Af hverju hreyfum við okkur!

Berta Þórhalladóttir

„Ef hreyfing væri til í pilluformi þá væri það mest ávísaða lyf í heimi“
Hreyfing snýst um svo miklu meira en að líta vel út. Hreyfing er verkfæri og tól sem getur hjálpað okkur að stuðla að bættri vellíðan. Hreyfing á ekki að vera kvöð og er ég talsmaður þess að maður eigi að finna sér þá hreyfingu sem veitir ánægju og tilhlökkun. Það er vissulega mikilvægt að styrkja sig og iðka þolæfingar, en númer eitt, tvö og þrjú er það að finna sér afþreyingu sem þú hefur gaman af. Þegar við höfum gaman þá verður hreyfingin auðveldari og einfaldar það fyrir okkur að koma hreyfingunni í fasta venju!

Það ættu allir að geta fundið skemmtilega afþreyingu við sitt hæfi í dag, þar sem úrvalið hjá okkur á klakanum er svo fjölbreytt og svo margt flott í boði. Þegar hreyfingin er svo orðin að fastri venju, þá má gjarnan fara að huga að hvað við getum gert til að bæta hana og okkur í leiðinni.
Þegar við stundum heilsusamlega hreyfingu þá stuðlum við að bættri heilsu, vellíðan og betri lífsgæðum. Við getum í kjölfarið minnkað líkur á kvíða og þunglyndi, verndað okkur frá hinum ýmsum sjúkdómum.
Einu sinni hélt ég að maður yrði að fá blóðbragð í munninn til þess að ég gæti kallað mína hreyfingu æfingu. En sem betur fer þá veit ég betur í dag!
Öll hreyfing er af hinu góða og númer eitt, tvö og þrjú er einfaldlega að hreyfa sig. Það skiptir ekki jafn miklu máli hvernig við hreyfum okkur eða hversu mikið við náum að svitna á meðan á æfingu stendur! Og æfingin þarf ekki standa yfir langan tíma í senn, þar sem talið er að 30 mínútna hreyfing á dag, 5 daga vikunnar geti skipt sköpum fyrir okkur. Ef þú átt ekki hálftímann, brjóttu hann þá niður í þrisvar sinnum 10 mín., hér og þar yfir daginn. Hugsum í lausnum, því jú, öll hreyfing skiptir okkur máli.
Munið að líkaminn okkar spyr ekki um aldur og fyrri störf þegar hreyfing er annars vegar, heldur mun hormónakerfið okkur losa um vellíðunarhormón um leið og við byrjum að hreyfa okkur.
Hvernig væri að hreyfa sig í dag og sjá hvort það losni ekki úr læðingi.
Þú hefur engu að tapa, en þú gætir haft margt að vinna!

Hvatningarkveðja,
Berta Þórhalladóttir.