Gerum gott betra

Ásgeir Sveinsson

Á líðandi kjörtímabili hef ég sinnt fjölmörgum skemmtilegum og krefjandi störfum í farsælum og sterkum meirihluta D- og V-lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Ég sækist nú eftir umboði til að sinna þessum störfum áfram og leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Ég er formaður bæjarráðs, bæjarfulltrúi, formaður skipulagsnefndar, hef setið í stjórn strætó BS, samstarfsnefnd skíðasvæða og sit einnig í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins.
Það gengur vel í bænum, ánægja íbúa mælist í hæstu hæðum ár eftir ár, bærinn blómstrar og dafnar og það er eftirsótt að flytja í Mosfellsbæ.

Látum verkin tala
Mosfellsbær stendur vel fjárhagslega, þökk sé ábyrgri fjárhagsstjórn undanfarinna ára og þrátt fyrir mikið tekjufall vegna Covid-19 hafa framkvæmdir í Mosfellsbæ aldrei verið meiri, bæði nýframkvæmdir, viðhald og endurnýjun eigna. Þessi uppbygging mun halda áfram næstu misseri og ár.
Álögur á íbúa hafa verið lækkaðar, m.a. fasteignaskattar á íbúða- og atvinnuhúsnæði, álögur á barnafólk hafa lækkað verulega m.a. vegna 25% lækkunar leikskólagjalda á kjörtímabilinu og ungbarnadeildir hafa verið opnaðar á leikskólum, þannig að nú fá flest 12 mánaða börn í Mosfellsbæ dagvistarpláss.
Skólamálin eru einn allra mikilvægasti þáttur í samfélagi okkar, mikil áhersla hefur verið lögð á þau af meirihlutanum á þessu kjörtímabili í Mosfellsbæ og mun ný menntastefna Mosfellsbæjar styrkja þá faglegu vinnu enn frekar.
Skipulagsmálin eru á fullri ferð og uppbygging í Mosfellsbæ heldur áfram. Bærinn okkar mun halda áfram að stækka en ég mun standa vörð um að sérkenni Mosfellsbæjar „sveit í borg“ muni halda sér. Lögð verður áhersla á grænar og vistvænar áherslur og að við pössum vel upp á náttúruna allt í kringum okkur.

Lýðheilsa fyrir alla aldurshópa
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag með Aftureldingu sem hornstein í okkar frábæra íþrótta- og útivistarbæ. Ég mun áfram leggja mikla áherslu á aðstöðumál og að stutt verði áfram duglega við íþróttafélögin og við lýðheilsumál fyrir fólk á öllum aldri. Eldri borgurum fer hratt fjölgandi og á líðandi kjörtímabili hefur verið lögð mikil áhersla að mínu frumkvæði á lýðheilsumál eldri borgara í Mosfellsbæ. Úrval af fjölbreyttri skipulagðri hreyfingu hefur aukist verulega fyrir þann aldurshóp að minni tilstuðlan.

Sterk forysta skiptir máli
Margar af mínum áherslum fyrir síðustu kosningar fengu góðan hljómgrunn og urðu að verkefnum sem hafa verið eða eru í framkvæmd á þessu kjörtímabili. Ég hef brennandi áhuga á velferð Mosfellsbæjar og Mosfellinga og ég læt verkin tala. Víðtæk reynsla mín og þekking sem stjórnandi og leiðtogi í viðskiptalífinu, starf mitt sem formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi auk reynslu af mannauðs- og félagsmálum hafa reynst mér vel í minni vinnu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og munu gera áfram.
Ég er stoltur af því að vera hluti af kraftmiklum, vinnusömum hópi bæjarfulltrúa í meirihluta D- og V-lista sem hefur staðið að þessari vinnu ásamt frábæru starfsfólki Mosfellsbæjar, bæði í stjórnsýslunni og úti í stofnunum bæjarins. Ég hlakka til að halda áfram að sinna þessum verkefnum það sem eftir er þessa kjörtímabils og á næsta kjörtímabili.
Þess vegna býð ég mig fram í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri 5. febrúar næstkomandi og treysti á þinn stuðning.

Ásgeir Sveinsson.
Frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.