Hjóla- og golfmót til styrktar góðum málefnum í Mosfellsbæ

Lagt á ráðin við golfskálann í Mosfellsbæ. Hrefna Rós (Reykjakot), Magnús (hjólari), Palli Lindal (skipuleggjari), Helga Lind (Hlaðgerðakot), Karl (Blik), Ágúst (GM) og Valdimar Þór (Hlaðgerðakot).

Páll Líndal stendur fyrir Palla Open golfmóti til styrktar Reykjadal og Hlaðgerðarkoti laugardaginn 22. maí.
„Já, það verður golfmót en við ætlum líka að hjóla og verða tvær vegalengdir í boði. 45 km og svo 10 km fjölskylduhringur í Mosfellsbæ. Meiningin er að safna fyrir tveimur verðugum málefnum hér í bæ og skipta öllu sem safnast á milli þeirra.“
Golfmótið hefst kl. 7 um morguninn og stendur fram á kvöld en verið er að vinna með endanlega útfærslu á hjólaþættinum en við notum líklega Strava og hóparnir hjóla frá leikskólanum Huldubergi milli kl. 9 og 12.

Byrjaði með færslu á Facebook
Þú varst að pæla í Pallaballi líka, er það ekki? „Jú, ef allt væri eðlilegt yrði ball í golfskálanum um kvöldið en við sjáum til hvernig Covid-staðan verður.“
En hver er þessi Palli? „Ég er bara miðaldra karlmaður í Klapparhlíðinni,“ segir Palli og hlær.
„Þetta byrjaði nú bara bara með einum Facebook-status í vetur sem fékk mjög jákvæð viðbrögð. Eins konar áskorun um að gera eitthvað hressilegt þegar Covid væri búið og hafa eitthvað til að hlakka til. Svo hefur eitt leitt af öðru og nú er þetta að verða að veruleika.

Allir boðnir og búnir að hjálpa til
„Það hafa allir sem ég hef leitað til tekið mér fagnandi. Golfklúbburinn leggur allt sitt af mörkum og við höfum safnað fullt af vinningum og styrkjum.“ Þá hafa Palli og hundurinn Brúnó safnað um 2.000 golfboltum í kringum völlinn í vetur sem seldir verða á keppnisdegi.
„Þetta er partur af því að búa í Mosó og láta sig samfélagið varða, en yfirskrift dagsins er Sælla er að gefa en þiggja.“
Og þú átt afmæli þennan dag? „Já, reyndar, en dagurinn snýst alls ekki um það“.
Hve miklu ætlar þú að safna? „Það er góð spurning, vonandi þremur milljónum ef vel gengur, en það verður hægt að styrkja án þess að taka þátt.“

Nánari upplýsingar um dagskrá laugardagsins verður að finna hér.


Reykjadalur er sumar- og helgardvalarstaður í Mosfellsdal fyrir börn og ungmenni með fötlun eða sérþarfir. Í Reykjadal er börnum og ungmennum gefið tækifæri til að skapa ógleymanlegar minningar. Gleði, jákvæðni og ævintýri lýsa starfseminni vel. Árlega koma um 250 einstaklingar í Reykjadal, 8-21 árs. Lögð er áhersla á að hver og einn einstaklingur njóti sín á sínum forsendum.

Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal er elsta starfandi meðferðarstofnun landsins og rekið af Samhjálp. Þar er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða. Í Hlaðgerðarkoti starfar þverfaglegt teymi, læknis, hjúkrunarfræðings, félagsráðgjafa og áfengis- og fíkniráðgjafa ásamt því sem umsjónarmenn eru við störf allan sólahringinn. Lögð er áhersla á heimilis­legt og hlýlegt viðmót og er virðing fyrir einstaklingnum höfð að leiðarljósi.