Lægri skattur á hollustu?

Heilsumolar_Gaua_14mars

Ég get ekki hægt að hugsa um matsölustaðina í Mosfellsbæ. Líklega vegna þess að ég er á flakki um heiminn og upplifi sterkt hvað umhverfið hefur mikil áhrif á heilsufar íbúa. Ég hef farið í hverfi þar sem mikil leitun var að hollum munnbita. Nánast allt sem hægt var að kaupa í þeim var bæði ódýrt og óhollt. Og fólkið sem rölti um þessi hverfi endurspeglaði vöruframboðið. Allt of þungt og óheilbrigt að sjá. Ég hef líka verið í hverfum þar sem hollustan er í fyrirrúmi. Og verðið mannsæmandi.

Fólk sem býr í þannig hverfum lítur öðruvísi út. Hreyfir sig öðruvísi. Þetta skiptir máli. Mjög miklu. Að fólki standi til boða hollur og góður matur á verði sem það ræður við. Ég hef líka farið inn í búðir sem bara moldríkir hafa efni á að versla í. Flottar búðir með hollar og góðar vörur, maður lifandi. En það er ekki leiðin, að hollustan sé bara fyrir þá sem eiga sand af seðlum og að þeir sem búa ekki svo vel verði að sætta sig við óhollustu. Það leiðir bara til enn meiri ójöfnuðar í samfélögum.

En hvað er hægt að gera, hvernig fáum við holla og ekki of dýra matsölustaði í Mosfellsbæ? Getum við prófað nýjar leiðir til þess að fá slíka staði í bæjarfélagið okkar? Leiðir sem ekki hafa verið farnar áður. Ættum við kannski að bjóða hollustustöðum lægri leigu, lægri fasteignagjöld, skattaafslátt eða eitthvað annað sem skiptir máli fyrir reksturinn? Þetta er gert á ýmsum stöðum í heiminum, af hverju ekki í Mosfellsbæ?

Hvað segir þú, kæri lesandi? Lumar þú á einhverjum hugmyndum? Ef svo, máttu endilega senda mér línu á gudjon@njottuferdalagsins.is og ég skal koma þeim á framfæri. Minni svo alla á að taka eftir litlu hlutunum í lífinu, ekki æða í gegnum það í stresskasti. Hamingju – og heilsukveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. mars 2019

Snjallsímabann hefur gengið vonum framar

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Um áramótin tóku í gildi nýjar skólareglur um notkun snjall­síma á skólatíma í eldri deild Varmárskóla. Ákvörðunin var tekin í samráði við nemendafélag skólans og er hluti af verkefninu Betri skólabragur.
„Þegar þessi hugmynd kom upp þá funduðum við með nemendaráði skólans. Þau voru tilbúin að koma með okkur í þetta verkefni og við unnum þetta í raun með þeim. Þau gengu svo í allar stofur og kynntu nýju reglurnar fyrir samnemendum sínum,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri Varmárskóla.

Hafa keypt borðtennisborð og fótboltaspil
Nýju símareglurnar eru þær að ekki má vera í síma á göngum skólans eða í kennslustofum nema að kennari gefi til þess sérstakt leyfi. Brjóti nemandi símareglurnar er síminn tekinn og afhentur aftur í lok skóladags.
„Þetta hefur gengið ljómandi vel, eiginlega betur en við þorðum að vona. Skólinn hefur komið til móts við nemendur í þessu verkefni og keypt inn ný leiktæki eins og borðtennisborð og fótboltaspil. Auðvitað hefur þetta reynst nemendum miserfitt en ég held að í heildina séu allir ánægðir með þetta, bæði nemendur, kennarar og foreldrar.“

Líf á göngunum í frímínútum
„Skólabragurinn hefur breyst mikið og nota krakkarnir tímann í að leika, spila og lesa. Ein ástæðan fyrir því að við fórum í þessar breytingar var að við upplifðum að í frímínútum voru allir í sínum síma og einu samskiptin voru kannski þegar þau voru að sýna hvert öðru eitthvað í símanum. Núna er meira líf á göngunum og meiri hávaði sem er jákvætt í þessu samhengi,“ segir Þórhildur að lokum.

Aldrei of seint að byrja að æfa

mosfellingurinn_maria

María Guðrún Sveinbjörnsdóttir vélaverkfræðingur í þróunardeild Össurar er fremsta taekwondo-kona landsins.

Taekwondo er ævaforn kóresk bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt þar sem fæturnir leika aðalhlutverkið. María Guðrún Sveinbjörnsdóttir byrjaði að æfa taekwondo fyrir níu árum og hefur náð frábærum árangri. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari og hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd.
María leggur mikið af mörkum við uppbyggingu á taekwondo-íþróttinni á Íslandi og hefur verið máttarstólpi í allri þeirri vinnu.

María Guðrún er fædd í Reykjavík 28. júní 1980. Foreldrar hennar eru þau Halldóra Jóna Guðmunda Sölvadóttir íþróttaþjálfari og Sveinbjörn Guðjón Guðjónsson bifvélavirki en hann er látinn.
Systkini Maríu eru þau Laufey Jakobína f. 1959 d. 2018, Guðbjörg Sveinfríður f. 1962, Viðar Örn f. 1963 og tvíburasystirin Halla Sigrún f. 1980.

Þræddum allar bílasölur
„Ég ólst upp í Kópavoginum og þar var fínt að alast upp. Þegar maður rifjar upp æskuna þá eru minningarnar ansi margar en eftirminnilegir voru nú sunnudagsbíltúrarnir með pabba og tvíburasystur minni. Pabbi þræddi allar bílasölur á höfuðborgarsvæðinu og svo lá leiðin út á Granda til að skoða bátana. Áður en haldið var heim á leið var komið við á Bæjarins bestu.
Hvert einasta sumar fórum við fjölskyldan vestur því mamma er frá Aðalvík á Hornströndum og pabbi frá Hesti í Önundarfirði. Það skemmtilegasta sem ég veit er að vera á þessum stöðum, að njóta náttúrunnar og ganga á fjöll. Tvö af systkinum mínum bjuggu á Ísafirði þegar ég var barn og ég fékk oft að verða eftir hjá þeim yfir sumartímann og það fannst mér nú ekki leiðinlegt.“

Lesblinda háði mér alla tíð
„Ég gekk í Hjallaskóla og fór svo í Menntaskólann í Kópavogi. Ég var svona eins og sumir segja, lúði eða nörd og var ekki vinsælasti krakkinn í skólanum.
Ég var mjög samviskusöm og góð í raungreinum en lesblinda háði mér alla tíð og ég átti erfitt með tungumálin. Ég skammaðist mín fyrir að vera lesblind og reyndi að halda því leyndu eins lengi og ég gat. Í dag er staða mín allt önnur og ég læt ekkert stoppa mig.
Ég vann alla tíð með skóla en ég vann hjá mömmu við að baka kleinur á morgnana, svo skúraði ég á kvöldin og var stuðningsfulltrúi um helgar.“

Pantaði pizzu á Dominos
„Ég starfaði á Dominos á menntaskólaárunum og þar kynntist ég eiginmanni mínum, Eyjólfi Bjarna Sigurjónssyni viðskiptafræðingi á endurskoðandasviði hjá Deloitte, en hann var að panta sér pizzu. Við trúlofuðum okkur ári seinna þegar hann var að útskrifast úr Verzló en þá átti ég ár eftir í námi. Hann fór síðan í nám á Bifröst og kom til mín um helgar. Ég ákvað að taka mér ársfrí frá námi eftir útskrift og flutti upp á Bifröst og fékk vinnu á leikskólanum. Ég varð fljótlega ófrísk og dóttir okkar, Vigdís Helga, fæddist árið 2001 og árin á Bifröst urðu tvö.“

Flutti til Danmerkur
Árið 2002 eða eftir dvölina á Bifröst flutti fjölskyldan til Danmerkur og María Guðrún fór í vélaverkfræðinám í háskólanum í Álaborg. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni og þá vélum sérstaklega, rífa þær í sundur og sjá hvernig þær virka. Það lá alltaf vel fyrir mér að læra vélaverkfræðina og ég var orðin góð í að handreikna stærðfræðina. Eyjólfur var heima með dóttur okkar til að byrja með en fór síðan í nám í alþjóðaviðskiptum.
Við eignuðumst svo aðra dóttur árið 2005, Iðunni Önnu, og ég rétt náði að verja ritgerðina mína áður en hún kom í heiminn.“

Smábær í stórborg
„Þegar ég var búin með eitt ár af tveimur í mastersnáminu varð pabbi minn bráðkvaddur. Við fluttum þá skyndilega heim til Íslands til að hjálpa mömmu og vera nær fjölskyldunni. Við fluttum í Mosó því maðurinn minn tók ekki annað í mál enda alinn hér upp frá 12 ára aldri. Ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt hingað því þetta er svona smábær í stórborg.
Ég samdi við stoðtækjafyrirtækið Össur um að fá að klára mastersritgerðina hjá þeim og var þá nemi í eitt ár. Ég útskrifast svo 2008 og hef starfað þar síðan. Það er dásamlegt að vera þarna og ég starfa við þróun í fótateyminu.
Við Eyjólfur eignuðumst yngsta barnið okkar, Sigurjón Kára, árið 2010. Við erum dugleg að ferðast fjölskyldan og förum á árlega á mínar heimaslóðir fyrir vestan.“

Það var ekki aftur snúið
„Einn daginn skutlaði ég dóttur minni á taekwondo-æfingu og ákvað að bíða eftir henni og horfa á æfinguna. Ég hafði lengi vel verið í karate og jujitsu en aldrei taekwondo­ og eftir æfinguna hugsaði ég með mér að þetta gæti verið skemmilegt. Ég skráði mig á æfingu og það var ekki aftur snúið, þetta var svo gaman og félagsskapurinn frábær. Það er aldrei of seint að byrja að æfa, ég hvet alla til að koma og prófa.
Ég hef lært ansi margt frá því ég byrjaði í taekwondo, þrautseigju, sjálfstraust og vera ekki hrædd við að mistakast.“

Sumir eru hissa og trúa okkur ekki
„Ég hef verið svo heppin að börnunum mínum finnst einnig skemmtilegt að æfa taekwondo og það hefur fært mig nær þeim. Að vera með dætrum mínum í landsliðinu, æfa og ferðast saman, er algjörlega ómetanlegt. Sumir eru mjög hissa og trúa því ekki að við séum mæðgur, halda að ég sé þjálfarinn eða systir þeirra.“
María Guðrún hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd og unnið til fjölda verðlauna. Hún var valin íþróttakona Mosfellsbæjar og íþróttakona Aftureldingar árið 2018 og hefur verið valin tae­kwondo-kona ársins hjá TKÍ tvö ár í röð.
En hvert skyldi María stefna í íþróttinni? „Ég stefni á að verða heimsmeistari þó að það taki mig mörg ár að komast þangað,” segir María og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 21. febrúar 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fyrsta úthlutun úr Samfélags­sjóði Kaupfélags Kjalarnesþings

samfelagssjodur

Tíu fengu styrk í þessari fyrstu úthlutun Samfélagssjóðsins og má sjá fulltrúa þeirra hér að ofan ásamt stjórnarmönnum sjóðsins en stjórnin er skipuð þeim Stefáni Ómari Jónssyni, Birgi D. Sveinssyni, Svanlaugu Aðalsteinsdóttur, Sigríði Halldórsdóttur og Steindóri Hálfdánarsyni. 

Laugardaginn 2. febrúar fór fram fyrsta úthlutun úr samfélagssjóði KKÞ og var alls úthlutað 16 milljónum.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og er stofnfé sjóðsins 50 milljónir.
Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjámunum til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði KKÞ sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.

Kaupfélaginu slitið árið 2016
Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af, eða frá 1956, í Mosfellssveit.
Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það meðal annars til Krónunnar og fleiri aðila. Félaginu var slitið í júlí árið 2016 og samfélagssjóðurinn stofnaður í lok árs 2017.
Alls sóttu 20 um styrk í þessari fyrstu úthlutun þar sem áhersla var lögð á æskulýðsmál og málefni eldri borgara. Tíu umsóknir fengu styrk, fimm var vísað á næstu úthlutun sem fer fram í vor og fimm uppfylltu ekki skilyrði úthlutunarreglna.

Fjármunir til grasrótarinnar
„Félagsmönnum kaupfélagsins ber að þakka fyrir þá skynsamlegu ákvörðun að slíta félaginu um mitt ár 2016,“ segir Stefán Ómar Jónsson formaður Samfélagssjóðs KKÞ. „Þá voru eignir félagsins seldar og þær peningalegu eignir sem eftir stóðu látnar renna inn í sjálfseignarstofnunina Samfélagssjóð KKÞ. Án þeirrar ákvörðunar værum við ekki að færa hluta fjármunanna aftur heim í hérað, til grasrótarinnar.
Þegar stjórn sjóðsins hefur lokið störfum og úthlutað því fé sem hún hefur fær til úthlutunar verður sjóðurinn lagður niður,“ segir Stefán Ómar.

Íbúðir fyrir 50+ á kaupfélagsreitnum
Við sama tilefni kom út Saga Kaupfélags Kjalarnesþings 1950–2017. Eitt af fyrstu verkefnum sjórnar sjóðsins var að fá Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðing til að rita sögu félagsins.
Í dag er búið að rífa gamla kaupfélagið og sjoppuna sem stóðu við Bjarkarholt. Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu á kaupfélagsreitnum og er gert ráð fyrir fjölbýlishúsum fyrir 50 ára og eldri.

Önnur úthlutun sjóðsins
Samfélagssjóðurinn auglýsir nú eftir umsóknum á sviði menningarstarfsemi og menningarmála. Hægt er að nálgast umóknareyðublöð á heimasíðu sjóðsins www.kaupo.is og er umsóknarfrestur til 17. mars.

————

Eftirtaldir hlutu styrk:

Björgunarsveitin Kyndill
Kr. 2.500.000
Vegna ýmis konar búnaðar sem nauðsynlegur er vegna þjálfunar og til uppbyggingar á tækjabúnaði. Búnaður sem nýtist einnig almennu starfi sveitarinnar enda hefur sveitin lagt kapp á öfluga uppbyggingu unglingastarfsins sem er mikilvægur liður í að þjálfa fullgilda björgunarsveitarmenn.

Félagsstarf aldraðra
Kr. 500.000
Til kaupa á húsgögnum og ýmis konar búnaði sem nauðsynlegur er félagsstarfinu á Eirhömrum og gagnast þeim fjölmörgu eldri borgurum sem þangað sækja þjónustu.

Félag aldraðra – FaMos
Kr. 1.500.000
Til endurnýjunar á tölvubúnaði félagsins, endurgerðar á heimasíðu og til að efla tölvuþekkingu félagsmanna. Til kaupa á skáktölvum og klukkum og almennt til að efla starfsemi Félags aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni.

Hestamannafélagið Hörður
Kr. 2.000.000
Til uppbyggingar á TREC hestaþrauta- og keppnisbraut á félagssvæði Harðar norðan Harðarbóls. TREC brautin nýtist öflugu unglingastarfi félagsins og einnig í samstarfi Harðar og Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, en skólinn heldur úti kennslu á sérstöku hestakjörsviði.

Rauði krossinn í Mosfellsbæ
Kr. 1.000.000
Styrkurinn er veittur til æskulýðsstarfsemi með áherslu á námsaðstoð til grunnskólabarna, tungumála- og samfélagsþjónustu við börn innflytjenda.

Reykjadalur
Kr. 3.000.000
Styrkur veittur til uppbyggingar á gervigrassparkvelli á útivistarsvæði. Þar er rekin sumar- og helgardvalar­aðstaða fyrir fötluð börn og ungmenni.

Skátafélagið Mosverjar
Kr. 2.500.000
Vegna uppbyggingar á lóð skátafélagsins þar sem koma á upp aðstöðu til útieldunar, aðstöðu til að æfa tjöldun og fleira til kennslu ungra skáta.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
Kr. 1.500.000
Styrkurinn er veittur til kaupa á einkennisfatnaði fyrir Skólahljómsveit Mosfellsbæjar. Sveitin hefur verið starfrækt frá árinu 1963.

Ungmennafélagið Afturelding
Kr. 1.000.000
Til endurnýjunar á húsgögnum og ýmis konar búnaði í fundaraðstöðu ungmennafélagsins sem staðsett er á vallarsvæðinu að Varmá.

Ungmennafélag Kjalnesinga
Kr. 500.000
Styrkurinn veittur til enduruppbyggingar almenns ungmennafélagsstarfs á Kjalarnesi. UMFK er í mikilli uppbyggingu og tekist hefur að lífga félagið við.

Rauði krossinn heiðraður í Kærleiksvikunni

kærleiksvikarki

Kærleiksvikan fór fram í Mosfellsbæ 11.–17. febrúar. Þriðjudaginn 12. febrúar fór fram hátíðarstund í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þar sem Rauði krossinn var heiðraður fyrir þeirra frábæra sjálfboðaliðastarf.
Þá hélt Þorgrímur Þráinsson fróðlegt erindi sem nefndist „Erum við að gera okkar besta?“ Skólakór Varmárskóla söng nokkur lög auk þess sem vinnustofa Skálatúns var með kærleiksgjafir til sölu.

Sérstakar þakkir til Ásgarðs
„Við viljum koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í Kærleiksvikunni. Sérstakar þakkir fá Ásgarðsmenn fyrir smíðagripinn „faðmlag“ sem við veittum Rauða krossinum í Mosfellsbæ í ár og einnig mikið þakklæti fyrir alla gripina sem við höfum veitt síðastliðin ár.“
Kærleiksvikan var nú haldin í 10. skipti og ætla núverandi skipuleggjendur að láta þar við sitja. Óskað er eftir arftökum þeirra sem hefðu áhuga á að taka við keflinu.

Óska eftir áhugasömum arftökum
„Veitir okkur nokkuð af því að auðga kærleiksrík samskipti?“ segir Vigdís Steindórsdóttir sem er skipuleggjandi vikunnar ásamt þeim Oddnýju Magnúsdóttur og Jóhönnu B. Magnúsdóttur.
„Við þökkum öllum sem lagt hafa verkefninu lið fyrir framlag og samstarf og þar er efst í huga móttökurnar í Blik Bistro & Grill á spákaffinu síðastliðinn laugardag. Þar var virkilega kærleikur að verki.“

Lýðræðisverkefnið Okkar Mosó 2019 fer af stað

okkarmosonet

Á fundi bæjarráðs þann 14. febrúar var samþykkt að hefja vinnu við verkefnið Okkar Mosó 2019. Verkefnið er samráðsverkefni íbúa og Mosfellsbæjar um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Okkar Mosó 2019 er liður í að efla aðkomu bæjarbúa að stefnumótun og ákvarðanatöku um málefni bæjarins en aðrir liðir hafa falist í opnum fundum nefnda og könnunum á viðhorfi íbúa.
Þá má gera ráð fyrir því að hin nýja lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar taki þátt í að þróa áfram viðfangsefni á sviði íbúalýðræðis og þegar við á umbætur á sviði lýðræðismála í bænum til samræmis við áherslur í lýðræðisstefnu hvers tíma.
Í Okkar Mosó 2019 verður miðað við að þær nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni sem hljóta brautargengi á meðal íbúa eigi sér stað bæði á árinu 2019 og 2020 og að til þeirra verði varið 35 milljónum króna.
Verkefnið skiptist í fjóra áfanga, þ.e. hugmyndasöfnun, umræðu um hugmyndir og úrvinnslu þeirra, kosningar og loks framkvæmd.

Helstu tímasetningar:
Kynningarfundur fyrir íbúa 27. febrúar 2019.
Hugmyndasöfnun í tvær vikur 7.–21. mars 2019.
Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda – 17.–28. maí 2019.
Framkvæmdir frá júní 2019 til október 2020.

Líkamsrækt fyrir lífið

Heilsumolar_Gaua_21feb

Ég sé nánast á hverjum degi auglýsingar um líkamsrækt. Flestar snúast um að fylgja ákveðnu æfingaprógrammi í stuttan tíma til þess að líta út eins og rómverskt goð. Auðvelt. Gera ákveðnar æfingar í nokkrar vikur til að missa öll aukakíló og bæta á sig 10–20 kg af vöðvum. Þetta eru grípandi auglýsingar og freistandi að stökkva á tilboðin. En innst inni vitum við öll að þetta er ekki hægt, það verður enginn að rómversku goði á nokkrum vikum. Jákvæðara og uppbyggilegra til styttri og lengri tíma er að hugsa um líkamsrækt sem leið til þess að líða betur – andlega og líkamlega og til þess að fá meira út úr því sem maður vill gera í lífinu. Vera í standi til þess að gera skemmtilega hluti sem krefjast þess að maður sé í góðu líkamlegu ásigkomulagi.

Ég hef verið að hugsa talsvert um þetta undanfarið. Við fjölskyldan og margir úr æfingahópnum okkar í Mosfellsbæ höfum verið að upplifa góðar stundir í gegnum ýmis konar hreyfingu. Við höfum tekið þátt í Spartanhlaupum – krefjandi en mjög skemmtileg hlaup þar sem þarf að nota styrk, úthald, liðleika og samhæfingu til þess að komast í gegnum ýmsar þrautir. Margir hafa verið að fara í skíðaferðir. Margir stunda fjallgöngur. Við fjölskyldan erum núna að læra á brimbretti.

Það sem tengir þetta saman er sá góði grunnur sem reglulegar líkamsæfingar hafa fært okkur. Það er auðveldara og miklu skemmtilegra að fara á skíði og brimbretti, í fjallgöngur og aðra hressandi og gefandi útiveru ef maður góðan alhliða styrk, góða samhæfingu og gott úthald. Maður er fljótari að læra nýja tækni, getur skíðað/hreyft sig lengur og er fljótari að jafna sig á eftir. Gleymum rómversku goðunum og þeirra fölsku skyndilausnum, einbeitum okkur frekar að stunda holla og góða líkamsrækt, reglulega, allt árið um kring. Það býr til góðan grunn fyrir lífið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. febrúar 2019

Kvenfélagið færir Hömrum gjafir

hamrargjafir

Kvenfélag Mosfellsbæjar færði hjúkrunarheimilinu Hömrum góðar gjafir í kringum hátíðirnar.
Fyrir jól fékk heimilið tvo kolla á hjólum sem auðvelda starfsfólki vinnu sína og nokkur snúningslök. Eftir áramót færði félagið hjúkrunarheimilinu tvö vegleg sjónvörp sem leysa af hólmi eldri sjónvörp í setustofum Hamra.
Kvenfélag Mosfellsbæjar lætur sér annt um nærsamfélag sitt og hefur alla tíð frá stofnun þess árið 1909 stuðlað að bættum hag íbúanna á einn eða annan hátt. Sem dæmi um það má nefna að upp úr 1980 hófu kvenfélagskonur baráttu fyrir því að byggt yrði hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ. Heimilið varð að veruleika rúmum 30 árum seinna og Kvenfélagið gerir sitt besta til að hlúa að þessu óskabarni sínu.
Gjafir sem þessar geta þó einungis orðið að veruleika með hjálp og hlýhug íbúa sveitarfélagsins sem kaupa kökur og handverk af Kvenfélaginu á jólabasarnum í desember ár hvert.
Kvenfélag Mosfellsbæjar færir Mosfellingum hjartans þakkir fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt félaginu í gegnum tíðina.

Aukið umferðar­öryggi í Kjósinni

Nýr vinnuhópur  hefur verið skipaður.

Nýr vinnuhópur hefur verið skipaður.

Kjósarhreppur er nú að hefja vinnu við gerð umferðaröryggisáætlunar sem miðar að því að auka vitund um umferðaröryggismál meðal forráðamanna sveitarfélagsins og íbúa. Í því felst að greina stöðuna, finna slysastaði, gera úrbætur, setja sér markmið og gera aðgerðaáætlun.
Mörg sveitarfélög í landinu hafa gert slíka áætlun eftir leiðbeiningum Samgöngustofu. Kristjana Erna Pálsdóttir hjá VSÓ Ráðgjöf leiðir verkefnið ásamt Regínu Hansen Guðbjörnsdóttur hreppsnefndarfulltrúa og formanns samgöngu– og fjarskiptanefndar í Kjós. Hagsmunaaðilar í Kjós koma einnig að verkefninu eins og fulltrúi hestamanna, fulltrúi íbúa, björgunarsveitarinnar og bílstjóri skólabílsins.

Skipaður vinnuhópur og íbúafundur
Skipaður hefur verið vinnuhópur en hann skipa Guðmundur Davíðsson, varaformaður samgöngu- og fjarskiptanefndar, Hermann Ingólfsson, skólabílstjóri og eigandi Kaffi Kjós, Guðmundur Páll Jakobsson, ritari samgöngu- og fjarskiptanefndar, Adam Finnsson, Björgunarsveitinni Kili, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í öryggis– og fræðsludeild Samgöngustofu, Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá umferðardeild Vegagerðarinnar og Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúafundur 9. febrúar
Íbúafundur verður haldinn laugardaginn 9. febrúar kl.12 í Félagsgarði en þar fá íbúar tækifæri til að koma með frekari ábendingar og ávinning verkefnisins. Allir íbúar eru hvattir til að mæta.

Heldri hestamenn blóta þorra

hordur_þorrablot

Fimmtudaginn 7. febrúar verður haldið Þorrablót heldri Harðarmanna og kvenna í Harðarbóli, 60 ára og eldri. Þarna koma saman bæði virkir félagar sem og eldri félagar sem eru hættir í hestamennsku, en koma í gamla félagið sitt til þess að hitta og skemmta sér með gömlum vinum. Þessi hópur hittist fjórum sinnum á ári og um 100 manns mæta hverju sinni og skemmta sér vel.

Sérstakur gestur kvöldsins verður hinn eini sanni Guðni Ágústsson, bræðurnir Einar og Birgir Hólm syngja dúett, Jón Ásbjörnsson flytur minni kvenna og Ragnheiður Ríkharðsdóttir flytur minni karla. Á milli atriða verður fjöldasöngur. Nánari upplýsingar á heimasíðu Harðar www.hordur.is.

Jákvæðnin hefur fleytt mér langt

asdfasdf

Stefán Haukur Erlingsson trélistamaður hefur skorið út frá unga aldri.

Stefán Haukur tók á móti mér á heimili sínu í Mosfellsdalnum. Snjónum hafði kyngt niður þennan dag og það var fallegt um að litast innan um útikertin sem búið var að kveikja á í garðinum.
Þegar inn var komið mátti sjá hvert sem litið var fallega útskorna hluti og húsgögn, meistaraverk húsbóndans. Stefán byrjaði ungur að skera út og var fljótur að ná tökum á tækninni en allt byrjaði þetta með fjögurra járna setti sem faðir hans hafði keypt fyrir móður hans.

Stefán Haukur er fæddur í Reykjavík 16. febrúar 1976. Foreldrar hans eru þau Helga Kristjánsdóttir fyrrv. garðyrkjubóndi og hannyrðakona og Erlingur Ólafsson fyrrv. garðyrkjubóndi og bílaáhugamaður.
Stefán er yngstur fimm systkina en þau eru Hanna f. 1962, Einar Ólafur f. 1966, Erlingur f. 1970 og Ólöf Ágústa f. 1972.

Hundurinn elti mig hvert sem ég fór
„Ég er alinn upp í Reykjadal í Mosfellsdal og það var mjög gaman að alast hér upp. Maður var samt pínu einangraður frá vinunum en þá hjólaði maður bara niður í bæ til að hitta þá. Það var ýmislegt brallað en þó mest utandyra enda engir snjallsímar á þessum tíma.
Ég notaði fjöllin hér í kring mikið og svo var ég iðulega einhvers staðar að þvælast um á hjólinu mínu og heimilishundurinn elti mig hvert sem ég fór. Það var líka nóg af lækjarlontu í ánum og ég fór oft að veiða.
Árstíðirnar skiptu engu enda alltaf hægt að treysta á fjöllin, nægur snjór og við krakkarnir oft uppi í fjalli með skíði, snjóþotur og svo grófum við líka snjóhús.“

Hafði alltaf nóg fyrir stafni
„Foreldrar mínir ráku garðyrkjustöð og það var iðulega nóg að gera heima fyrir og við systkinin byrjuðum ung að hjálpa til við garðyrkjustörfin. Ég gekk í Varmárskóla og eftir útskrift úr Gaggó Mos fór ég í Fjölbraut í Breiðholti.
Ég hafði snemma mikinn áhuga á íþróttum, æfði skíði með KR í nokkur ár og frjálsar íþróttir með Aftureldingu á sumrin. Frá 11–22 ára aldurs æfði ég lyftingar svo maður hafði alltaf nóg fyrir stafni.“

Keypti lítið hús í Dalnum
Stefán kynntist eiginkonu sinni, Guðnýju Brynjólfsdóttur félagsliða, árið 1998. Þau kynntust í líkamsræktarstöð þar sem þau voru bæði að æfa. Ári seinna giftu þau sig og frumburðurinn, Kristófer Örn, leit dagsins ljós árið 2000. Sex árum síðar fæddist þeim dóttir, Sara Ýr.
Um 18 ára aldur festi Stefán kaup á Víðibakka, litlu húsi við hliðina á garðyrkjustöð foreldra hans og þar hefur Stefán og fjölskylda hans búið allar götur síðan.

Sótti um vegna áhuga á reiðhjólum
„Um tvítugt hóf ég störf í Grænu höndinni í Hveragerði og þar starfaði ég í tvö ár. Síðan tóku við störf í garðyrkjustöðinni hjá foreldrum mínum og ég starfaði þar þangað til þau hættu rekstri árið 2012.
Ég ákvað svo að breyta til og vegna áhuga míns á reiðhjólum sótti ég um hjá reiðhjólaversluninni Erninum. Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður og var síðan fastráðinn. Í dag sé ég fyrst og fremst um reiðhjólaverkstæðið ásamt því að sinna öðrum störfum.
Árin í Erninum hafa verið ótrúlega viðburðarík, ég hef kynnst mörgu skemmtilegu fólki og er hreinlega alltaf að læra eitthvað nýtt.“

Hjólar í vinnuna hvernig sem viðrar
Eftir að Stefán byrjaði í vinnu hjá Erninum kviknaði enn meiri áhugi á hjólreiðum og keppnishjólreiðum. Hann hjólar alla daga í vinnuna hvernig sem viðrar, 36 km.
Hann skráði sig í Hjólreiðafélag Reykjavíkur og byrjaði að æfa markvisst.Stefán er mikill keppnismaður og afrekaskráin er orðin löng. Hann hefur m.a. keppt í hópstarti, fjallahjólreiðum og tímatöku með góðum árangri og var meðal annars í úrtaki fyrir fyrsta landsliðið í hjólreiðum.
Stefán er félagi í Hjóladeild Aftureldingar en deildin var stofnuð í apríl 2018. Hann fékk þann þann heiður á dögunum að vera sá fyrsti í deildinni sem tilnefndur er til kjörs íþróttamanns Mosfellsbæjar.

Hef alla tíð ögrað sjálfum mér
„Um 11 ára aldurinn komst ég í tréskurðarjárn sem móðir mín átti. Þetta var fjögurra járna sett sem faðir minn hafði fest kaup á handa móður minni sem ætlaði að byrja að skera út. Ég fór að æfa mig og kolféll fyrir greininni því ég náði strax góðum tökum á skurðinum.
Þegar ég var 15 ára byrjaði ég í námi í Trélistaskóla Hannesar Flosasonar sem samansettur var af 6 stigum. Ég kláraði skólann á tveimur árum og bjó svo til 7. stigið með Hannesi. Hann var frábær kennari og hjá honum lærði ég öll undirstöðu­atriðin. Framhaldið var svo undir mér komið, hversu langt ég vildi ná, en ég hef alla tíð ögrað sjálfum mér til að ná lengra og lengra í greininni í stað þess að staðna.“

Verkin skipta hundruðum
Stefán hefur unnið verk fyrir marga og skipta þau hundruðum bæði hér á landi og erlendis. Hann á til að mynda marga skúlptúra á veitingastaðnum Þremur frökkum og eins skreytti hann kassa í Úlfljóts­vatnskirkju sem geymir Guðbrandsbiblíu. Hann hefur verið að grafa í bein og járn og er frumkvöðull í „scrimshaw“ sem er eins konar tattú sem sett er á beinin.
Þessa stundina er Stefán að skera út kassa undir viskíflöskur og nú þegar hefur verið fjallað um þá í skosku bloggi um víniðnaðinn. Hann byrjaði að kenna tréskurð 18 ára og hefur m.a. leiðbeint fólki á Eirhömrum í Mosfellsbæ frá þeim tíma. Stefán heldur úti síðu á netinu þar sem hægt er að skoða verk hans, www.stefan.123.is

Hvarflar aldrei að mér að geta ekki klárað
„Áhugi minn á tréskurði hefur aldrei dvínað, ég hef verið að skera út með hléum í 32 ár og er jafnvígur á lágmyndir sem og þrívídd. Ég komst snemma að því að þegar ég byrjaði á flóknu verki hvarflaði aldrei að mér að ég gæti ekki klárað það. Þegar hugmynd að verki er komið í hendurnar á mér er ég yfirleitt búin að fara yfir tæknina hvernig ég ætla vinna verkið frá byrjun til enda áður en ég byrja á því.
Ég á að baki fjöldann allan af svefnlausum nóttum þar sem ég er beinlínis að skera út í höfðinu, svona er nú áráttan,“ segir Stefán brosandi og bætir svo við, „en ég hef svo gaman af þessu.“
„Gegnum tíðina hefur tréskurðurinn oft stangast á við önnur áhugamál en ég hef alltaf passað að rækta sjálfan mig. Ég hef alla tíð haft jákvæðnina að leiðarljósi og hún hefur fleytt mér langt.“

Mosfellingurinn 31. janúar 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fyrsti Mosfellingur ársins

Katrín dögg og helgi jarl með fyrsta barn ársins

Katrín Dögg og Helgi Jarl með fyrsta barn ársins.

Fyrsti Mosfellingur ársins 2019 fæddist þann 3. janúar kl. 06.02. Það var drengur sem mældist 50 cm og 3.860 gr. Foreldrar hans eru þau Katrín Dögg Óðinsdóttir og Helgi Jarl Björnsson sem eru nýflutt í Víðiteig. Drengurinn er þeirra fyrsta barn. „Fæðingin tók ansi langan tíma, en frá fyrsta verk þar til hann fæddist liðu 27 klukkutímar. En hann er alveg svakalega flottur og allt gengur mjög vel, hann er vær og góður og þyngist vel,“ segja hinir nýbökuðu foreldrar sem eru spenntir að ala upp drenginn í Mosfellsbæ. Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með drenginn.

Öll tiltæk tæki í snjómokstri

snjomokstur19

Mikið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og vinna starfsmenn þjónustustöðvar Mosfellsbæjar og verktakar á þeirra vegum hörðum höndum að snjó­mokstri með öllum tiltækum tækjum.
Vinna við snjómokstur hefst að jafnaði um klukkan fjögur að morgni en unnið er að snjóhreinsun, söltun eða söndun gatna og göngustíga nær allan sólarhringinn þegar þess er þörf. Markmið þeirrar vinnu er að tryggja öryggi vegfarenda og að íbúar komist leiðar sinnar.

Áhersla lögð á stofnbrautir
„Megináhersla er lögð á að halda stofnbrautum opnum áður en aðrar götur og stígar eru hreinsuð,“ segir Tómas G. Gíslason umhverfisstjóri hjá Mosfellsbæ.
Þannig eru stofnbrautir, strætisvagnaleiðir og gönguleiðir til og frá skóla í fyrsta forgangi auk þeirra aðalgöngustíga sem tengja hverfi og skólasvæði. Að þeirri vinnu lokinni eru húsagötur ruddar og minni göngustígar.
Íbúar moki frá sínum innkeyrslum
Íbúar Mosfellsbæjar eru hvattir til að moka frá sínum innkeyrslum, enda er snjómoksturtækjum á vegum bæjarins ekki mögulegt að ryðja frá innkeyrslum í íbúagötum.
Í þeirri tíð sem nú ríkir er mikilvægt að íbúar geymi ekki bíla sína að næturlagi á eða við stofnanalóðir bæjarins. Ástæða þess er sú að slíkt getur staðið í vegi fyrir ruðningi stofnanalóða.

Sandur og salt í þjónustustöð
Nánari upplýsingar um forgangsröðun í snjómokstri má finna á heimasíðu bæjarins undir starfsemi þjónustustöðvar.
Íbúar Mosfellsbæjar geta nálgast sand og salt til hálkueyðingar utan við þjónustustöð bæjarins við Völuteig 15.

Íbúar eru enn fremur hvattir til að senda ábendingar um snjómokstur á facebook-síðu Mosfellsbæjar, á netfangið mos@mos.is eða í gegnum ábendingavef á heimasíðu bæjarins.

Björguðu manni frá drukknun í lauginni

lagafellslaug

Karl­maður á þrítugs­aldri var hætt kom­inn í Lága­fells­laug á mánudagskvöld þegar hann fannst meðvitundarlaus á botni laugarinnar. Maðurinn hafði verið að synda kafsund. Atvikið átti sér stað um kvöldmatarleytið og var margt fólk í lauginni á þeim tíma. Sundlaugargestur kom auga á manninn og aðstoðaði við að koma honum að sundlaugarbakkanum. Í kjölfarið komu starfsmenn með hjartastuðtæki og annan viðeigandi búnað og hófu endurlífgun. Þeim til aðstoðar kom svo sjúkraflutningamaður sem var meðal gesta laugarinnar. Maðurinn var kominn til meðvitundar þegar sjúkrabíll kom á staðinn og er í dag á góðum batavegi. Ljóst er að starfsmenn og gestir brugðust hárrétt við aðstæðum auk þess sem sjúkrabíll var mættur á svæðið eftir tvær mínútur frá slökkvistöðinni á Skarhólabraut.

Meir um mat

heilsa31jan19

Í síðasta pistli velti ég fyrir mér úrvali matsölustaða í Mosfellsbæ. Mér finnst vera svigrúm til bætinga á því sviði, fyrst og fremst vegna þess að við langflest borðum það sem á disk okkar er lagt. Þannig erum við alin upp og það er auðveldast og þægilegast að grípa það sem hendi er næst. Ég er staddur í mekka skyndibitastaðanna, Bandaríkjunum. Hér er allt morandi í ódýrum skyndimatarstöðum – KFC er áberandi, McDonalds er að gera góða hluti virðist vera og Tacostaðir eru áberandi. Svo eru hér ný nöfn (fyrir okkur gestina allavega) sem segjast ekki vera skyndibitastaðir, en eru það samt. Farmer Boys til dæmis. Hamborgarastaður stofnaður 1981 af hressum bræðrum á bóndabæ. Það kæmi mér ekki á óvart að sjá Farmer Boys í Mosfellsbæ, kynnta til leiks sem ferskan hamborgarastað sem afgreiddi borgarana sína hratt og seldi ódýrt, en væri samt ekki skyndibitastaður.

En þar sem við erum stödd má líka finna dæmi um hið gagnstæða, matsölustaði og sérstaklega matvörubúðir sem leggja mikla áherslu á hollustu og heilbrigði. Loma Linda Market er þannig matvöruverslun. Gott úrval af ferskum ávöxtum og grænmeti, mikið úr heimahéraði. Mjög lítið, nánast ekkert, af draslmat og nammi. Í staðinn fyrir að vera með nammibar eru í Loma Linda Market stórir hnetu og fræbarir. Mitt uppáhald þessir barir, mikið úrval og hver og einn ákveður sinn skammt sjálfur. Búðin er á háskólasvæðinu, tengd Loma Linda University, sem kennir fyrst og fremst heilbrigðistengdar greinar. Við erum búin að rölta um háskólasvæðið, hitta fólk og skoða okkur um. Það er áberandi að það eru engir nammisjálfsalar hérna, ekki verið að selja kók og pepsí. Matsölustaðirnir og búðirnar sem tengjast háskólanum bjóða upp á hollan og góðan mat, ekkert annað. Og hvað gerir fólk þá? Fær sér hollan og góðan mat. Þetta er ekki flókið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 31. janúar 2019