Ákvað að taka stóra stökkið

Kristín Valdemarsdóttir hefur starfað sjálfstætt sem ljósmyndari frá árinu 2019. Myndir hennar hafa vakið mikla athygli enda segja þær sögu og eru draumkenndar og ævintýralegar.
Kristín tekur allar sínar myndir úti við og hefur verið dugleg að nota nærumhverfi sitt og þá helst skógana sem eru eins og allir vita annálaðir fyrir mikla náttúrufegurð.

Kristín er fædd í Reykjavík 17. maí 1973 Foreldrar hennar eru þau Þórdís Kjartansdóttir fv. höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari og Valdemar Jónsson fv. píanókennari.
Systkini Kristínar eru þau Unnur f. 1963 og Kjartan f. 1967.

Kölluðum umhverfið okkar torfuna
„Ég ólst upp í Reykholti, innst í Reykjahverfinu, það var dásamlegt að alast þar upp í sveitasælunni og frelsinu. Við vinkonurnar kölluðum umhverfið okkar torfuna, og gerum enn.
Það var ýmislegt brallað á þessum tíma, skautadans, sundlaugastundir og heyskapur og svo lékum við okkur við krakkana í Reykjahverfinu. Ég fór líka þrjú sumur í sveit á Snæfellsnesi á mínum æskuárum.“

RR bekkurinn
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og var í sama bekknum öll árin, dreifbýlisbekknum. Við vorum víst ansi skrautlegur bekkur og það var ýmislegt brallað.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir var umsjónarkennarinn okkar í Gaggó og hún náði stjórn á bekknum enda vorum við sko í RR bekknum, röð og regla,“ segir Kristín og hlær.
„Ég hóf síðan nám á íþróttabraut við Fjölbrautaskólann við Ármúla og fór svo sem au pair til New York. Eftir það fór ég í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og útskrifast 1998 og hóf síðan störf hjá ÍTR í félagsmiðstöðinni Árseli. Frá 17-28 ára starfaði ég í sumarvinnu hjá Reykjalundi við hin ýmsu störf.“

Líður eins og stoltri frænku
„Ég byrjaði að kenna íþróttir og sund í Varmárskóla 2006 og starfaði þar til 2019. Ég er búin að eiga frábæran tíma í þessum skóla með æðislegu samstarfsfólki.
Ég hef fylgt ansi mörgum nemendum í gegnum þeirra skólaferil og þykir rosalega vænt um þau öll. Að fylgjast með þeim dafna á vegferð sinni eftir útskrift fær mig til að líða eins og stoltri frænku.
Vorið 2019 fann ég að það var kominn tími á breytingar og ákvað því að taka stóra stökkið, fara úr örygginu og hætta að kenna. Ég skráði mig í nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun, virkilega gefandi nám. Meðfram því prófaði ég að starfa aðeins við áhugamál mitt, ljósmyndun, og það gekk svo vel að ég starfa alfarið við það í dag.”

Þetta er ótrúleg saga
Kristín kynntist Ágústi Hlyni Guðmundssyni rafeindavirkja 1996 en hann starfar sem ráðgjafi hjá AZ Medica. Þau eiga tvær dætur, Matthildi f. 2004 og Karólínu f. 2008, sem báðar eru ættleiddar frá Kína.
„Í frítíma fjölskyldunnar finnst okkur skemmtilegast að ferðast en við höfum einnig verið að sýsla við ýmislegt heimavið. Við keyptum eitt elsta húsið í Mosfellsbæ, Blómvang við Reykjamel en það var byggt 1926 og er fyrsta garðyrkjulögbýli á Íslandi. Við gerðum það upp og bjuggum þar í 18 ár.
Árið 2018 keyptum við æskuheimili mitt, Reykholt, þegar foreldrar mínir fluttu og við gerðum það líka upp. Það er yndislegt að vera komin aftur á æskustöðvarnar í sveitinni. Við eigum einnig sumarbústað með foreldrum mínum á Hellnum á Snæfellsnesi og þar elskum við að vera.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sögu Mosfellssveitar og stofnaði því hópinn „Gamlar myndir í Mosfellssveit“ á Face­book. Mér fannst vanta vettvang til að halda utan um myndir og fróðleik frá sveitarfélaginu. Þetta er nefnilega ótrúleg saga sem nauðsynlegt er að varðveita og skemmtilegast er þegar hún kemur frá íbúunum sjálfum.“

Alltaf opin fyrir ættleiðingu
Þegar kom að því að stækka fjölskylduna þá gekk það ekki eins og skyldi. Ágúst og Kristín leituðu því til tækninnar sem gekk heldur ekki eftir. Þau voru ávallt opin fyrir ættleiðingu og ákváðu að fara í það ferli frekar en að festast í tækniferlinu.
„Árið 2004 var biðtíminn í Kína frekar stuttur svo við ákváðum ættleiðingu þaðan. Það er heilmikið ferli sem þarf að fara í gegnum áður en endanlegt leyfi er gefið út.
Við biðum í sjö mánuði en okkur fannst þetta heil eilífð. Loksins komu upplýsingar og mynd af eins árs gamalli fallegri stúlku. Þvílík gleði, frá þeirri stundu urðum við foreldrar, hún var fallegasta barn í heimi.“

Þetta var magnað ferðalag
„Það var ólýsanlegt að kynnast Kína, fæðingarlandi dóttur okkar, en maður átti samt erfitt með að upplifa því við vorum að verða foreldrar og hugurinn því annars staðar. Stundin sem við fengum hana í fangið er ólýsanleg, hún var okkar frá fyrstu mínútu og aðlögunin gekk vel.
Við vissum það um leið og við komum heim að þessa tilfinningu vildum við upplifa aftur. Við byrjuðum því næsta ferli um leið og við máttum eða ári síðar. Það ferli tók aðeins lengri tíma þar sem biðtíminn hafði lengst í Kína en við höfðum Matthildi til að knúsa svo biðin var bærilegri.“

Þetta var skrifað í skýin
„Fjórum árum síðar fengum við símtalið frá Íslenskri ættleiðingu að það væru komnar upplýsingar um litla stúlku, tæplega eins árs og hún fékk nafnið Karólína. Við urðum strax ástfangin og gengum með myndina af henni í vasanum í 3 mánuði áður en við flugum út. Matthildur var þá 5 ára og hún kom að sjálfsögðu með okkur.
Aftur upplifðum við þessa töfrandi og ólýsanlegu tilfinningu þegar við fengum hana í fangið, tilfinningu sem enginn skilur nema sá sem hefur ættleitt. Við hefðum ekki getað verið heppnari og hefðum við ekki getað ímyndað okkur fjölskyldu okkar neitt öðruvísi.
Það er bara þannig að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar, ég trúi því að það sé ástæða fyrir öllu. Ástæða okkar var að við áttum í erfiðleikum með að eignast börn á hefðbundinn hátt en fengum samt dæturnar okkar á annan hátt, það var skrifað í skýin.“

Dugleg að nota náttúruna í Mosó
Kristín starfar sem ljósmyndari í dag og tekur aðallega myndir úti í náttúrunni. Stílnum hennar má lýsa sem draumkenndum og ævintýralegum, myndir sem segja sögu.
„Ég er búin að hafa áhuga á ljósmyndun í langan tíma en byrjaði fyrir alvöru þegar dætur mínar voru yngri. Ég tók mikið af myndum af þeim og sótti ýmis námskeið til að bæta við þekkingu mínu. Ég fór svo að fá fyrirspurnir frá fólki hvort ég tæki að mér að taka myndir. Ég ákvað því að prófa að taka stóra stökkið og fór út í sjálfstæðan rekstur sem ljósmyndari, www.kristinvald.com.
Það gengur bara fínt en ég er svolítið háð veðri þar sem ég er ekki með stúdíó og tek því bara myndir úti. Ég hef verið dugleg að nota náttúruna hér í Mosó eins og í Reykjalundar- og Hamrahlíðarskógi.
Þó að ég hafi farið út í ljósmyndun þá er aldrei að vita hvað maður tekur sér fyrir hendur í framtíðinni, ég er nefnilega ekki ennþá búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór,“ segir Kristín og hlær þegar við kveðjumst.