Allt í rusli?

Úrsúla Jünemann

Ég tel mig vera einn af þeim mörgu Mosfellingum sem eru meðvitaðir um umhverfismál. Þess vegna flokka ég úrgang eins og hægt er og fer reglulega í móttökustöð Sorpu hér í bænum. En ekki er alltaf létt að gera rétt. Flokkun plasts og móttaka þess er til dæmis eitthvað sem má bæta.
Mér finnst asnalegt að þurfa að nota plastpoka til að flokka plast í og hef ég þann háttinn á að vera með margnota poka undir plast sem ég sturta svo úr í gám á móttökustöðinni. Það hefur hingað til gengið vel, en plastgámurinn sem hefur nýlega verið settur upp þarna er ekki með hlerum sem er hægt að loka heldur opinn. Þegar ég fór síðast með plastið mitt og ætlaði að skila þá fauk allt jafnóðum á móti mér aftur og ég hljóp um allar trissur að safna því aftur saman. Svæðið þarna í kringum móttökustöðina er allt í rusli, mest plasti sem hefur fokið úr þessum óhentuga gámi. Til hvers að safna og skila ef þetta er svona? Móttökugámar sem eru á nokkrum stöðum í bænum til að taka á móti plasti og gleri eru ekki heldur mjög hentugir. Það gengur með glerið, en að reyna að troða plastinu inn í þetta þrönga gat er oft ógerandi, sérlega þegar það er vindur.
Gráa tunnan mín heima er yfirleitt næstum tóm því við flokkum gler, plast, málma og erum með jarðgerð út í garði undir lífrænan úrgang. Þá kemur það fyrir að sorphirðumönnum finnst ekki taka því að trilla tunnunni okkar út á götu. Skiljanlegt. Fyrir mér mætti tæma sjaldnar, og þeir sem framleiða mikið af rusli og nenna ekki að flokka ættu að fá kost á að fá sér auka tunnu og borga fyrir hana. Ekki nema réttlátt fyrir aukna þjónustu.
Góðir bæjarbúar: Reynum nú þegar nýja árið er gengið í garð að hugsa vel um umhverfið okkar. Hvað getum við gert til að minnka magn ruslsins frá heimilinu? Hvernig er best að flokka og skila? Getum við passað okkur á því að lokin á ruslutunnunum séu föst á þannig að ekki fjúki úr þeim? Getum við kennt börnunum okkar með góðri fyrirmynd að vera ekki að henda rusli á viðavangi? Getum við nú loksins safnað saman síðustu leifunum af flugeldum okkar og koma þeim á viðeigandi stað?
Bærinn okkar er allt of fallegur til þess að allt sé í rusli. Gleðilegt nýtt ár.

Úrsúla Jünemann