Fann farveg fyrir sköpunargleðina

Hanna Margrét Kristleifsdóttir skartgripahönnuður hannar sína eigin skartgripalínu, Bara Hanna.

Það má sannarlega segja að áhugamál Hönnu Margrétar Kristleifsdóttur séu margvísleg en áhugi hennar á listsköpun er eitt af því sem stendur upp úr.
Hún sinnir leiklist af kappi en árið 2007 kynntist hún skartgripagerð og fór í framhaldi í nám í almennri hönnun og þaðan í fjarnám í Institute of art and design í New York og útskrifaðist þaðan 2016.
Hanna Margrét hannar sína eigin skartgripalínu í dag sem er bæði litrík og falleg.

Hanna Margrét fæddist í Reykjavík 12. apríl 1972. Foreldrar hennar eru þau Margrét Ólafsdóttir húsmóðir og listmálari og Kristleifur Guðbjörnsson lögreglumaður og langhlaupari en þau eru bæði látin.
Systkini Hönnu eru þau Guðbjörn f. 1960 d. 2005, Gunnar f. 1965 og Unnur f. 1967.

Dekkinn eyðilögðust á endanum
„Ég var tveggja ára þegar við fjölskyldan fluttum í Arkarholtið, þetta var bara sveit þá en svo þéttist byggðin smám saman.
Ég er fædd með klofinn hrygg og lærði því að ganga með hækjur en síðar þá slasaðist ég og eftir það hef ég verið í hjólastjól. Þá þurfti að gera viðeigandi breytingar á heimilinu eins og að lagfæra hurðir og fleira.
Systkini mín voru dugleg að passa mig og ég fór oft með þeim út í kerrunni. Þegar Gunni bróðir var fenginn til að fara í búðina fyrir mömmu og með mig í kerrunni þá fór hann aldrei beina leið. Hann fór í hvern einasta drullupoll og í allar þær torfærur sem hann fann enda eyðilögðust dekkin á endanum,“ segir Hanna og hlær að minningunni.

Ég grét með honum
„Ég var alin upp við að vera sjálfstæð og flestir vinir mínir í æsku voru ófatlaðir. Við lékum okkur saman í götunni í fallin spýta og fleiri leikjum en ef við fórum í fótbolta þá var ég í marki.
Eitt sinn vorum við krakkarnir að leika út í garði og einn strákurinn sem bjó í götunni var ekki sammála mér um eitthvað svo ég varð reið og sló hann með hækjunni. Hann fór þá að gráta og grét svo hátt að ég grét með honum.“

Mamma barði í borðið
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Fyrstu árin flakkaði ég á milli bekkja sem ýmist voru á fyrstu eða annarri hæð. Mamma barði í borðið og sagði að það gengi ekki þetta flakk á milli hæða og eftir það var ég alltaf í sama bekknum.
Ein helsta skemmtun hjá strákunum í bekknum mínum í barnaskóla var að kalla á eftir mér „Hanna hækjuspenna“ því ég var svo oft með tígó í hárinu. Þeir kölluðu þetta ekki af neinni illmennsku, þeim fannst bara svo gaman að sjá viðbrögðin hjá mér. Ég nefnilega elti þá á eftir og reyndi að ná þeim, sem mér fannst mjög gaman.“

Lít eftir ungu stúlkunum
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk stúdentsprófi frá félagsfræðibraut. Með skólanum starfaði ég á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar sem þá var á 2. hæð í Hlégarði og svo starfaði ég líka í íþróttahúsinu að Varmá.
Ég hóf síðan nám í Háskóla Íslands á félagsráðgjafabraut en færði mig svo yfir í djáknann. Ég fór líka í förðunarnám hjá No Name árið 2003.
Árið 1997 hóf ég störf í íþróttamiðstöðinni að Varmá, þar var ég í tíu ár og vann við hin ýmsu störf. Ég var svo hjá Símanum í ár en í dag starfa ég sem baðvörður hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Ég lít aðallega eftir ungum stúlkum í 4.-6. bekk úr Laugarnesskóla þegar þær koma í íþróttir.
Ég er líka leiðbeinandi hjá Herbalife en ég fór í það eftir að ég kynntist vörunum sjálf.“

Kynntust í Halaleikhópnum
„Ég gekk í Halaleikhópinn 2002 en það er áhugaleikfélag fatlaðra og ófatlaðra sem stofnað var 1992 og er með aðsetur í Sjálfsbjargarhúsinu. Við störfum undir kjörorðinu Leiklist fyrir alla. Ég hef verið formaður félagsins sl. tvö ár en félagið er rekið af félagsfólkinu sjálfu sem gengur í öll verk og hefur engan starfsmann á launum.
Ég kynntist Þresti mínum Steinþórssyni árið 2005 í Halaleikhópnum en vinur hans, Jón Eiríksson, dró hann með sér á æfingu því það vantaði tæknimann. Hann endaði þó á sviði og lék eitt atriði á móti mér þegar við settum upp Kirsuberjagarðinn.“

Vissum að þetta myndi ekki ganga upp
„Þegar við Þröstur byrjuðum að vera saman þá bjó hann í risíbúð á Hofteigi í Reykjavík. Þegar ég kom í heimsókn þá þurfti hann að lyfta mér upp á útitröppurnar og svo upp brattann stigann inni. Við vissum að það myndi ekki ganga upp að búa saman þarna,“ segir Hanna og skellir upp úr.
„Við leigðum okkur íbúð í Sóltúni í 14 ár en keyptum okkur svo íbúð í Helgafellshverfi og hér líður okkur vel, það er svo gott að búa í Mosfellsbæ. Þröstur kynnti mig fyrir bogfimi en hann var búinn að stunda hana í mörg ár hjá ÍFR en hann starfar þar. Ég hef reyndar lítið getað stundað bogfimina eins og ég hefði viljað vegna anna hjá Halaleikhópnum.“

Hélt ég væri með tíu þumalputta
„Áhugamál mín fyrir utan leiklistina er hvers konar listsköpun og þá helst skartgripahönnun og ljósmyndun. Ég kynntist skartgripagerð 2007 og fann þá farveg fyrir sköpunargleðina en fram að því hélt ég að ég væri með tíu þumalputta. Ég fór í nám í almennri hönnun í Tækniskólanum og er líka búin að fara á ótal námskeið.
Ég reyndi fyrir mér í gullsmíði en varð síðan að gefa hana upp á bátinn og leita að öðrum farvegi fyrir skartgripagleði mína. Ég fann fjarnám í skóla í New York, Institute of art and design, beat and wire working, og þaðan fékk ég diploma árið 2016.
Nú er ég að hanna og búa til mína eigin skartgripalínu og hef verið að selja hana að heiman frá mér en ég þyrfti vissulega að finna því annan farveg.
Hönnunarlínan mín heitir Bara Hanna og fyrir áhugasama þá set ég reglulega inn myndir á samfélagsmiðla eins og Facebook ­(Bara Hanna) og Instagram (bara_hannas­jewelry),” segir Hanna brosandi að lokum er við kveðjumst.

Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir

Mosfellsbær er í 2. sæti í könnun Gallup.

Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.
Eins og undanfarin ár situr Mosfellsbær í efstu sætum könnunarinnar. Þegar spurt er um sveitarfélagið sem stað til þess að búa á og þjónustuna í heild er Mosfellsbær yfir landsmeðaltali í ellefu málaflokkum af þrettán, en rétt undir landsmeðaltali í tveimur málaflokkum sem felur í sér tækifæri til úrbóta.

Efstu sætin tvö með sömu einkunn
Á árinu 2020 reyndust 88% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Um 10% svara spurningunni með svarinu hvorki né og einungis 2% íbúa eru óánægðir með sveitarfélagið sem stað til þess að búa á. Mosfellsbær hækkar um eitt sæti og deilir nú efsta sætinu með Garðabæ en bæði sveitarfélögin eru með einkunnina 4,4 á 5 punkta skala og skilur eingöngu þriðji aukastafur sveitarfélögin að.
Um 77% íbúa eru ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið bæði út frá reynslu þeirra og áliti. Hér hækkar sveitarfélagið úr meðaleinkunninni 3,9 í 4 en landsmeðaltalið er óbreytt milli ára. Segja má að þessar tvær spurningar rammi inn mat íbúa á frammistöðu sveitarfélaganna í einstaka málaflokkum og má þar sérstaklega nefna spurninguna um heildarmat á þjónustunni þar sem sú spurning kemur í framhaldi af spurningum um einstaka málaflokka.
Um 97% þeirra sem eiga börn á leikskóla í Mosfellsbæ eru ánægðir með þjónustuna

Yfir landsmeðaltali í flestum flokkum
Eins og áður sagði var Mosfellsbær yfir landsmeðaltali árið 2020 í ellefu málaflokkum af þrettán. Málaflokkarnir tveir þar sem sveitarfélagið er undir landsmeðaltali eru annars vegar þjónusta við aldraða og hins vegar þjónusta við fatlað fólk.
Þegar þjónusta leikskóla er skoðuð má sjá að 75% íbúa voru ánægðir með þjónustu leikskóla en þegar eingöngu er litið til þeirra svarenda sem eiga börn í leikskólum Mosfellsbæjar þá reyndust 97% þeirra ánægðir með þjónustuna. Þá reyndist 81% svarenda mjög eða frekar ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og um 70% eru mjög eða frekar ánægðir með þjónustu við barnafjölskyldur.
Mosfellingar eru samkvæmt könnuninni ánægðir með gæði umhverfisins og eru um 81% ánægðir með þann þátt. Mosfellsbær deilir fyrsta sæti með fjórum öðrum sveitarfélögum þegar kemur að gæði umhverfisins í bænum. Mosfellsbær er í þriðja sæti meðal stærri sveitarfélaga með skipulagsmál almennt, en meðaleinkunn í þeim flokki er almennt mjög lág í samanburði við aðra málaflokka hjá öllum sveitarfélögunum.

Könnunin veitir mikilvægar upplýsingar
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir að könnun Gallup sé sem fyrr mikilvægur hluti af þeim gögnum sem nýtt eru til þess að vinna að umbótum í starfsemi Mosfellsbæjar en nú standi yfir kynning á niðurstöðum könnunarinnar í nefndum bæjarins.
„Enn sem fyrr raðar Mosfellsbær sér í efstu sæti þegar kemur að mati íbúa á Mosfellsbæ sem stað til að búa á og við stöndum sterk í meginþorra málaflokka. Það skiptir okkur sem störfum fyrir Mosfellinga máli að vita að þeir eru í megindráttum ánægðir með þjónustuna. Könnunin veitir okkur mikilvægar upplýsingar sem við nýtum til þess að standa okkur enn betur og þá sérstaklega þar sem ánægjan minnkar milli ára.
Við höfum markað þá stefnu að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það virðist hafa tekist að mínu mati. Það er hins vegar ekki nóg fyrir okkur að vera yfir landsmeðaltali í ellefu af þrettán málaflokkum.“

Hvatning til starfsfólks
„Niðurstaðan varðandi málefni fatlaðs fólks og þjónustu við aldraða er nokkuð sem við munum rýna vel í góðri samvinnu og samtali við þá sem njóta þessarar þjónustu. Hvað varðar grunnskólana sjáum við það í gögnum könnunarinnar að meðaleinkunn stærri sveitarfélaga hvað varðar grunnskólana er lægri en hjá minni sveitarfélögum.
Ein leið til þess að vinna með þessi gögn er að kanna sérstaklega hvað minni sveitarfélög eru að gera öðruvísi en við. Könnun Gallup er því mikil hvatning til okkar starfsfólks Mosfellsbæjar. Hún lýsir því hvað er að takast vel hjá okkur og beinir sjónum okkar að þjónustu þar sem við getum gert betur.“

Góðmennska og virðing

Yngsti sonur minn heldur með Manchester City. Einn af fáum sem ég þekki sem gerir það. Ýmsir hafa strítt honum á því: „Hva, þú velur þér bara besta liðið!“ Eins og allir þeir sem halda með Liverpool og Manchester United hafi ákveðið að styðja þau ágætu lið þegar allt var í ládeyðu hjá þeim … Við erum fjórir í fjölskyldunni sem höfum áhuga á enska boltanum. Enginn heldur með sama liði. Mér finnst það skemmtilegt. Það skapar áhugaverðar umræður og eykur umburðarlyndi. Heimilismenn eru ekki allir forritaðir eins og eru ekki blindir á allt nema ágæti síns liðs.

Við horfðum saman á Liverpool – Manchester City um síðustu helgi. Manchester City vann 4-1. Ekki síst vegna mistaka markvarðar Liverpool, hins brasilíska Alisson. Það fyrsta sem sá yngsti sagði við mig daginn eftir leikinn var: „Ég vorkenni Alisson.“ Mér þótti vænt um að heyra það. Frekar en að missa sig í gleðinni yfir því að liðið hans hefði unnið mikilvægan leik, hugsaði hann meira um hvernig manninum sem hafði gert mistökin stóru liði. Mér finnst að íþróttir eigi að snúast um þetta, virðingu og góðmennsku.

Þú keppir til að vinna og gerir allt sem þú getur til að vinna og ná árangri, en að sama skapi viltu ná árangri vegna þess að þú gerðir vel, ekki vegna þess að sá sem þú kepptir við gerði mikil mistök. Ég hef upplifað ótrúlega margar góðar stundir í tengslum við íþróttir sjálfur og fannst skemmtilegast að kynnast og keppa við stráka úr öðrum liðum þegar ég var sjálfur í yngri flokkunum. Við börðumst inni á vellinum en spjölluðum og hlógum saman utan vallar.

Íþróttir eru að mínu mati frábær vettvangur fyrir krakka að upplifa akkúrat þetta, þessa skemmtilegu blöndu af keppni og samkennd. Sem þau síðan taka með sér inn í lífið. Lifi sportið!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. febrúar 2021

Tvöföldunin tilbúin

Framkvæmdum við tvöföldun Vesturlandsvegar á kaflanum milli Skarhólabrautar og Langatanga lauk nú fyrir jól.
Um er að mikilvæga framkvæmd fyrir Mosfellinga og landsmenn alla þar sem oft hafa myndast raðir í og úr bænum á annatímum. Hluti framkvæmdarinnar er jafnframt auknar hljóðvarnir í formi nýrra hljóðveggja, stærri hljóðmana og biðstöð strætisvagna norðan vegarins.

Öflugri lýsing og betri hljóðvist
Vegfarendur hafa væntanlega tekið eftir því að lýsingin á veginum er öflugri en áður en um LED-lýsingu er að ræða sem gefur betri birtu fyrir vegfarendur og jafnframt ættu íbúar í aðliggjandi hverfum að hafa tekið eftir betri hljóðvist en áður. Í vor lýkur svo endanlegum frágangi á gróðri auk timburklæðningar á hluta hljóðveggja sem mýkir ásýnd þeirra.

Ekki má gleyma hverra hagsmuna maður gætir

Stefán Ómar Jónsson viðskiptalögfræðingur og stjórnsýsluráðgjafi er bæjarfulltrúi og oddviti Vina Mosfellsbæjar

Stefán Ómar hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hann leiddi lista Vina Mosfellsbæjar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar 2018 og náði kjöri.
Þetta var óháð framboð sem á ekki rætur að rekja til hefðbundinna stjórnmálaflokka en sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins.

Stefán Ómar fæddist í Vesturbæ Reykjavíkur 4. mars 1955. Foreldrar hans eru þau Lilja Sigurjónsdóttir húsmóðir og Jón M. Sigurðsson kjötiðnaðarmeistari og kaupfélagsstjóri en þau er bæði látin.
Stefán á sjö systkini, Guðríði f. 1943 d. 2012, Lovísu f. 1946, Jón Sævar, f. 1947, Ásthildi f. 1949, Steinar f. 1957, Snorra f. 1959 og Reyni f. 1963.

Það var um sannkallaða sveit að ræða
„Ég er alinn upp í Mosfellssveit frá tveggja ára aldri og á uppvaxtarárum mínum var hér um sannkallaða sveit að ræða. Þéttbýli var þó að byrja að myndast þar sem nú er Markholt, Lágholt og Skólabraut. Hlégarður var á sínum stað, Brúarlandsskóli og Varmárskóli.
Það má eiginlega segja að Mosfellssveitin hafi skipst í fjóra parta, niðursveitin þar sem þéttbýlið var, Dalurinn, Reykjahverfið, þyrpingin frá Reykjum að Álafossi og svo Hlíðartúnið.“

Allir vinir í dag eftir víkingabardagann
„Það er margs að minnast þegar maður lítur til baka, ég man þegar við bræðurnir fórum í dagsferð, gangandi frá Vesturlandsvegi og niður í voginn þar sem golfskálinn stóð og þar lékum við okkur í fjörunni. Farið var yfir túnin á Bjargarstöðum og yfir girðingar og skurði, við borðuðum nesti í fjöruborðinu og héldum svo heim síðdegis.
Ekki má gleyma víkingabardaganum á Lágafellinu, niður­sveitin gegn Reykjahverfi og Dalnum en það eru allir vinir í dag,“ segir Stefán og brosir.

Spilaði með hljómsveitinni Stjörnum
„Ég gekk í Brúarlandsskóla og síðan í nýjan Varmárskóla, þar voru fremstir meðal jafningja Tómas Sturlaugsson skólastjóri og Birgir D. Sveinsson. Um þetta leyti var starf skólahljómsveitarinnar að hefjast og þar hóf ég slagverksnám. Ég spilaði svo síðar með félögum mínum í mosfellsku hljómsveitinni Stjörnum.
Leiðin lá svo aftur í Brúarlandsskóla sem þá var orðinn gagnfræðaskóli, ég lauk prófi þaðan 1972. Þar réð ríkjum Gylfi Pálsson skólastjóri og var samstarf okkar mikið og náið síðustu tvö árin en þá var ég formaður nemendafélagsins.“

Fór til Danmerkur í nám
Stefán hóf nám í Verslunarskóla Íslands og fór síðan í Samvinnuskólann að Bifröst og útskrifast þaðan 1976. Eftir útskrift réð hann sig til starfa sem verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Rangæinga á Hvolsvelli. Þar var hann í eitt ár en þá lá leið hans til Danmerkur þar sem hann fór í verk- og bóknám í skipulagi matvöruverslana. Þegar hann kom heim tók hann við verslunarstjórastöðu hjá Kron sem þá rak margar verslanir víðs vegar um Reykjavík.

Sá yngsti á landinu
Stefán giftist Ástu Sverrisdóttur árið 1977 en hún lést árið 1996. Börn þeirra eru Ásthildur f. 1976 fatahönnuður, Ómar f. 1980 matreiðslumeistari og Arndís f. 1983 hjúkrunarfræðingur.
Golf og stangveiði eru aðaláhugamál Stefáns auk þess sem hann hjólar reglulega. Áhugi hans á veiði hefur loðað við hann frá því hann var strákur en hann veiddi mikið við Hafravatn, í Köldukvísl og Varmá.
Í árslok 1980 var Stefán ráðinn sveitarstjóri í Gerðahreppi aðeins 24 ára gamall. Hann er eftir því sem best er vitað yngstur allra sem hafa gegnt starfi sveitar- eða bæjarstjóra á landinu.
Svo skemmtilega vildi til að móðir hans er fædd í Garði. Langafi hans, Stefán Einarsson sem hann er skírður í höfuðið á, bjó einnig alla tíð í Garðinum og var þar með útgerð nokkurra áttæringa eins og það hét í þá daga.

Hús sátta þessa örlagaríku nótt
Rétt eftir sveitarstjórnarkosningarnar 1982 var Stefán ráðinn bæjarstjóri á Selfossi sem þá var fjögur þúsund manna bær. Áfram hélt eldskírn sveitarstjórnarmála og verkefnin voru mörg á meðan hann gegndi embættinu.
„Meðal verkefna minna var að koma að byggingu Fjölbrautaskóla Suðurlands. Uppbyggingar- og rekstrarsamningur var milli Selfoss og sýslnanna þriggja, Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu en þetta var tímamótasamningur og fyrirmynd samskonar samninga víða um land.
Samningaviðræður höfðu staðið í marga mánuði án árangurs en loks tókust samningar eftir tæplega sólarhrings fund í Tryggvaskála. Það leiðir hugann að því að Tryggvaskáli var ekki bara fyrrum umferðar­miðstöð Suðurlands heldur á þessum tíma fundarstaður bæjarstjórnar Selfoss og hús sátta þessa örlagaríku nótt.“

Kom á legg dreifingarmiðstöð
„Árið 1987 hóf ég störf í einkageiranum, Valur heitinn Arnþórsson þá kaupfélagsstjóri KEA bað mig að koma á legg dreifingarmiðstöð fyrir nokkur norðlensk matvörufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Ég tók verkefnið að mér sem átti að vera til eins árs en árin urðu fimm, fyrirtækið var meðal þeirra stærstu á svæðinu þegar ég ákvað að komið væri nóg. Þá hélt ég til Danmerkur til framhaldsnáms í viðskiptalögfræði og lauk mastersgráðu árið 1998.
Eftir heimkomu hóf ég störf hjá Landsímanum, fyrst sem fjármálastjóri og ári síðar varð ég einn af sex þáverandi framkvæmdastjórum Símans.“

Viðfangsefnin eru oft á tíðum lík
„Haustið 2001 var ég ráðinn sem bæjarritari Mosfellsbæjar en stöðuheitinu var síðar breytt í framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs. Þá var ég aftur kominn til starfa í opinbera geiranum eftir mikla og góða skólun í einkageiranum.
Ég hef oft sagt að munurinn á þessum geirum sé að í einkageiranum lærir maður að hámarka hagnað og fara með fé hluthafanna en í opinbera geiranum þarf maður að hámarka velferð og umhyggju íbúanna og fara vel með fé þeirra. Viðfangsefnin eru oft á tíðum ansi lík.
Frá því ég lauk störfum hjá Mosfellsbæ 2014 hef ég rekið mitt eigið fyrirtæki í stjórnsýsluráðgjöf og í þeim störfum einna mest fyrir sveitarfélög þar sem ég hef getað notað uppsafnaða þekkingu til margra ára.“

Opnuðum kosningahöll í gámi
„Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2018 ákvað ég að gefa kost á mér til starfa í bæjarstjórn. Fyrir valinu var að fara fram með landsóháðan lista, Vini Mosfellsbæjar, og kjörorðið fólk en ekki flokkur.
Það er skemmst frá því að segja að undirtektir voru undraverðar því með aðeins fjögurra vikna fyrirvara varð til 18 manna listi. Komið var upp kosningahöll í gámi og einum einblöðungi var dreift í hús. Niðurstaðan varð einn bæjarfulltrúi og rétt um 11% atkvæða.
Starf bæjarfulltrúans er að vinna að hagsmunum allra bæjarbúa og gæta þar réttlætis og jafnræðis, þessu má maður ekki gleyma. Starfið hefur gengið vel í það heila, auðvitað skarast stefnur og áherslur en aðalatriðið er að allar skoðanir njóti gagnkvæmrar virðingar,“ segir Stefán að lokum.

Fyrsti Mosfellingur ársins 2021

Gunnar Malmquist, Aron Þór og Elín Huld.

Fyrsti Mosfellingur ársins fæddist kl. 00.55 þann 2. janúar. Það er hraustur og flottur drengur sem mældist 50 cm og 3.300 gr.
Foreldrar hans eru handboltamaðurinn Gunnar Malmquist Þórisson og Elín Huld Sigurðardóttir, drengurinn er þeirra fyrsta barn. „Við ákváðum að nota tækifærið og tilkynna nafnið hans í Mosfellingi þar sem þetta er fyrsti en örugglega ekki síðasti titillinn sem hann fær.
Hann heitir Aron Þór Malmquist Gunnarsson, það er í höfðuðið á frændum mínum, landsliðsfyrirliðunum Aroni Einari knattspyrnumanni og Arnóri Þór handknattleiksmanni. Þórsnafnið er líka í höfuðið á pabba mínum og svo er Þór Akureyri uppeldisfélagið mitt.

Fyrsti titillinn kominn í hús
Hann átti ekki að fæðast fyrr en 7. janúar en hefur viljað ná þessum titli, ætli hann eigi svo ekki eftir að verða fyrirliði í framtíðinni,“ segir Gunnar stoltur.
Fjölskyldan flutti nýverið í Mosfellsbæ en Gunnar hefur spilað handbolta með Aftureldingu sl. 6 ár. „Það er algjör draumur að búa hérna, ég sá það strax þegar ég byrjaði að spila hér að þetta væri fullkomið samfélag til að ala upp barn, íþróttalífið er frábært, allir vilja gera allt fyrir alla.
Aron Þór dafnar vel, hann er ákveðinn og lætur í sér heyra þegar hann er svangur en annars er hann vær og góður,“ segir Gunnar.

Simmi Vill Mosfellingur ársins

Mosfellingur ársins 2020 er veitinga- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson.
Simmi, eins og hann er alltaf kallaður, er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum en hefur búið í Mosfellsbæ frá árinu 2007. „Ég var að leita eftir þessum bæjarbrag og langaði að synir mínir myndu alast upp í svona samfélagi. Ég kann vel við það að þekkja nágranna mína og það fólk sem ég rekst á í búðinni. Það er hluti af því að tilheyra samfélagi að gefa af sér. Ég hef reynt að vera virkur í kringum íþróttastarf strákanna minna og er alltaf opinn fyrir góðum hugmyndum og skemmtilegu samstarfi,“ segir Simmi sem segist alls ekki getað flutt úr bænum núna eftir þessa nafnbót.

Út fjölmiðlum í veitingarekstur
Simmi hefur verið einn af okkar þekktustu fjölmiðlamönnum til margra ára en að undanförnu hefur hann átt mikilli velgengni að fagna í veitingarekstri.
„Ég hef brallað ýmislegt í gegnum tíðina en minn fyrsti sjálfstæði rekstur var þegar ég stofnaði Hamborgarafabrikkuna. Ég hef víðtæka reynslu og þegar ég stóð frammi fyrir því ásamt viðskiptafélaga mínum honum Óla Val að skipuleggja hvað skyldi gera við gamla Arion banka húsið þá kviknaði sú hugmynd að opna hverfisstað í Mosfellsbæ. Úr varð að við opnuðum Barion í lok árs 2019 ásamt því að reka Hlöllabáta í sama húsnæði.

Barion – hverfisstaður Mosfellinga
„Úr varð að við ákváðum að fara alla leið með hugmyndina, ég segi alltaf að þú færð ekki annað tækifæri á fyrstu hughrif. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögðin við Barion hafa verið fram út björtustu vonum, þrátt fyrir að standa frammi fyrir stórum rekstraráskorunum vegna COVID-19.
En í svona aðstæðum er einmitt spurning um að fara í var og bíða af sér storminn eða læra að dansa í rigningunni. Við fórum t.d. í gott samstarf við Aftureldingu. Það var fjáröflun fyrir félagið, bæjarbúar fengu aukna þjónustu og við náðum að halda dampi.“ Þá hafa Mömmumatur og Þristamús einnig átt vinsældum að fagna auk þess sem afurðir Barion og Hlöllabáta fást nú í verslunum.

Líf skapar líf
„Við lögðum upp með að skapa stað fyrir alla Mosfellinga, bjóðum upp á fjölbreyttan matseðil á góðu verði, góða þjónustu ásamt því að standa fyrir alls konar viðburðum.
Okkur hefur verið tekið rosalega vel og fyrir það erum við þakklátir. Á árinu opnuðum við einnig Barion Bryggjuna og Mini­garðinn, en þess má geta að höfuðstöðvar fyrirtækisins eru og verða í Mosó.
Simmi hefur að undanförnu vakið mikla athygli á Instagram þar sem hann er duglegur að deila frá sínu daglega lífi.
„Þetta gerðist nú eiginlega óvart og er bara skemmtileg viðbót við lífið. Ég kalla þetta mínar daglegu stuttmyndir,“ segir Simmi og er þakklátur fyrir viðurkenninguna.

Þínar leikreglur

Ef lífið væri leikur, hverjar væru þínar leikreglur? Hvernig myndir þú setja leikreglurnar ef þú fengir að ráða þeim alveg sjálf/ur? Myndir þú vilja hafa allt niðurnjörvað og skýrt eða myndir þú vilja geta hagað seglum eftir vindi?

Ég er ekki að spyrja út í loftið. Það hvernig þú vilt lifa lífinu er lykilatriði þegar kemur að hamingju þinni og heilsu. Og, að einhverju leyti, hamingju og heilsu þeirra sem standa þér næst. Ég spila minn besta leik þegar leikreglurnar eru fáar, einfaldar og mjög skýrar. Einn af þeim sem standa mér næst í fjölskyldunni er svipaður mér á meðan hinir vilja kjósa afslappaðri leikreglur. Hvað er ég að tala um með leikreglum? Grunninn að heilbrigði og hreysti – hreyfingu, svefn og mataræði.

Mér líður best þegar ég hreyfi mig mikið, æfi reglulega, sef mína 7,5 tíma og borða þrjár góðar máltíðar á dag – ekkert þar á milli – og sleppi öllu nammi og draslfæði. Þegar ég held mig innan þessara ramma líður mér best. Líkamlega og andlega. Miklu betur en þegar ég dett í það mynstur að „leyfa mér“ hitt og þetta. Ég skil hina hliðina.

Að sumir fúnkeri betur þegar rammarnir eru lausari og frelsið til að leyfa sér er til staðar. Sumum líður miklu betur þannig. En ég held að þeir eigi erfiðara með að skilja okkur sem þrífumst best á einföldu og skýru leikreglunum. Þeir halda að við séum að missa af lífshamingjunni með því að „neita okkur“ um það sem er utan rammanna okkar.

En það er ekki þannig. Þvert á móti. Og með því að vera í sífellu að reyna að hjálpa okkur að slaka á, fá okkur nú eina kökusneið, einn bjór, einn súkku­laðimola, er í raun verið að reyna að draga okkur út úr þeim leik sem okkur líður best í. Lifum heil!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. janúar 2021

Rótarý styrkir reiðnámskeið fyrir fatlaða

Þorkell og Elísabet afhenda styrkinn fyrir hönd Rótarýklúbbs Mosfellssveitar.

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar styrkti á dögunum reiðnámskeið fyrir fatlaða sem hestamannafélagið Hörður býður upp á.
Styrkur frá Rótarýklúbbi Mosfellssveitar fyrir járningar á skólahrossin nam 180 þúsund krónum og styrkur frá Verkefnasjóði Rótarý á Íslandi fyrir fóðri nam 180 þúsund krónum.
Fræðslunefnd fatlaðra í Hestamannafélaginu Herði hefur séð um rekstur á reiðskóla fyrir fatlaða og fólk með þroskahömlun frá árinu 2010, en Hörður er fyrsta hestamannafélagið sem hefur boðið upp á slík námskeið. Þetta starf var upphaflega frumkvöðlastarf tveggja kvenna í Mosfellsbæ nokkrum árum áður.
Í reiðskólanum er boðið upp á námskeið fyrir fatlaða einstaklinga og fólk með þroskahömlun á öllum aldri. Mjög góð aðstaða er fyrir fatlaða hjá hestamannafélaginu, góð aðkoma í reiðhöll, lyfta og sérútbúnir hnakkar með bakstuðningi. Ekki má gleyma fallegu og einstöku útivistarsvæði.
Fræðslunefndin hefur staðið straum af öllum rekstrarkostnaði við 5-6 hross á ári þ.m.t. skeifur, undirburð og fóðrun. Án sjálfboðaliða og styrktaraðila væri ekki hægt að halda úti þessum námskeiðum á vegum Harðar. Á myndinni má sjá Þorkel Magnússon formann verkefnanefndar Rótarýklúbbsins og Elísabetu S. Ólafsdóttur forseta ásamt þátttakendum á námskeiði og aðstoðarfólki.

N1 opnar rafhleðslustöð í Háholti

N1 hefur opnað 50 kW hraðhleðslustöð við þjónustustöð sína í Háholti í Mosfellsbæ.
Hægt er að greiða fyrir rafmagnið með N1 korti og lyklum, auk annarra hefðbundinna greiðslumáta. Ekkert mínútugjald er greitt fyrir hleðsluna, aðeins fast gjald og er verðið 45 kr á kW. Stöðin kemur í staðinn fyrir hraðhleðslustöð frá ON.

Kolefnissporin minnka
„N1 heldur áfram forystuhlutverki sínu á þessu sviði og við viljum sem fyrr vera leiðandi í sölu orkugjafa á Íslandi.
Með þessum nýju orkugjöfum minnkum við kolefnissporin og þetta fellur afskaplega vel við markmið númer 13 í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1.

Þægilegt aðgengi fyrir alla
„Fjöldi N1 korthafa er yfir 70.000 og viljum við geta veitt okkar viðskiptavinum þægilegt aðgengi við greiðslu á rafmagni á rafbíla ásamt því sem við viljum veita viðskiptavinum okkar sem ekki eru korthafar skilyrðislaust aðgengi.
Viðskiptavinir okkar geta greitt fyrir rafmagnið með greiðslukortum. Þannig geta allir hlaðið bílana hjá N1 ólíkt því sem gerist hjá öðrum sem bjóða upp á rafhleðslu. Við viljum þjónusta viðskiptavini óháð því hvaða orkugjafa þeir velja fyrir bílana sína.“

Þorrablóti Aftureldingar aflýst

Þorrablót Aftureldingar, sem haldið er í íþróttahúsinu að Varmá, er ein helsta fjáröflun félagsins ár hvert.

Formlega hefur verið ákveðið að hætta við Þorrablót Aftureldingar sem halda átti þann 23. janúar 2021 vegna samkomutakmarkana. Eftir miklar vangaveltur um útfærslur, m.a. rafrænt blót, var hins vegar ákveðið að stefna á risadansleik á vormánuðum svo framarlega sem aðstæður í samfélginu bjóði upp á það. „Við fórum yfir stöðuna nú í byrjun desember þar sem þessar ákvarðanir voru teknar. Við héldum í vonina fram að því að við gætum haldið okkar striki og var búið að ráða bæði hljómsveit og veislustjóra. En í ljósi aðstæðna þá tökum við ekki neina sénsa og vonum að fólk sýni því skilning,“ segir forseti þorrablótsnefndar, Rúnar Bragi Guðlaugsson.

Rapparinn ferrARI með sína fyrstu plötu

Ari Jakobsson, 16 ára drengur úr Mosfellsbæ, var að gefa út á Spotify sína fyrstu plötu. Platan nefnist ÖRVÆNTING og inniheldur sjö lög.
Ari sem kallar sig ferrARI býr til alla tónlistina og textana sjálfur auk þess að taka upp og hljóðblanda plötuna. „Þetta er hipp hopp, rapp plata, sem ég er rosalega ánægður með.
Ég bý til alla taktana, sem textana, tek upp, tappa og mixa allt sjálfur. Þetta var skemmtilegt ferli og mikil reynsla,“ segir Ari.

Sjö lög sem segja eina sögu
„Það eru sjö lög á plötunni sem í heild sinni segja eina sögu eða eins og það kallast concept-plata. Saga er um strák sem er bálskotinn í stelpu en í raun klúðrar málunum með því að reyna of mikið þannig að þetta þróast í hálfgerða örvæntingu hjá honum.
Það þarf eiginlega að hlusta á plötuna frá byrjun til enda til að skilja söguna. Það er skrítið að vera að gefa út sína fyrstu plötu í þessu skrítna ástandi en ég hef helst notað samfélagsmiðla til að koma mér á framfæri, það kemur vonandi að því að maður geti farið að spila fyrir fólk.“

Mikil tónlist á heimilinu
Það má segja að Ari sé sjálfmenntaður í tónlist en segist hafa fengið mikið og fjölbreytt tónlistarlegt uppeldi en pabbi Ara er bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon. „Pabbi er tónlistamaður og þar af leiðandi hef ég alist upp við tónlist allt mitt líf. Það er varla til sú tónlistarstefna sem ekki hefur verið spiluð á heimilinu.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á hvers­lags tónlist og langaði að prófa að gera mína eigin og prófa þetta ferli. Ég hef ekki farið í hefðbundið tónlistarnám, það hentar mér betur að læra bara sjálfur og læra það sem mig langar að læra.“

Frábær aðstaða í Bólinu
Ari tók upp alla plötuna í kjallara Bólsins þar sem ungir tónlistamenn í Mosfellsbæ hafa aðstöðu til að sinna tónlistinni.
„Það að hafa tækifæri á að nýta aðstöðuna í Bólinu er alveg brilljant. Ég tók upp alla plötuna þarna, það er ómetanlegt fyrir okkur krakkana í Mosó sem erum í tónlist að hafa kjallarann, þarna er frábær hljómsveitaaðstaða og stúdíó,“ segir Ari að lokum og hvetur alla til að hlusta á plötuna ÖRVÆNTING á Spotify.

Kyndill opnar netsölu á flugeldum

Félagar úr Kyndli eftir vel heppnaða flugeldasölu í fyrra.

Björgunarsveitin Kyndill hefur haft í nógu að snúast á liðnu ári. Strax í janúar geisaði vonskuveður um landið allt og bárust sveitinni 20 útköll vegna þess, bæði óveðursaðstoð og lokanir á heiðum. Einnig var mannskapur sendur vestur á Flateyri þar sem snjóflóð féll í byggð.
Í maí varð bruni í fjarskiptaherbergi í húsnæði Kyndils. Staðbundinn eldur en mikið reyktjón. Kyndill var lamaður í rúman mánuð. Sem betur fer er lítið um útköll á þessum árstíma. Húsið var reykþrifið og tekið í gegn. Allnokkur búnaður skemmdist í brunanum og er enn verið að byggja hann upp.

Allar fjáraflanir fallið niður
Vegna Covid-19 hefur verið sett takmörkun á æfingar og vinnukvöld allt síðasta ár og á tímabili lá öll starfsemi okkar niðri nema að fámennir hópar voru sendir í útköll, þar sem gæta þurfti ítrustu sóttvarna.
Allar helstu fjáraflanir Kyndils féllu niður þetta árið þar á meðal Tindahlaupið og salan á Neyðarkallinum en henni hefur verið frestað fram í febrúar 2021.

Flugeldasalan helsta tekjulindin
Vegna aðstæðna og fjöldatakmarkana mun björgunarsveitin bjóða upp á netsölu í fyrsta skipti: www.flugeldar.kyndillmos.is.
Netsalan mun hefjast 20. desember en auk þess verða báðir sölustaðir okkar opnir 28.-31. desember.
Sala á flugeldum hefur um árabil verið helsta tekjulind Kyndils og gerir hún sveitinni kleift að halda úti öflugu starfi allt árið um kring. Starfið er sjálfboðastarf og að baki hvers verkefnis liggja margar klukkustundir af vinnu sem að félagarnir hafa gefið af sér.
Mosfellingar eru hvattir til að vera tímanlega í innkaupum þetta árið og styrkja björgunarsveitina Kyndil með flugeldakaupum. Netverslunin opnaði 20. desember og verða vörurnar afhentar á milli hátíðanna.

Stærsta verkefnið mitt hingað til

Anna Guðrún Auðunsdóttir viðskiptafræðingur á fjármálasviði Landspítalans greindist með krabbamein í maga árið 2019.

Líf Önnu Guðrúnar Auðunsdóttur tók sannarlega óvænta stefnu vorið 2019 er hún fékk þau tíðindi að hún hefði greinst með krabbamein í maga. Fjórum mánuðum síðar fór Anna í átta klukkustunda aðgerð þar sem magi hennar var fjarlægður og nýrri leið til meltingar var komið á. Hún hefur nú þurft að aðlagast nýjum raunveruleika.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuna, árin fyrir vestan, veikindin og hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður þegar alvarleg áföll dynja yfir.

Anna er fædd í Reykjavík 26. desember 1970. Foreldrar hennar eru þau Sigurbjörg Guðmundsdóttir fyrrv. skrifstofumaður og Auðunn H. Ágústsson skipaverkfræðingur. Anna á einn bróður, Ágúst Jóhann f. 1974.

Léku saman í útileikjum
„Foreldrar mínir fluttu til Kaupmannahafnar og þar bjó ég fyrsta árið mitt eða á meðan faðir minn kláraði þar nám. Við fluttum síðan heim og ég er lengst af alin upp í Seljahverfinu í Breiðholti. Þetta var mjög góður staður til að alast upp á, ungt hverfi og mörg börn sem voru saman úti í alls konar leikjum.“

Gleymdi að setja filmu í vélina
Anna gekk í Fellaskóla, Ölduselsskóla og Seljaskóla og henni gekk vel í námi. Hún var mikill lestarhestur og tungumál lágu vel fyrir henni. Við útskrift úr grunnskóla fékk hún safn af verkum H.C Andersen í verðlaun fyrir góðan árangur í dönsku.
„Mér er minnisstætt að þegar ég var í 9. bekk þá var Eiríkur Hauksson söngvari kennari við skólann. Þetta var á sama tíma og lagið Gaggó Vest kom út og Eiríkur var fenginn til að skemmta á árshátíð skólans. Ég var dugleg að taka myndir um kvöldið en áttaði mig svo á að það var engin filma í vélinni, það olli mikilli sorg,“ segir Anna og brosir er hún rifjar upp æskuminningarnar.

Kynntust á Ísafirði
„Eftir skólaskyldu fór ég í Menntaskólann í Reykjavík og útskrifast þaðan 1990. Þaðan fór ég beint í Kennaraháskólann og útskrifaðist 1993. Ég tók síðan ákvörðun um að ráða mig í kennslu út á landi og varð Ísafjörður fyrir valinu, þar kenndi ég við grunnskólann í þrjú ár.“
Anna kynntist eiginmanni sínum, Friðriki Má Gunnarssyni, á Ísafirði en hann starfar sem kerfisfræðingur hjá Össuri. Þau eiga tvö börn, Valdísi Björgu f. 1996 sem útskrifaðist úr ferðamálafræði frá HÍ og er nú að læra að verða heilsunuddari og Bjarka Má f. 1998 en hann er nemi í tölvunarfræði við HR.

Þar sem borgin og sveitin mætast
„Við bjuggum á Ísafirði þegar snjóflóðin féllu í Tungudal, á Súðavík og Flateyri. Þegar ég vaknaði við fréttirnar af flóðinu á Flateyri fannst mér tími til kominn að skipta um umhverfi. Ekki að ég hafi verið hrædd heldur langaði mig í fjarlægð frá atburðunum.
Við fluttum til Noregs 1997 og þar líkaði okkur vel að vera. Fyrsta árið kenndi ég íslenskum börnum íslensku og fór svo í barneignarfrí. Haustið 1999 fluttum við aftur heim því okkur langaði til að vera nær fjölskyldum okkar.
Við fluttum í Grafarvoginn og þaðan í Mosfellsbæinn og áttuðum okkur fljótt á hvað þetta er frábær staður til að ala upp börn. Kannski má segja að það henti vel að sameina Ísfirðinginn og borgarbarnið hér, þar sem borgin og sveitin mætast,“ segir Anna og hlær.
„Ég hóf störf hjá Tryggingamiðstöðinni og starfaði þar í mismunandi störfum. Ég fór í fjarnám og útskrifaðist úr viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri 2007.“

Stóð upp úr sófanum eftir fertugt
„Í gegnum tíðina hef ég haft mjög gaman af ferðalögum, handavinnu og eins hef ég lesið töluvert. Síðustu ár hef ég svo fallið fyrir hreyfingu og útivist og ég segi stundum að ég hafi staðið upp úr sófanum um fertugt.
Ég byrjaði að hlaupa og áttaði mig á að ég er með mikið keppnisskap. Eftir nokkur 10 km og hálfmaraþonhlaup langaði mig í eitthvað stærra og árið 2016 kláraði ég Laugavegshlaupið sem er 55 km utanvegahlaup og var óendanlega stolt af því,“ segir Anna og brosir.
„Í nokkur ár hef ég hlaupið með hlaupahópi í Mosó sem kallar sig morgunfuglana og þar hef ég eignast góðar vinkonur. Haustið 2016 kom upp sú hugmynd að skella sér í Landvættina og það varð úr. Ég mæli sannarlega með þessu fyrir þá sem langar að gera eitthvað sem er bæði ótrúlega skemmtilegt og krefjandi.
Í kjölfarið fór ég svo að prófa sjósund í Nauthólsvík og í dag finnst mér sundið eitt það besta sem ég geri fyrir líkamlega og andlega vellíðan.“

Maður metur hlutina á annan hátt
„Lengi vel upplifði ég að ég væri nánast fædd undir heillastjörnu, ég hafði sloppið við öll áföll og grínaðist oft með það að við hjónin værum hálfgerðar risaeðlur. Við værum enn gift, foreldrar okkar beggja líka og allir voru heilsuhraustir. Sú staða breyttist árið 2017 er mágur minn tók sitt eigið líf og við tók erfitt tímabil. Við slíka lífsreynslu vakna alls konar spurningar og maður fer að meta hlutina á annan hátt.“

Upplifði að ég hefði ekki annan kost
„Haustið 2017 sagði ég skilið við Tryggingamiðstöðina eftir 18 ár. Ég ákvað sjálf að hætta við erfiðar aðstæður þar sem ég upplifði að ég hefði ekki annan kost. Það tók á andlega og ég þurfti að vinna mikið í sjálfri mér í kjölfarið.
Ég fékk að reyna á eigin skinni að það er ekki auðvelt að skipta um starfsvettvang með næstum fimmtuga kennitölu og ég var atvinnulaus í nokkra mánuði. Ég er mikil prinsipp-manneskja og tilhugsunin um að sækja um atvinnuleysisbætur fannst mér í raun óhugsandi. Eftir á að hyggja er ég í raun þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til þroska og myndi ekki breyta ákvörðuninni þó ég gæti.
Fyrir tveimur árum hóf ég störf á fjármálasviði Landspítalans, þar starfa ég við tekjubókhald. Ég fór líka í MPM-nám í verkefnastjórnun við HR.“

Greind með krabbamein í maga
„Vorið 2019 fékk ég stærsta verkefnið í lífi mínu hingað til þegar ég var greind með krabbamein í maga. Ég hafði verið með óþægindi í meltingunni en hafði ekki haft miklar áhyggjur því mér fannst það algengt í kringum mig. Haustið áður var ég samt búin að fara til heimilislæknisins sem fann ekkert sérstakt að hjá mér.
Ég fór síðan að finna fyrir því að þegar ég borðaði varð ég mjög fljótt södd og átti erfitt með að ropa. Þetta truflaði mig ekki alvarlega nema í þau skipti sem ég ætlaði að gera vel við mig í mat og drykk, þá gat ég lítið borðað og leið verulega illa.“

Gaf sér góðan tíma til að útskýra málið
Smátt og smátt minnkaði magaplássið hjá Önnu og þegar hún leitaði aftur til læknisins þá voru allar máltíðir orðnar óeðlilega litlar. Hún var send í magaspeglun og þar kom í ljós æxli á mótum maga og vélinda sem átti upptök sín í magaveggnum.
„Mig langar að hrósa Sigurjóni meltingasérfræðingi sérstaklega fyrir það hvernig hann færði mér þessar erfiðu fréttir. Hann gaf sér góðan tíma til að útskýra málið og fullvissaði sig svo um að ég meðtæki tvo punkta, að þetta væri alvarlegt en það væri læknanlegt. Ég vil meina að þarna hafi hann hjálpað mér að stilla á mér höfuðið fyrir framhaldið.
Ég veit að ég hafði enga stjórn á aðstæðum en ég gat stjórnað mínum eigin viðbrögðum. Ég leit alltaf á þetta sem tímabundið verkefni og varð aldrei verulega hrædd. Auðvitað er alltaf hætta á að greinast aftur síðar en ég er fljót að stoppa slíkar hugsanir. Það er svo tilgangslaust að eyða orku í að hafa áhyggjur af því sem gæti gerst.“

Reyndi að halda einhverri virkni
„Í framhaldi af greiningunni fór ég í jáeindaskanna sem sýndi sem betur fer enga dreifingu meinsins. Ég hitti síðan krabbameinslækni sem ákvað framhaldið á meðferðinni. Ég byrjaði á átta vikna þungri lyfjameðferð sem kallast FLOT4. Ég þoldi hana ágætlega þó að hún hafi ekki verið auðveld. Sem betur fer eru komin svo góð stuðningslyf sem minnka mikið aukaverkanir af krabbameinslyfjunum sjálfum. Ég slapp því að mestu við ógleði, sem ég hafði kviðið mikið fyrir.
Ég tók frí frá vinnu og námi á meðan á meðferðinni stóð, ég reyndi samt að halda einhverri virkni, fara í göngutúra og hitta fólk.“

Passaði slönguna eins og gull
„Dagarnir voru misjafnir, stundum var ég eldhress og aðra daga hafði ég enga orku.
Ég missti hárið og fannst það ekki erfitt, hafði ekki þörf fyrir að fá mér hárkollu. Ég fékk mér samt tattú á augabrúnirnar svo ég yrði ekki alveg sviplaus,” segir Anna og brosir.
Ég lenti í ævintýri á þessu tímabili, ég fékk eitt lyf í æð með lyfjadælu sem ég tók með mér heim. Í eitt skiptið náði kötturinn minn Viggó að bíta í sundur slönguna með lyfinu og það sprautaðist yfir mig alla. Ég held að ég hafi aldrei verið eins snögg að stökkva á fætur eins og þarna, ég hringdi á spítalann til að spyrja hvað ég ætti að gera. Sem betur fer var þetta lyf ekki hættulegt við snertingu og ég gat fengið nýjan skammt daginn eftir. Ég passaði slönguna eins og gull eftir þetta.“

Maginn fjarlægður
„Í september var komið að öðrum fasa í meðferðinni þegar skurðlæknirinn minn fjarlægði magann, neðsta hluta vélindans og alla eitla við magann, auk þess að tengja saman vélinda og smáþarma. Þetta var átta klukkustunda aðgerð.
Ég var óheppin eftir aðgerðina því ég fékk lungnabólgu með miklum fleiðruvökva sem þurfti að tappa af með drenum. Ég lá því inni í þrjár vikur í staðinn fyrir eina. Ég var mjög veik, alveg kraftlaus og missti mikinn vöðvamassa þar sem ég var rúmliggjandi og á lítilli næringu. Endurhæfingin snerist til að byrja með bara um að standa upp úr rúminu og ganga nokkra metra með göngugrind og súrefniskút.“

Aðlagast nýjum raunveruleika
„Mér finnst alveg magnað að hægt sé að búa til nýja meltingu sem virkar eftir svona aðgerð og hvernig líkaminn getur aðlagast nýjum raunveruleika. Ég byrjaði á næringu í æð fyrstu dagana, svo fljótandi fæði og fór síðan að prófa mig áfram með fasta fæðu tveimur vikum eftir aðgerð. Í dag get ég borðað flest en hef minna pláss og ef ég borða of mikið fæ ég verki, auk þess þoli ég ekki hvað sem er.
Í kjölfar veikindanna hef ég misst rúmlega 20 kg og geri grín að því að ég hef verið að reyna að losa mig við þau í 25 ár og loksins tókst það. Ég mæli samt ekki með þessar aðferð,“ segir Anna og brosir.
„Í nóvember þegar ég var búin að jafna mig þokkalega eftir aðgerðina hófst svo önnur umferð af átta vikna lyfjameðferð en henni lauk í janúar. Hún gekk vel en ég var þreyttari en í fyrri umferðinni, bæði líkamlega og andlega.“

Þarna fer fram magnað starf
„Í gegnum meðferðina og eftir að henni lauk hef ég nýtt mér þjónustuna hjá Ljósinu sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Þar fer fram magnað starf og starfsfólkið er dásamlegt. Ég mæli með fyrir alla sem greinast með krabbamein að leita til Ljóssins sem fyrst því endurhæfingin hefst í raun strax við greiningu.
Ég hef oft hugsað í gegnum þetta ferli hversu mikla sérstöðu krabbamein hefur í huga fólks. Ég upplifði að allir í kringum mig höfðu áhyggjur og vildu fylgjast með og ég kann virkilega að meta það. Ég fékk mitt verkefni sem var vissulega erfitt á meðan á því stóð og ég sit eftir með ákveðnar afleiðingar sem ég þarf að læra að lifa með. En þegar ég lít í kringum mig er samt svo mikið af fólki sem er að ganga í gengum miklu erfiðari veikindi en fær ekki sömu athygli af því það er ekki með krabbamein.“

Með jákvæðni að leiðarljósi
„Í dag er ég laus við krabbameinið og er óendanlega þakklát fyrir hversu vel þetta hefur gengið. Með jákvæðni að leiðarljósi gengur allt betur. Ég verð í eftirliti í einhver ár en annars lít ég svo á að þessu verkefni sé lokið.
Mér líður vel, er komin í fulla vinnu og í MPM-námið sem ég stefni á að útskrifast úr næsta vor, svo hver dagur er upp á við.
Mig langar að lokum að fá að óska öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Ég vona að nýja árið færi okkur öllum birtu, yl og fleiri samverustundir,“ segir Anna er við kveðjumst.

Súkkulaðibombur Sólu Ragnars

Sólveig Ragnarsdóttir hefur lengi haft mikla ástríðu fyrir bakstri og kökuskreytingum. Hún hefur um árabil gert mikil listaverk í alls kyns kökubakstri, bæði fyrir sjálfa sig og vini og vandamenn.
„Þegar fyrsta Covid-bylgjan skall á og starfshlutfallið minnkaði hjá mér þá lét ég loks verða að því að búa til Instagram-síðuna Sóla Ragnars Cakes þar sem ég deili ástríðu minni fyrir kökum og fallegum kökuskreytingum. Þetta hefur verið svona mitt dund í þessum aðstæðum að gera fallegar kökur fyrir vini og ættingja,“ segir Sólveig.

Hefur vart undan eftirspurn
„Það var svo núna í nóvember að ég rakst á þessa skemmtilegu hugmynd að heitum súkkulaðibombum. Þegar ég sá þetta þá hugsaði ég með mér að þarna væru töfrar jólanna í einni kúlu og prófaði að gera eina bombu til að sjá. Það heppnaðist svona líka vel og ég setti á myndband Instagram-síðuna mína en það deildist óvart á Facebook-síðuna mína í leiðinni.
Þá fór ég strax að fá fyrirspurnir frá vinum og ættingjum hvort hægt væri að kaupa súkkulaðibombur af mér. Það er skemmst frá því að segja að ég hef vart undan, ætli ég sé ekki búin að gera hátt í 300 bombur í heildina.“

Tvær stærðir af bombum
Súkkulaðibomburnar koma í tveimur stærðum, sú minni passar í einn bolla en sú stærri í tvo bolla. Þær eru gerðar úr hágæða belgísku súkkulaði. „Skelin sjálf er gerð úr eðalsúkkulaði og inn í skelina er sett kakó og sykurpúðar.
Athöfnin er þannig að þú setur súkkulaðibombuna í bolla og hellir sjóðandi mjólk yfir og þá gerast töfrarnir. Bomban opnast og sykurpúðarnir þjóta upp, svo er bara að hræra vel og njóta súkkulaðibollans,“ segir Sólveig brosandi.
Hægt er að hafa samband við Sólveigu í gegnum Instagram-síðuna hennar ef fólk hefur áhuga.