Þjónusta jarðvarmavirkjanir og veitur á öllu landinu

Mosfellingarnir Ingvar Magnússon, Baldur Jónasson og Jóhann Jónasson.

Deilir er öflugt og ört stækkandi fyrirtæki sem staðsett er í Völuteig í Mosfellsbæ. Deilir er tækniþjónusta sem býður fjölbreyttar véla- og tæknilausnir til fyrirtækja sem stafa í orkuiðnaði og veitustarfsemi.
Það var Baldur Jónasson sem stofnaði Deili árið 2008, Ingvar Magnússon og Jóhann Jónasson komu svo seinna inn í eigandahópinn. „Fyrst um sinn þjónustaði fyrirtækið eingöngu Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta þróaðist hratt í það að við fórum fljótt að þjónusta öll orkuver á landinu.
Við höfum alltaf verið fókusaðir á græna orku, á jarðorkuverin og veiturnar. Við höfum skapað okkur sérstöðu á þessu sviði,“ segir Baldur sem starfar í dag sem verkefnis- og rekstrarstjóri Deilis.
Nýverið komu nýir eigendur að félaginu sem gefur fyrirtækinu tækifæri á að styrkja þá þekkingu og þjónustu sem Deilir stendur fyrir.

Mennirnir á bakvið tjöldin
„Það má segja að við séum mennirnir á bakvið tjöldin, okkar hlutverk er að notandi raforku og vatns verði ekki fyrir truflun. Okkar hlutverk er að þjónusta vélbúnaðinn, við reynum að hámarka þann tíma sem orkuverin eru í gangi með því að lágmarka bilanir með því að sjá til þess að vélbúnaðurinn sé í góðu ásigkomulagi.
Við mælum árangur okkar í því að rekstur þessara virkjana gangi truflunarlaust árum eða jafnvel áratugum saman. Þegar farið er í að stoppa vélbúnað til að gera við þá pössum við að þau verkefni séu vel undirbúin og taki sem skemmstan tíma og að viðgerðin endist lengur en áður,“ segir Jóhann Jónasson framkvæmdastjóri Deilis.

Starfsmannhópurinn stækkað ört
Í dag starfa yfir 60 manns hjá Deili en fyrirtækið festi kaup á nýju 2.000 fm húsnæði við Völuteig fyrir rúmu ári.
„Eftirspurnin eftir okkar þjónustu er alltaf að aukast. Starfsmannahópurinn okkar hefur stækkað um helming á einu ári.
Við erum duglegir að fylgjast með þróun í þessum málum og höfum komið okkur upp góðu tengslaneti. Við erum í góðum samskiptum við sérfræðinga á þessu sviði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Við flytjum inn vélbúnað og varahluti og fáum oft sérfræðing að utan í viðgerðir og viðhaldsverkefni,“ segir Ingvar sem sér um sölu- og tæknimál hjá Deili.

Þekking til útflutnings
„Hér höfum við byggt upp þjónustumiðstöð fyrir virkjanir og veitur á öllu landinu. Hingað koma fulltrúar þeirra til að ná í sérfræðiþekkingu. Þetta gerum við með að hafa vel þjálfað og hæft starfsfólk í sérhæfða þjónustu. Áreiðanleiki er ein af höfuðdyggðunum okkar því að viðskiptavinurinn þarf að geta treyst á okkur, fengið þá þjónustu sem hann þarf í réttum gæðum og á réttum tíma.
Hér hefur byggst upp mikil þekking og sérhæfing á rekstri og viðhaldi tæknibúnaðar, verðmæt þekking sem við erum að vinna að útflutningi á til annarra landa,“ segir Jóhann að lokum.