Íbúarnir öruggari í vöktuðu hverfi og fælingarmátturinn mikill

Krikahverfi í Mosfellsbæ er nú vaktað allan sólarhringinn.

Krikahverfi í Mosfellsbæ er nú vaktað allan sólarhringinn.

Öryggismyndavél hefur verið sett upp í Krikahverfi að tilstuðlan íbúasamtaka hverfisins. Nú þegar er komin góð reynsla á myndavélina en uppsetning hennar var sett á oddinn strax þegar íbúasamtökin voru stofnuð í Krikahverfinu.
„Það hafði verið hér alda þjófnaðar í hverfinu og svo virðist sem bílaplanið við Krikaskóla hafi verið notað sem smásölumarkaður vafasamra viðskipta,“ segir Helena Kristinsdóttir formaður íbúasamtaka Krikahverfis.
„Í vikunni áður en myndavélin kom var farið í nánast alla bíla í Stórakrikanum og eiginlega bara öllu stolið steini léttara. Þá hafa fundist sprautunálar og annað til fíkniefnaneyslu við skólann.
Eftir að myndavélin kom upp sjást varla ókunnugir bílar hér á kvöldin. Við sjáum mikinn mun og ég veit ekki til þess að það hafi eitthvað misjafnt átt sér stað síðan myndavélin kom upp.“

Aðeins lögreglan með aðgang að efni
Myndavélin er staðsett við aðkomuna inn í hverfið en aðeins ein leið er inn í hverfið. Myndavélin nær því öllum bílum sem koma inn í hverfið, bílaplaninu við Krikaskóla og allt niður að hringtorgi. Myndavélin er með infrarauðu ljósi sem virkar því vel í skammdeginu þegar greina þarf númeraplötur bíla.
„Ef upp koma mál í hverfinu er lögreglan kölluð til og málið fær svokallað málsnúmer. Það þýðir að lögreglan getur óskað eftir myndefni úr eftirlitsvélinni. Mjög strangar reglur lúta að myndavélinni og eingöngu lögregla getur komist í upptökur.
Hér hefur enginn sett sig upp á móti uppsetningu myndavélarinnar og íbúar virðast mjög ánægðir með það öryggi sem fylgir henni. Þeir sem eru með hreinan skjöld og aka hér um ættu ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur.
Þetta er, að mér skilst, eina virka eftirlitsmyndavélin í Mosfellsbæ þessa stundina en ég vona þeim muni fjölga á næstunni.
Við vorum svo heppin að hjón í hverfinu gáfu myndavélin og uppsetningu á henni en það eru eigendur Verslunartækni, þau Sigurður Teitsson og Anna Björg Jónsdóttir. Við erum þeim gríðarlega þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf,“ segir Helena.

Í skoðun að setja upp á fleiri staði
Hafliði Jónsson öryggisráðgjafi hjá Verslunartækni segir myndavélar sem þessa fyrst og fremst hafa mikinn fælingarmátt og auka öryggi íbúa til muna.
„Við erum komin með góða reynslu á öryggismyndavélum víðs vegar um landið og þeim fer alltaf fjölgandi. Myndavélarnar eru með tvíþætta linsu sem virkar bæði dag og nótt. Upplýsingar úr myndavélunum okkar hafa gagnast lögreglu í ótal tilvikum,“ segir Hafliði.
Samkvæmt heimildum Mosfellings hefur verið sett fjármagn í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar til uppsetningar á fleiri ­öryggismyndavélum í bænum í samvinnu við íbúasamtök.
Í undirbúningi er samningur við Neyðarlínuna og lögregluna um rekstur slíkra öryggismyndavéla í Mosfellsbæ. Þegar hafa m.a. íbúasamtök í Leirvogstungu og Helgafellshverfis sýnt verkefninu áhuga.