Hvort er Mosfellsbær að gleyma eða hunsa viðhald á gang­stéttum í rótgrónum hverfum?

Kári Sigurðsson

Stundum fer ég út að hlaupa, ég hleyp hvorki hratt né langt.
Oftast segi ég við sjálfan mig áður en ég fer út að hlaupa „taktu því bara rólega Kári minn“ og reyni ég að fylgja því eftir.
Ég keypti mér hlaupaskó fyrir ekki svo löngu sem eru gerðir fyrir hlaup á malbiki. Þar sem ég bý í Mosfellsbæ, í gömlu, rótgrónu hverfi hefði ég betur átt að kaupa mér utanvegahlaupaskó þrátt fyrir að ætla að hlaupa hérna innanbæjar.
Gangstéttir innan sumra hverfa Mosfellsbæjar eru í hræðilegu ásigkomulagi. Oftar en ekki er ég að hlaupa á gangstétt og reynir þá þyrnirunni að fella mig sem vex úr 15 ára gamalli sprungu á gangstéttinni.
Guð hjálpi mér ef ég skyldi svo mæta annarri manneskju á þessum kindastígum. Ef svo færi þyrfti ég annaðhvort að fleygja mér inn í næsta garð eða hreinlega út á götu.
Mosfellsbær er fallegur bær og eftirsóttur staður til að búa á fyrir ungar fjölskyldur. Leikskólar í Mosfellsbæ eru í fremstu röð og komast flestir inn á ungbarnadeild í kringum eins árs aldur barns.
Hinsvegar þarf að fara mjög varlega með þetta blessaða barn út að labba og helst að vera reiðubúinn að fleygja vagninum inn í næsta garð við fyrstu mannamót.
Af hverju þarf þetta að vera svona?

Kári Sigurðsson
Gefur kost á sér í annað sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.