Draumurinn orðinn að veruleika

Fyrsti íslenski rjómalíkjörinn, Jökla, er kominn á markað. Pétur Pétursson mjólkurfræðingur hefur þróað drykkinn síðastliðin 14 ár en þetta er í fyrsta sinn hérlendis sem framleiddur er áfengur drykkur úr íslenskri mjólk og þar sem mysa er nýtt við gerð líkjörs.
Pétur fékk hugmyndina eftir að hafa fengið að smakka heimatilbúinn líkjör úr hrímaðri mjólkurkönnu beint úr frystinum hjá bónda á Ítalíu. Hann ákvað þegar heim var komið að gera tilraunir með sinn eigin drykk og nú er sá draumur orðinn að veruleika.

Pétur er fæddur í Reykjavík 30. júlí 1964. Foreldrar hans eru þau Matthildur Jóhannsdóttir söngkona og Pétur Guðmundsson búfræðingur.
Pétur á þrjú systkini, Ragnheiði f. 1959, Baldvin f. 1962 og Alan Má f. 1976.

Man hvað hún skrifaði vel
„Ég flutti í Mosfellssveit þegar ég var tveggja ára gamall og foreldrar mínir byggðu sér hús í Markholti 18. Það var gaman að fá nokkur uppeldisár í sveitinni, svona sveit með sjarma.
Ég man þegar Ragnheiður systir mín keppti í sundi á 17. júní í Varmárlaug. Ég var svo stoltur þegar hún stakk sér til sunds því nánast allir Mosfellingar voru mættir til að horfa.
Þegar ég var 7 ára þá fluttum við til Reykjavíkur og ég ól manninn í Vogahverfinu. Ég var því fyrstu tvö árin mín í skólaskyldu í Varmárskóla og ég man hvað Klara Klængsdóttir kennarinn minn skrifaði vel, ég vildi alltaf skrifa svona vel eins og hún.
Ég fór svo í Vogaskóla og kláraði grunnskólann þar, smíði, skrift og landafræði voru mín uppáhaldsfög ásamt íþróttunum.
Staða mín er því sú að ég held bæði með Aftureldingu og Þrótti,“ segir Pétur og brosir.

Fór til Danmerkur í nám
Pétur var ekki viss um hvað hann langaði til að gera eftir grunnskólanámið svo hann fór að vinna sem aðstoðarbókbindari. Síðar hóf hann störf sem tollvörugeymsluvörður hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Hann byrjaði í rafvirkjanámi en fór síðan til Danmerkur í mjólkurfræðinám og bætti svo við tæknifræðinámi. Árin í Danmörku urðu fimm, bæði við nám og störf.
Eiginkona Péturs er Sigríður Sigurðardóttir viðkiptafræðingur en hún starfar hjá Marel. Þau eiga tvö börn, Sindra Þór f. 1987 sem starfar sem flugumsjónarmaður hjá SunAir í Danmörku og Stefaníu Ósk f. 1995 en hún er í mastersnámi í iðnaðarverkfræði í Danmörku. Barnabarnið Benjamín Thor er fæddur 2020.
„Við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 2000 eftir ábendingu um frábæra eign frá Sigrúnu Björgu frænku minni. Hér líður okkur vel og útivera er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni, hlaup, ganga og hjólreiðar og að sjá um að hundarnir fái sína hreyfingu. Við förum öll á skíði og höfum stundað þau vel, fjalla-, svig- og gönguskíði. Það er ekkert betra en að vera úti í náttúrunni,“ segir Pétur.

Tökum púlsinn á búskapnum
„Eftir heimkomu starfaði ég sem mjólkurfræðingur hjá Emmessís en fór síðan út í sölumennsku. Starfaði hjá Sápugerðinni Frigg og sá þar um sölu á hreinlætisvöru fyrir landbúnaðinn. Leiðin lá síðan til Áburðarverksmiðjunnar sem síðar sameinaðist Fóðurblöndunni þar sem ég starfa í dag sem sölustjóri.
Ég hitti bændur reglulega og við tökum saman púlsinn á búskapnum og gerum hann enn betri.“

Hún var stoð mín og stytta
„Ég fór líka út í það að læra óperusöng og hóf nám í Söngskólanum í Reykjavík, fyrst í almennt söngnám, síðan í ljóða- og aríudeild skólans. Minn aðalkennari var Snæbjörg Snæbjarnardóttir, hún leiddi mig í gegnum námið og var mín stoð og stytta. Einnig kenndi Garðar Cortes mér tæknina í óperukórnum og Signý Sæmundsdóttir.
Að námi loknu tók ég þátt í minni fyrstu óperu, Leðurblökunni eftir Strauss, sem frumsýnd var í Íslensku óperunni árið 1999. Þessi uppfærsla var síðan sýnd einu sinni í Færeyjum og spannar það allan minn erlenda söngferil í óperusöng.
Alls urðu óperurnar 16 sem ég tók þátt í og er mér minnisstæðust fyrsta óperan sem frumsýnd var í Hörpu, Töfraflautan eftir Mozart, en hún var sýnd fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld.
Þannig að það má nú segja að ég hafi fetað í fótspor foreldra minna þar sem ég starfa bæði við landbúnað og söng,“ segir Pétur og hlær.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa
Það hefur alltaf blundað í Pétri að gera eitthvað sérstakt úr mjólk og eins og áður sagði þá fékk hann hugmynd að framleiðslu rjómalíkjörsins Jöklu eftir að hafa smakkað heimatilbúinn mjólkurlíkjör hjá bónda á Ítalíu. Honum fannst þetta skemmtileg stemning og bragðið kom honum virkilega á óvart.
„Ég hófst handa við að koma hugmyndinni í framkvæmd og byrjaði að dunda við þetta í eldhúsinu heima hjá mér. Gestum og gangandi var gefið að smakka, viðbrögðin létu ekki á sér standa svo ég fór yfir á næsta stig og fór alvarlega að huga að framleiðslu á drykknum.“

Sá hvítfyssandi jökulá
Í þróunarferlinu fékk Pétur styrk frá verkefninu „Mjólk í mörgum myndum“ við að vinna að hugmynd sinni en verkefnið var á vegum Auðhumlu og Matís sem veitir nýsköpunarstyrki til að þróa nýjar vörur úr mjólk.
„Ég vildi hafa líkjörinn eins íslenskan og eins mikið unninn úr mjólkinni og hægt er og ég kalla hana hvíta gullið. Ég er að breyta mjólk í vín og nota mjólk og rjóma og eins viðbætt mjólkurprótein í stað þykkingarefna. Eins er sjálfbærni í Jöklu þar sem búinn er til vínandi úr ostamysu sem annars væri hent. Vinsælustu bragðefni Íslendinga eru súkkulaði og lakkrís og var því tilvalið að vinna með það svo ég bætti þeim bragðefnum við drykkinn.
Á upphafsárunum var ég að gera tilraunir með vanillukorn og rjóma. Ég hristi prufuglasið og sá þá fyrir mér hvítfyssandi jökulá með sandkornum á fleygiferð í tilraunaglasinu. Þá hugsaði ég að þetta væri eins og stórbrotin jökulá á Íslandi, þá kom nafnið sjálfkrafa upp í kollinum á mér, Jökla.“

Stór stund fyrir mig og mína fjölskyldu
„Mér finnst ég standa í þakkarskuld við íslenskan landbúnað og bændur og vona svo sannarlega að hægt verði til framtíðar litið að auka við mjólkurkvótann um heilan helling nú þegar sala á Jöklu hefst frá og með deginum í dag.
Eftir 14 ára þróun er draumur minn loks orðinn að veruleika, þetta er stór stund fyrir mig og mína fjölskyldu sem hefur staðið þétt við bakið á mér.
Ég held að þessi drykkur eigi eftir að falla vel í kramið bæði hjá landsmönnum og ferðamönnum,“ segir Pétur sem er ekkert annað en bjartsýnn á að vel takist til.