„Við hættum ekki fyrr en við komumst á toppinn“

ulfarfellpokar

Skátafélagið Mosverjar vinnur nú að bættri gönguleið, Skarhólamýri eins og þeir kalla hana, upp á Úlfarsfellið frá Skarhólabraut.
Margir hafa velt því fyrir sér hvað þeir sjái hér hvítt í fellinu, hvort þetta sé listaverk eða einhver gjörningur. „Ég var farinn að hallast að því að þetta væru rollur sem stæðu í röð og biðu eftir sláturtíðinni. Þetta eru hinsvegar 600 pokar fullir af möl sem við vinnum nú úr,“ segir Ævar Aðalsteinsson verkefnastjóri Mosverja.
„Verkefnið er unnið í samstarfi við Mosfellsbæ og er leiðin farin upp norðanvert Úlfarsfellið. Þetta er þriðja sumarið sem við vinnum í þessu fyrir alvöru.
Göngustígurinn verður framhald af 202 tröppum sem gerðar voru í fyrra. Við hættum ekkert fyrr en við komumst á toppinn,“ segir Ævar.

Margir farnir að uppgötva gönguleiðina
„Tilgangurinn er að reyna stýra umferðinni inn á stíginn og koma í veg fyrir skemmdir á umhverfinu, slóðinn var orðinn of breiður og víða var farið að myndast flag. Árangurinn er þegar farinn að sjást og fólk tekur þessum stíg fagnandi.
Utanvegahlauparar eru til að mynda búnir að uppgötva leiðina og farnir að nýta tröppurnar í þolþjálfun, hlaupa upp og niður og berjast um besta tímann og maður hefur heyrt að Tommi umhverfisráðherra sé einn þeirra,“ segir Ævar.
Úlfarsfellið er frábært útivistarsvæði og er greinilegt að fólk er búið að uppgötva þessa nýju leið. Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir því hvernig pokarnir komumst upp á fjallið en Guðmundur Sverrisson, Gúndi húsvörður, á sinn þátt í því og sá um að koma þeim upp, en enginn veit hvernig,“ segir Ævar léttur í bragði.

Forréttindi að taka þátt í uppbyggingu skólastarfsins

mosfellingurinn_johanna

Lágafellsskóli er samrekinn leik- og grunnskóli fyrir nemendur í Mosfellsbæ og er deildaskiptur í yngsta, mið- og unglingastig ásamt leikskóladeildum. Við skólann starfa um 130 manns en um 730 nemendur eru í skólanum. Jóhanna Magnúsdóttir hefur starfað sem skólastjóri Lágafellsskóla frá því skólinn var stofnaður árið 2001 en hefur nú látið af störfum.

Jóhanna er fædd á Eskifirði 17. nóvember 1953. Foreldrar hennar eru þau Erla Charlesdóttir húsmóðir og skrifstofudama og Magnús Bjarnason framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Eskifjarðar.
Jóhanna er elst þriggja systkina, Agla er fædd 1958 og Charles Óttar er fæddur 1960 en hún á einnig hálfsystur, Sonju f. 1952, samfeðra.

Það var barist með ýmsum áhöldum
„Ég ólst upp á Eskifirði í miklu frjálsræði eins og tíðkaðist á þeim tíma. Við krakkarnir lékum okkur úti allan daginn, dorguðum á bryggjunni, veiddum síli og á vetrum fórum við á skíði.
Það var talsvert um bardaga milli bæjarhluta og þá erum við að tala um alvöru bardaga þar sem barist var með ýmsum áhöldum, m.a. skíðastöfum, og einhverjir bera ör eftir þessar viðureignir.“

Var orðin sjálfstæð í söltuninni
„Síldarævintýrið var í algleymingi þegar ég var barn og ung að árum fékk ég að taka þátt í söltun með mömmu. Ég var 13 ára þegar ég var orðin sjálfstæð í söltuninni en þá var ekkert verið að velta sér upp úr því hvort börnin væru að vinna að nóttu til.
Tvö sumur vann ég svo við flökun í frystihúsinu. Þá naut ég þess mjög að afar mínir og ömmur bjuggu á staðnum og sótti ég mikið til þeirra enda yndislegt fólk. Íþróttir stundaði ég sem unglingur, bæði frjálsar íþróttir og handbolta.“

Ávað tíu ára að verða kennari
„Ég gekk í Barnaskóla Eskifjarðar og fannst gaman að læra. Ég hafði góða og eftirminnilega kennara en nefni helstan Ragnar heitinn Þorsteinsson en ég var líklega 10 ára þegar ég ákvað að verða kennari eins og hann.
Eftir unglingapróf fór ég í landspróf í Alþýðuskólann að Eiðum og útskrifaðist þaðan vorið 1969. Veturinn á Eiðum var afskaplega skemmtilegur, maður eignaðist marga vini, félagslífið var öflugt og mikið íþróttastarf sem ég tók þátt í.“

Æfði frjálsar íþróttir samhliða námi
Haustið 1969 settist Jóhanna í 1. bekk Kennararskóla Íslands og lauk kennaraprófi 1973, 19 ára. Hún ákvað að bæta við sig einu ári í Stúdentadeild skólans til að eiga möguleika á að fara í háskóla. Stúdentsprófið var svo í höfn 1974.
„Samhliða námi æfði ég frjálsar íþróttir og handbolta og keppti í handbolta til 1977 þegar ég varð ófrísk að mínu fyrsta barni.
Á sumrin vann ég á skrifstofu fyrir austan og síðar hjá ferðaskrifstofum í Reykjavík.“

Get enn heyrt glamrið í tönnunum
„Að loknu stúdenstsprófi réði ég mig til kennslu í Hólabrekkuskóla sem þá var ekki fullkláraður. Ég kenndi því 9 ára börnum í Fellaskóla og landsprófs- og verslunardeildum í Réttarholti. Vegna plássleysis í Réttó varð að kenna tveimur bekkjum saman og ég man mjög vel þegar ég stóð í fyrsta sinn frammi fyrir landsprófsnemendum mínum, 46 í bekk og ég tvítug. Ég get enn heyrt glamrið í tönnunum og fundið svitann í lófunum. Það var mikil lífsreynsla en gekk ljómandi vel.
Í skólanum kynntist ég eiginmanni mínum, Edvard Ragnars­syni, sem þar var yfirkennari.“

Áttum yndislegan tíma á Höfn
„Sumarið 1979 fluttum við til Hafnar í Hornafirði með dætur okkar tvær, Erlu f. 1978 og Silju f. 1979. Ætlunin var að vera í tvö ár en árin urðu 12. Edvard hóf störf hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga og ég hóf kennslu við Hafnarskóla.
Við áttum yndislegan tíma á Höfn, tókum virkan þátt í ýmis konar félagsstarfi og eignuðumst vini til lífstíðar. Ég starfaði við kennslu í níu ár auk þess sem ég var með umboð fyrir ferðaskrifstofur.
Meðan við bjuggum þar fjölgaði í fjölskyldunni, Magnús fæddist 1982, Darri 1987 og Mist 1990. Edvard á þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Önnu Guðrúnu, Ragnar og Kristinn Nikulás. Barnabörnin eru orðin 12 og 2 barnabarnabörn.“

Nýttum skíðalandið vel
„Sumarið 1991 fluttum við fjölskyldan í Mosfellsbæ. Börnin byrjuðu fljótt í íþróttum, tónlistarnámi og hestamennsku. Okkur fannst frábær kostur að hafa skíðaland í næsta nágrenni og nýttum það vel. Fyrstu þrjú árin eftir flutninginn var ég dagmóðir enda ekki hlaupið að því að koma börnum á leikskóla á þeim tíma.
Haustið 1994 hóf ég störf sem kennari við Varmárskóla þar sem ég vann til 1999. Tekin var ákvörðun á þessum tíma að reisa nýjan grunnskóla en á meðan hann var í byggingu var starfrækt útibú frá Varmárskóla.
Ég var beðin um að taka að mér starf útibússtjóra og gegndi því starfi í tvö ár með 170 nemendur eða þar til Lágafellsskóli tók til starfa.“

Þróunarverkefni í stjórnun
„Haustið 2001 hóf ég síðan starf sem skólastjóri Lágafellsskóla ásamt Sigríði Johnsen og Birgi Einarssyni og var um að ræða þróunarverkefni í stjórnun með undanþágu frá menntamálaráðuneyti. Fyrsta árið voru um 270 nemendur við skólann.
Birgir hætti eftir ár en við Sigríður störfuðum saman til 2007 en það ár fór ég í námsleyfi. Þegar Sigríður lét af störfum 2008 var Efemía Gísladóttir ráðin í hennar stað og starfaði hún við hlið mér þar til hún flutti utan 2010. Þá var tveggja skólastjóra kerfið lagt af við skólann og hef ég því gegnt starfinu ein síðan þá.“

Skólinn eins og eitt af börnunum
„Það hafa verið mikil forréttindi að taka þátt í uppbyggingu skólastarfsins og að vinna með öllu því öfluga og faglega starfsfólki sem unnið hefur við skólann. Þá hefur verið gaman að kynnast og vinna með öllum nemendum skólans í gegnum tíðina og foreldrum þeirra.
Ég hafði alla tíð mikið yndi af að kenna enda starfaði ég við kennslu í 27 ár áður en ég tók við skólastjórnun. Það hefur verið mikil reynsla og afar skemmtilegt og krefjandi starf sem ég hafði gegnt þegar ég lét af störfum 1. ágúst sl.
Skólinn er eins og eitt af börnunum mínum sem ég hef tekið þátt í að „ala upp“ fyrstu 18 árin og hef nú sleppt hendi af, enda í góðum höndum.“

Mun hafa nóg fyrir stafni
En hvað skyldi Jóhanna ætla að taka sér fyrir hendur? „Fyrst og fremst hlakka ég til að verja meiri tíma með manninum mínum og fjölskyldunni en Edvard lét af störfum fyrir 6 árum eftir að starfað sem útibússtjóri í banka og sem grunnskólakennari.
Þá eigum við hjónin bústað í Öndverðarnesi sem okkur finnst frábært að dvelja í.
Okkur þykir gaman að ferðast og höfum farið árlega á skíði til Austurríkis. Kannski sný ég mér að golfinu, hver veit? Ég er viss um að ég mun hafa nóg fyrir stafni og mun njóta þess að vera ekki bundin yfir löngum vinnudegi,” segir Jóhanna og brosir.

Mosfellingurinn 27. ágúst 2019
ruth@mosfellingur.is

Í túninu heima 2019 – DAGSKRÁ

tunid2019

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin helgina 30. ágúst-1. september. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Um helgina verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í Strætó allan laugardaginn fyrir Mosfellinga og gesti þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar (pdf)

 

ÞRIÐJUDAGUR 27. ÁGÚST

17:00-20:00 PERLAÐ MEÐ KRAFTI
Kraftur kemur í Hlégarð og perlar armbönd með Aftureldingu og Mosfellingum. Kraftur er stuðnings­félag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og tilvalið að láta gott af sér leiða.

MIÐVIKUDAGUR 28. ÁGÚST

17:00 LISTAPÚKINN Á BLIK
ListapúkinnÞórir Gunnarsson, opnar sýningu á Blik Bistro (golfskálanum). Listapúkinn er orðinn landsþekktur fyrir líflegar og skemmtilegar myndir sem hann málar af mannlífinu.

18:00 PRJÓNASKREYTINGAR Í MIÐBÆNUM
Kvenfélag Mosfellsbæjar skreytir aspirnar við Háholt í miðbæ Mosfellsbæjar. Íbúar geta tekið þátt og komið með það sem þeir eru með á prjónunum.

20:00-22:00 UNGLINGADANSLEIKUR Í HLÉGARÐI
Upphitun fyrir bæjarhátíðina. Unglingaball fyrir 8.-10. bekkinga. Dj Jooohan og Birnir mæta. Kostar litlar 500 krónur inn.

20:00 GÓSS Í LÁGAFELLSKIRKJU
Hljómsveitin GÓSS kemur fram og syngur hugljúf lög af nýútkominni plötu sinni. Hljómsveitin Góss er tríó, skipað þeim Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og Guðmundi Óskari Guðmundssyni. Frítt inn meðan húsrúm leyfir.

FIMMTUDAGUR 29. ÁGÚST

ÍBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR – Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR – Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR – Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR – Reykja- og Helgafellshverfi

18:00-21:00 KRYDDBRAUÐSKEPPNI STEINDA JR.
Á pizzastaðnum Blackbox í Háholtinu verður DJ frá kl. 18-21 og fram fer kryddbrauðskeppni Steinda Jr. Hátíðartilboð í boði fyrir gesti og gangandi.

18:00-22:00 SUNDLAUGARKVÖLD Í LÁGAFELLSLAUG
Fjölskyldan skemmtir sér saman. Sundlaugarkvöld fyrir 10 ára og yngri kl. 18-20 og fyrir 11 og eldri kl. 20-22. Leikhópurinn Lotta kíkir í heimsókn með söngvasyrpu kl. 18:15 og 19:30. Blöðrulistamenn sýna listir sínar og gera skemmtileg blöðrudýr. Dj. Baldur verður á svæðinu. Zumba í lauginni kl. 20:15. Frítt inn fyrir alla.

19:00 SKÁLDAGANGA UPP MEÐ VARMÁ
Safnast verður saman við Hlégarð, gengið upp með Varmá, að Stekkjarflöt og í Álafosskvos. Bjarki Bjarnason rithöfundur og forseti bæjarstjórnar leiðir gönguna. Kvennakórinn Stöllurnar tekur lagið og fer með bókmenntatexta á leiðinni.

19:00 FELLAHRINGURINN – FJALLAHJÓLAKEPPNI
Hjólakeppni um stíga Mosfellsbæjar. Keppnin hefst við íþróttahúsið að Varmá. Tvær vegalengdir í boði, 15 km og 29 km. Sjá nánar á netskraning.is/fellahringurinn

20:00 BÍLAKLÚBBURINN KRÚSER VIÐ KJARNA
Bílaklúbburinn Krúser safnast saman á bílaplaninu við Kjarna. Tilvalið að kíkja á flottar drossíur og klassíska bíla frá liðinni tíð. Fjöldi glæsivagna á svæðinu ef veður leyfir og eru heimamenn sérstaklega hvattir til að mæta.

21:00 BUBBI MORTHENS Í HLÉGARÐI
Bubbi Morthens verður með tónleika í Hlégarði. Bubbi gaf nýlega út plötuna Regnbogans stræti sem er hans þrítugasta og þriðja breiðskífa. Miðasala á www.midi.is.

FÖSTUDAGUR 30. ÁGÚST

8:00-20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Tveir fyrir einn af vallargjaldi á Hlíðavelli og í Bakkakoti.

10:00 og 11:00 BÓKASAFN MOSFELLSBÆJAR
Leikhópurinn Lotta kemur í heimsókn og flytur Söngvasyrpu og skemmtir 5 ára börnum í bænum. Sýningarnar verða tvær. Öll börn fædd 2015 eru hjartanlega velkomin. Dagskrá í samstarfi við leikskólana.

13:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, nag­grísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.­

14:00–20:00 ÆVINTÝRI Á GÖNGUFÖR
Ásta Júlía Hreinsdóttir sýnir olíumálverk í gróðurhúsinu að Suðurá í Mosfellsdal.

Kl. 17:00-20:00 SKELJATANGI  26 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Opið hús hjá Hrönn Huld Baldursdóttur spænskukennara sem býður í spænskt ævintýri. Tilvalið fyrir alla þá sem hafa gaman af því að tala spænsku og kynnast nýju fólki. Léttar veitingar í boði.

18:00 HVÍTI RIDDARINN – BJÖRNINN
Knattspyrnulið Hvíta Riddarans leikur fyrsta leik í úrslitakeppni 4. deildar að Varmá.

18:00-21:00 VELTIBÍLLINN Á MIÐBÆJARTORGINU
Veltibíllinn kemur í heimsókn á torgið þar sem Mosfellingum gefst kostur á því að finna hversu mikilvægt er að nota bílbelti.

19:30-23:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar verður með kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Rjúkandi heitar vöfflur og kakó eða kaffi.

19:30-22:30 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi.

20:00-22:00 TRÚBADOR Á BLACKBOX
Trúbadorinn Magnús Hafdal verður með gítarinn á Blackbox. Hátíðartilboð í boði fyrir gesti og gangandi.

20:30 ÍBÚAR SAFNAST SAMAN Á MIÐBÆJARTORGI
GULIR, RAUÐIR, BLEIKIR og BLÁIR. Allir hvattir til að mæta í lopapeysu.

20:45 SKRÚÐGÖNGUR LEGGJA AF STAÐ
Hestamannafélagið Hörður leiðir gönguna með vöskum fákum. Göngustjórar frá Leikfélagi Mosfellssveitar.

21:00-22:30 ULLARPARTÍ Í ÁLAFOSSKVOS
Brekkusöngur og skemmtidagskrá. Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngu. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri setur hátíðina. Söngvaborg tekur nokkur lög. Hilmar og Gústi stýra brekkusöng. Björgunarsveitin Kyndill kveikir í blysum. Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Kyndli.

22:00 BAGGALÚTUR Í HLÉGARÐI
Hljómsveitin Baggalútur heldur tónleika í Hlégarði.
Húsið opnar kl. 21:00 og miðasala fer fram á www.midi.is.

LAUGARDAGUR 31. ÁGÚST

• Frítt í Strætó í boði Mosfellsbæjar • Frítt í Varmárlaug  • Frítt á Gljúfrastein

8:00-20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Tveir fyrir einn af vallargjöldum á Hlíðavelli og í Bakkakoti.

8:00–17:00 MOSFELLSBAKARÍ
Bakaríið í hátíðarskapi alla helgina og býður gestum og gangandi upp á ferskt brauð og frábæra stemningu. Bakkelsi í hverfalitunum og vöfflur til hátíðarbrigða.

9:00–17:00 FRÍTT Á GLJÚFRASTEIN
Gljúfrasteinn – hús skáldsins opnar dyrnar að safninu upp á gátt og verður frítt inn í tilefni bæjarhátíðar Mosfellsbæjar, Í túninu heima. Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Í nágrenni safnsins eru skemmtilegar gönguleiðir, meðal annars upp að Helgufossi.

9:00-17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

9:00-16:00 TINDAHLAUP MOSFELLSBÆJAR
Náttúruhlaup sem hefst við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Ræst kl. 9:00 og kl. 11:00. Fjórar vegalengdir í boði, 7 tindar (38 km), 5 tindar (34 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km). Nánari upplýsingar á www.mos.is/tindahlaup og www.hlaup.is.

Kl. 10:00-14:00 REYKJAVEGUR 59 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hjónin Svandís og Einar verða með opið hús þar sem til sýnis verða handunnar prjónavörur. Einnig tölur og fleira unnið úr kinda- og hreindýrahornum. Heitt verður á könnunni.

10:00-16:00 MOSSKÓGAR Í MOSFELLSDAL
Útimarkaður: Sultukeppni, grænmeti frá Mosskógum, silungur frá Heiðarbæ, rósir frá Dalsgarði o.fl. Kammerkór Mosfellsbæjar tekur nokkur lög kl. 13:30. Úrslit í sultukeppni kl. 15:00. Skila þarf inn sultum fyrir hádegi.

Kl. 10:00-10:45 AKURHOLT 12 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hildur Ágústsdóttir býður í yoga nidra hugleiðslu í garðinum. Hafið meðferðis dýnu, teppi og kodda. Yoga Nidra er kallað yoga svefn, eða ástand milli svefns og vöku. Þar nær hugurinn og taugakerfið að hvílast og endurnærast.

11:00 AKURHOLT 16 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Síðmorgunstónleikar á heimili Önnu Hilmarsdóttur og Egils Stefánssonar. Fram koma Daniel Pye úr hljómsveitinni Neuromantics og dúettinn Dísa og Viktor sem samanstendur af Dísu Andersen og Viktori Inga Guðmundssyni.

12:00-15:00 ENGJAVEGUR 6 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Myndlistarsýning á verkum Hannesar Scheving. Hann hefur stundað málara­list síðastliðin 30 ár. Verk til sölu og sýnis. Allir velkomnir.

12.00–18.00 ÆVINTÝRI Á GÖNGUFÖR
Ásta Júlía Hreinsdóttir sýnir olíumálverk í gróðurhúsinu að Suðurá í Mosfellsdal.

12:00-14:00 KYNNING Á VETRARSTARFI UMFA
Deildir Aftureldingar koma saman í íþróttahúsinu að Varmá í sal 3. Hægt verður að prófa hinar ýmsu íþróttir sem boðið verður upp á í vetur, fá aðstoð við skráningu og upplýsingar um æfingatíma og frístundaávísun.

12:00-17:00 WINGS AND WHEELS – TUNGUBAKKAFLUGVÖLLUR FORNVÉLASÝNING
Gamlar flugvélar, dráttarvélar úr Mosfellsbæ, mótorhjól, fornbílar og flugsýning. Heitt á könnunni fyrir gesti og karamellukast fyrir káta krakka.

12:00 HÓPAKSTUR UM MOSFELLSBÆ
Ferguson-félagið stendur fyrir hópakstri dráttarvéla og fornbíla. Lagt er af stað frá Tungubakkaflugvelli og keyrður hringur um Mosfellsbæ.

12:00-18:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar verður með kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Rjúkandi heitar vöfflur og kakó eða kaffi. Blaðrarinn kíkir í heimsókn kl. 15 og skemmtir börnum.

13:00 AMSTURDAM 6 VIÐ REYKJALUND – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Stöllurnar og María Guðmundsdóttir bjóða til árlegrar garðveislu. Söngur, gleði og gaman.

13:00-17:00 KLIFURVEGGUR Í ÁLAFOSSKVOS
Skátafélagið Mosverjar býður öllum að sigra klifurvegginn sem staðsettur verður við Skálann í Álafosskvos.

13:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

12:00-16:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og ýmsar uppákomur á sviði.
12:00 Blaðrarinn mætir með sín vinsælu blöðrudýr
12:30 Skósveinar (Minions) á röltinu um svæðið
13:00 Krakkar úr Krikaskóla syngja
13:30 Karlakórinn Stefnir
14:00 Hljómsveitin Þristarnir úr Listaskólanum
14:30 Kammerkór Mosfellsbæjar
15:00 Heimatilbúið söngatriði

13:00-15:00 KYNNING Á ÆVINTÝRAGARÐINUM
Kynning á skipulagi Ævintýragarðsins. Fulltrúar bæjarins og hönnuðir verða við Íþróttamiðstöðina að Varmá til að svara spurningum og taka á móti hugmyndum bæjarbúa um framtíð Ævintýragarðsins.

13:00–14:00 LISTAMANNASPJALL
í Listasal Mosfellsbæjar Gerður Guðmundsdóttir segir frá sýningunni sinni Skynjun – Má snerta. Þetta er litrík sýning af lopaverkum þar sem sýningargestir eru hvattir til að upplifa verkin með snertingu.

13:00–16:00 SKIPTIFATAMARKAÐUR RKÍ
Rauði krossinn verður með pop-up barnafatamarkað í Rauða kross húsinu, Þverholti 7. Komdu með heillegar flíkur og skiptu út fyrir aðrar eða gerðu reyfarakaup.

13:00-15:00 EIRHAMRAR – FÉLAGSSTARF ALDRAÐA
Mosfellingar, FaMos-félagar og aðrir gestir velkomnir í heimsókn í þjónustumiðstöðina á Eirhömrum. Fjölbreytt vetrardagskrá kynnt. Kaffi á könnunni og Vorboðarnir taka lagið um kl. 13:00.

13:00-13:30 SIRKÚS ÍSLANDS VIÐ HLÉGARÐ
Sirkús Íslands sýnir listir sínar á túninu við Hlégarð. Fjörug fjölskyldusýning fyrir allan aldur. Aðgangur frír.

13:00 – 15:00 VÖFFLUKAFFI Í FMOS
Nemendafélag Framhaldsskólans Mosfellsbæ verður með vöfflukaffi í skólanum og rennur ágóði til góðgerðarmála.

14:00 – 18:00 REYKJAVEGUR 84 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Opið hús á leirvinnustofu Helgu Jóhannesdóttur, Reykjavegi 84. Keramik og olíumálverk. Kaffi á könnunni og snafs.

14:00 NJARÐARHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hljómsveitin Piparkorn leikur. Boðið verður upp á létta jass og blues tónlist, bæði þekkt efni og frumsamið. Á píanó er Magnús Þór Sveinsson, trommari er Þorsteinn Jónsson, á gítar og bassa er Gunnar Hinrik Hafsteinsson og söngkona er Þóra Björg Ingimundardóttir.

14:00 FURUBYGGÐ 28 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Heklurnar syngur lög í Furubyggðinni. Kórkonurnar koma víða að en stjórnandi kórsins er Dagný Þórunn Jónsdóttir.

14:00 AKURHOLT 21 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Blásið verður til garðtónleika hjá Öldu og Sigga Hansa í Akurholti. Stormsveitin kemur fram og eru allir velkomnir.

14:00-16:00 ARKARHOLT 4 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Frænkurnar Unnur, Hanna og Unnur taka á móti gestum í garðinum. Bara Hanna skartgripahönnuður verður með skartgripi til sýnis og sölu. Bílskúrssala og bakkelsi. Svavar Knútur leikur kl. 15

14:00-24:00 TÍVOLÍ VIÐ MIÐBÆJARTORG

14:00-16:00 KJÚKLINGAFESTIVAL
Stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar og gefa smakk við íþróttamiðstöðina að Varmá. Matur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ýmis skemmtiatriði, axarkast, kraftaáskorun, harmonikkuleikur, uppistand og fleira.

14:00-17:00 STEKKJARFLÖT
Frítt fyrir káta krakka í hoppukastala og ærslabelg.

15:00 HAMARSTEIGUR 9 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Söngskemmtun fyrir alla fjölskylduna. Sönghópurinn Tóna­fljóð syngur Disney-lög á íslensku úr teiknimyndum sem allir ættu að þekkja, m.a. úr Frozen, Toy Story, Lion King og Aladdin. Dúettinn Bergmál kemur einnig fram.

15:00 ÁLMHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Söngvarar Íslensku óperunnar sem taka þátt í sýningunni Brúðkaup Fígarós mæta og syngja skemmtilega óperutónlist. Anna Guðný Guðmundsdóttir leikur á píanó. Thorvaldsensbasar með kaffisölu til styrktar veikum börnum.

15:00 SÚLUHÖFÐI 1 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Tvíburabræðurnir Ævar og Örvar Aðalsteinssynir halda Kaffibrúsatónleika. Á efnisskránni eru íslensk og erlend lög sem allir kannast við. Með bræðrunum leika Sigurbergur Kárason á saxófón og Drífa Örvarsdóttir á fiðlu.

15:00-16:00 STEKKJARFLÖT – HESTAFJÖR
Teymt undir börnum á Stekkjarflötinni í boði Hestamenntar.

14:00 VARMÁRVÖLLUR – AFTURELDING – NJARÐVÍK
Knattspyrnulið Aftureldingar tekur á móti Njarðvík í 19. umferð Inkasso-deildar karla. Frítt inn í boði KFC. Páll Óskar verður heiðursgestur og Steindi Jr. vallarþulur.

Kl. 16:00 TÚNFÓTUR – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Blúshljómsveit Þorkels Jóelssonar og félagar halda tónleika á garðpallinum í Túnfæti í Mosfellsdal. Tónleikarnir standa yfir í um klukkustund.

16:30 KARMELLUKAST Á FLUGVELLINUM TUNGUBÖKKUM

Kl. 17:00-19:00 BOLLATANGI 2 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Garðtónleikar Sprite Zero Klan verða haldnir hátíðlegir með öllu tilheyrandi.  Gestaatriði, blöðrur og svakalegt show. Sigrún Ermarsundsfari mun setja upp svuntuna og baka ofan í gesti og gangandi eins og venjan er.

17:00-21:00 GÖTUGRILL Í MOSFELLSBÆ
Íbúar í Mosfellsbæ halda götugrill í vel skreyttum götum bæjarins. Tríóið Kókos fer á milli staða og heimsækir heppna íbúa.

21:00-00:00 TRÚBADOR Á BLACKBOX
Trúbadorinn Siggi Þorbergs verður með gítarinn á Blackbox í Háholtinu. Hátíðartilboð í boði fyrir gesti og gangandi.

21:00-23:00 STÓRTÓNLEIKAR Á MIÐBÆJARTORGI
Skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem Mosfellsbær býður öllum upp á tónleika á Miðbæjartorginu. Fram koma: Stuðlabandið, Katrín Halldóra (Elly), Björgvin Halldórsson, GDRN, Páll Óskar, Huginn og Svala Björgvins. Kynnir verður Greta Salóme. Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Björgunarsveitinni Kyndli.

23:00 FLUGELDASÝNING KYNDILS

23:30-04:00 STÓRDANSLEIKUR MEÐ PÁLI ÓSKARI
Hinn eini sanni Páll Óskar mætir í íþróttahúsið að Varmá. Miðverð á Pallaball aðeins 2.500 kr. í forsölu og 3.500 kr. við inngang. Forsala á www.afturelding.is.

SUNNUDAGUR 1. SEPTEMBER

8:00–17:00 MOSFELLSBAKARÍ
Bakaríið í hátíðarskapi alla helgina og býður gestum og gangandi upp á ferskt brauð og frábæra stemningu. Bakkelsi í hverfalitunum og vöfflur til hátíðarbrigða.

8:00-20:00 ÆFINGASVÆÐI GOLFKLÚBBSINS
Frítt fyrir alla á nýtt æfingasvæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar við Hlíðavöll. Tveir fyrir einn af vallargjöldum á Hlíðavelli og í Bakkakoti.

9:00-17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

10.00-13.00 GANGA Á REYKJABORG
Létt fjallganga um stikaðar leiðir Mosfellsbæjar. Gengið verður upp með Varmá og stefnan tekin á Reykjaborg, þar sem er hringsjá og frábært útsýni. Lagt verður af stað frá Suður-Reykjum kl. 10:00. Fararstjórar verða Ævar Aðalsteinsson, verkefnastjóri stikaðra gönguleiða og Tómas G. Gíslason umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Kl. 10:00-14:00 REYKJAVEGUR 59 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hjónin Svandís og Einar verða með opið hús þar sem til sýnis verða handunnar prónavörur. Einnig tölur og fleira unnið úr kinda- og hreindýrahornum. Heitt verður á könnunni.

11:00 KVÍSLARTUNGA 7 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Stofutónleikar í Kvíslartungu þar sem Mosfellsbæjarkvartettinn kemur fram. Söngkvartettinn eru þannig skipaður: Ásdís Arnalds, sópran, Lilli Dietz, alt, Þórarinn Jónsson, tenór og Reynir Bergmann Pálsson, bassi.

11:00 GUÐSÞJÓNUSTA Í LÁGAFELLSKIRKJU
Guðsþjónusta með léttu ívafi Í túninu heima. Sr. Ragnheiður Jóndóttir. Kirkjukór Lágafellssóknar leiðir safnaðarsöng. Þorvaldur Örn Davíðsson organisti.

11:00-15:00 HINDRUNARBRAUT VIÐ HLÉGARÐ
Frítt í 50 m uppblásna hindrunarbraut og Disney-hoppukastala á túninu við Hlégarð.

12:00–18:00 ÆVINTÝRI Á GÖNGUFÖR
Ásta Júlía Hreinsdóttir sýnir olíumálverk í gróður­húsinu að Suðurá í Mosfellsdal.

13:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, nag­grísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 800 kr.

14:00 HLÉGARÐUR – HÁTÍÐARDAGSKRÁ
• Stórsveit Íslands leikur ásamt Hjördísi Geirs og Önnu Margréti Káradóttur.
• Umhverfis­nefnd veitir umhverfis­-viðurkenningar Mosfellsbæjar 2019.
• Mosfellsbær heiðrar starfsmenn sem eiga 25 ára starfsafmæli.
• Útnefning bæjarlistarmanns Mosfellsbæjar 2019.
• Heitt á könnunni og allir velkomnir.

14:00-15:30 AFMÆLISHÁTÍÐ FIMLEIKADEILDAR
Fimleikadeild Aftureldingar býður alla velkomna í 20 ára afmæli í fimleikasalnum að Varmá. Opið hús.

14:00-16:00 OPIÐ HÚS Á SLÖKKVISTÖÐINNI
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis fyrir hátíðargesti. Gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal. Allir velkomnir.

16:00-22:00 AFMÆLISOPNUN Í UNGMENNAHÚSI MOSANS
Í tilefni af 2 ára afmæli Mosans verður starfið keyrt í gang með opnu húsi í Bólinu. Boðið verður upp á vöfflur, tónlist og geggjaða stemningu. Vonandi sjáum við sem flesta.

Bærinn iðar af lífi Í túninu heima

hatidarmynd

hverfaskiptingAð vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 30. ágúst til 1. september.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki í Mosfellsbæ taka virkan þátt í hátíðinni og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þekktir liðir verða á sínum stað, svo sem flugvéla- og fornvélasýning á Tungubökkum, kjúklingafestival og Pallaball, en einnig opið hús á slökkvistöðinni við Skarhólabraut sem naut mikilla vinsælla í fyrra.

Setning og ullarpartý á föstudagskvöld
Dagskrá hátíðarinnar verður æ veglegri með hverju árinu og hefst nú á þriðjudegi, en hátíðin er þó formlega sett á föstudag. Skrúðgöngur í hverfalitunum fjórum leggja af stað frá Miðbæjartorgi kl. 20:45 á föstudag með hestamannafélagið Hörð í broddi fylkingar. Þaðan liggur leiðin í Álafosskvos þar sem hátíðin er sett. Að því loknu verður Ullarpartý með brekkusöng og skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Í Álafosskvos fer fram markaður og skátafélagið Mosverjar skapar notalega kaffihúsastemningu. Hin árlega sultukeppni er á sínum stað á útimarkaðnum í Mosfellsdal. Gljúfrasteinn opnar dyrnar að safninu upp á gátt og verður frítt inn í tilefni bæjarhátíðarinnar.

Heilsueflandi dagskrárliðir
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og því vel við hæfi að á dagskrá hátíðarinnar eru bæði fjallahjólakeppnin Fellahringurinn, fótboltamót og Tindahlaupið, en það er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Fjórar vegalengdir eru í boði, einn, þrír, fimm eða sjö tindar á fellunum umhverfis bæinn.

Mosfellingar bjóða heim
Mosfellingar taka vel á móti gestum og gangandi, skreyta hús og garða sína í hverfislitunum og bjóða heim.
Fjölbreytileg dagskrá er í görðum bæjarbúa og má þar nefnda spænskt ævintýri, myndlistarsýningu, handverkssýningu og söngsyrpu úr Disney teiknimyndum.

Hápunktur á torginu
Stórtónleikar á Miðbæjartorgi eru hápunktur hátíðarinnar. Þar skemmta landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum og björgunarsveitin Kyndill stendur fyrir glæsilegri flugeldasýningu.
Frítt verður í strætó­leiðir 7, 15 og 27, í Varmárlaug og á Gljúfrastein allan laugardaginn. Dagskrá hátíðarinnar er að finna í miðopnu blaðsins og á vefsíðu Mosfellsbæjar www.mos.is.

Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar!

Endurbætur og viðhald Varmárskóla á lokametrunum

Varmárskóli tekinn í gegn í sumar eftir að í ljós komu rakaskemmdir í hluta húsnæðisins.

Varmárskóli tekinn í gegn í sumar eftir að í ljós komu rakaskemmdir í hluta húsnæðisins.

Frá því í júní hafa staðið yfir margháttaðar endurbætur og viðhald á Varmárskóla sem nú sér fyrir endann á.
Framkvæmdirnar byggja á tveimur ólíkum úttektum. Annars vegar úttekt Verksýnar sem tekur til almenns viðhalds og endurbóta á elstu hlutum skólahúsnæðisins. Hins vegar heildarúttekt EFLU á rakaskemmdum og afleiðingum þeirra.
Dagleg verkefnisstjórnun var í höndum umhverfissviðs Mosfellsbæjar og voru Verksýn og EFLA til ráðgjafar við framkvæmdir, röðun þeirra og leiðbeiningar um vinnubrögð á rakaskemmdum svæðum og þeim stöðum þar sem örveruvöxtur hafði greinst.
Samkvæmt upplýsingum frá EFLU var öllum verklagsreglum fylgt í hvívetna og fram fóru sérhæfð alþrif á húsnæðinu fyrir skólasetningu föstudaginn 23. ágúst.
Verktakar við framkvæmdirnar í Varmárskóla í sumar voru ÁS-Smíði ehf., Ístak hf. og Kappar ehf. og Pétur og Hákon ehf.

Gluggaskiptum lokið í suðvesturálmu
Framkvæmdunum er nú að mestu lokið og gluggaskiptum sem í síðustu viku var talið að þyrftu að eiga sér stað í vetrarfríinu í október er nú lokið í suðvesturálmu yngri deilda.
Vinna við gluggaskipti í bókasafni hófst mánudaginn 26. ágúst og gluggar í starfsmannaálmu verða endurnýjaðir næstu helgar. Þessi verkþáttur tafðist vegna tafa á afhendingu glugga frá framleiðanda.

Heildarskimun og loftgæðamælingar
Á fundi bæjarráðs 22. ágúst var samþykkt að ganga til samninga við annars vegar verkfræðistofuna EFLU og hins vegar við Orbicon um frekari úttektavinnu og heildarskimun á skólahúsnæði Mosfellsbæjar auk loftgæðamælinga.

Róum okkur aðeins

heilsumolar27agust

Heilsa og heilbrigði snýst ekki um að vera alltaf á miljón. Við þurfum að kunna að hvíla okkur alveg eins og að taka vel á því. Ég spjallaði við tvo Mosfellinga í vikunni sem báðir töluðu um muninn á því að búa erlendis, annars vegar í Danmörku og hins vegar Hollandi, og á Íslandi. Þeir töluðu báðir um að þeir hefðu fundið svo mikinn mun á daglegu lífi við það að flytja aftur til Íslands. Allt hefði einhvern veginn skrúfast upp. Hlutir þurfa að gerast svo hratt hjá okkur.

Við höfum litla þolinmæði fyrir því að bíða eftir því að hlutir hafi sinn gang, fari sinn farveg. Við, og ég er svo sem engin undantekning, reynum alltaf að stytta okkur leið. Komast að því hvern við þekkjum eða könnumst við svo við getum skautað fram hjá kerfinu. Fengið internet-tenginguna eða læknisvottorðið strax í dag. Eða alþjóðlega ökuskírteinið sem mamma reddaði á methraða í vor þegar ég var staddur í Japan og áttaði mig á því á allra síðustu stundu að heimamenn viðurkenndu ekki íslenska ökuskírteinið mitt. Mamma og bróðir konununnar sem vinnur við hraðflutninga gengu í málið og unnu svo hratt og vel með, eða hugsanlega, aðeins til hliðar við kerfið að alþjóðlega ökuskírteinið barst yfir hafið á tíma sem aldrei hefði átt að geta gengið upp. Þetta er svona haltu mér, slepptu mér dæmi. Við erum úrræðagóð, hugsum hratt í lausnum, þorum að framkvæma og erum ekki þrælar kerfisins.

En á móti býður einmitt þetta upp á að við tökum okkur ekki tíma til að anda. Stoppa og hvíla okkur á meðan hlutir gerast. Við megum alveg taka Danina, Hollendingana og aðra sem kunna þá list okkur til fyrirmyndar. Finna jafnvægi í daglegu lífi og njóta þess betur að vera til. Njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar. Lifa.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2019

Kvenfélagið fagnar 110 ára afmæli

kvenfélag

Kvenfélagskonur í Reykjadal.

Kvenfélagskonur í Reykjadal.

„Vorið og sumarið hefur verið viðburðaríkt hjá Kvenfélagi Mosfellsbæjar. Í ár fagnar félagið 110 ára afmæli.
Við vorum svo lánsamar að fá úthlutað styrk frá samfélagssjóði KKÞ og var það okkur mikils virði að fá viðurkenningu fyrir okkar störf,“ segir Sólveig Jensdóttir formaður kvenfélagsins.
Konur í félaginu hafa í vetur prjónað sjúkrabílabangsa sem afhentir voru starfsfólki á slökkvistöðinni á Skarhólabraut. Sjúkrabílabangsar eru gefnir börnum sem þurfa að ferðast með sjúkrabílum og hafa þeir veitt þeim styrk og hlýju á ferðalaginu.
Kvenfélagskonur tóku til hendinni í skógarreitnum sínum við Skarhólabraut en félagið hefur haft reitinn til umráða til margra ára og nýverið var endurnýjaður samningur til 25 ára við Skógræktarfélagið.

Tekið vel á móti nýjum félögum
Kvenfélagskonur úr Kvenfélagssambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu færðu sumarbúðum í Reykjadal að gjöf þvottavél í samráði við forstöðumann. Tilefni gjafarinnar er 90 ára afmæli KSGK á þessu ári en á aðalfundi sambandsins 2. mars var þetta einróma samþykkt og voru Mosfellingarnir mjög glaðir að gjöfin kæmi í bæjarfélagið.

Færa gjafir á slökkvistöðinni.

Færa gjafir á slökkvistöðinni.

Á 17. júní tóku fimm konur úr félaginu, ásamt öðrum kvenfélagskonum frá Kvenfélagasambandi Íslands, þátt í að skera niður 75 m langa hátíðartertu í miðborg Reykjavíkur í tilefni 75 ára lýðveldisafmælis Íslands.
„Gaman væri að fleiri konur tækju þátt í okkar frábæra starfi. Við tökum vel á móti nýjum félögum í haust en í stað hefðbundins fundar í byrjun október ætla félagskonur í ferð til Riga í Lettlandi í tilefni 110 ára afmælis okkar.
Fyrsti hefðbundni fundur haustsins verður því 4. nóvember í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, 3. hæð kl. 20:00.“

Nýr vefur fyrir íþróttafólk sem vill ná langt

biggivefur

Þau hjónin Linda Svanbergsdóttir og Birgir Arnaldur Konráðsson, betur þekktur sem Biggi Boot Camp, opnuðu á dögunum nýja vefsíðu þar sem áhersla er á tilbúin æfingaprógrömm fyrir íþróttafólk.
Þau hafa búið í Kaupmannahöfn í fjögur ár þar sem þau hafa kynnt og fylgt eftir Boot Camp-inu ásamt því að þjálfa, en Birgir fagnar um þessar mundir 25 ára þjálfaraafmæli.
„Það var alltaf einn og einn íþróttamaður í þjálfun hjá mér og svo fór að fjölga í þeim hópi. Það var orðin mikil eftirspurn eftir prógrömmum á netinu en við höfum verið að selja þau út um allan heim,“ segir Birgir.
Eins og staðan er núna er einna mest áhersla á handboltann þó svo að við sinnum vel öllum íþróttagreinum. Meðal þeirra sem hafa verið í þjálfun hjá Birgi eru Guðjón Valur handboltamaður og Rúnar Alex fótboltamaður.

Persónulegri þjálfun
„Við erum með tilbúin sérprógrömm fyrir undirbúniningstímabil og keppnistímabil, prógrömm með og án þyngda, fyrir unglinga og einnig úthaldsíþróttafólk, s.s. hlaupara og hjólara. Þessir stóru klúbbar eru flestir bara ótrúlega aftarlega hvað varðar styrktarþjálfun fyrir fólkið sitt, yfirleitt eitt prógram á alla, óháð stöðum og áherslum,“ segir Birgir.
Einnig bjóða þau upp á fjarþjálfun fyrir íþróttafólk sem byggist meira á daglegum samskiptum þar sem allt er sérsniðið að þörfum og dagsformi hvers og eins.
„Við stefnum svo á að gera aðra síðu á íslensku þar sem fókusinn er meiri á almenning.“

Undirbúningur fyrir Tindahlaupið
Birgir hefur yfirumsjón með Tindahlaupi Mosfellsbæjar fram fer laugardaginn 31. ágúst á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
„Þar er allt á sínum stað, við erum alltaf að gera hlaupið betra og betra. Við vorum að fá vottun á hlaupaleiðirnar frá alþjóðasamtökum um utanvegahlaup.
Þá eru leiðunum gefnir punktar eftir erfiðleikastigi. Sjö tindarnir fengu tveggja punkta viðurkenningu og 5 og 1 tindur fengu einn punkt,“ segir Birgir.
„Þessir punktar nýtast t.d. hlaupurum sem stefna á erfið utanvegahlaup erlendis, t.d. 100 km í Ölpunum. Þá þarf að vera búið að safna ákveðið mörgum punktum til að mega hlaupa.
Þessi vottun er virkilega mikill gæðastimpill á Tindahlaupið, en fá hlaup á Íslandi teljast til tveggja punkta hlaupa.“

Hægt er að kynna sér nýja vefsíðu á slóðinni www.coachbirgir.com

Carpet í endurnýjun lífdaga

carpet á tónleikunum á akureyri 1998

Hljómsveitin Carpet á tónleikunum á Akureyri árið 1998.

Snemma á tíunda áratug síðustu aldar stofnuðu fjórir ungir piltar hljómsveit í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Það er svo sem ekki í frásögur færandi.
Þetta voru þeir Hallgrímur Jón Hallgrímsson (trommur), Eyþór Skúli Jóhannesson (gítar), Arnar Ingi Hreiðarsson (bassi) og Jón Þór Birgisson (gítar, söngur).
Jón Þór yfirgaf hljómsveitina 1994 til að stofna aðra hljómsveit. Kristófer Jensson tók við míkrafóninum og síðar var kallaður til sögunnar Egill Hübner á gítar. Fékk hljómsveitin að lokum nafnið Carpet.

Upptökur að mestu glataðar
Hljómsveitin spilaði rokktónlist af miklum móð og var um tíma hálfgerð húshljómsveit í Rósenbergkjallara Sigurjóns Skæringssonar.
Ásamt reglulegu tónleikahaldi um víðan völl var hljómsveitin dugleg við lagasmíðar og tók upp nokkur lög fyrir fyrirhugaða plötuútgáfu, í hljóðverinu Núlist í Borgartúni undir handleiðslu fyrrum söngvarans Jóns Þórs og Kjartans Sveinssonar. Svo fór þó að pródúsentarnir urðu of uppteknir af tónleikahaldi um víða veröld að upptökur döguðu uppi og eru nú að mestu glataðar.

Tónleikar sem fæddu af sér Airwves
Árið 1998 urðu kaflaskil hjá hljómsveitinni þegar henni bauðst að koma fram á tímamótatónleikum í íslenskri tónlistarsögu. Þetta voru tónleikar sem Guðmundur Sesar heitinn Magnússon hélt á Akureyri og hafði honum tekist að fá til landsins útsendara erlendra útgáfurisa svo nokkuð sé til tekið.
Tónleikahaldið og allt sem því tengdist var mikil upplifun fyrir unga og óharðnaða tónlistarmenn. Þarna mynduðust tengsl sem á endanum fæddu af sér Iceland Airwaves hátíðina.

Hljómsveitin lognaðist út af
Ekki hlaut Carpet heimsfrægð að launum og lognaðist svo út af ekki mjög löngu síðar. Þrátt fyrir dauða Carpet hafa meðlimir sveitarinnar þó ekki sagt skilið við íslenska tónlistarsögu. Kristófer Jensson varð söngvari Lights On the Highway, Hallgrímur trommaði með Tenderfoot og núna Sólstöfum, Arnar spilaði á bassa í um 10 ár með Hljómsveitinni Ég. Egill hefur að mestu leyti leikið með ballhljómsveitum en gaf nýverið út sitt fyrsta sólóefni undir nafninu Sporfari. Eyþór er eini meðlimur Carpet sem lítið hefur fengist við tónlist undanfarin ár.

Boðin þátttaka 20 árum síðar
Það var því óvænt ánægja þegar hljómsveitinni var boðið að taka þátt á Airwaves 2018 í tilefni þess að 20 ár voru liðin síðan tónleikarnir frægu á Akureyri fóru fram.
Æfingar og tónleikar gengu vonum framar og var ákveðið að loka þessari löngu sögu með því að taka upp lag frá árdögum hljómsveitarinnar.
Lagið heitir Ocean og er eftir Eyþór Skúla Jóhannesson. Það varð fyrst til í bílskúr í Mosfellsbænum, sennilega ´92 eða ´93. Það hefur fylgt hljómsveitinni í gegnum tíðina.

 

Verslunin Coral.is opnar í Kjarna

coral

Verslunin Coral.is opnaði nýverið í Kjarnanum þar sem Dýralæknirinn var áður til húsa. Verslunin hefur verið starfrækt síðan 2012 en aðallega sem netverslun.
„Ég hef verið eigandi Coral.is síðastliðið ár og hef eingöngu rekið búðina á netinu. Það hefur gengið rosalega vel en til að geta veitt viðskiptavinum betri þjónustu og í framtíðinni aukið vöruvalið þá ákvað ég að stíga þetta skref og opna verslun,“ segir Berglind Rich­ardsdóttir sem er mjög ánægð með viðtökurnar.

Mikið úrval af vönduðum vörum
Coral.is býður upp á mikið úrval af kvenfatnaði, snyrtivörum og skartgripum. „Ég er fyrst og fremst með netverslun og allar vörur er hægt að skoða og panta á netinu. En ég fann að það er ákveðinn hópur sem vill koma og máta og skoða vörurnar. Það er rúmur skilatími á öllum okkar vörum þannig að fólk þarf ekki að vera hrætt við að panta á netinu en það er ekkert mál að skila eða skipta vörum. Hér er góð aðstaða, húsnæðið rúmgott, góðir mátunarklefar og nóg af bílastæðum.“

Fastur opnunartími og eftir samkomulagi
„Við erum með fastan opnunartíma á miðvikudögum og fimmtudögum á milli klukkan 16 og 18. Svo samkvæmt samkomulagi en það er hægt að panta tíma til að koma og skoða, máta eða sækja pantanir þegar það hentar viðskiptavininum. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð eftir opnunina og finn að Mosfellingar eru ánægðir með þessa viðbót í bæjarfélaginu,“ segir Berglind að lokum og býður alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.

Bílarnir hafa breyst til hins betra

bennimosfellingur

Bernhard Linn eða Benni eins og hann er ávallt kallaður er með bíladellu á háu stigi og hefur ekið bílum svo lengi sem hann man eftir sér. Hann ætlaði sér alltaf að verða bifvélavirki en fann fljótt út að það heillaði hann meira að sitja undir stýri og starfa sem atvinnubílstjóri.
Benni hefur átt hátt í 50 fólks- og vörubíla um ævina, nokkur mótorhjól og fjórhjól en fyrsta bílinn eignaðist hann 16 ára gamall, Renault „hagamús“ árgerð 1954.

Bernhard er fæddur í Reykjavík 1. októ­ber 1942. Foreldrar hans voru þau Arndís G. Jakobsdóttir starfsmaður á Álafossi og símamær og Irving Linn hermaður í bandaríska hernum. Faðir Benna var sendur frá Íslandi áður en Benni fæddist og hann hefur aldrei hitt föður sinn.
Benni á þrjá bræður samfeðra, Kenneth, Edward og Eric og hefur hann hitt tvo af þeim en Edward lést árið 1996.

Svínahirðir og sjoppustjóri
Benni hefur búið hér alla sína ævi og er því rótgróinn Mosfellingur. Fyrstu fjögur ár ævi sinnar bjó hann í Tjaldanesi í Mosfellsdal með móður sinni og afa sínum og ömmu en flutti síðan í bragga sem stóð efst í Ullarnesbrekkunni.
„Ég byrjaði að vinna 12 ára gamall á Álafossi, var svínahirðir, vann á traktor og svo var ég sjoppustjóri í tvö ár,“ segir Benni þegar við rifjum upp æskuárin hans.
„Ég gekk í Brúarlandsskóla og þar voru frábærir kennarar. Það var alltaf gaman í skólanum og mér gekk vel að læra.“

Dvergarnir sjö
Benni hefur alltaf verið góður í sundi enda alinn upp í innisundlauginni á Álafossi. Þar tók hann líka afreksstig en Klara Klængsdóttir kenndi honum sundtökin. Krakkarnir úr sumarbústöðunum í Reykjahverfinu komu oft í sund og þá var kátt á hjalla.
„Ég æfði knattspyrnu og frjálsar yfir sumartímann á Tungubökkum og á unglingsárunum æfði ég handbolta. Þá var skotið í mark í kjallara í Brúarlandi en Afturelding æfði líka í Hálogalandi í Reykjavík.
Ég spilaði í tvö ár á Íslandsmóti í handknattleik með Aftureldingu með liði sem gekk undir nafninu Dvergarnir sjö.Það nafn kom til því allir voru svo hávaxnir nema ég. Það gekk vel hjá okkur og einn veturinn fékk ég að taka öll vítaköstin. Ég skoraði úr þeim öllum nema einu sem ég fékk að taka aftur af því að dómarinn var ekki búinn að flauta og ég skoraði.“

Forljótur og erfiður í akstri
„Ég er með bíladellu á háu stigi og eignaðist mitt fyrsta mótorhjól 15 ára gamall og fyrsta bílinn 16 ára, Renault „hagamús“, segir Benni og brosir. „Ég fór í iðnskóla á Reykjalundi að læra bifvélavirkjun en áttaði mig fljótt á því að mér fannst meira spennandi að keyra bílana heldur en að gera við þá og fór þá að starfa sem atvinnubílstjóri.
Fyrsti vörubíllinn sem ég starfaði á var forljótur og erfiður í akstri, grjóthastur og þungur í stýri. Á þessum tíma voru flestir vegir malarvegir, oftast holóttir og allt leiddi þetta upp í skrokkinn á manni.
Bílarnir hafa breyst til hins betra og þróunin er gífurleg, ekki síst fyrir bílstjórann. Flestir vörubílar eru nú með loftfjöðrun á hverju hjóli, stýrishúsið á loftpúðum og sætið á loftfjöðrum og langflestir eru sjálfskiptir. Það er ekkert mál að keyra stóra bíla í dag, bara gaman.“

Kynntust í Dalnum
Benni kynntist eiginkonu sinni, Dagbjörtu Pálmeyju Pálmadóttur, eða Döggu eins og hún er ávallt kölluð, í partýi í Dalsgarði. Þau giftu sig 1970 og byrjuðu búskap sinn í Hlíðartúni en byggðu sér svo hús við Merkjateig. Í dag hafa þau komið sér vel fyrir á Eirhömrum.
Benni og Dagga eiga fimm börn, Arndísi Guðríði f. 1970, Pálma f. 1972, Steinunni f. 1977, Ágúst f. 1979 og Hauk f. 1982. Barnabörnin eru tíu talsins.
„Við Dagga höfum verið dugleg að ferðast í gegnum tíðina, höfum átt húsbíla í yfir tuttugu ár, fyrsti hét Kátur svo kom Skútinn og svo Langintes.
Við höfum farið víða með börnunum okkar og barnabörnum og eins með húsbílafélaginu.“

Unnið alla daga vikunnar
„Maður hefur komið víða við í akstrinum í gegnum tíðina. Ég keyrði sendibíl fyrir Kaupfélag Kjalarnesþings og vörubíl hjá Haraldi Guðjónssyni og mági hans hjá Sandi og möl. Ég vann í námu fyrir Vinnuvélar, keyrði hjá Steypustöðinni, Vörubílastöðinni Þrótti og hjá bækistöð Reykjavíkurborgar í 17 ár.
Vinnudagarnir voru oft ansi langir, allt frá hálfátta á morgnana til ellefu á kvöldin alla daga vikunnar, laugardaga og marga sunnudaga.
Maður setti nú ekki fyrir sig að skreppa á ball á laugardagskvöldum þótt maður þyrfti að mæta til vinnu daginn eftir,“ segir Benni og glottir.

Lærði mikið um mannleg samskipti
Árið 1970 stofnaði Benni jarðverktakafyrirtækið Hengil ásamt félögum sínum Jóni Sverri í Varmadal og Níelsi Unnari á Helgafelli. Á þessum tíma var mikil uppbygging í Mosfellsbæ og þeir félagar tóku að sér gatnagerð og húsgrunna og það var unnið myrkranna á milli.
Benni var einn af stofnendum Litlu bílastöðvarinnar, leigubílastöðvar sem starfrækt var í Mosfellsbæ í nokkur ár. Hann keypti sér leigubíl og ákvað að hvíla sig á vörubílaakstri.
Í leigubílaakstrinum segist hann hafa lært mikið um mannleg samskipti og telur sig reynslunni ríkari.
Litla bílastöðin sameinaðist síðan Hreyfli og þar keyrði Benni í nokkur ár. Samhliða leigubílaakstrinum starfaði hann í sveitastjórnarmálum í átta ár, þar af tvö ár sem framkvæmdastjóri íþróttamannvirkja.

Hefur unnið til margra verðlauna
Benni hefur lengi haft áhuga á flugi og hefur flogið mikið á einkavélinni TF-SPA.
Hann starfaði með Junior Chamber og Lions í tíu ár en bridds hefur spilað mjög stóran sess í lífi hans alveg frá því hann var unglingur og hann spilar enn.
Hann byrjaði að spila með Mosfellingum í Hlégarði en síðan á hinum ýmsu stöðum eftir það. Hann fór í þrjár keppnisferðir erlendis og hefur unnið til margra verðlauna.
Ég spyr Benna að lokum hvað sé skemmtilegast við að spila bridds? „Þetta reynir mikið á mann sem er gaman því þetta er hugaríþrótt og ekki skemmir svo félagsskapurinn fyrir,“ segir Benni er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 4. júlí 2019
ruth@mosfellingur.is

Ný heilsugæsla í Sunnukrika

framkvæmdir við nýja heilsugæslu í krikahverfi hefjast á næstu dögum

Framkvæmdir við nýja heilsugæslu í Krikahverfi hefjast á næstu dögum.

Heilsugæsla Mosfellsumdæmis og Sunnubær ehf. hafa skrifað undir samning um nýja heilsugæslustöð í Mosfellsbæ.
Hún mun rísa í Sunnukrika neðst í Krikahverfi og munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði tilbúið í lok ársins 2020. Þar verður einnig gert ráð fyrir apóteki og annarri heilsutengdri starfsemi.
„Það eru bjartari dagar í vændum með betri mönnun og betra aðgengi að þjónustu,“ segir Svanhildur Þengilsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis.

Húsnæðið í Kjarna löngu sprungið
Heilsugæslan hefur verið starfrækt í Kjarnanum í um 20 ár, frá því íbúafjöldi var um 5.000, þar til nú þegar bæjarbúar eru að verða 12.000 talsins. Það er því ljóst að húsnæðið sem nú þjónar umdæminu er löngu sprungið.
„Það er ekki hægt að líkja saman aðstöðunni núna og þeirri sem verður á nýja staðnum. Stöðin verður öll nútímalegri og allt önnur vinnuaðstaða fyrir starfsfólk og aðkoma fyrir skjólstæðinga.
Þetta verður flottasta heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum,“ segir Svanhildur.
Gert er ráð fyrir að lágmarki 10 læknum og vonast er til þess að stöðin verði eftirsóttur vinnustaður og sveitarfélaginu til sóma. „Við viljum auðvitað geta sinnt öllum íbúum sveitarfélagsins,“ segir Svanhildur en á nýju stöðinni verður gert ráð fyrir að hægt verði að sinna 12−15 þúsund manns.

Erfiðlega hefur gengið að sinna íbúum
Í tilkynningu frá Heilsugæslunni á dögunum var beðist velvirðingar á því hve erfiðlega hefur gengið að sinna íbúum. Óvænt veikindi starfsmanna og breytingar á mönnun hafa valdið læknaskorti.
„Undanfarnir mánuðir hafi verið erfiðir hjá okkur og við höfum því miður ekki getað sinnt öllu því fólki sem leitar til okkar.
Við höfum verið að glíma við heimilislæknaskort.
Orðræðan sem fór af stað m.a. á samfélagsmiðlum fannst mér bæjarbúum ekki til sóma. Ýmsum rangfærslum var haldið fram sem ekki voru svaraverðar. Þeir sem hér vinna hafa alltaf lagt sig 150% fram við að mæta öllum þörfum þeirra sem hingað hafa leitað og þykir okkur því umræðan auðvitað leiðinleg og oftar en ekki ósanngjörn
Staðan í dag er orðin betri og við höfum fengið til okkar lækna til starfa, bæði nýja og frá öðrum stöðum.“

Sjá fram á öflugri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis
Á heilsugæslu Mosfellsumdæmis eru skráðir 10.000 manns. Svanhildur segist ekki hafa orðið vör við flótta af stöðinni í Mosfellsbæ en þjónustan sé vissulega viðkvæm. „Við gerum allt sem við getum til að þjóna okkar fólki sem best og þykir miður að við höfum ekki náð að gera eins vel og við hefðum viljað.“
Jafnframt þakkar hún fyrir biðlund og traust sem íbúar hafa sýnt heilsugæslunni og sér fram á öflugri heilsugæslu.
„Við höfum ekki náð að halda uppi tveggja tíma síðdegisvakt með tveimur læknum eins og áður og auðvitað finnur fólk fyrir því og bregður jafnvel við að þurfa frá að hverfa.
Við höfum þá vísað á síðdegisvakt í Grafarvogi og morgun- og síðdegismóttöku í Árbæ. Eftir kl. 17 er síðan hægt að leita á Læknavaktina í Austurveri.
Við stefnum að því að endurvekja tveggja tíma síðdegisvakt hjá okkur enda viljum við hafa fólkið hjá okkur og ekki þurfa að vísa því í burtu.
Í dag erum við afskaplega ánægð með að það sé að birta til og við höfum eitthvað til að hlakka til.“
Eins og fyrr segir munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Ásgeir Sveinsson, segir bæjaryfirvöld leggja á það mikla áherslu að jarðvinnu verði lokið áður en skólastarf í Krikaskóla hefst í haust.

Endurbætur á Varmárskóla ganga samkvæmt áætlun

varmafrett

Nú standa yfir endurbætur á húsnæði Varmárskóla og hafa þær gengið vel að sögn Hallgríms Skúla Hallgrímssonar hjá umhverfissviði Mosfellsbæjar sem annast verkefnisstjórn endurbótanna.
Endurbæturnar eru samstarfsverkefni margra aðila en leiddar af umhverfissviði Mosfellsbæjar með ráðgjöf frá verkfræðistofunni EFLU.
Endurbæturnar byggjast annars vegar á úttekt verkfræðistofunnar Verksýnar og hins vegar ábendingum sem komu fram í heildarúttekt verkfræðistofunnar EFLU á húsnæði Varmárskóla. Þeir verktakar sem vinna á svæðum þar sem greinst hefur örveruvöxtur hafa allir umtalsverða reynslu af sambærilegum verkefnum.

Staða endurbóta í yngri deild
Í yngri deild eru fjórir verktakar að störfum og er vinna hafin í suðvesturálmunni auk kennaraálmu og bókasafninu.
Ás-Smíði hefur hafist handa við að þvo málninguna af kennaraálmunni og miðar því verki vel áfram. Það verður svo í þeirra verkahring að klára að múra þá álmu að nýju og endurnýja þökin á kennaraálmunni og suðvesturálmu að utan.
Fyrirtækið Pétur & Hákon verktakar eru langt komnir með að fjarlægja alla loftaklæðningu úr stofum á efstu hæð suðvestur­álmu auk þess að vera búnir með rúmlega helminginn af ganginum. Næstu skref eru að fá EFLU til að merkja hvaða fjalir í þakklæðningu skuli fjarlægja og verður það gert um leið og þakjárnið verður fjarlægt, þ.e.a.s. utanfrá. EFLA hefur veitt ráðgjöf varðandi uppbyggingu á þakinu sem verður sett upp í stofunum, leiðbeint um frágang á rakavarnarlagi og hvernig best verði staðið að því að tryggja góða loftun.
Þá eru Kappar verktakar byrjaðir að vinna á þeim svæðum sem EFLA merkti til sérstakrar skoðunar í kjallara yngri deildar. Fyrsti staður var bókageymslan í kjallaranum en Kappar munu vinna sig skipulega í gegnum þá staði sem EFLA merkti til frekari skoðunar og viðgerða.

Staða endurbóta í eldri deild
Ístak hefur hafist handa við endurbætur í eldri deild. Tækjakostur í mötuneyti hefur verið aftengdur og næstu skref eru að fjarlægja innréttingar, gólfefni og eftir atvikum veggi á grunni leiðbeininga frá EFLU.
Umhverfissvið Mosfellsbæjar leggur áherslu á að fylgja út í hörgul öllum leiðbeiningum EFLU og hefur samstarfið við verkfræðistofuna gengið mjög vel að mati beggja aðila.
„Framkvæmdir við Varmárskóla eru á fullum skriði og það er ánægjulegt að okkur hafi í samstilltu átaki fjölda aðila tekist að setja af stað endurbætur á Varmárskóla sem rúmast innan þess þrönga stakks sem sumarið er sem framkvæmdatími í skólabyggingu.
EFLA er nú sem fyrr okkur öflugur bakhjarl við að skipuleggja og útfæra endurbæturnar og hefur auk þess tekið að sér að vakta framgang og gæði vinnunnar miðað við þeirra gagnreyndu viðmið. Við skólasetningu í lok sumars verður öllum helstu framkvæmdum lokið, þar með talið allt rask tengt vinnu við þök.
Við útilokum ekki að minniháttar frágangur innanhúss gæti þurft að eiga sér stað á fyrstu dögum skólans en sjáum ekki fyrir okkur að það verði til að trufla skólahald og treystum á góða samvinnu við skólasamfélagið um þau úrlausnarefni sem slík staða gæti kallað á,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Íþróttaþorpið

íþróttaþorp

Ég hitti Yuri Marcialis í Cagliari á Sardiníu í síðasta mánuði. Hann var í forsvari fyrir nokkrum árum fyrir spennandi verkefni í borginni. Það kallast „Íþróttaþorpið“ og er hluti af mikilli heilsueflingu og íþróttaeflingu sem átt hefur sér stað í borginni síðustu ár. Það snýst um byggja upp svæði þar sem almenningur og atvinnumenn geta komið og æft sína íþrótt, nánasta sama hver hún er. Yuri labbaði með mér í gegnum svæðið og sagði mér frá verkefninu, hver staðan væri í dag, hvað væri búið að gera og hvað væri fram undan. Það athyglisverðasta við verkefnið „Íþróttaþorpið“ að mínu mati voru ekki mannvirkin sjálf eða aðstaðan, heldur heildarmyndin. Þorpið á nefnilega að standa undir nafni.

Á milli mannvirkjana er verið að hanna og byggja torg, kaffihús, matsölustaði og félagsaðstöðu. Aðstöðu fyrir alla þá sem koma í þorpið til þess að hreyfa sig. Aðstöðu þar sem fólk getur spjallað við aðra, fengið sér hollt og gott að borða, slakað á, prófað aðrar íþróttagreinar eða hreyfingu. Í stað þess að koma bara á sína æfingu og drífa sig heim. Ég hugsaði allan tímann á meðan við röltum um íþróttaþorpið í Cagliari hvað það væri geggjað að koma upp svona íþróttaþorpi á Varmársvæðinu okkar. Við höfum plássið, við höfum íþróttaaðstöðuna, en það sem okkur vantar upp á er að tengja þetta saman á þann hátt að fólk staldri við, ræði málin, tengist betur.

Hinn heilsueflandi Mosfellsbær gæti orðið fyrsta bæjarfélagið á Íslandi sem byggði íþrótta- og heilsuþorp. Þetta myndi hvetja enn fleiri íbúa bæjarins til þess að hreyfa sig og borða hollan og góðan mat – sem að sjálfsögðu yrði boðið upp á í þorpinu okkar. Síminn er opinn, ég er til í að segja öllum sem vilja hlusta betur frá því hvað er að gerast í Cagliari. Lítilli borg með heilsueflandi drauma.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. júlí 2019

Róbert Orri skrifar undir nýjan samning

robertorri2

Róbert Orri Þorkelsson hefur skrifað undir nýjan samning við Aftureldingu sem gildir út tímabilið 2020. Hinn 17 ára gamli Róbert Orri hefur alist upp allan sinn fótboltaferil hjá Aftureldingu og verið fastamaður á miðjunni hjá meistaraflokki undanfarin tvö keppnistímabil. Í fyrra hjálpaði hann Aftureldingu að vinna 2. deildina og í ár hefur hann leikið vel með liðinu í Inkasso-deildinni.
Róbert er úr öflugum 2002 árgangi hjá Aftureldingu sem varð Íslandsmeistari í 3. flokki í fyrra en hann átti að auki fast sæti í byrjunarliði U17 ára landsliðs Íslands sem fór í lokakeppni EM í vor.

Félög í Pepsi Max-deildinni hafa sýnt Róberti áhuga en hann ákvað að skrifa undir framlengingu á samningi sínum við Aftureldingu.
„Það er gríðarlegt fagnaðarefni að Róbert hafi framlengt samning sinn við Aftureldingu. Það er gleðiefni að ungir heimamenn hafi trú á uppbyggingunni sem er í gangi í Mosfellsbæ og vilji taka þátt í henni með okkur. Róbert er efnilegur leikmaður sem hefur verið gaman að fylgjast með í meistaraflokki undanfarin tvö ár og vonandi heldur hann áfram að bæta sig sem leikmaður hér í Mosfellsbæ,” sagði Geir Rúnar Birgisson, formaður meistaraflokksráðs.