Svanþór nýr eigandi fasteignasölunnar

Fasteignasala Mosfellsbæjar er á efstu hæð í Kjarna.

Eigendaskipti hafa orðið á Fasteignasölu Mosfellsbæjar en nýr eigandi er Svanþór Einarsson. Tekur hann við fyrirtækinu af Einari Páli Kjærnested og Hildi Ólafsdóttur sem rekið hafa fasteignasöluna í 20 ár.
Svanþór er Mosfellingur í húð og hár og er Mosfellingum að góðu kunnur. Hann er löggiltur fasteignasali og hefur sjálfur unnið á fasteignasölu Mosfellsbæjar í tæp 13 ár og að undanförnu séð alfarið um daglegan rekstur.
„Ég tek við góðu búi af vinum mínum Einari Páli og Hildi sem hafa rekið fasteignasöluna með miklum myndarbrag síðustu tvo áratugi.
Það verður lítið um breytingar hjá okkur enda á góðum stað og með úrvals starfsfólk.“

Best að búa í Mosó
„Fasteignamarkaðurinn í Mosfellsbæ hefur verið ansi líflegur enda mikið byggt síðustu ár. Það eru miklu fleiri að reyna að komast í Mosó en úr. Hér er eftirsóknarvert að búa enda hef ég alltaf sagt að það er best að búa í Mosó.
Íbúum hefur fjölgað gríðarlega mikið síðustu ár og jafnvel færri komist að en vilja. Við munum halda áfram að leggja metnað okkar í að þjónusta Mosfellinga enda hefur það verið okkar sérsvið.“
Fasteignasala Mosfellsbæjar er rótgróið fyrirtæki, staðsett á efstu hæð í Kjarna, Þverholti 2.
Svanþór er í sambúð með Önnu Ragnheiði Jónsdóttur grunnskólakennara og búa þau í Helgafellshverfi. Sonur Svanþórs er knattspyrnumaðurinn Jason Daði.