Hjartað slær alltaf heima í Mosfellsbæ

Mosfellska hljómsveitin KALEO hefur farið sigurför um heiminn en strákarnir fluttu til Bandaríkjanna fyrir sex árum.
Ný plata sveitarinnar, Surface Sounds, leit dagsins ljós nú nýverið eftir að útgáfu hennar var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Hún hefur nú þegar fengið frábærar viðtökur um allan heim.
Meðlimir hljómsveitarinnar KALEO eru þeir Jökull Júlíusson, Davíð Antonsson, Daníel Ægir Kristjánsson og Rubin Pollock.
Sökum COVID hefur hljómsveitin verið á Íslandi í rúmt ár og leitar að æfingaaðstöðu til að undirbúa sig undir þriggja ára heimstúr sem fram undan er til að fylgja eftir nýju plötunni.
Við hittum Jökul Júlíusson forsprakka sveitarinnar og spurðum út í tímamótasamstarf við Aftureldingu, rokklífið og allt það helsta sem okkur þyrsti í að vita.

Æfði á yngri árum með Aftureldingu
Hvernig hafa viðbrögðin við nýju plötunni verið?
Þau eru búin að vera gífurlega góð í alla staði og með mest seldu plötum á heimsvísu eftir fyrstu söluviku

Og hvernig gekk að vinna hana?
Það var langt og strangt ferli. Ég hóf upptökur á meðan ég var enn á tónleikaferðalagi 2017 bæði í rútunni og mismunandi hljóðverum víða um heim þegar frídagar gáfust. Síðan síðla árs 2018 eftir að tónleikaferðalaginu lauk gat ég einbeitt mér að stúdíóinu og eyddi þá mestum tíma í Nashville, New York og Los Angeles.

Hvernig kom það til að þið fóruð að styrkja Aftureldingu?
Þetta var hugmynd sem Magnús Már þjálfari kom með til mín. Mér fannst það auðvitað mjög spennandi og ákveðin rómantík í því að geta styrkt uppeldisfélagið. Eftir því sem við best vitum hefur þetta ekki verið gert áður, að listamaður auglýsi framan á knattspyrnutreyjum, í það minnsta ekki á Íslandi.

Eitthvað meira planað í kringum það?
Planið er að reyna að mæta á heimaleiki í sumar og vonandi gera eitthvað skemmtilegt með liðinu ef samkomutakmarkanir og aðstæður leyfa.

Þú æfðir sjálfur með Aftureldingu?
Ég æfði með Aftureldingu á yngri árum og við lentum meðal annars í 2. sæti á Íslandsmótinu í 2. flokki. Eftir það fór ég að einblína meira á tónlistina og það tók svolítið við.

Varla misst úr dag í ræktinni í 10 ár
Hvernig hefur Covid farið með þig? Gott að fá smá pásu eða er þetta óþolandi ástand?
Það má eiginlega segja bæði. Þetta hefur vissulega verið góð hvíld á margan hátt en að sama skapi erfitt að aðlagast öðrum lífsstíl. Við höfum reynt að vinna á meðan við getum og tekið upp nokkra lifandi flutninga í íslenskri náttúru. Aðalvandamálið hefur verið að finna æfingaaðstöðu og auglýsum við hér með eftir því ef að einhver hefur tök á að hýsa eða leigja lítilli hljómsveit húsnæði.

Hvað er svo fram undan hjá ykkur?
Fram undan er þriggja ára heimstúr sem hefst í febrúar á næsta ári í Norður-Ameríku til að fylgja eftir nýju plötunni, Surface Sounds.

Tekur ekki á að búa í rútu í langan tíma á þessum tónleikaferðalögum?
Þetta getur verið gífurlega lýjandi á tímum. Sérstaklega eftir langt tónleikaferðalag. Ég reyni alltaf að hugsa vel um mig þegar kemur að heilsu, hreyfingu og mataræði og ég held að það hafi oft bjargað mér á tímum.

En þú hugsar vel um heilsuna?
Já, ég hef alltaf búið til tíma fyrir það, sama hvað. Það er eiginlega ótrúlegt að hafa nánast ekki misst úr dag í ræktinni í 10 ár sama í hvaða landi ég er, þangað til Covid kom. Þá þurfti maður að reyna bjarga sér í útihlaupum o.fl.

Kærastan jarðbundin og heilsteypt
Hvernig tekur Telma, kærastan þín, öllu þessu hljómsveitarstússi?
Ég myndi segja að hún umberi það bara mjög vel. Þetta er oft langt frá því að vera eðlilegt líf en hún er ótrúlega jarðbundin og heilsteypt og mikil fyrirmynd svo að það auðveldar okkur að finna stöðugleika.

Hvar sérðu sjálfan þig eftir 10 ár?
Það verður að koma í ljós. Þetta hefur verið síbreytilegt síðustu ár og maður hefur þurft að aðlagast hratt. Það sem er næst á dagskrá núna er langur túr og að byrja að vinna í næstu plötu, vonandi sem fyrst. Auðvitað vonast maður síðan til að fá tíma inn á milli og koma heim og njóta á Íslandi sömuleiðis.

Hvert er eftirminnilegast giggið?
Þau eru mörg eftirminnileg úti um allan heim en það er nú alltaf eftirminnilegt þegar ritstjórinn dró mig fyrst upp á svið til að syngja og spila á Ásláki fyrir þó nokkrum árum. Ætli það hafi ekki verið eitt af fyrstu giggunum.

Mikið vatn runnið til sjávar
Ætlaðir þú þér alltaf að verða tónlistarmaður?
Ég var kannski ekki viss um að ég myndi starfa við það fyrr en hlutirnir byrjuðu virkilega að rúlla 2013. Það hefur þó alltaf verið mikil ástríða.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera sem tónlistarmaður?
Ég lít meira á mig sem lagahöfund heldur en söngvara eða hljóðfæraleikara. Það er þar sem ég finn mig mest, svo er ótrúlega gaman hvernig hægt er að lita lögin með mismunandi hljóðfærum, útfærslum og fleira.

Og hvert stefnir þú?
Ástæðan fyrir því að ég flutti til Bandaríkjanna fyrir um sex árum var aðallega til þess að taka upp tónlistina þar og flytja hana. Þar eru að mínu mati bestu hljóðverin og fólkið til að vinna með.
Ég held að ég stefni alltaf á að halda áfram að þróast og að gera hlutina vel. Ég get líka alveg viðurkennt að maður gleymir kannski oft að staldra við og horfa til baka og sjá hversu mikið vatn hefur runnið til sjávar.

Þið eruð alveg komnir yfir í enskuna, það er ekkert von á lagi á íslensku í náinni framtíð?
Ég hef alltaf samið á ensku. Það hefur einfaldlega verið mér eðlilegt.
Eina lagið sem ég hef spilað á íslensku er Vor í Vaglaskógi. Það er líka eina ábreiðan sem ég hef tekið. Það er þó aldrei að vita í framtíðinni. Aldrei að segja aldrei.

Stoltur Mosfellingur og Íslendingur
Mosfellingar eru afskaplega stoltir af framgangi ykkar (hafið verið valdir m.a. bæjarlistamenn Mosfellsbæjar og hljómsveitin valin Mosfellingur ársins). Finnið þið fyrir stuðningi úr ykkar heimabyggð?
Alveg hiklaust. Ég er ótrúlega stoltur af því að vera Mosfellingur og það hafa verið forréttindi að alast hér upp. Þetta er frábært samfélag og ég hef alltaf fundið mikinn stuðning, jafnvel þegar að við vorum rétt að byrja og fengum að æfa uppi í félagsmiðstöð. Það væri einmitt gaman að reyna að koma upp flottri aðstöðu fyrir ungt tónlistar- og listafólk til að styðja við ungu kynslóðina og hvetja hana áfram.

Þú ert duglegur að kynna Ísland og segja frá þínum heimahögum, finnst þér það skipta máli?
Ég er mjög stoltur Íslendingur og er ófeiminn við að flagga því. Það eru líka forréttindi að geta tekið upp lifandi flutninga við þessar náttúruperlur sem við eigum eins og Fjallsárlón, Þrídranga o.fl.

Hljómsveitin Rolling Stones þurfti að margbiðja ykkur um að hita upp fyrir sig, eru margir sem vilja fá ykkur með á túr?
Það er mjög algengt að fyrirspurnir berist. Ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að hita upp fyrir aðra á þessum tíma á ferlinum. Við erum með meira en nóg efni til að halda okkar eigin tónleika og viljum því frekar einbeita okkur að því.

Hvar slær hjartað?
Hjartað slær alltaf heima í Mosfellsbæ.