Þrautin

Við héldum KB þrautina nýverið. KB þrautin er utanvegahlaup með fjölbreyttum þrautum sem gera lífið skemmtilegra. Fólk þurfti til dæmis að klifra yfir veggi og upp kaðla, skríða undir gaddavír, labba í djúpu drullusvaði og upp langa og bratta brekku, bera þunga hluti á milli staða og prófa sig á jafnvægis­slá. 100 manns tóku þátt í þrautinni. Sumir fóru þetta sem einstaklingar, aðrir fóru í gegnum þrautina sem lið. Það gladdi mig mikið að sjá og heyra hvað þátttakendur voru ánægðir þegar þeir komu í mark. Ánægðir með að hafa klárað verkefnið, tekist á við erfiðar aðstæður og komist í gegnum þær.

Fólk hafði sérstaklega gaman af þeim þrautum sem komu þeim á óvart, drullugámurinn hans Leibba og A-veggurinn voru oft nefnd í því sambandi. Annað sem gladdi mig mjög var að sjá svipinn á fólki sem var, fyrir þrautina, efins um að það gæti þetta. Það er ólýsanlegur svipur, einhvers konar mögnuð blanda af stolti og gleði.

Mér fannst frábært að sjá öfluga einstaklinga fara í gegnum þrautina af miklum krafti, gefa allt sitt í hana. En það sem mér fannst allra vænst um, var að fylgjast með hópunum sem tækluðu verkefnin sem eitt teymi og fylgdust þannig að í gegnum alla þrautina. Þetta voru ólíkir hópar, vinahópur, stórfjölskylda, vinnufélagahópur og æfingafélagahópur komu meðal annars við sögu í þrautinni og stóðu sig virkilega vel sem sterkar liðsheildir. Sterkari saman, kom vel í ljós í KB þrautinni. Ég er búinn að vera stúdera síðastliðna mánuði hvað einkennir öflug teymi og hvað þarf að hafa í huga við uppbyggingu á sterkum teymum, margt af því sem ég hef verið að læra kom fram hjá þátttakendum í þrautinni.

Það er svo ánægjulegt að geta styrkt aðeins hið góða starf í sumarbúðum Reykjadals eftir hlaupið, en allar tekjur af hlaupinu runnu til þeirra. Njótum sumarsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. júní 2021