Björgunarsveitin Kyndill með öflugt starf í hálfa öld

kyndill50

Um þessar mundir heldur Björgunarsveitin Kyndill í Mosfellsbæ upp á 50 ára afmæli sitt.
Sveitin var stofnuð seint á árinu 1968 í kjallaranum á Brúarlandi af félögunum Guðjóni Haraldssyni, Erlingi Ólafssyni, Andrési Ólafssyni, Grétari frá Blikastöðum og Steina T. ásamt fleirum. Fékk sveitin nafnið Kyndill.
Segja má að Kyndill hafið verið á miklum faraldsfæti fyrstu árin. Starfsemi sveitarinnar hófst í kjallaranum á Brúarlandi. Þaðan flutti hún í bílskúrinn í Markholti 17. Loks fékk sveitin aðstöðu í gamla leikskólanum á Rykvöllum. Árið 1978 var byggð við leikskólann stór skemma og voru Rykvellir heimili Kyndils næstu 20 árin.

Verkefnin sífellt stærri og flóknari
Fyrstu ár Kyndils voru verkefnin helst að sækja rjúpnaskyttur upp á heiði, losa fasta bíla, flytja fólk og börn heim þegar ófært var sem og starfsfólk og lækna á Reykjalundi.
Síðan þá hefur margt breyst. Verkefni björgunarsveita verða sífellt stærri og flóknari. Mikil krafa er gerð til björgunarsveitarfólks varðandi þjálfun og endumenntun en hún leikur lykilhlutverk í að okkar fólk sé tilbúið að takast á við flest.
Tæki og búnaður sveitarinnar þarf alltaf að vera í góðu standi og getur viðhald á tækjum oft verið mikið eftir erfið verkefni þar sem oft getur verið erfitt að komast á vettvang í hvaða aðstæðum sem er.

Helstu verkefni á Mosfellsheiði og Esju
Helstu verkefni Kyndils í dag eru að taka þátt í leit að fólki sem hefur annaðhvort týnst upp á hálendi eða hér í nágrenninu.
Eins og við þekkjum skellur oft á vonskuveður á Mosfellsheiði á örskotsstundu. Helstu verkefni þar eru að koma fólki niður af heiðinni og passa upp á öryggi ferðamanna.
Esjan er líka stórt viðfangsefni hjá Kyndli þar sem hún verður sífellt vinsælli meðal ferðamanna og fleiri ganga hana. Esjan er oft vanmetin vegna þess hversu nærri hún er borginni en hún getur verið varasöm á hvaða árstíma sem er. Fólk leggur af stað í rjómablíðu frá bílastæðinu en getur endað í hvassviðri og snjókomu þegar ofar kemur.

Endurnýjun gríðarlega mikilvæg
Meðlimir Kyndils í dag eru um 60 talsins og þar af um 25 virkir. Hinir koma þó inn ásamt eldri meðlimum þegar mikið á reynir og í árlega flugeldasölu sem er ómetanlegur stuðningur.
Nýliðun hjá Kyndli hefur verið mikil undanfarin ár. Endurnýjun á mannskap er afar mikilvæg í litlum björgunarsveitum.
Á þessu ári gengu átta nýir meðlimir í sveitina eftir að hafa lokið þjálfun.
Unglingadeild Kyndils hefur stækkað ört undanfarin ár og er helsta lífæð sveitarinnar. Nú eru um 30 unglingar í Kyndli. Mikið er lagt upp úr því að hafa öflugt starf með fjölbreyttum æfingum og ferðum svo unglingar kynnist sem flestum þáttum björgunarstarfsins. Kyndill hefur ávallt lagt mikinn metnað í að fylgja eftir og styðja við umsjónarmenn unglingadeildarinnar.