Eldri deild Varmárskóla verður Kvíslarskóli

Fimmtudaginn 6. maí var tilkynnt um nýtt nafn á eldri deild Varmárskóla. Efnt var til nafnasamkeppni á skólann sem 7.-10. bekkur mun tilheyra við stofnun hans 1. ágúst næstkomandi og fékk skólinn nafnið Kvíslarskóli að undangenginni nafnasamkeppni.
Varmárskólanafnið mun fylgja yngri deildinni og því varð að finna nýtt nafn á eldri deild núverandi Varmárskóla.

Nafnanefnd vann úr tillögum
Skipuð var nafnanefnd til að vinna úr tillögum að nafni og leggja til við bæjarráð þá tillögu sem varð hlutskörpust.
Í nafnanefndinni sátu Bjarki Bjarnason bæjarfulltrúi V-lista og Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi S-lista sem fulltrúar bæjarstjórnar, Birgir D. Sveinsson, fyrrverandi skólastjóri sem fulltrúi samfélagsins, Margrét Lára Höskuldsdóttir sem fulltrúi starfsmanna skólans og Ásta Kristbjörnsdóttir sem fulltrúi nemenda. Þórhildur Elvarsdóttir skólastjóri Varmárskóla var ritari nafnanefndarinnar.
Góð þátttaka var í samkeppninni og bárust alls 68 tillögur að nýju nafni. Nafnanefndin setti sér starfsreglur og fundaði tvisvar sinnum. Að lokum stóð eitt nafn eftir, Kvíslarskóli, en sjö tillögur bárust þar sem þetta nafn var lagt til og komu þær frá 7. GÁS og 10. KÁ í Varmárskóla, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Óðni Pétri Vigfússyni, Einari Jóhannessyni, Jóhönnu Magnúsdóttur og Krista Glan.

Sjö tillögur um Kvíslarskóla
Nafn skólans, Kvíslarskóli, kallast á við Varmárskólanafnið enda um systurskóla að ræða, það vísar beint til örnefnis í næsta nágrenni sem er Kaldakvísl og loks er nýja nafnið í góðu samræmi við þá nafnahefð sem mótast hefur síðustu áratugi hér í Mosfellsbæ sem er að kenna skóla við örnefni í næsta nágrenni við skólana. Þá var nefnt í umræðu um nýja nafnið á samfélagsmiðlum að með sama hætti og Kaldakvísl tekur við vatni úr Varmá þá mun Kvíslarskóli taka við nemendum úr Varmárskóla
Eins og Mosfellingar vita hefur eldri deild Varmárskóla lengi verið kölluð Gaggó Mos enda gekk skólinn lengi undir heitinu Gagnfræðaskóli Mosfellsbæjar þegar það skólastig var við lýði í landinu. Nú eru hins vegar hvorki til barnaskólar né gagnfræðaskólar og því ekki unnt að nota þau orð sem hluta af formlegu heiti skóla en mörgum þykir auðvitað vænt um eldra nafnið og gera má ráð fyrir því að það lifi í einhverri mynd áfram.