Leikfimi eldri borgara slær í gegn

eldrileikfimi

eldrikvótÍ haust var hleypt af stokkunum 12 vikna tilraunaverkefni sem byggir á samstarfi FaMos, Mosfellsbæjar og World Class. Um er að ræða leikfiminámskeið fyrir 67 ára og eldri sem fram fer í World Class í Lágafellslaug.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og lögð hefur verið áhersla á að auðvelda eldri borgurum að stunda hreyfingu og er þetta verkefni einn liður í því. Það eru þær Halla Karen Kristjánsdóttir og Sigrún Björg Ingvadóttir sem kenna á námskeiðinu. Æfingar fara fram tvisvar í viku, klukkutíma í senn.

„Það vill enginn missa af tíma”
„Þetta er nú með því skemmtilegra sem við höfum gert. Hóparnir eru frábærir og við erum með fjölbreytta og skemmtilega tíma,“ segir Halla Karen.
Við sjáum og fólkið finnur mikin mun á sér á þessum vikum sem liðnar eru frá því við byrjuðum. Ekki bara í styrkleika því við erum að líka að efla þolið, liðleika og jafnvægi. Það eru 20 manns í hvorum hóp og það má eiginlega segja að það sé alltaf toppmæting, það vill engin missa af tíma.“
„Þetta hefur gengið glimrandi vel og við finnum fyrir mikilli ánægu og sjáum þvílíkar framfarir. Við kynnum þau líka fyrir tækjasalnum og hraðbrautinni og hvetjum þau til að koma í ræktina oftar en þessa tvo tíma í viku.
Það er alltaf glens og gaman hjá okkur í tímunum en alltaf tekið vel á því. Svo eru margir sem notfæra sér sundlaugina og pottana eftir æfingar,“ segir Sigrún Björg.

Áframhaldandi verkefni
„Það er nú þegar búið að taka ákvöruðun um bjóða upp á áframhaldandi 12 vikna námskeið eftir áramót. Við verðum með tvo framhaldshópa og einn byrjendahóp. Svo tökum við stöðuna í framhaldinu hvernig fyrirkomulagið verður.
Það er líka verið að skoða frekara samstarf við t.d. Heilsugæsluna. En það er alveg ljóst að þetta er eitthvað sem verður í boði áfram fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ,“ segja þær Halla Karen og Sigrún að lokum.