til þess að fagna útgáfu hennar. Platan er jafnframt sú fyrsta þar sem Hafdís syngur lög eftir aðra eins og t.d. Tinu Turner og Queen.
„Eftir áramót förum við til Kanada, við vorum svo heppin að vera valin úr hópi mörg hundruð umsækjanda til þess að koma fram á þjóðlagahátíðinni Folk Alliance International 2019 í Montreal. Svo höldum við áfram að kynna nýju plötuna með tónleikahaldi svo það má segja að það séu virkilega spennandi tímar framundan.”

Mosfellingurinn 8. nóvember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Vinnur með einum besta körfuboltamanni í heimi

einar_nba

Mosfellingurinn Einar Einarsson er einka-, sjúkra- og styrktarþjálfari eins besta körfuboltamanns í NBA-deildinni, Joel Embiid.
Joel, sem er 24 ára og 214 cm á hæð, er frá Kamerún í Afríku en flutti til Bandaríkjanna 16 ára gamall til að spila körfubolta. Fyrst í háskólaboltanum en síðan með Philadelphia 76ers. Meiðslasaga Joels er löng en hann var á sínum tíma til meðferðar á Aspetar íþróttameiðslasjúkrahúsinu í Dóha í Katar þar sem Einar hefur starfað frá árinu 2014.
Margir þekktir íþróttamenn leita til Aspetar vegna meiðsla, meðal annars íslensku knattspyrnumennirnir Eiður Smári, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson.

Sjúkrahús fyrir íþróttastjörnur
„Ég fékk boð frá Aspetar haustið 2012 að koma og halda námskeið fyrir sjúkraþjálfarana um íslenska tækni, skynjara sem mæla vöðvaspennu. Námskeiðið var í tvo daga og á þriðja degi var ég kominn í atvinnuviðtal,“ segir Einar.
„Þetta sjúkrahús er í eigu konungsfjölskyldunnar í Katar, þarna starfa um 300 manns og í kringum 50 sjúkraþjálfarar. Það sem gerir þetta einstakt er að þarna erum við með heildræna nálgun á íþróttamanninn, allt frá skurðaðgerðum og endurhæfingu að næringarráðgjöf og þess háttar.
Við sinnum öllum íþróttamönnum í Katar og svo fáum við líka til okkar íþróttafólk alls staðar að úr heiminum og ýmsar íþróttastjörnur.“

Valinn til að sinna Joel Embiid
Joel Embiid var sendur til Aspetar árið 2016 að tilstuðlan Philadelphia 76ers vegna sinna meiðsla. Óskað var eftir manni sem unnið hefði með afreksíþróttamenn og hefði mikla þolinmæði. Á þessum tíma hafði Joel verið frá í tvö ár, bein hafði brotnað í fætinum á honum og hann hafði ekki náð að jafna sig.
„Ég var valinn til þess að sinna Joel. Í stuttu máli þá gekk endurhæfingin upp og hann byrjaði að spila aftur haustið 2016. Um leið og hann komst inn á völlinn gerði ég mér grein fyrir hvað hann er hrikalega góður körfuboltamaður.“

Einar með heitan kaffibolla heima í Litlakrika í Mosfellsbæ.

Einar með heitan kaffibolla heima í Litlakrika í Mosfellsbæ.

Náðum strax vel saman
„Ég vissi í rauninni ekkert hver hann var og kom bara fram við hann eins og aðra sjúklinga hjá mér á meðan að aðrir komu fram við hann eins og stjörnu.
Hann var í raun ekki á góðum stað fyrst þegar við hittumst fyrst. Hann var búinn að vera frá í tvö ár og nýbúinn að missa bróður sinn í bílslysi. Ég náði vel til hans strax frá byrjun og hafði ljóslifandi dæmi um að íþróttamaður gæti komið til baka eftir tveggja ára meiðsli. Eiður Smári er systursonur minn og ég hafði fylgst með honum koma til baka eftir erfið meiðsli. Joel var mjög duglegur, vann vinnuna sína vel og uppskar eftir því.“

Var hjá Joel allt síðasta tímabil
Joel Embiid spilaði 30 leiki á sínu fyrsta tímabili og vakti mikla athygli en meiddist svo á hné í febrúar 2017 og var frá það sem eftir var af tímabilinu.
„Hann fór í aðgerð á hné en fimm mánuðum síðar var hann ekki orðin góður. Í fyrrahaust var ég svo beðinn um að koma til Philadelphiu og kíkja á hann að hans beiðni. Það endaði svo þannig að ég var hjá honum allt síðasta tímabil.
Í raun er samningurinn þannig að 76ers leigir mig frá Aspetar. Ég sinnti Joel í raun eins og einkaþjálfarinn hans. Þetta var mjög krefjandi en skemmtilegt verkefni. Í NBA spila leikmennirnir 3-4 leiki í viku, æfa mikið og mikið er um ferðalög.

Einn mest spennandi íþróttamaðurinn
„Þegar ég fór til hans síðasta haust hafði Joel ekki farið í gegnum heilt tímabil í NBA og endalausar spurningar og efasemdir voru um að hann gæti það. Hann var í raun meiddur allt tímabilið og mitt markmið var að koma honum í gegnum næsta leik.
Í mínum huga var hann orðinn heill í mars. Hann fór í gegnum tímabilið, spilaði 71 leik af 80 og var valinn í stjörnuleikinn 2017. Ég ferðaðist með Joel Embiid til Suður-Afríku núna í ágúst á NBA Africa leikinn og þjálfunarbúðir fyrir efnilega krakka sem heita Basketball Without Borders.
Þaðan fórum við til heimalands hans Kamerún til að byrja undirbúninginn fyrir næsta tímabil. Það var mjög skemmtilegt að koma til Kamerún og umhverfið þar er mjög framandi.
Í byrjun október, meðan ég var í æfingaferð í Kína, skrifuðu Aspetar og 76ers svo undir samstarfsamning og það varð ljóst að ég mun fylgja Joel áfram næsta tímabil sem er mjög spennandi. Nú er hann heill og við getum einbeitt okkur að frammistöðuhlutanum. Ég myndi segja að Joel Embiid sé einn af 10 mest spennandi íþróttamönnum í heimi í dag. Margir segja að hann geti orðið besti leikmaður NBA-deildarinnar,“ segir Einar að lokum.

Breytingar á nefndum Mosfellsbæjar

mannrettindi

Við upphaf nýs kjörtímabils samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar breytingar á fyrirkomulagi nefnda hjá Mosfellsbæ.

Til varð ný nefnd sem heitir lýðræðis- og mannréttindanefnd og mun sinna lýðræðismálum sem áður voru á borði bæjarráðs og jafnréttismálum sem áður var sinnt af fjölskyldunefnd. Formaður þeirrar nefndar er Una Hildardóttir.

Þá varð til ný nefnd sem nefnist menningar- og nýsköpunarnefnd sem tekur við verkefnum sem áður var sinnt af menningarmálanefnd og þróunar- og ferðamálanefnd. Við þá breytingu víkkar verksvið nefndarinnar þar sem atvinnumál sem málaflokkur, að því leyti sem þau eru ekki falin bæjarráði, verður sinnt af menningar- og nýsköpunarnefnd. Formaður þeirrar nefndar er Davíð Ólafsson.

Loks var ákveðið að forvarnamál sem áður var sinnt af fjölskyldunefnd verði í framtíðinni verkefni íþrótta- og tómstundanefndar sem samhliða sinni lýðheilsumálum almennt.

Björgunarsveitin Kyndill með öflugt starf í hálfa öld

kyndill50

Um þessar mundir heldur Björgunarsveitin Kyndill í Mosfellsbæ upp á 50 ára afmæli sitt.
Sveitin var stofnuð seint á árinu 1968 í kjallaranum á Brúarlandi af félögunum Guðjóni Haraldssyni, Erlingi Ólafssyni, Andrési Ólafssyni, Grétari frá Blikastöðum og Steina T. ásamt fleirum. Fékk sveitin nafnið Kyndill.
Segja má að Kyndill hafið verið á miklum faraldsfæti fyrstu árin. Starfsemi sveitarinnar hófst í kjallaranum á Brúarlandi. Þaðan flutti hún í bílskúrinn í Markholti 17. Loks fékk sveitin aðstöðu í gamla leikskólanum á Rykvöllum. Árið 1978 var byggð við leikskólann stór skemma og voru Rykvellir heimili Kyndils næstu 20 árin.

Verkefnin sífellt stærri og flóknari
Fyrstu ár Kyndils voru verkefnin helst að sækja rjúpnaskyttur upp á heiði, losa fasta bíla, flytja fólk og börn heim þegar ófært var sem og starfsfólk og lækna á Reykjalundi.
Síðan þá hefur margt breyst. Verkefni björgunarsveita verða sífellt stærri og flóknari. Mikil krafa er gerð til björgunarsveitarfólks varðandi þjálfun og endumenntun en hún leikur lykilhlutverk í að okkar fólk sé tilbúið að takast á við flest.
Tæki og búnaður sveitarinnar þarf alltaf að vera í góðu standi og getur viðhald á tækjum oft verið mikið eftir erfið verkefni þar sem oft getur verið erfitt að komast á vettvang í hvaða aðstæðum sem er.

Helstu verkefni á Mosfellsheiði og Esju
Helstu verkefni Kyndils í dag eru að taka þátt í leit að fólki sem hefur annaðhvort týnst upp á hálendi eða hér í nágrenninu.
Eins og við þekkjum skellur oft á vonskuveður á Mosfellsheiði á örskotsstundu. Helstu verkefni þar eru að koma fólki niður af heiðinni og passa upp á öryggi ferðamanna.
Esjan er líka stórt viðfangsefni hjá Kyndli þar sem hún verður sífellt vinsælli meðal ferðamanna og fleiri ganga hana. Esjan er oft vanmetin vegna þess hversu nærri hún er borginni en hún getur verið varasöm á hvaða árstíma sem er. Fólk leggur af stað í rjómablíðu frá bílastæðinu en getur endað í hvassviðri og snjókomu þegar ofar kemur.

Endurnýjun gríðarlega mikilvæg
Meðlimir Kyndils í dag eru um 60 talsins og þar af um 25 virkir. Hinir koma þó inn ásamt eldri meðlimum þegar mikið á reynir og í árlega flugeldasölu sem er ómetanlegur stuðningur.
Nýliðun hjá Kyndli hefur verið mikil undanfarin ár. Endurnýjun á mannskap er afar mikilvæg í litlum björgunarsveitum.
Á þessu ári gengu átta nýir meðlimir í sveitina eftir að hafa lokið þjálfun.
Unglingadeild Kyndils hefur stækkað ört undanfarin ár og er helsta lífæð sveitarinnar. Nú eru um 30 unglingar í Kyndli. Mikið er lagt upp úr því að hafa öflugt starf með fjölbreyttum æfingum og ferðum svo unglingar kynnist sem flestum þáttum björgunarstarfsins. Kyndill hefur ávallt lagt mikinn metnað í að fylgja eftir og styðja við umsjónarmenn unglingadeildarinnar.

Lifum lengi – betur

Heilsumolar_Gaua_8nov

Við fjölskyldan erum að undirbúa rannsóknarferð á þau svæði í heiminum þar sem fólk lifir lengst og við góða heilsu. Á þessum svæðum þykir ekkert tiltökumál að verða 100 ára. Og fólk heldur áfram að gera hluti sem skiptir það og aðra máli fram á síðasta dag.

Mér finnst þetta mjög heillandi, að eldast vel. Eins og kellingin sagði, það er svalt að vera 100 ára en það er enn svalara að vera 100 ára og heilbrigður. Við leggjum af stað í rannsóknarferðina í ársbyrjun 2019 og komum til baka, vonandi stútfull af nýjum – og gömlum – fróðleik, um mitt sumar sama ár. Síðan ætlum við að leggja okkur fram við að dreifa sem víðast því sem við höfum lært. Ætlum að nota haustið í það.

Það má segja að það að hafa fengið Gulrótina, lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar, fyrr á þessu ári hafi verið sú hvatning sem við þurftum til þess að kýla á þetta verkefni. Hugmyndin var fædd á þeim tíma, en lokaákvörðin hafði ekki verið tekin. Mig minnir að við hjónin höfum ákveðið þetta sama kvöld og við fengum verðlaunin að láta verða af þessu. Það er nefnilega þannig að maður þarf stundum hvatningu og stuðning til þess að þora að gera það sem mann virkilega langar til. Oft þarf ekki mikið til.

Fyrir okkur var Gulrótin skilaboð um að gera meira, ekki láta staðar numið. Halda áfram að hvetja, á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, til heilbrigðis og heilsuhreysti – án öfga. Þetta er það sem við viljum standa fyrir og láta eftir okkur liggja. Það hafa allir einhvern tilgang í lífinu. Stundum er hann ekki augljós. Stundum þarf að grafa eftir honum. En hann er þarna og þegar hann er fundinn er ekki aftur snúið. Finnum okkar tilgang og hvetjum aðra til þess sama. Lifum lengi – betur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. nóvember 2018

„Þjónusta efld, álögur lækka og traustur rekstur”

kjarni_mosfellingur

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árin 2019-2022 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 31. október.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að tekjur nemi 12.224 m.kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 11.020 m.kr. og fjármagnsliðir 620 m.kr. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 559 m.kr., að framkvæmdir nemi 1.820 m.kr. og að íbúum fjölgi um tæplega 5% milli ára.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Helgafellsskóli til starfa í janúar 2019
Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegð verði 13% og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 1.352 m.kr. eða um 11%. Gert er ráð fyrir að skuldir sem hlutfall af tekjum lækki enn og að skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði 99,5% í árslok 2019.
Á næsta ári verða stærstu nýju innviðaverkefnin annars vegar framkvæmdir við byggingu fjölnota íþróttahúss með það að markmiði að starfsemi hefjist í húsinu haustið 2019 og hins vegar að halda áfram framkvæmdum við Helgafellsskóla en starfsemi hefst í fyrsta áfanga skólans í janúar 2019.

Aukin þjónusta við barnafjölskyldur
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að komið verði á fót 20 nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða börn og áfram verði varið verulegum fjármunum til frekari upplýsinga- og tæknimála og annarra verkefna til að bæta aðstöðu í grunn- og leikskólum Mosfellsbæjar.
Á sviði fjölskyldumála er lagt til að tekin verði upp frístundaávísun fyrir 67 ára og eldri og að framlög til afsláttar á fasteignagjöldum til tekjulægri elli- og örorkuþega hækki um 25%.

Verkefnið Okkar Mosó endurtekið
Á sviði menningarmála er lagt til að framlag í lista- og menningarsjóð hækki um 20% og að á sviði fræðslumála verði auknum fjármunum varið til eflingar á stoðþjónustu í skólum.
Á sviði umhverfismála verða framlög aukin til viðhalds húsa og lóða bæjarins og kallað eftir tillögum íbúa í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó.

Lækkun gjalda
Ekki er gert ráð fyrir almennri hækkun gjaldskráa fyrir veitta þjónustu og lækka gjaldskrár því að raungildi milli ára fjórða árið í röð auk þess sem leikskólagjöld lækka um 5%. Loks er lagt til að álagningarhlutföll fasteignaskatts, fráveitu- og vatnsgjalds verði lækkuð um 7%.
Áætlunin verður nú unnin áfram og lögð fram í fagnefndum bæjarins. Seinni umræða um áætlunina fer fram miðvikudaginn 28. nóvember næstkomandi.

Rekstur og starfsemi í góðu horfi
„Það er okkur Mosfellingum ánægjuefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er nú sem áður í góðu horfi. Sveitarfélagið vex og dafnar sem aldrei fyrr, reksturinn er skilvirkur og starfsfólk okkar stendur sig vel í að veita íbúum og viðskiptavinum okkar þjónustu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Framtíðarsýn okkar er sú að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.“

Þarf sterk bein til að þola góða tíma
„Til að þessi framtíðarsýn gangi eftir þarf að ríkja jafnvægi í rekstrinum og gæta þess að vöxtur sveitarfélagsins sé efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær. Fjárhagsáætlun ársins 2019 endurspeglar áherslur sem færa okkur nær þessari framtíðarsýn.
Samantekið er staðan hjá Mosfellsbæ sú að íbúum fjölgar, tekjur aukast, skuldir lækka, álögur á íbúa og fyrirtæki lækka, þjónusta við íbúa og viðskiptavini eykst, innviðir eru byggðir upp til að mæta framtíðarþörfum en samhliða er rekstrarafgangur af starfseminni.
Þetta er um margt öfundsverð staða en um leið mikilvægt að muna að það þarf sterk bein til að þola góða tíma og ég tel að með fjárhagsáætlun ársins 2019 sé lagður grunnur að enn farsælli framtíð í Mosfellsbæ,“ segir Haraldur.

Afturelding stykir liðið fyrir Inkasso-deildina

xxx

Magnús Már Einarsson aðstoðarþjálfari, Loic Ondo, Ragnar Már Lárusson, Viktor Marel Kjærnested, Sigurður Kristján Friðriksson, Kristján Atli Marteinsson, Trausti Sigurbjörnsson og Arnar Hallsson þjálfari.

Eftir að hafa unnið 2. deildina í sumar þá eru strákarnir í meistaraflokki Aftureldingar í fótbolta byrjaðir að undirbúa sig af krafti fyrir Inkasso-deildina næsta sumar. Liðið hefur hafið æfingar og framundan eru margir krefjandi æfingaleikir gegn Pepsi-deildar liðum fram að jólum.
Nýlega hafa tveir sterkir leikmenn gengið til liðs við félagið, markvörðurinn reyndi Trausti Sigurbjörnsson (28), sem var í úrvalsliði Inkasso-deildarinnar 2015, og kantmaðurinn öflugi Ragnar Már Lárusson (21). Báðir leikmennirnir eru ættaðir af Skaganum og uppaldir hjá ÍA. Trausti var lengi í röðum Þróttara í Reykjavík en kemur í Mosfellsbæinn úr Breiðholtinu frá Leikni R. Ragnar Már þótti einn allra efnilegasti knattspyrnumaður landsins og fór ungur til enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton en lék með Kára í 2. deildinni að láni frá ÍA síðastliðið sumar.

Sterkir leikmenn framlengja
Þá hafa nokkrir af sterkustu leikmönnum félagsins framlengt samninga sína við félagið. Þeir eru: Bakvörðurinn sókndjarfi Sigurður Kristján Friðriksson sem var fastamaður í liði meistaraflokks á síðasta tímabili.
Sóknarmaðurinn efnilegi Viktor Marel Kjærnested sem er enn í 2. flokki félagsins og hefur tekið stórstígum framförum á liðnu ári. Miðjumaðurinn Kristján Atli Marteinsson sem kom af miklum krafti inn í lið meistaraflokks á miðju síðasta tímabili.
Síðastur en ekki sístur er Loic Ondo besti varnarmaður 2. deildarinnar á síðasta tímabili og fulltrúi félagsins í liði ársins sem valið var af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í 2.deildinni.
Allir leikmennirnir hafa augljóslega mikla trú á því uppbyggingarstarfi sem í gangi er og skrifuðu undir tveggja ára samninga við félagið. Afturelding fagnar undirskriftum þessara öflugu leikmanna og er enn frekari frétta er að vænta af samningamálum á næstunni.

Opna glæsilega Reebok-stöð

ccxxx

Mosfellingarnir Unnur Pálmars og Halla Heimis.

Líkamsræktarkeðjan Reebok Fitness opnaði nýja stöð að Lambhagavegi við Vesturlandsveg þann 29. september síðastliðinn.
Stöðin sem er 2.400 m2 er öll hin glæsilegasta, útbúin nýjustu tækjum og þar eru þrír hóptímasalir. Auk þess opnaði CrossFit Katla annað boxið sitt en það fyrsta er í Holtagörðum. Í Lambhaga er sauna, gufubað og heitur og kaldur útipottur. Á teygjusvæðinu er hægt að kveikja á innrauðum hita sem talið er að auki virkni og áhrif teygjuæfinga.
„Við erum mjög ánægð með viðtökurnar á nýju stöðinni okkar en þetta er áttunda líkamsræktarstöðin sem við opnum frá árinu 2011,“ segir Unnur Pálmarsdóttir mannauðs- og fræðslustjóri Reebok Fitness.

Heimilisleg og fjölskylduvæn stöð
„Sérstaða okkar í Lambhaganum er að í einum hóptímasalnum er innrauður hiti og rakatæki til að hámarka upplifun viðskiptavina okkar. Auk þess að vera með 300 m2 æfingasal og glæsilegan spinningsal. Við bjóðum upp á fjölbreytta hópatíma og ýmis lokuð námskeið fyrir alla aldurshópa.
Við höfum lagt mikla áherslu á að stöðin sé heimilisleg og að umhverfið sé fjölskylduvænt. Við eigum aðeins einn líkama og verðum að huga vel að líkama og sál til framtíðar. Andrúmsloftið hjá okkur er notalegt, hvetjandi og rólegt. Við bjóðum upp á einvala lið einkaþjálfara, kennara og starfsfólks,“ segir Unnur en sérstaða Reebok Fitness er að bjóða upp á líkamsrækt fyrir alla aldurshópa með ólík markmið í huga.

Bjóða Mosfellingum frían vikupassa
„Öllum Mosfellingur gefst nú kostur á að koma og prófa stöðina hjá okkur, hægt er að nálgast frían vikupassa í afgreiðslunni. Við bjóðum líka upp á barnapössun, þar sem litlu krílin geta leikið sér í frábæru leikherbergi á meðan foreldrar eða forráðamenn taka á því í ræktinni. Viðskiptavinir Reebok Fitness hafa aðgang að átta líkamsræktarstöðvum og þremur sundlaugum. Auk þess höfum við boðið öllum krökkum sem fædd eru 2002-2003 fría mánaðaráskrift en Halla Heimis er einmitt með frábær unglinganámskeið og einnig í CrossFit Kötlu,“ segir Unnur að lokum og hvetur alla Mosfellinga til að koma og prófa. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu www.reebokfitness.is.

Afturelding leikur í Jako næstu árin

Jói í jako og Birna kristín formaður aftureldingar ásamt ungum iðkendum

Jóhann Guðjónsson og Birna Kristín formaður Aftureldingar ásamt ungum iðkendum.

Ungmennafélagið Afturelding og Namo ehf. hafa gert með sér samning til næstu fjögurra ára og mun Afturelding leika í fatnaði frá Jako.
Afturelding hefur leikið í fatnaði frá Errea undanfarin átta ár. Í byrjun árs var leitað tilboða hjá búningaframleiðendum á Íslandi, félaginu bárust nokkur tilboð. Búninganefnd, sem samanstendur af fulltrúum frá hverri deild, valdi að lokum á milli þriggja aðila með tilliti til framboðs og verðs. Þar varð Jako hlutskarpast.

Tilhlökkun að hefja samstarf á ný
„Það er með tilhlökkun sem við hefjum á ný samstarf við Jako og þökkum jafnframt Errea kærlega fyrir samstarfið,“ segir Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar.
Verslun Namo er til húsa að Smiðjuvegi 74 en jafnframt er hægt að skoða fjölbreytt úrval á www.jakosport.is.
Á myndinni má sjá Jóhann Guðjónsson frá Jako og Birnu Kristínu Jónsdóttur formann Aftureldingar ásamt ungum iðkendum Aftureldingar í glænýjum fatnaði félagsins