Hestar og menn

Margrét Dögg Halldórsdóttir

Hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ var stofnað árið 1950. Í bænum okkar er því löng og rík hefð fyrir hestamennsku og umferð ríðandi fólks, þótt vissulega hafi margt tekið breytingum á þessum 70 árum, bæði byggðin og líka hestamennskan sjálf, en hún er nú orðin fjórða stærsta íþróttagreinin innan ÍSÍ.
Hestamennska er margs konar, líkt og aðrar íþróttir, sumir æfa fyrir keppni, aðrir til langferða, enn aðrir stunda hana til þess að njóta útivistar og samveru með hestinum. En það er pláss fyrir alla innan hestamennskunnar, fólk af öllum aldri og stigum samfélagsins sameinast í ást á hestum og hestamennsku. Nærveran við dýrin gefur fólki sérstaka sálarró, hestar eru sannir vinir.
Undanfarið hefur borið á mikilli og háværri umræðu um árekstra á milli hestamanna og annarra vegfarenda sem eru að stunda útivist. Reiðleiðir og aðrir stígar skarast eða liggja hver nærri öðrum, fólk fer inn á stíga sem eru sérmerktir annarri umferð og svo framvegis. Jafnvel hefur fólk slasast þegar hestar hafa brugðist við áreitinu á þann hátt að leggja á flótta, verandi flóttadýr.
En það er alls ekki þannig að við knapar séum farþegar sem eru stanslaust í hættu, alls ekki. Fram fer samspil manns og hests, hesturinn treystir á knapann og að hann leiði og leysi þau verkefni sem báðir standa frammi fyrir. Almennt og yfirleitt gengur þetta allt að óskum og allir njóta sín, hestamenn og aðrir. Eðli hestsins getur þó orðið allri samvinnu yfirsterkara ef flóttaviðbragðið tekur yfir. Stundum nær knapi að vinna traust strax aftur og hesturinn vinnur sig út úr óttanum. Stundum tekst það ekki og þá getur hlotist slys af, jafnvel alvarlegt. Hesturinn er annar hugur og annað hjarta, rökhugsun er ekki til staðar. Þetta er mikilvægt að þekkja sé maður í samskiptum við hesta, eða vegfarandi þar sem hestar og hestamenn eru á ferð.
Íþróttamannvirki okkar hestamanna eru að stærstum hluta reiðvegirnir. Við sjáum að hluta um að leggja þá, sinna viðhaldi og margir þeirra eru alveg sérstaklega byggðir upp fyrir ríðandi umferð. Önnur umferð getur hreinlega valdið skemmdum á þeim. Sérmerktir reiðstígar eru merktir með boðmerki. Boðmerkið sem er hvítur hestur á bláum grunni þýðir að stígurinn er eingöngu ætlaður hestamönnum. Önnur umferð er bönnuð. Svo eru til sameiginlegir stígar þar sem hestamenn geta átt von á annarri umferð og þurfa að sýna sérstaka aðgát eins og aðrir sem þá stíga nota. Kurteisi, skilningur og tillitssemi er lykillinn að því að okkur öllum gangi vel að nýta þessi svæði saman.
Sáttmáli milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi var undirritaður um síðustu helgi. Útivistarhópar hafa nú tekið höndum saman um að fræða almenning um það hvernig allir þessir hópar geti deilt saman heilbrigðri og öruggri útiveru. Hægt er að sjá sáttmálann og nánar um hverjir standa að honum á vef Samgöngustofu www.samgongustofa.is/hestarogumferd. Á sama tíma var gefið út fræðslumyndband sem einnig er að finna á vefnum og á heimasíðu hestamannafélagsins Harðar www.hordur.is.
Það er von mín að með víðtæku samtali, fræðslu og gagnkvæmri virðingu takist okkur að njóta útiveru í sátt og samlyndi hvert við annað.

Margrét Dögg Halldórsdóttir
Formaður hestamannafélagsins Harðar

Við erum öll áhrifavaldar!

Ólöf Kristín Sívertsen

Flestallt sem við segjum og gerum hefur áhrif á okkur sjálf og einnig þá sem eru í kringum okkur. Því er mikilvægt að við vöndum framkomu okkar, verum meðvituð í samskiptum og gleymum því aldrei að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Reynum að forðast það eftir fremsta megni að dæma fólk því við vitum nefnilega sjaldnast alla söguna.

Félagsleg tengsl
Margar rannsóknir hafa verið gerðar í því skyni að finna út hvers vegna sumir lifa lengur og betur en aðrir. Má þar m.a. nefna hin svokölluðu „Bláu svæði“ (e. Blue Zones) í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa íbúa virðast haldast í hendur. Sýnt hefur verið fram á að þar spili félagsleg tengsl hreinlega stærsta hlutverkið. Þetta hafa íslenskar rannsóknir einnig sýnt okkur, þ.e. að góð félagsleg tengsl, gæði sambands við fjölskyldu og vini og samvera foreldra og barna segi best til um hamingju.

Samskiptahæfni
Góð samskipti eru lykill að jákvæðum tengslum sem gera lífið innihaldsríkara og gleðilegra. Samskiptafærni okkar er því mjög mikilvæg þegar kemur að uppeldi, ástarsamböndum, samstarfi ýmiss konar og hreinlega öllu því sem snýr að mannlegum tengslum. Við verðum að geta sett okkur í spor annarra, hugsað á lausnamiðaðan hátt, rökrætt á málefnalegum grunni, leyst ágreining á farsælan hátt og miðlað málum. Forðumst hegðun, viðmót og orð sem við myndum ekki vilja verða fyrir sjálf.

Samskiptaboðorðin
Samskipti geta verið alls konar, þau geta t.d. verið gefandi, nærandi, eflandi, slítandi, óútreiknanleg, niðurbrjótandi, meiðandi, ástrík og þakklát. Hvernig sem þau eru þá hafa þau mikil áhrif á líf okkar, hvernig okkur líður og jafnvel hvernig okkur farnast í lífinu. Samskiptaboðorðin eru runnin undan rifjum Aðalbjargar Stefaníu, á Heilsustofnun NLFÍ, og er þeim ætlað að efla þekkingu almennings á nærandi og eflandi samskiptum. Boðorðin eru þessi:
1) Horfa – náðu blíðu augnsambandi til að skapa traust og áhuga.
2) Heilsa – heilsaðu og brostu með augunum. Slíkt sýnir umhyggju, eflir sjálfstraust og öryggiskennd.
3) Hlusta – notaðu virka hlustun og lestu ekki eingöngu í orðin heldur líka hegðun og líkamstjáningu. Sýndu einlægan áhuga og virðingu.
4) Hljóma – notaðu hlýlegan tón og blæbrigði, slíkt eykur sjálfsvirðingu og vellíðan.
5) Hrósa – hrósaðu einlæglega til að styrkja jákvæða hegðun.
6) Hjálpa – vertu til staðar þegar fólk þarfnast þín, slíkt sýnir umhyggju og byggir upp gagnkvæmt traust, vellíðan og öryggi.
Komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Verum jákvæðir áhrifavaldar í eigin lífi og annarra og látum gott af okkur leiða, ávinningurinn er okkar allra!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

 

Íþróttahús við Helgafellsskóla

Margrét Gróa Björnsdóttir

Ég starfa sem stuðningsfulltrúi við Helgafellsskóla. Meðal þeirra verkefna sem ég sinni er að fara ein með um 40 nemendur í rútu tvisvar sinnum í viku niður að Varmá í íþróttatíma.
Ferðin tekur okkur 80-85 mínútur frá því við förum frá Helgafellsskóla og þar til við komum til baka. Íþróttatíminn er 40 mínútur og það fara aðrar 40 mínútur í ferðir. Það hlýtur að vera eitthvað skakkt í þessu! Auk tímans sem þessi ferðalög taka þá er þetta mjög stressandi og kvíðavaldandi fyrir nemendur.
Á teikningum Helgafellsskóla er gert ráð fyrir íþróttahúsi en mér skilst að ekki sé enn búið að taka endanlega ákvörðun um hvenær það verði byggt. Við stuðningsfulltrúar sem störfum við Helgafellsskóla skorum á stjórn bæjarins að setja íþróttahús við Helgafellsskóla í algeran forgang.
Helgafellsskóli er ört stækkandi skóli í vaxandi íbúahverfi og er gert ráð fyrir um 450 nemendum í skólanum á næsta skólaári og því finnst okkur brýnt að drifið verði í því að setja íþróttahúsið á fjárhagsáætlun hið fyrsta.

Fyrir hönd stuðningsfulltrúa í Helgafellsskóla
Margrét Gróa Björnsdóttir

Hvernig er heilsugæslan mín og hver passar upp á heilsu mína?

Una María Óskarsdóttir

Nú þegar vonandi fer að líða að því að við Íslendingar getum farið að lifa eðlilegra lífi, hugsa ég til margs sem kófið hefur haft í för með sér.
Að mörgu leyti höfum við Íslendingar haft það gott og betra en aðrar þjóðir. Margt mætti þó gagnrýna eins og hæga viðspyrnu við efnahagsvanda þjóðarinnar, lélegt aðstreymi bóluefnis og lítil sem engin viðbrögð við versandi líðan og heilsu fólks. Hér hafa skólar verið opnir, enda þekkjast síður dæmi um mikil alvarleg veikindi barna vegna veirunnar. Sömu sögu er ekki að segja t.d. frá Bandaríkjunum þar sem barnafjölskyldur hafa tekið sig upp og flutt á milli fylkja í þeim eina tilgangi að börnin þeirra kæmust í skóla og fengju menntun eftir árs lokun.
Þrátt fyrir minni takmarkanir hér á landi en víða í mörgum öðrum löndum, þá er hér vaxandi atvinnuleysi og fólk býr við einsemd og vanlíðan sem sumt má skrifa á afleiðingar kóvids. Bæði eldra fólk og yngra hefur einangrað sig og forðast samneyti við aðra. Það leiðir hugann að því hvort þetta fólk leiti síður til læknis en þeir sem svo er ekki ástatt um?
Hvernig er aðgengi að læknum og þjónustu hjá heilsugæslunni í heimabyggð? Heilsugæslan í Mosfellsbæ heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er nú komin í nýtt húsnæði. Því miður hafa þær sögur gengið að löng bið hafi verið eftir tíma hjá lækni. Það leiddi án efa til þess að einhverjir skráðu sig á aðrar heilsugæslustöðvar sem ekki eru í heimabyggð. Má þar nefna Höfða í Reykjavík eða í Urðarhvarfi í Kópavogi. Kenni fólk sér meins er bið óboðleg og skaðleg. Vonandi verða breytingar til batnaðar og ber að fagna nýrri heilsugæslustöð við Sunnukrika í Mosfellsbæ.
Mér virðist blasa við að endurskipuleggja þurfi heilbrigðisþjónustuna að einhverju leyti þar sem búast má við að þegar kófinu slotar muni fleiri þurfa þjónustu og einnig sérhæfðari þjónustu. Heilsugæslan er skilgreind sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þar vill fólk geta fengið þjónustu síns læknis eða sinna lækna og myndi án efa auka líkurnar á því að rétt greining fengist sem fyrst.
Það er einnig umhugsunarvert hvort inn í kerfið eigi ekki að vera innbyggt ríkara eftirlit/eftirfylgni með sjúklingum en nú virðist raunin. Ef einstaklingur fer t.d. í uppskurð þar sem mein er fjarlægt, væri þá ekki eðlilegt að honum yrði fylgt eftir næstu árin ef einhverjar líkur væru á upptöku meinsins? Auðvitað eigum við sjálf að fylgjast með heilsu okkar eins vel og við getum. Leita aðstoðar fyrr en seinna enda skilar það betri andlegri og líkamlegri heilsu. Það er eðlileg krafa að aðgengi að þjónustu heilbrigðisstarfsfólks sé gott, vel sé hlustað á sjúkrasöguna og að bið eftir sérfræðilækningum verði ekki til skaða.

Una María Óskarsdóttir
uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur
varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi

Unglingarnir okkar – harðnaðir glæpamenn eða hæfileikaríkir og kurteisir einstaklingar?

Guðrún Helgadóttir

Við í félagsmiðstöðinni Bóli vinnum með unglingunum okkar alla virka daga. Það er fjölmennur hópur sem leggur leið sína til okkar dag hvern, annaðhvort í skipulagt starf eða „bara“ til þess að spjalla. Þess á milli lesum við, á hinum ýmsu samfélagsmiðlum, athugasemdir um krakkana okkar.
Við, starfsfólkið, lokum ekki augunum fyrir þeirri hópamyndun sem hefur átt sér stað að undanförnu, en við vitum líka að það er verið að vinna, í samvinnu við foreldra, með þessa örfáu einstaklinga sem rötuðu aðeins út af sporinu.
Það er upplifun starfsmanna Bólsins að stærsti hluti unglinganna okkar er á hárréttri braut og við gerum allt sem við getum til að aðstoða þessa örfáu við að komast aftur á rétta sporið. Hafa skal þó í huga, að Bólstarfsmönnum þykir einstaklega vænt um þessa örfáu, sem og aðra unglinga Bólsins, og innan okkar veggja eru þeir skemmtilegir, tillitsamir og kurteisir.
Við fengum nokkra einstaklinga til að skrifa niður af hverju þeir koma til okkar í Bólið. Rauði þráðurinn í þeirra punktum var að þeim finnst gott að koma og spjalla við starfsfólkið.
Á unglingsárunum eru krakkarnir að taka út þroska og átta sig á hvaða persóna þeir eru og/eða vilja vera. Mikilvægt er að mæta þeim á jafningjagrundvelli og virða þeirra skoðanir. Við verðum að forðast að setjast í dómarasætið, heldur reyna frekar að ná fram umræðum þar sem allar hliðar eru skoðaðar.
Í Bólinu eru samræðurnar oft mjög líflegar, en hvernig eiga þessir krakkar að geta speglað sig í fullorðnum einstaklingum, ef þeir fá ekki tækifæri til að tjá sig og finna að á þá sé hlustað?
Eins og með okkur öll, þá þurfum við mismikla aðstoð við að finna okkar hillu í lífinu, en við getum verið sammála um það að það er gott að fá stuðning. Öll upplifum við það að mistakast eða taka, á einhverjum tímapunkti, ranga ákvörðun. Það á jafnt við um börn, unglinga og fullorðna einstaklinga.
Það sem unglingarnir eiga sameiginlegt hjá okkur er að vera kurteisir og vel upp aldir. Þeir bera oftast virðingu fyrir skoðunum annarra og vilja þá líka fá þá virðingu til baka.
Við fullorðna fólkið getum lært mikið af þessum aldurshópi því í þeirra augum er ekkert ómögulegt og þeir eru ávallt tilbúnir að læra eitthvað nýtt eða horfa á málin frá fleiri sjónarhornum. Þeir eru hæfileikaríkir og jákvæðir, en þurfa að fá tækifæri. Tækifæri til að gera vel, en líka tækifæri til að misstíga sig og fá aðstoð við að standa aftur á fætur.
Við viljum með þessum skrifum skora á bæjarbúa að mæta unglingunum okkar með opnum huga og jákvæðni. Þeir eiga það svo sannalega skilið. Hjálpumst að við að styrkja þá og styðja þannig að leiðin inn í fullorðinsárin verði auðveld og ánægjuleg.

Fyrir hönd starfsmanna Bólsins og unglinganna okkar,
Guðrún Helgadóttir, forstöðumaður Bólsins.

Hey þú, hættu að skemma og eyðileggja!

Ásgeir Sveinsson

Skemmdarverk og eyðilegging er alltaf leiðinleg og það fara mjög miklir peningar á hverju ári í viðgerðir eftir þessi ömurlegu skemmdarverk.
Nýjasta afleiðingin af skemmdaverkum í Mosó, okkar frábærar bæjarfélagi, er nú sú að búið er að loka Kósí Kjarna sem var mjög flottur og naut mikilla vinsælda.
Húsgögn og annað sem var búið að setja þarna upp hefur ítrekað verið eyðilagt og því þurfti að fjarlægja þetta flotta umhverfi, sem var ein af frábærum hugmyndum úr Okkar Mosó.
Því miður hefur margt annað verið skemmt í Mosó. Síðasta sumar var t.d skorið á nýja ærslabelginn okkar í Ævintýragarðinum sem var mjög dýrt að að gera við, glerstrætóskýlið í Háholti hefur verið brotið og bramlað ítrekað og mörg fleiri dæmi má nefna þar sem framin hafa verið skemmdarverk sem kosta Mosfellsbæ margar milljónir á ári.
Það er alveg glatað að þetta sé staðan í okkar flotta bæ og við getum og viljum fækka þessum skemmdum og þeim kostnaði sem þeim fylgir.

Hættið þessu rugli
Þið sem eruð að gera þetta, eruð þið ekki til í að hugsa aðeins um hvað þetta er glötuð hegðun og hvaða leiðindi þetta hefur í för með sér? Nýtið endilega tímann ykkar í eitthvað annað uppbyggilegra og skemmtilegra.
Þessar skemmdir sem þið valdið kosta margar milljónir á ári, mill­jónir sem við viljum og ættum að nota í að gera bæinn okkar skemmtilegri og flottari. Til dæmis að framkvæma fleiri geggjaðar tillögur úr Okkar Mosó, auk þess sem við gætum notað peningana í alls konar nýjar og skemmtilegar framkvæmdir fyrir alla aldurshópa í bænum okkar.

Hvað getum við gert?
Við Mosfellingar erum þekktir fyrir að geta gert nánast hvað sem er og nú tökum við höndum saman og förum í herferð til að útrýma þessu rugli í bænum okkar.
Nú virkjum við alla sem okkur dettur í hug í fræðslu og umræðu um þessi mál, foreldra- og skólasamfélag, íþróttafélögin, krakkana í félagsmiðstöðvum, vinahópinn okkar, fjölskyldurnar o.fl. Við ákveðum hér og nú að þetta sé ekki í boði og við stöndum saman öll sem eitt um að uppræta svona framkomu.

Hverjir eru að skemma og eyðileggja?
Ef þú veist hverjir það eru sem eru að skemma fyrir okkur íbúum Mosó, taktu þá umræðuna við þá og segðu þeim að þetta er alls ekki „kúl“. Ef þeir skilja það ekki, láttu þá vita og þá verður talað við þessa aðila og reynt að fá þá til að skilja að við viljum nota peninga okkar Mosfellinga í eitthvað annað og skemmtilegra en að gera við skemmdir eftir þá.
Þetta eru væntanlega mjög fáir einstaklingar sem standa á bakvið flestar þessar skemmdir og ef við öll leggjumst á eitt að hjálpa til við að stoppa þetta rugl er ég viss um um þessir aðilar hætti þessu.
Með sameiginlegu átaki náum við að stoppa þessa hegðun sem skilar engu nema leiðindum og miklum kostnaði fyrir okkur og bæinn okkar.

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær fyrir barnafjölskyldur

Una Hildardóttir

Í febrúar birtust niðurstöður þjónustukönnunar Mosfellsbæjar en þær sýndu ánægju notenda þjónustu sveitarfélagsins,en Mosfellsbær var yfir landsmeðaltali í 11 flokkum af 13.
Er það sérstakt fagnaðarefni að 97% foreldra leikskólabarna eru ánægðir með þjónustu leikskóla bæjarins enda hefur bæjarstjórn lagt mikla áherslu á eflingu skólastigsins. Plássum á ungbarnadeildum og opnun sérstaks ungbarnaleikskóla hefur stytt biðlista töluvert og hafa leikskólagjöld lækkað um 25% á ári frá síðustu sveitastjórnarkosningum.
Þessi aukna þjónusta við barnafjölskyldur er mikilvæg og kemur til móts við aðgerðir stjórnvalda sem hafa nú lengt fæðingarorlof í 12 mánuði. Öflugir leikskólar og metnaðarfull uppbygging í sveitarfélaginu hefur gert Mosfellsbæ að eftirsóttum stað fyrir ungt fólk að skjóta niður rótum.

Barnvænt sveitarfélag
Nýlega skrifaði Mosfellsbær undir samstarfssamning við UNICEF og félagsmálaráðuneytið um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á öllum stigum stjórnsýslu sveitarfélagsins. Mun innleiðing sáttmálans auka gæði þjónustu við börn og barnafjölskyldur og vernda réttindi barna. Síðastliðin ár hefur bæjarbúum fjölgað hratt og mikill áhugi er meðal ungs fólks á að ala upp börn í Mosfellsbæ.
Samspil góðrar þjónustu, bæjarbrags og nálægð okkar við náttúru- og útivistarsvæði gerir Mosfellsbæ að góðum stað til þess að búa á. Tilkoma hlutdeildarlána hefur auðveldað ungu fólki og tekjulágum að fjárfesta í íbúðum sem nú eru í uppbyggingu í nýjum miðbæ og virðist fjölgun Mosfellinga ekki vera á undanhaldi.

Hvernig getum við gert betur?
Þrátt fyrir að ánægja sé meðal bæjarbúa er kemur að þjónustu og starfsemi sveitarfélagsins er mikilvægt að gera betur. Þegar kemur að þjónustu við ungt fólk, og þá sérstaklega barnafjölskyldur er mikilvægt að bjóða upp á öflugar almenningssamgöngur. Nú þegar hefur Mosfellsbær byggt upp öflugt hjólastígakerfi sem tengir okkur við Reykjavík.
Á næstu árum munu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við stjórnvöld hefja uppbyggingu Borgarlínu. Mikilvægt er að tryggja að þau sveitarfélög sem liggja við jaðar höfuðborgarsvæðisins geti áfram treyst á að leiðakerfi Strætó bs. og tenging við nýtt kerfi geri almenningssamgöngur að raunhæfum kost fyrir Mosfellinga. Öflugar almenningssamgöngur geta bætt lífsgæði okkar til muna, sérstaklega ungs fjölskyldufólks sem sér Mosfellsbæ sem framsækið og barnvænt sveitarfélag og vill setjast hér að.

Una Hildardóttir
Höfundur býður sig fram í 1.-2. sæti í forvali VG í Suðvesturkjördæmi

Okkar Mosó 2021

Margrét Guðjónsdóttir

Kæru Mosfellingar.
Íbúalýðræði er eitt af stefnumálum Vina Mosfellsbæjar því við vitum að íbúarnir eru sérfræðingar í nærumhverfinu. Því er það gleðiefni að verkefnið Okkar Mosó er komið af stað að nýju.
Markmiðið með verkefni sem þessu er að fá almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Okkar Mosó er tilvalinn staður fyrir íbúa til að koma með bæði skemmtilegar hugmyndir svo og góðar ábendingar að nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum.
Hugmyndirnar geta verið af ýmsum toga og til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa, unga sem aldna. Í ár er áætlað að verja um 35 milljónum króna í verkefnið sem kemur til framkvæmda frá sumri 2021 og fram á árið 2022 eftir umfangi verksins.
Nokkur skilyrði eru fyrir því að hugmyndin komist áfram í kosningu og þá helst að hún nýtist hverfum eða íbúum bæjarins í heild, sé auðveld í framkvæmd, sé í verkahring bæjarins, falli að skipulagi og stefnu Mosfellsbæjar og kostnaður sé ekki mjög mikill þannig að nokkrar hugmyndir geti hlotið brautargengi.

Í Okkar Mosó 2017 tóku um 14,0% íbúa þátt og komust tíu hugmyndir áfram, svo sem fjölgun bekkja fyrir eldri borgara, ungbarnarólur á róluvelli bæjarins, fuglafræðslustígur meðfram Leirvoginum og strandblakvöllur á Stekkjarflöt. Í Okkar Mosó 2019 komu fram margar frábærar hugmyndir og nýttu 19,1% bæjarbúa sér atkvæðisétt sinn sem er mesta þátttaka sem verið hefur í sambærilegum kosningum hér á landi.
Verkefni sem þá fengu brautargengi voru meðal annars, ærslabelgur á Stekkjarflöt sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, betri lýsing við göngustíga, leikvellir fyrir yngstu börnin, Miðbæjartorgið fegrað, kósý Kjarni ásamt ýmsu fleiru sem sjá má á heimasíðu verkefnisins. Öllum þeim sem komu fram með tillögur eru færðar bestu þakkir fyrir hugmyndaauðgi.

Hugmyndavefurinn er opinn til 6. apríl nk. og verður kosið um bestu hugmyndirnar dagana 31. maí til 6. júní nk. Nú þegar hafa margar frábærar tillögur komið fram og vil ég hvetja alla Mosfellinga til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og hafa þannig áhrif á nærumhverfi okkar.
Allir íbúar sem hafa lögheimili í Mosfellsbæ geta kosið og vil ég sérstaklega geta þess að kosningin er opin öllum sem verða 15 ára eða eldri á kosningaárinu, því hvet ég ungt fólk til þátttöku og taka þannig þátt í málefnum bæjarins. Nánari upplýsingar eru á vefsvæðinu mos.is/okkarmoso
Tökum þátt, því saman byggjum við upp betri bæ.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og aðalmaður í lýðræðis- og mannréttindanefnd.

Það er best að búa í Mosfellsbæ!

Guðmundur Hreinsson

Ekki alls fyrir löngu þá barst mér skoðanakönnun sem fjallaði um upplifun mína á því hvernig mér fyndist að búa á þeim stað sem ég bý. Að mínu mati þá var ekki erfitt að svara þeim spurningunum öllum í þá veru að hvergi á jarðríki er betra að búa en í Mosfellsbæ.
En eftir á að hyggja þá fékk ég bakþanka vegna þess að marg oft hef ég orðið var við það að pólítíkusar bæjarins veifi þessari skoðannakönnun sem merki um eigið ágæti og afrek og þess vegna vil ég hér með koma því á framfæri að það er ekki vegna þeirra afreka sem ég svaraði þessari skoðanakönnun eins og ég gerði eða að það er hvergi betra að búa en í Mosfellsbæ. Ég tala svo nú ekki um umhverfið og náttúruna!

Ég bý í þeim hluta Mosfellsbæjar sem oft er kallað olnbogabarn Mosfellsbæjar eða í Mosfellsdal. Nafnið dregur sennilega taum af því að við erum oftast síðust í röðinni þegar kemur að ýmsum framkvæmdum á vegum bæjarins og drífa ekki öll þau gæði sem bærinn veitir bæjarbúum upp í Mosfellsdal einhverra hluta vegna.
Af mörgu er hægt að taka hvað þetta varðar og töluvert misræmi sem er á milli Mosdælinga og annara bæjarbúa og má t.d. nefna að til stóð að leggja ljósleiðara um allt bæjarfélagið og var sá samstarfssamningur undirritaður fyrir nokkrum árum í votta viðurvist og smellt mynd af virtum bæjarpólitíkusum og forstjórum og birt hér í þessu ágæta blaði.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun þá var Mosfellsdalur síðastur í röðinni. Þegar kom svo að Mosfellsdal þá kom babb í bátinn. Fyrirtækið Míla var ekki tilbúið að leggja ljósleiðara um Mosfellsdal vegna þess að það þótti ekki hagkvæmt og ekki bissness fyrir fyrirtækið þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar að það skyldi leggja ljósleiðara um allt bæjarfélagið og viljayfirlýsingu þar um. Var brugðið á það ráð að sækja um dreifbýlisstyrk til Fjarskiptasjóðs til að fjármagna verkefnið í ljósi átaksins „Ísland ljóstengt“. Fékkst styrkur sem miðast af því að þeir sem ekki hafa kost á því að tengjast ljósneti gætu fengið styrk.

Efla verkfræðistofa var fengin í það að skipuleggja verkefnið og komast að því hverjir væru styrktarhæfir og hverjir ekki. Virðist vera að þeirra vinna hafi verið fólgin í því að fara inn á heimasíðu Mílu og slá inn heimilisföngum hverjir gætu hugsanlega tengst ljósneti og hverjir ekki og niðurstaða fengin samkvæmt því með frekar óvísindalegum niðurstöðum.
Niðurstaða bæjarfélagsins var sú að þeir sem væru styrktarhæfir greiddu 125 þúsund og óstyrktarhæfir greiddu 375 þúsund krónur til að fá ljósleiðara. Míla mátti svo sjálft velja eftir eigin geðþótta úr þau heimili sem gátu fengið tengingu á lægra gjaldinu burt séð hvort styrkur fengist eða ekki. Nú spyrja margir af hverju ættu íbúar Mosfellsdals að greiða eitthvað umfram aðra sérstaklega í ljósi þess að allir aðrir íbúar greiddu ekki neitt, en svona er nú að vera olnbogabarn Mosfellsbæjar.

Mikil áhersla var lögð á það af hálfu íbúafélagsins Víghóls að bæjarfélagið sem hafði yfirumsjón og var ábyrgðaraðili að framkvæmdinni framkvæmdi þetta allt í nánu samstarfi við íbúa og íbúasamtökin. Ekki er hægt að segja að það hafi verið gert með nokkrum hætti og allar ákvarðanir teknar í reykfylltu bakherbergi og svo að lokum tilkynnt hvernig þetta ætti allt saman að vera.
Það sjá það allir að hér er ekki um opið og sanngjarnt ferli að ræða og samkvæmt skoðanakönnun sem íbúafélagið gerði á meðal íbúa þá hefðu þeir sjálfir kosið, af því á annað borð væri gjaldtaka, að þá yrði hún jöfn og sama greiðsla sem öll heimili greiddu jafnt.
Einnig vildi fólk að Mílu hefði ekki verið gefið opið leyfi að bjóða eftir eigin geðþótta betri kjör á tengingu til einstakra heimila. Þetta endurspeglar heilbrigðan hugsunarhátt hjá íbúum Mosfellsdals sem er að skipting á einhverjum gæðum skuli skipt með jöfnum og réttlátum hætti á milli allra íbúa dalsins.

Eins og ferlið var framkvæmt þá er það allt mjög ámælisvert og allt til þess fallið að skapa sundrung á meðal íbúa. Hið gagnstæða gerðist hins vegar sem var að þetta þjappaði fólki frekar saman í því að fordæma svona vinnubrögð og munum við leggja mikla áherslu á í framtíðinni að allar ákvarðanatökur verði gerðar í sátt og í samvinnu við íbúa í gegnum íbúasamtökin.
Já, gott fólk! Það er þess vegna sem það er best að búa í Mosfellsbæ. Það er vegna þess að íbúar Mosfellsdals- og bæjar er gott og réttlátt fólk og niðurstöður allra kannana um hvar best er að búa hefa bara alls ekkert með bæjaryfirvöld eða pólitíkusa að gera.

Guðmundur Hreinsson
Greinarhöfundur situr í stjórn Víghóls íbúasamtaka Mosfellsdals.

Lifandi málaskrá og dagbók

Stefán Ómar Jónsson

Kæru Mosfellingar.
Bættur aðgangur að upplýsingum er forsenda gegnsæi í störfum stjórnsýslunnar en það er eitt af áherslum Vina Mosfellsbæjar.
Það er því okkar kjörinna fulltrúa að búa svo um hnútana að íbúarnir geti á auðveldan hátt nálgast upplýsingar og öðlast þannig innsýn í verkefni stjórnsýslunnar.
Aukin upplýsingagjöf og gott aðgengi að upplýsingum eykur traust á störf stjórnsýslunnar um leið og íbúum er gert það sem auðveldast að kynna sér hin ýmsu mál sem þar eru til meðferðar hverju sinni. Málsnúmer og heiti mála úr málaskránni getur allur almenningur svo nýtt sér til að óska frekari upplýsinga um mál á grundvelli heimilda í upplýsingalögum nr. 140/2012.

Með þetta í huga lagði undirritaður fram tvær tillögur í bæjarráði Mosfellsbæjar í þessari viku um:
– Rafrænan aðgang almennings að málaskrá Mosfellsbæjar og
– Rafræna birtingu helstu daglegra verkefna bæjarstjóra.
Þess má geta að ráðuneytin eru um þessar mundir að undirbúa að birta málaskrár sínar á vef stjórnarráðsins og er tilgangurinn einmitt sá að auðvelda almenningi að fá yfirsýn yfir verkefni hvers ráðuneytis. Núverandi forsætisráðherra hefur einnig beitt sér fyrir því að dagbækur ráðherra í ríkisstjórn Íslands eru nú þegar aðgengilegar á vef stjórnarráðsins.

Hér að neðan fylgir slóð á dagbók forsætisráðherra þar sem fólk getur kynnt sér hvernig undirritaður sér fyrir sér að birting á dagbók bæjarstjóra Mosfellsbæjar gæti litið út.
En af hverju dagbók bæjarstjóra? Jú vegna þess að öll verkefni sem bæjarstjóri innir af hendi í nafni embættis bæjarstjóra eru opinber embættisverk sem eðlilegt væri að íbúar Mosfellsbæjar gætu fylgst með.

Það er von mín að bæjarráð taki vel í fyrirliggjandi tillögur mínar um rafrænan aðgang íbúa að annars vegar málaskrá Mosfellsbæjar og hins vegar að dagbók bæjarstjóra.

Stefán Ómar Jónsson, bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

Til upplýsingar er hér hlekkur á dagbók forsætisráðherra 1. – 7. mars 2021.

Friðlandið við Varmárósa stækkað

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Í síðustu viku undirritaði ég stækkun friðlandsins við Varmárósa. Ósarnir hafa verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1978 og voru fyrst friðlýstir árið 1980.
Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í því að þar er að finna fágæta plöntutegund, fitjasef, auk þess sem sjávarfitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvægt vistkerfi fyrir fugla.
En það er samt fleira sem gerir svæðið einstakt; það er nefnilega einstakt að hafa aðgang að lítt snortnu votlendissvæði í næsta nágrenni við byggð. Svæði sem iðar af lífi og býður upp á ótal möguleika til fræðslu, útivistar og náttúruskoðunar. Markmið friðlýsingar Varmárósa er að vernda náttúrulegt ástand votlendis og sérstakan gróður sem á svæðinu er að finna. Fitjasef finnst bara á einum öðrum stað á landinu svo vitað sé, fyrir utan Varmárósa, sem gerir verndarsvæðið mjög merkilegt.
Það hefur verið virkilega ánægjulegt að finna hversu ríkur vilji hefur verið af hálfu Mosfellinga til þess að tryggja vernd þessa einstaka svæðis, en votlendissvæði hafa svo sannarlega átt undir högg að sækja undanfarna áratugi. Ég er sannfærður um að stækkun friðlandsins muni enn frekar stuðla að því að íbúar og gestir svæðisins geti rannsakað og notið þess fjölskrúðuga lífs sem finna má á svæðinu.

Átak í friðlýsingum
Stækkun friðlýsts svæðis við Varmárósa er 16. friðlýsingin sem undirrituð er á þessu kjörtímabili. Eitt það fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð umhverfis- og auðlindaráðherra var að setja af stað átak í friðlýsingum, sem unnið hefur verið í samstarfi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Á meðal þeirra svæða sem hlotið hafa vernd í ráðherratíð minni eru náttúruperlur á borð við Geysi, Goðafoss, Kerlingarfjöll og Látrabjarg. Ég stefni að því að áður en kjörtímabilið er á enda muni 15-20 svæði til viðbótar verða friðlýst.

Til hvers að friðlýsa?
Með friðlýsingu tökum við ákvörðun um að setja náttúruna í fyrsta sæti og stuðla að sjálfbærri nýtingu sem gengur ekki í berhögg við náttúruna, okkur og komandi kynslóðum til heilla. En mörgum friðlýsingum fylgir líka umsjón og styrking innviða. Fyrr í þessum mánuði var í fjórða sinn tilkynnt um úthlutun fjármagns úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Gert er ráð fyrir rúmlega 2,6 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára til uppbyggingar innviða á friðlýstum svæðum vítt og breitt um landið. Landsáætlun er þannig öflugt verkfæri í þágu náttúrunnar.
Á Íslandi eru nú, auk Varmárósa, rösklega 120 friðlýst svæði og mörg þeirra á höfuðborgarsvæðinu eða næsta nágrenni þess. Ég hvet þig, lesandi góður, til að fletta þeim upp og velja þér einhverja einstaka náttúruperlu í nágrenninu til að heimsækja og njóta náttúrunnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
umhverfis- og auðlindaráðherra

Von og vellíðan

Sonja Riedmann

Sjúkraþjálfun Mosfellsbæjar fagnaði 25 ára afmæli þann 19. mars.
Hvernig við náum von og vellíðan er nokkuð sem flestir velta fyrir sér. Sjálf hef ég fundið leið með svokölluðu NEWSTART Program (newstart.com).
Það er byggt á meira en 100 ára kenningum E.G. White. Fólk sem lifir eftir þessum kenningum, lifir hvað lengst í heiminum í dag. Í Sjúkraþjálfun Mosfellsbæjar kenni ég þessar aðferðir samhliða sjúkraþjálfun.

Lífsstílsbreytingar skila sér og eru vel rannsakaðar af mörgum fræðimönnum um allan heim. Neal D. Barnard læknir skrifaði í bók sinni Foods That Fight Pain að maturinn sem við borðum geti valdið verkjum.
Hann útskýrir að með því að sleppa ýmsum fæðutegundum, getum við minnkað bólgur, fundið sökudólgana og náð vellíðan í líkama okkar (Barnard, 1998).
Shushana Castle og Amy-Lee Goodman gáfu út bókina Rethink Food: 100+ Doctors Can´t Be Wrong. Þessir hundrað læknar skrifa sögur um fólk, sjúkdóma og lífsstíl og hvernig matur tengist vellíðan (Castle og Goodman, 2014). Eddie Ramirez skrifaði um sykursýki 2 Diabetes Can Be Defeated og hvernig hægt er að losna við eða minnka sykursýki með hundrað prósent breyttum lífsstíl (Ramirez, 2014). Neal Nedley læknir kynnir hvernig mögulegt er að losna við eða minnka þunglyndi í bók sinni Depression the Way Out (Nedley 2001).

Á þessum tímamótum vona ég að sem flestir nái betri heilsu. Því má ekki gleyma að góð heilsa er ekki síst undir því komin að lifa í sátt. Samanber hina svokölluðu æðruleysisbæn:
„Guð, gefi mér æðruleysi, til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.“ (Reinhold Niebuhr)
Ég þakka gott samstarf.

Sonja Riedmann, sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfun Mosfellsbæjar

Umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi

Ásgeir Sveinsson

Í Leirvogstunguhverfi sem og í öðrum hverfum Mosfellsbæjar snýst umferðaröryggi að miklu leyti um hegðun íbúanna í umferðinni. Leirvogstunga er nýlegt hverfi í Mosfellsbæ og í meirihluta hverfisins er leyfilegur hámarkshraði 30 km. á klukkustund.
Að beiðni Mosfellsbæjar var Verkfræðistofan EFLA fengin til að meta umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi og samhliða því var íbúum hverfisins gefin kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir varðandi umferð og umferðaröryggi í hverfinu.
Megin tilgangur vinnu þessarar var að taka sama ábendingar og athugasemdir sérfræðinga EFLU og íbúa um hvað megi bæta í umferðaröryggi hverfisins, hverju þurfi mögulega að breyta, hvernig þá og af hverju.

Íbúasamráð
Auglýst var á Facebook síðu Leirvogstunguhverfisins eftir ábendingum íbúa. Sérstakur hlekkur var á Facebook síðu þessari þar sem hægt var að merkja við staðsetningu og koma með athugasemdir og ábendingar varðandi hættulega staði með tilliti til umferðaröryggis.
Hlekkurinn var virkur í eina viku og alls bárust 134 athugasemdir. Samráð sem þetta við íbúa er mikilvægt til að ná sem bestu, hagkvæmustu og skilvirkustu niðurstöðu til að auka umferðaöryggi í hverfinu, því íbúar hverfisins þekkja það best hvað betur má fara.
Það er þakkarvert hve margar góðar ábendingar og athugasemdir bárust og verða þær allar skoðaðar.

Helga Jóhannesdóttir

Slysagreining
Samkvæmt slysagögnum Samgöngustofu voru 18 slys og óhöpp skráð í Leirvogstungu og Tunguvegi á árunum 2015 – 2019. Voru 17 þeirra óhöpp án meiðsla og eitt slys með litlum meiðslum.
Flest slysanna voru einslys, það er að segja slys þar sem einungis einn aðili átti hlut að slysinu. Einslysin voru meðal annars þegar ekið var á ljósastaur, vegrið og á ökutæki sem er lagt við hægri brún götu.
Í slysagreiningunni kemur til dæmis fram að töluvert sé ekið á bíla sem eru kyrrstæðir í bílastæðum við götukanta.
Nokkrir staðir í hverfinu vekja meiri athygli en aðrir út frá slysagreiningunni. Ber hér helst að nefna Laxatungu við gatnamót Leirvogstungu (austur tenging) og gatnamót Laxatungu og Kvíslartungu (suður tenging).

Umferðaröryggi í hverfinu
Ábendingar og athugasemdir bárust meðal annars frá íbúum varðandi lýsingu í hverfinu, varðandi mikinn hraða ökutækja, skertrar sjónlengdir, til dæmis vegna gróðurs sem nær út fyrir lóðamörk, skjólveggja og óhagstæðra legu vinkils götu.
Hraðatakmarkandi aðgerðir eins og hraðahindranir sem styðja 30 km. hraða eru nú þegar til staðar í hverfinu og bann­svæði hafa verið máluð á vissum stöðum til að lágmarka árekstrarhættu og hraða. En gera þarf betur og er til dæmis mælt með því í skýrslunni að kynna fyrir íbúum hættu sem myndast við gatnamót þar sem sjónlengdir eru skertar og þar sem gróður nær út fyrir lóðarmörk.

Skýrsla EFLU hefur verið kynnt í skipulagsnefnd og rædd í Bæjarstjórn Mosfellsbæjar auk þess sem skýrslan var birt á Facebook síðu Leirvogstunguhverfis. Umhverfissviði Mosfellsbæjar hefur nú verið falið að rýna niðurstöður skýrslunnar og verða tillögur íbúa og sérfræðinga EFLA nýttar til þess að auka enn frekar umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.
Helga Jóhannesdóttir, nefndarmaður í skipulagsnefnd og varabæjarfulltrúi

STRAX-heilkennið í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Embættismenn í Kína tilheyra gamalli stétt. Sú er mun þróaðri en sú íslenska. Rekja má kínverska embættismannakerfið langt aftur í aldir.
Réðu þar konungar og keisarar sem oft á tíðum voru fremur lítt stjórntækir. Má þar m.a. nefna síðasta keisarann Puyi. Puyi sagði af sér embætti „STRAX“ í upphafi síðustu aldar. Við tók borgarastyrjöld, svo árásir Japana og að lokum kommúnistar.
Á bæjarstjórnarfundum í Mosfellsbæ virðist þessu öðruvísi farið en þar sem best lætur. Í Mosfellsbæ á embættis- og stjórnmálamaður það til að renna saman í einn mann rétt eins og í óræðu listaverki eftir uppáhaldið mitt, sjálfan Salvador Dali. Heima hjá Dali, í spænska sjávarþorpinu Port Lligat við Miðjarðarhafið, er stigi sem liggur upp í ekkert. Ætli að þar sé að finna hinn eiginlega metorðastiga hins íslenska pólitískt ráðna embættismanns sem haldinn er „Stokkhólms-heilkenni“?
Bóseindir eðlishyggjunnar birtast er embætti forseta bæjarstjórnar, pólitískt ráðna bæjarstjórans og kjörna bæjarfulltrúans, þ.e. oddvita Sjálfstæðisflokkins, renna saman í einn mann. Á sér þá stað fremur óstöðugur kjarnasamruni, sérlega þegar fara á „STRAX“ í fundarhlé. Ekki er séð hvaða neyðarástand er uppi þegar svo brátt skal brugðist við.

„Únglingurinn í skóginum“ varð til hér í Mosfellsbæ. Frá þeim tíma er Hriflubóndinn bannfærði Laxness hefur ekki verið uppi súrrealískara ástand í Mosfellsbæ, þökk sé meirihluta Sjálfstæðisflokks og VG. Hvorki eru anemónur kysstar næ hlegið. Það er miður.
Fréttir herma að nýlega hafi Mosfellsbær tapað dómsmáli í héraði gegn fjölfötluðum einstaklingi. Samkvæmt efni dómsins varðar málið NPA samning sem bærinn dró að ganga frá. Þegar bæjarfulltrúar, sem vilja hreyfa við viðkæmum málum en mikilvægum er slíkt túlkað, af helstu „súrrealistum“ bæjarstjórnar, sem árás á Mosfellsbæ eins og hann leggur sig. Í versta falli er í slíkum málum fullyrt að viðkomandi bæjarfulltrúar, sem gagnrýna lélegan rekstur og gerræðislegt stjórnarfar, séu að ráðast með ofbeldi á starfsmenn bæjarins.
Hversdagsleiki illskunnar á sér hér engin takmörk í augljósri ógnarstjórn er skákar hér í skjóli aumkunarverðs meirihluta. Sá sem stýrir er sá sem ber ábyrgð en ekki einstakir starfsmenn. Ábyrgðina á þessu ber embættismaðurinn og bæjarstjórinn í senn. Mun meirihlutinn axla hana?

Þessu til fyllingar skal bent á grátkór sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Sá kallar stöðugt eftir fjármagni úr ríkissjóði, jafnvel í gegnum gjallarhorn banka. Ríkissjóður reynir að halda sig við langtíma fjármálaáætlun í sama mund og sveitarfélögin mörg hafa úr ónýttum skattheimildum að moða. Þetta staðfesti formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra nýlega.
Ekki skal mærð aukin skattlagning en þarna virðist hnífurinn standa í heilagri kú. Sveitarfélögin mörg sóa ítrekað af almannafé og það í gæluverkefni eins og hönnun á óarðbærri borgarlínu. Nefna má einnig sóun í SORPU og illa rekinn Strætó. Þau senda nú sjálfsagt brátt frá sér hágrát úr fjarskiptakerfinu vegna NPA samninga við fatlaða einstaklinga. Er það þar sem á að spara og láta hart mæta hörðu?
Vonum að embættismannakerfið á Íslandi, sérstaklega í yfirstjórn Mosfellsbæjar, breytist. Þurfum við að bíða þar til enn einn vel meinandi embættismaðurinn gefst upp, hættir, hverfur? Já, hverfur rétt eins og í Kína.

Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ

Verður byggð blokk í bakgarðinum hjá þér?

Jón Pétursson

Þegar fólk kaupir sér húsnæði er að mörgu að hyggja. Byggingin þarf að uppfylla lög og reglugerðir en því miður virðast allt of margir gallar koma í ljós eftir að eigendur taka við fasteign. Margir slíkra galla eru á ábyrgð hönnuða, byggingastjóra eða meistara.
Skv. lögum má Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (áður Mannvirkjastofnun) ávíta og svipta starfsréttindum þá sem vanrækt hafa starfsskyldur sínar. Ekki hefur komið til þess að hönnuður, byggingastjóri eða iðnmeistari hafi hlotið áminningu og misst löggildingu eða starfsleyfi á grundvelli 57. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ótrúlegt! Hér er ekki við byggingafulltrúa að sakast heldur Húsnæðisstofnun svo að það sé tekið fram. Yfirvöld í bænum ættu hins vegar að beita sér fyrir að byggingaeftirlit fái nægt fjármagn til þess að veita aðhald þeim sem starfa í mannvirkjagerð innan bæjarmarka.
Aðrir hagsmunir vega einnig þungt, t.a.m. skipulagsþátturinn. Þar gilda önnur lög en í grófum dráttum má segja að skipulagsvaldið sé pólitískt. Bæjarstjórn tekur ákvörðun um aðalskipulag sem er áætlun eða stefna. Það má segja að aðalskipulag sé framtíðarsýn.
Deiliskipulag er áætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti sem í manna máli eru kölluð hverfi. Þetta er þó ekki algilt.
Skipulagsþátturinn er alfarið á ábyrgð kjörinna fulltrúa. Skipulagsvaldið er nánast alltaf í höndum sveitarfélagsins.
Miðflokkurinn í Mosfellsbæ hefur tekið þá afstöðu að deiliskipulagi sem er í gildi eigi ekki að breyta. Átæða þess er sú að við breytingar skerðast gæði þeirra sem fyrir eru.
Á þessu eru að vísu fáeinar undantekningar. Þær eru t.d. breytingar er lúta að umferðaröryggi íbúa og aðgengi. Miðflokkurinn hefur líka verið fylgjandi breytingum á deiliskipulagi hverfa sem eru óbyggð enda vita fasteignakaupendur þar að hverju þeir muni ganga.
Það er nefnilega raunin að þegar verið er að gera breytingar er of algengt að horft sé til gróðasjónarmiða vertaka. Rökin sem beitt er geta verið að markaðurinn kalli eftir tilteknum stærðum eigna og því sé eðlilegt að fjölga íbúðum. Yfirleitt fylgja slíkum fullyrðingum engin gögn.
Greiningardeild Ríkislögreglustjóra gaf út skýrslu um skipulagða brotastarfsemi 2019. Í skýrslunni var vitnað í Noreg og ástandið þar.
„Í kafla um spillingu á bæjar- og sveitarstjórnarstigi segir að sakamál síðustu ára gefi til kynna sérstaka áhættu á spillingu í tengslum við leyfisveitingar vegna skipulagsmála og byggingaframkvæmda. Sú hætta sé fyrir hendi að starfsmenn á bæjar- og sveitarstjórnarstigi ýmist reyni að hagnast á aðstöðu sinni með tilliti til leyfa vegna framkvæmda eða þeim séu boðnar mútur. Fjallað er um að framferði sem almenningur upplifi sem siðleysi og spillingu á þessu sviði stjórnsýslunnar þurfi ekki nauðsynlega að fela í sér lögbrot. Sagt er frá rannsókn á vegum samtaka sveitarfélaga í Noregi árið 2018. Í henni kváðust 85% stjórnenda á bæjar- og sveitarstjórnarstigi telja spillingu „litla eða mjög litla“ á þessu sviði opinbers reksturs. Í sömu könnun sögðu 13% þátttakenda að þeir hefðu á síðustu 12 mánuðum orðið fyrir þrýstingi um að hygla sérstaklega tilteknum aðilum í störfum sínum.“
Vonandi stöndum við okkur betur en Noregur.

Jón Pétursson, fulltrúi Miðflokksins í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar