Lifum lengi – betur

Heilsumolar_Gaua_8nov

Við fjölskyldan erum að undirbúa rannsóknarferð á þau svæði í heiminum þar sem fólk lifir lengst og við góða heilsu. Á þessum svæðum þykir ekkert tiltökumál að verða 100 ára. Og fólk heldur áfram að gera hluti sem skiptir það og aðra máli fram á síðasta dag.

Mér finnst þetta mjög heillandi, að eldast vel. Eins og kellingin sagði, það er svalt að vera 100 ára en það er enn svalara að vera 100 ára og heilbrigður. Við leggjum af stað í rannsóknarferðina í ársbyrjun 2019 og komum til baka, vonandi stútfull af nýjum – og gömlum – fróðleik, um mitt sumar sama ár. Síðan ætlum við að leggja okkur fram við að dreifa sem víðast því sem við höfum lært. Ætlum að nota haustið í það.

Það má segja að það að hafa fengið Gulrótina, lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar, fyrr á þessu ári hafi verið sú hvatning sem við þurftum til þess að kýla á þetta verkefni. Hugmyndin var fædd á þeim tíma, en lokaákvörðin hafði ekki verið tekin. Mig minnir að við hjónin höfum ákveðið þetta sama kvöld og við fengum verðlaunin að láta verða af þessu. Það er nefnilega þannig að maður þarf stundum hvatningu og stuðning til þess að þora að gera það sem mann virkilega langar til. Oft þarf ekki mikið til.

Fyrir okkur var Gulrótin skilaboð um að gera meira, ekki láta staðar numið. Halda áfram að hvetja, á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, til heilbrigðis og heilsuhreysti – án öfga. Þetta er það sem við viljum standa fyrir og láta eftir okkur liggja. Það hafa allir einhvern tilgang í lífinu. Stundum er hann ekki augljós. Stundum þarf að grafa eftir honum. En hann er þarna og þegar hann er fundinn er ekki aftur snúið. Finnum okkar tilgang og hvetjum aðra til þess sama. Lifum lengi – betur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. nóvember 2018