Uppskera

Birna Kristín Jónsdóttir

Gleðilegt ár kæru Mosfellingar og takk fyrir stuðninginn við okkur í Aftureldingu á liðnu ári. Á sunnudaginn sl. vorum við í Aftureldingu með okkar árlegu uppskeruhátíð. Hátíðin var smá í sniðum þetta árið en alltaf jafn dásamlegt að fá að taka þátt í að upplifa uppskeru með fólkinu okkar.
Hver deild tilnefnir sitt íþróttafólk sem nefnd á vegum Aftureldingar tekur svo að sér að velja úr. Öll sem tilnefnd voru eiga það sammerkt hversu sterkar og góðar fyrirmyndir þau eru og mikið eiga yngri iðkendur okkar það gott að eiga ykkur til þess að líta upp til.
Hlutskörpust í kjörinu í ár voru þau Þórður Jökull Henrysson karate og Thelma Dögg Grétarsdóttir blaki, þau hafa bæði skarað fram úr í sinni grein og átt gríðarlega gott ár.
Vinnuþjarkur Aftureldingar er einn af uppáhalds titlunum í mínum huga en við erum svo heppin að eiga marga og góða sjálfboðaliða sem alltaf eru boðnir og búnir, í þetta sinn varð fyrir valinu Haukur Sörli Sigurvinsson. Í mörg ár hefur Haukur verið lykilmaður i meistaraflokksráði karla í handbolta og verið formaður þess síðan 2018. Haukur er harðduglegur og leggur mikinn metnað í störf sín fyrir félagið sitt.

Sterk keðja
Öll erum við sem komum að Aftureldingu hlekkir í sterkri keðju. Afreksfólkið okkar, allir iðkendur, þjálfarar, sjálfboðaliðar, velunnarar, styrktaraðilar og Mosfellsbær. Við erum ekkert án hvers annars og í ár þökkuðum við Bakka byggingafélagi sérstaklega fyrir okkur. Bakki hefur stutt ríkulega við Aftureldingu í um 30 ár og verið okkur ómetanlegur bakhjarl bæði í afreksstarfinu sem og barna- og unglingastarfinu, en án góðra styrktaraðila og velunnara værum við ekki þar sem við erum í dag.
Ég ætla ekki að telja alla upp hér sem fengu viðurkenningu enda yrði það langt mál, allar upplýsingar má finna á heimsíðunni afturelding.is, en mig langaði að nefna þessa hér að ofan og þakka fyrir mig og óska ykkur öllum innilega til hamingju.
Fram undan er vonandi gott ár hjá okkur og vonandi getum við sem fyrst farið að starfa óhindrað og taka á móti ykkur sem áhorfendum kæru stuðningsmenn af því að það er svo gaman. Það er fátt betra en að tilheyra svona flottum hóp sem Afturelding er.

Áfram Afturelding,
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar.