Forysta með framtíðarsýn

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Ég, Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, býð mig fram í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 5. febrúar.
Ég er kennari og lýðheilsufræðingur að mennt og er að ljúka námi í stjórnun menntastofnana. Ég hef setið sem bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tvö kjörtímabil. Áður var ég varabæjarfulltrúi og formaður fjölskyldunefndar. Nú er ég formaður fræðslunefndar og eiga skólamálin því stóran part af hjarta mínu. Ég hef búið í Mosfellsbæ frá 9 ára aldri og hér liggja mínar rætur. Ég býð mig fram í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins því ég hef reynslu, þekkingu og getu til að leiða stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ.

Mín sýn
Ég vil áfram styðja við okkar mikilvæga skólastarf og halda áfram að byggja upp góða leikskóla. Ég mun halda áfram að styrkja innviðina samhliða fjölgun íbúa eins og nauðsynlegt er. Mikilvægt er að fötluð börn fái þjónustu við hæfi og þarf að endurskoða stefnuna um skóla án aðgreiningar. Það krefst samtals við ríkið um meira fjármagn til skólanna fyrir börn sem þurfa meiri stuðning.
Ég vil hefja stórsókn í að skapa skilyrði fyrir fyrirtæki sem vilja byggja upp skapandi greinar eða græna nýsköpun þar sem hringrásarhagkerfið verður í hávegum haft. Mosfellsbær er í góðri stöðu til að bjóða til sín slíkum fyrirtækjum og er atvinnusvæðið í Blikastaðalandi t.d. kjörið til slíkrar uppbyggingar. Fyrsta skrefið verður að móta áræðna atvinnustefnu sem hefur bæði jákvæð umhverfis- og efnahagsleg áhrif fyrir bæjarfélagið.

Við ætlum að vera eitt lið
Mosfellsbær er fyrsta sveitarfélagið sem varð Heilsueflandi samfélag og vil ég styrkja þá starfsemi enn frekar. Bærinn á að vera leiðandi í heilsueflingu með kröftugum markmiðum eins og fram koma í nýrri lýðheilsustefnu bæjarins.
Mosfellsbær er íþrótta– og heilsubær umkringdur fallegri náttúru og er fyrsta val fólks sem vill búa, njóta og vinna þar sem slíkar aðstæður eru fyrir hendi. Þá vil ég tengja saman íþróttafélögin, skólana, Reykjalund og atvinnulífið – fella múra og að við verðum eitt lið sem hefur það að markmiði að efla heilsu allra bæjarbúa. Ég treysti mér fyllilega til að leiða þetta mikilvæga verkefni því ég veit að það er mikill mannauður í Mosfellsbæ sem vill hefja þennan leiðangur saman. Þannig gerum við Mosfellsbæ að sönnum íþrótta– og heilsubæ.
Íþrótta– og tómstundafélögin kalla á meira fjármagn og betri aðstöðu til iðkunar og hefur samráðsvettvangur Aftureldingar og bæjarins sett fram stefnu um uppbyggingu að Varmá. Það er metnaðarfullt plan sem vonandi flestir geta sæst á. Það þarf stöðugt að hugsa til framtíðar og halda áfram að byggja upp. Börn og ungmenni hafa mikið val um íþróttir og tómstundir og þannig viljum við að það verði áfram.

Það þarf reynslu, þekkingu og dugnað
Til að láta drauma okkar rætast þarf kraftmikla forystu sem hefur reynslu af rekstri sveitarfélagsins. Okkar helsta aðalsmerki hefur verið góð fjármálastjórn og ábyrgur rekstur og það verður að vera áfram. Í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eru einstaklingar með fjölþætta reynslu og bakgrunn. Ég vil leiða þennan hóp til áframhaldandi góðra verka fyrir okkar góða samfélag. Gerum þetta saman.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.