Vinnur með einum besta körfuboltamanni í heimi

einar_nba

Mosfellingurinn Einar Einarsson er einka-, sjúkra- og styrktarþjálfari eins besta körfuboltamanns í NBA-deildinni, Joel Embiid.
Joel, sem er 24 ára og 214 cm á hæð, er frá Kamerún í Afríku en flutti til Bandaríkjanna 16 ára gamall til að spila körfubolta. Fyrst í háskólaboltanum en síðan með Philadelphia 76ers. Meiðslasaga Joels er löng en hann var á sínum tíma til meðferðar á Aspetar íþróttameiðslasjúkrahúsinu í Dóha í Katar þar sem Einar hefur starfað frá árinu 2014.
Margir þekktir íþróttamenn leita til Aspetar vegna meiðsla, meðal annars íslensku knattspyrnumennirnir Eiður Smári, Alfreð Finnbogason og Aron Einar Gunnarsson.

Sjúkrahús fyrir íþróttastjörnur
„Ég fékk boð frá Aspetar haustið 2012 að koma og halda námskeið fyrir sjúkraþjálfarana um íslenska tækni, skynjara sem mæla vöðvaspennu. Námskeiðið var í tvo daga og á þriðja degi var ég kominn í atvinnuviðtal,“ segir Einar.
„Þetta sjúkrahús er í eigu konungsfjölskyldunnar í Katar, þarna starfa um 300 manns og í kringum 50 sjúkraþjálfarar. Það sem gerir þetta einstakt er að þarna erum við með heildræna nálgun á íþróttamanninn, allt frá skurðaðgerðum og endurhæfingu að næringarráðgjöf og þess háttar.
Við sinnum öllum íþróttamönnum í Katar og svo fáum við líka til okkar íþróttafólk alls staðar að úr heiminum og ýmsar íþróttastjörnur.“

Valinn til að sinna Joel Embiid
Joel Embiid var sendur til Aspetar árið 2016 að tilstuðlan Philadelphia 76ers vegna sinna meiðsla. Óskað var eftir manni sem unnið hefði með afreksíþróttamenn og hefði mikla þolinmæði. Á þessum tíma hafði Joel verið frá í tvö ár, bein hafði brotnað í fætinum á honum og hann hafði ekki náð að jafna sig.
„Ég var valinn til þess að sinna Joel. Í stuttu máli þá gekk endurhæfingin upp og hann byrjaði að spila aftur haustið 2016. Um leið og hann komst inn á völlinn gerði ég mér grein fyrir hvað hann er hrikalega góður körfuboltamaður.“

Einar með heitan kaffibolla heima í Litlakrika í Mosfellsbæ.

Einar með heitan kaffibolla heima í Litlakrika í Mosfellsbæ.

Náðum strax vel saman
„Ég vissi í rauninni ekkert hver hann var og kom bara fram við hann eins og aðra sjúklinga hjá mér á meðan að aðrir komu fram við hann eins og stjörnu.
Hann var í raun ekki á góðum stað fyrst þegar við hittumst fyrst. Hann var búinn að vera frá í tvö ár og nýbúinn að missa bróður sinn í bílslysi. Ég náði vel til hans strax frá byrjun og hafði ljóslifandi dæmi um að íþróttamaður gæti komið til baka eftir tveggja ára meiðsli. Eiður Smári er systursonur minn og ég hafði fylgst með honum koma til baka eftir erfið meiðsli. Joel var mjög duglegur, vann vinnuna sína vel og uppskar eftir því.“

Var hjá Joel allt síðasta tímabil
Joel Embiid spilaði 30 leiki á sínu fyrsta tímabili og vakti mikla athygli en meiddist svo á hné í febrúar 2017 og var frá það sem eftir var af tímabilinu.
„Hann fór í aðgerð á hné en fimm mánuðum síðar var hann ekki orðin góður. Í fyrrahaust var ég svo beðinn um að koma til Philadelphiu og kíkja á hann að hans beiðni. Það endaði svo þannig að ég var hjá honum allt síðasta tímabil.
Í raun er samningurinn þannig að 76ers leigir mig frá Aspetar. Ég sinnti Joel í raun eins og einkaþjálfarinn hans. Þetta var mjög krefjandi en skemmtilegt verkefni. Í NBA spila leikmennirnir 3-4 leiki í viku, æfa mikið og mikið er um ferðalög.

Einn mest spennandi íþróttamaðurinn
„Þegar ég fór til hans síðasta haust hafði Joel ekki farið í gegnum heilt tímabil í NBA og endalausar spurningar og efasemdir voru um að hann gæti það. Hann var í raun meiddur allt tímabilið og mitt markmið var að koma honum í gegnum næsta leik.
Í mínum huga var hann orðinn heill í mars. Hann fór í gegnum tímabilið, spilaði 71 leik af 80 og var valinn í stjörnuleikinn 2017. Ég ferðaðist með Joel Embiid til Suður-Afríku núna í ágúst á NBA Africa leikinn og þjálfunarbúðir fyrir efnilega krakka sem heita Basketball Without Borders.
Þaðan fórum við til heimalands hans Kamerún til að byrja undirbúninginn fyrir næsta tímabil. Það var mjög skemmtilegt að koma til Kamerún og umhverfið þar er mjög framandi.
Í byrjun október, meðan ég var í æfingaferð í Kína, skrifuðu Aspetar og 76ers svo undir samstarfsamning og það varð ljóst að ég mun fylgja Joel áfram næsta tímabil sem er mjög spennandi. Nú er hann heill og við getum einbeitt okkur að frammistöðuhlutanum. Ég myndi segja að Joel Embiid sé einn af 10 mest spennandi íþróttamönnum í heimi í dag. Margir segja að hann geti orðið besti leikmaður NBA-deildarinnar,“ segir Einar að lokum.