Jarðhitagarður

Heitavatnsleiðslan til Reykjavíkur var einangruð með reiðingi og hænsnaneti.

Bjarki Bjarnason

Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 8. desember sl. var samþykkt að vinna að og undirrita viljayfirlýsingu milli bæjarins og Veitna ohf. um jarðhitagarð í Reykjahverfi.
Málið hafði verið í undirbúningi um nokkurt skeið og á sér góðar og gildar sögulegar forsendur sem hér verður gerð grein fyrir í stuttu máli.

Vatn er heitt
Tvö lághitasvæði eru í Mosfellsbæ, í Reykjahverfi og Mosfellsdal. Á fyrri öldum þótti það enginn sérstakur kostur að hafa sjóðheita hveri í sínu nágrenni, þar var að vísu hægt að baka brauð en Íslendinga skorti verkþekkingu til að fullnýta vatnið, til dæmis til húshitunar. Í jarðabók frá byrjun 18. aldar er aðeins getið um heitt vatn á einni bújörð í Mosfellshreppi, í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal, þar segir stutt og laggott: „Vatn er heitt.“ Ekki verður séð hvort sá jarðhiti sé talinn til búdrýginda eða ekki. Flestir hverirnir og laugarnar í Mosfellssveit voru of heitar til að hægt væri nýta þær til baða, þó er Reykjalaug nefnd í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 18. öld, Reykjalaug var hlaðin baðlaug og er leifar hennar að finna undir akveginum heim að Reykjum.

Heita vatnið breytti Íslandi
Á 20. öld eygði framfarasinnað fólk óþrjótandi möguleika í virkjun jarðhitans, til húshitunar, baða og ylræktar. Jarðhitinn var virkjaður, bæði í Reykjahverfi og Mosfellsdal, og vatninu dælt til höfuðborgarinnar – eða eins og Halldór Laxness orðar það í Innansveitarkroniku: „Vatnið var leitt suður í víðum bunustokkum með þeim árángri að slík ókjör af sjóðheitu baðvatni koma á hvert nef í Reykjavíkurborg að annað eins er óþekt á jörðinni nema í Petrópavlofsk á Kamsjötku.”
Heita vatnið gjörbreytti Reykjavík og jarðhitinn hefur haft stórkostleg áhrif á allt samfélagið. „Bunustokkarnir” eru að vísu ekki sýnilegir lengur en enn streymir vatn í stórum stíl til borgarinnar. Reyndar er lítill hluti af gamla stokknum varðveittur á sínum stað, við veitingahúsið Barion í miðbæ Mosfellsbæjar. Dælustöðin á Reykjum (neðan við Reykjalund) er enn í notkun en ekki lengur opin fyrir gesti líkt og hún var um langt skeið, þar er ekki lengur boðið upp á volgan sopa úr borholu 13.

Gerum söguna sýnilega
Eins og hér hefur verið rakið tengist virkjunarsaga Reykjavíkur okkur Mosfellingum náið og það eru gildar ástæður til að halda henni á lofti, bæði fyrir samtímafólk og komandi kynslóðir. Þess vegna hugsa Mosfellsbær og Veitur ohf. sér til hreyfings í þessum efnum, í því samhengi er horft til landspildu við Reyki, hún er í eigu Veitna ohf. og notuð sem snúningsreitur fyrir almenningsvagna. Þarna eru miklir möguleikar til að gera þessari merku sögu góð skil, um leið verður jarðhitagarðurinn til prýði fyrir umhverfið. Vaxandi umferð almennings er um þetta svæði; þarna hefjast og enda fjallgöngur um nágrennið, meðal annars á Reykjaborg og að Bjarnarvatni.
Fegrum umhverfið og gerum söguna sýnilega.

Bjarki Bjarnason,
forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.